Trúboðskallanir
8. kafli: Vinna verkið með markmiðum og áætlunum


„8. kafli: Vinna verkið með markmiðum og áætlunum,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„8. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Farið því (Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum), eftir Harry Anderson

8. kafli

Vinna verkið með markmiðum og áætlunum

Til hugleiðingar

  • Af hverju þarf ég að setja mér markmið?

  • Hvernig geta lykilþættir fyrir trúskipti hjálpað mér að einbeita mér að andlegri framþróun einstaklinga?

  • Hvernig set ég mér markmið, geri áætlanir um að ná þeim og framkvæmi áætlanir mínar?

  • Hvernig hef ég vikulega og daglega skipulagsfundi?

  • Hvernig get ég notað smáforritið Preach My Gospel mér til hjálpar við að framkvæma verkið?

  • Hver er reglan um ábyrgð? Hvernig mun hún blessa starf mitt?

Ykkur er falið að hjálpa við verk Drottins á tilteknu svæði. Hann vill að þið blessið einstaklinga með kærleika sínum og sannleika. Hann vill að þið bjóðið þeim og hjálpið þeim að koma til sín.

Drottinn þráir að þið „[starfið] af kappi fyrir góðan málstað“. Hann biður að þið „[gerið] margt af frjálsum vilja [ykkar] og [komið] miklu réttlæti til leiðar“ (Kenning og sáttmálar 58:27; sjá vers 26–29). Gerið allt sem þið getið til að skilja hverja deild eða grein þar sem þið þjónið eftir sterkari en þegar þið komuð.

Þessi kafli mun hjálpa ykkur að læra að setja ykkur markmið, gera áætlanir um að ná þeim og framkvæma áætlanir ykkar af kostgæfni. Hann segir frá lykilþáttum fyrir trúskipti, sem eru leiðandi í starfi ykkar við að hjálpa börnum Guðs við andlega framþróun þeirra. Hann kynnir síðan einfalt ferli markmiðasetningar sem þið getið notað á öllum sviðum trúboðsstarfsins, þar með talið við persónuleg markmið og félagamarkmið ykkar. Það segir líka frá því hvernig halda á vikulega og daglega skipulagsfundi með félaga ykkar.

Að læra að setja sér markmið og gera áætlanir getur blessað ykkur alla ævi. Það getur hjálpað ykkur að gera og halda sáttmála við Guð, þjóna trúfastlega í kirkjunni, mennta ykkur, vaxa í starfi og byggja upp sterka fjölskyldu.

Ritningarnám

Hvað getið þið lært af eftirfarandi ritningarversum um áætlanagerð til að hjálpa við verk Guðs?

Ljósmynd
Hann læknaði marga af alls kyns sjúkdómum, eftir J. Kirk Richards

Hjálpa öðrum að snúast til trúar á frelsarann

Einbeita sér að trúboðstilgangi sínum

Þið hafið ef til vill velt fyrir ykkur hver af hinum mörgu trúboðsskyldum ykkar sé mikilvægust. Þetta er góð spurning til íhugunar þegar þið setjið ykkur markmið og skipuleggið hverja viku og hvern dag. Til að hjálpa ykkur að svara því, skuluð þið hugsa um tilgang ykkar sem trúboða:

„Bjóðið öðrum að koma til Krists með því að hjálpa þeim að meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi fyrir trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og með því að standast allt til enda.“

Látið trúboðstilgang ykkar stýra markmiðum ykkar og áætlunum. Einbeitið ykkur að því hvernig þið getið hjálpað einstaklingum að nota eigið sjálfræði til að snúast til trúar á frelsarann og meðtaka fagnaðarerindi hans.

Leitið leiðsagnar andans og ráðfærið ykkur við félaga ykkar þegar þið setjið ykkur markmið og gerið áætlanir. Fylgið síðan áætlunum ykkar og notið tímann vel.

Ljósmynd
Dallin H. Oaks forseti

„Við prédikum og kennum ekki til þess að ,koma fólki inn í kirkjuna‘ eða til að fjölga meðlimum kirkjunnar. Við prédikum og kennum ekki bara til að sannfæra fólk um að lifa betra lífi. … Við bjóðum öllum að koma til Krists með iðrun og skírn og staðfestingu til að opna dyr himneska ríkisins fyrir sonum og dætrum Guðs. Enginn annar getur gert þetta“ (Dallin H. Oaks, „The Purpose of Missionary Work,“ trúboðsútsending um gervihnött, apríl 1995).

Ritningarnám

Hvernig fengu þessir trúboðar og spámenn áorkað áætlunum sínum með hjálp Drottins?

Notið lykilmæliþætti trúskipta

Kirkjuleiðtogar hafa tilgreint sex lykilþætti fyrir trúskipti. Lykilþættir hjálpa ykkur að einbeita ykkur að andlegri framþróun barna Guðs. Þeim er ætlað að hjálpa ykkur að samræma daglegt starf trúboðstilgangi ykkar.

Lykilþættir trúskipta eru tilgreindir hér að neðan.

Ljósmynd
trúboði heilsar manni með handabandi

Nýju fólki sem er kennt. Sérhver einstaklingur (ekki skírður) sem hefur verið kennt í tiltekinni viku (en hefur ekki verið kennt undanfarna þrjá mánuði) og samþykkt ákveðinn endurkomutíma. Kennsla felur venjulega í sér að biðjast fyrir (þegar við á), kenna hið minnsta eina reglu fagnaðarerindisins og að setja fram boð.

Ljósmynd
trúboðar við kennslu

Kennslustundir með meðlim sem þátttakanda. Fjöldi kennslustunda í tiltekinni viku þar sem einstaklingi (ekki skírðum) var kennt og meðlimur tók þátt.

Ljósmynd
fjölskylda í kirkju

Fólk sem er kennt sem sækir sakramentissamkomu. Sérhver einstaklingur (ekki skírður) sem þið eruð að kenna sem sótti sakramentissamkomu í tiltekinni viku.

Ljósmynd
fjölskylda á bæn

Fólk með skírnardag. Sérhver einstaklingur sem hefur samþykkt að láta skírast og staðfestast á tilteknum degi.

Ljósmynd
skírn

Fólk sem er skírt og staðfest. Sérhver nýr meðlimur sem hefur meðtekið helgiathafnir skírnar og staðfestingar og eyðublað hans eða hennar hefur verið sent rafrænt í tiltekinni viku. (Sjá kafla 12 fyrir skilgreiningu á skírn trúskiptings og fyrir upplýsingar um skýrslugerð.)

Ljósmynd
konur í kirkju

Nýir meðlimir sem sækja sakramentissamkomu. Sérhver nýr meðlimur sem skírnar- og staðfestingareyðublað hefur verið sent fyrir á síðustu 12 mánuðum er sótti sakramentissamkomu í tiltekinni viku.

Í megindráttum ættuð þið að hafa í fyrirrúmi að hjálpa fólki að ákveða að taka þátt í þessum upplifunum. Beinið kröftum ykkar að eftirfarandi:

  • Þeim sem hjálpa ykkur að finna nýtt fólk til að kenna

  • Þeim sem hjálpa fólki að búa sig undir að gera og halda sáttmála

  • Þeim sem hjálpa fólki sem hefur verið skírt og staðfest á síðasta ári

Ef þið fáið ekki séð hvernig viðleitni ykkar gæti hjálpað einstaklingi á braut framfara, á þann hátt sem lykilþættirnir gefa til kynna, skuluð þið meta hvort það sem þið gerið sé góð nýting á tíma ykkar.

Fyrir fólk sem þið verjið minni tíma með, skuluð þið halda áfram að efla áhuga þess á fagnaðarerindinu. Þið gætuð boðið meðlimum að hafa samband við það. Þið gætuð líka notað tæknina til að hvetja það og þjóna því áfram. Sjá „Nota tæknina“ í kafla 9 fyrir frekari hugmyndir.

Ljósmynd
Öldungur Quentin L. Cook

„Endanlegur tilgangur áætlanagerðar og markmiðasetningar er að virkja lærisveina – sem er að að hafa trúfasta trúskiptinga sem gera og halda heilaga sáttmála, sem hefst á skírnarsáttmála sem svo leiðir til musterissáttmála“ (Quentin L. Cook, „Purpose and Planning,“ trúboðsleiðtoganámskeið, 25. júní 2019).

Setja markmið lykilþátta og gera áætlanir

Við vikulega áætlanagerð, skuluð þið og félagi ykkar setja ykkur markmið fyrir alla lykilþættina. Markmið ykkar tengd lykilþáttunum ættu að endurspegla þrá ykkar til að hjálpa fleirum að upplifa blessanir trúarumbreytingar.

Setjið ykkur markmið og gerið áætlanir um að gera það sem í ykkar valdi stendur og getur haft áhrif á niðurstöður lykilþáttanna. Dæmi:

  • Þið gætuð sett ykkur markmið tengt lykilþætti um að byrja að kenna tilteknum fjölda nýs fólks í vikunni. Hvort þið náið því markmiði er háð sjálfræði annarra. En gerið það sem í ykkar valdi stendur til að ná því. Ein leið er að setja sér það markmið að ræða við ákveðinn fjölda nýs fólks á hverjum degi. Ráðgerið síðan hvernig þið gerið það. Sjá hugmyndirnar í Viðauka 2 í þessum kafla og í kafla 9.

  • Þið gætuð sett ykkur markmið tengt lykilþáttum um að fá ákveðinn fjölda nýrra meðlima og fólks sem þið kennið til að koma á sakramentissamkomu. Hvort þeir koma eða ekki er háð sjálfræði þeirra. En gerið það sem í ykkar valdi stendur til að hafa áhrif á þessar niðurstöður lykilþátta. Ráðgerið hvenær skal bjóða þeim og hvernig skal fylgja því eftir.

  • Þið gætuð sett ykkur markmið tengt lykilþætti um þátttöku meðlima við ákveðinn fjölda kennslustunda í vikunni. Hvort þið náið því markmiði fer eftir meðlimunum og fólkinu sem þið kennið. En gerið það sem í ykkar valdi stendur til að hafa áhrif á þessa niðurstöðu lykilþáttar. Setjið ykkur það markmið að starfa með deildarleiðtogum til að fá meðlimi til þátttöku. Ráðgerið síðan hvernig þið hyggist samræma þátttöku þeirra.

Sem félagar setjið þið markmið tengd lykilþáttum fyrir ykkar svæði. Byggið þau á (1) framþróun þeirra sem þið kennið og (2) þörfinni á að finna nýtt fólk til að kenna. Að finna nýtt fólk til að kenna er nokkuð sem þarf að gera stöðugt.

Víðtæk trúboðsmarkmið tengd lykilþáttum eru byggð á þeim markmiðum sem hvert félagapar setur sér.

Smáforritið Preach My Gospel mun hjálpa ykkur að beina kröftum ykkar að fólki þegar þið setjið markmið tengd lykilþáttum. Þetta smáforrit mun líka hjálpa ykkur að læra af fyrri markmiðum og sýna framfarir ykkar í átt að núverandi markmiðum.

Markmið og niðurstöður tengd lykilþáttum eru sjálfkrafa tilkynnt trúboðsleiðtoga ykkar og yngri trúboðsleiðtogum í gegnum smáforritið Preach My Gospel.

Gætið þess að leggja ekki meiri áherslu á einn lykilþátt en annan. Stöðug áhersla á alla lykilþætti mun hjálpa ykkur að bjóða öðrum reglulega að koma til Krists og gera sáttmála.

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

„Þegar árangur er mældur batnar frammistaðan. Þegar frammistaða er mæld og greint er frá henni, mun hraði umbóta verða meiri“ (vitnað í Thomas S. Monson, „Thou Art a Teacher Come from God,“ Improvement Era, des. 1970, 101).

Starfið af kostgæfni

Drottinn hefur lýst yfir að ykkur beri að „starfa af fullri kostgæfni“ í trúboðsþjónustu ykkar (Kenning og sáttálar 107:99). Kostgæfni er stöðug, hugdjörf viðleitni.

Starfið af kostgæfni við markmið ykkar tengd lykilþáttum. Bjóðið fólki að skuldbinda sig svo það leiði til trúskipta. Kostgæfin viðleitni ykkar getur hvatt það til aðgerða sem hjálpa þeim að koma til Krists (sjá 2. Nefí 2:14–16).

Kennið fagnaðarerindið á þann hátt sem uppfyllir þarfir fólks. Kenningin, þegar hún er skilin með hjálp andans, er líklegri en nokkuð annað til að hvetja það til aðgerða.

Á sama tíma skuluð þið átta ykkur á að markmið tengd lykilþáttum eru háð sjálfræði annarra. Virðið alltaf sjálfræði fólks.

Munið að lykilþættir eru ekki lokamarkmiðið. Þess í stað tákna þeira mögulega andlega framþróun einstaklings í átt að skírn, staðfestingu og varanlegum trúarlegum viðsnúningi. Raunveruleg framþróun fólks mun ráðast af vali þess. Þið styðjið framþróun þess með því að iðka trú á Krist í þágu þess þegar þið setjið ykkur markmið, gerið áætlanir, starfið af kostgæfni og þjónið því á innblásinn hátt.

Hvernig setja á sér markmið og gera áætlanir til að ná þeim

Markmiðasetning og áætlanagerð eru trúarverk. Markmið endurspegla þrár hjarta ykkar og sýn ykkar um að hjálpa ykkur sjálfum og öðrum að koma til frelsarans.

Vandlega ígrunduð markmið og áætlanir gefa ykkur skýra stefnu. Þau geta hjálpað ykkur við finna fleira fólk til að kenna. Þau geta gert ykkur mögulegt að hjálpa þeim sem þið kennið við að styrkja trú sína og trúarlega framþróun.

Gerið markmiðasetningu og áætlanagerð að innblásinni upplifun. Biðjið einlæglega, iðkið trú, ráðfærið ykkur við félaga ykkar og fylgið ábendingum andans. Þegar þið skipuleggið á þennan hátt munuð þið finna að Drottinn starfar í gegnum ykkur til að blessa aðra.

Ljósmynd
M. Russell Ballard forseti

„Markmið er endastaður, en áætlun er leiðin að þeim endastað. … Í upphafi skal endinn skoða og því er markmiðasetning nauðsynleg. Áætlanagerð er leiðarvísir að þeim endastað“ (M. Russell Ballard, „Endurkoma og endurgjald,“ aðalráðstefna, apríl 2017).

Reglur um að setja og ná markmiðum

Eftirfarandi ferli mun hjálpa ykkur að setja og ná markmiðum.

Ljósmynd
Tafla markmiðasetningar
  1. Setjið ykkur markmið í bænaranda og gerið áætlanir. Setjið ykkur markmið sem eru raunhæf en láta á ykkur reyna og krefjast trúar. Forðist að setja ykkur markmið sem eru of erfið eða of auðveld. Ráðgerið hvernig þið hyggist ná þeim.

  2. Skráið og tímasetjið. Skráið markmið ykkar og áætlanir og tímasetjið nákvæmlega.

  3. Framfylgið áætlunum ykkar. Starfið af kostgæfni til að ná markmiðum ykkar. Iðkið trú á Drottin ykkur til hjálpar.

  4. Metið og fylgið eftir. Metið framfarir og skráið viðleitni ykkar reglubundið. Ákveðið hvað gera skal öðruvísi og hvernig bæta má úr. Aðlagið áætlanir eins og þörf er á.

Þegar þið notar þetta ferli markmiðasetningar mun Drottinn efla viðleitni ykkar. Þið munuð vaxa sem öflugra verkfæri í höndum hans. Þið munuð koma miklu góðu til leiðar við að blessa börn himnesks föður.

Setjið ykkur markmið og gerið áætlanir á öllum sviðum starfsins

Leitið leiðsagnar andans í bænaranda þegar þið tileinkið ykkur ferli markmiðasetningar á öllum sviðum trúboðsstarfsins. Nokkuð af því er að:

  • Hjálpa við framþróun þess fólks sem þið eruð að kenna (sjá Viðauka 1 í þessum kafla).

  • Finna nýtt fólk til að kenna (sjá Viðauka 2 í þessum kafla).

  • Starfa með meðlimum og þjóna fólki í samfélaginu og deildinni (sjá kafla 9 og 13).

  • Starfa saman í einingu með félaga ykkar (sjá atriði 6 í „Vikulegur skipulagsfundur“).

  • Styrkja trú ykkar á Jesú Krist.

  • Auka þekkingu ykkar og hæfni, þar með talið tungumálanám (sjá kafla 7).

Setja viðráðanleg markmið

Forðist að setja markmið tengd lykilþáttum fyrir aðra trúboða. Þið getið þó leiðbeint og hvatt þá til að tileinka sér reglurnar um markmiðasetningu þegar þeir setja sér eigin markmið.

Gætið þess að fara ekki í samanburð við aðra.

Notið ekki markmiðsárangur sem kvóta til opinberrar viðurkenningar eða til að leiðrétta eða niðurlægja aðra.

Ljósmynd
Spencer W. Kimball forseti

„Við höfum trú á markmiðasetningu. Við lifum eftir markmiðum. … [Eitt] mikilvægt markmið er að færa fólki fagnaðarerindið. … Markmið okkar er að öðlast eilíft líf. Það er æðsta markmið veraldar“ (Spencer W. Kimball, námskeið fyrir svæðisfulltrúa, 3. apríl 1975, 6).

Hafa vikulega og daglega skipulagsfundi

Vikuleg skipulagning hjálpar ykkur að sjá heildarmyndina og einbeita ykkur að fólki. Hún hjálpar ykkur líka við að einbeita ykkur að starfsþáttum sem eru mikilvægastir. Dagleg skipulagning hjálpar við aðlögun og býr ykkur undir ákveðnar aðgerðir fyrir hvern dag. Þið viljið ná árangri, ekki bara vera önnum kafin.

Á skipulagningarfundum skuluð þið spyrja ykkur sjálf grunnspurninga um hvað ykkur finnist að Drottinn vilji að þið gerið. Leitið innblásturs til að svara þessum spurningum þannig að viðeigandi sé fyrir hverjar aðstæður og hvern einstakling. Svörin ættu síðan að móta áætlanir ykkar.

Vikulegur skipulagsfundur

Hafið vikulega skipulagsfundi með félaga ykkar á þeim degi og tíma sem trúboðsforseti ykkar hefur ákveðið. Fylgið skrefunum hér að neðan.

  1. Biðjist fyrir og leitið innblásturs. Biðjið himneskan föður að leiðbeina ykkur við gerð áætlana sem hjálpa ykkur við að ná fram tilgangi hans. Biðjið hann að blessa viðleitni ykkar til að hjálpa fólki við framþróun þess og að koma til Krists.

  2. Setjið ykkur markmið og gerið áætlanir fyrir alla lykilþættina með því að nota smáforritið Preach My Gospel. Notið ferli markmiðasetningar sem greint er frá ofar í þessum kafla. Byrjið á:

    • Fólki sem var skírt og staðfest á síðasta ári.

    • Fólki sem hefur skírnardag.

    • Fólki sem þið kennið sem sækir sakramentissamkomur.

    • Nýju fólki sem er kennt.

    • Endurkomnum meðlimum, fjölskyldum þar sem ekki allir eru meðlimir og tilvonandi öldungum.

    • Fólki sem var kennt áður.

    Sjá Viðauka 1 í þessum kafla fyrir hugmyndir um hvernig nota á ferli markmiðasetningar við að vinna með fólki sem þið kennið.

  3. Notið ferli markmiðasetningar til að finna fólk til að kenna (sjá Viðauka 2 í þessum kafla og kafla 9 fyrir hjálp við að finna fólk).

  4. Notið ferli markmiðasetningar til að byggja upp samband við leiðtoga og meðlimi deildarinnar. Setjið markmið og gerið áætlanir um hvernig þið hyggist styðja þau í viðleitni þeirra til að miðla fagnaðarerindinu (sjá hugmyndir í köflum 9 og 13). Búið ykkur undir vikulegan samræmingarfund deildarinnar (sjá kafla 13).

  5. Farið yfir áætlanir og markmið ykkar í smáforritinu Preach My Gospel. Staðfestið stefnumót ykkar og fundi.

  6. Hafið félagafund. Hann felur venjulega í sér eftirfarandi þætti:

    • Ef þið viljið, skuluð þið miðla viðeigandi persónulegum markmiðum og biðja félaga ykkar um hjálp við að ná þeim.

    • Ræðið styrkleika sambands ykkar. Ræðið allar áskoranir sem fylgja því að vera hlýðinn eða starfa saman í einingu. Leysið úr hvers kyns ágreiningi með því að (1) allir fái að tjá skoðanir sínar fyllilega, (2) skilja og meðtaka áhyggjumál hvers annars og (3) koma fram með lausn í sameiningu sem tekur á mikilvægustu áhyggjumálunum.

    • Segið félaga ykkar frá því hverjir ykkur finnast vera styrkleikar hans eða hennar. Biðjið um tillögur um það hvernig þið getið bætt ykkur.

    • Setjið ykkur markmið til að bæta samband ykkar.

    Félagafundir geta hjálpað ykkur að þróa mikilvæga hæfni sem þið getið notað í persónulegu lífi ykkar og fjölskyldulífi, kirkjuþjónustu, atvinnu og öðrum félagsskap.

  7. Ljúkið með bæn.

Daglegur skipulagsfundur

Setjið ykkur markmið og gerið áætlanir með félaga ykkar í 30 mínútur á hverjum morgni. Fylgið skrefunum hér að neðan.

  1. Biðjist fyrir og leitið innblásturs.

  2. Farið yfir framfarir varðandi vikuleg markmið tengd lykilþáttunum.

  3. Farið yfir áætlanir ykkar um að hjálpa fólki sem þið eruð að kenna. Hafið í fyrirrúmi að hjálpa þeim sem eru að ná hvað mestum framförum. Aðlagið dagleg markmið og áætlanir eftir þörfum.

  4. Leggið ykkur fram við gera það sem þið hafið ákveðið að gera þann daginn til að finna nýtt fólk til að kenna og hjálpa fólki sem þið eruð að kenna.

  5. Ráðgerið hvernig þið munuð starfa með leiðtogum og meðlimum á staðnum.

  6. Ljúkið með bæn.

Félaganám

Farið yfir Viðauka 1 og Viðauka 2 aftast í þessum kafla fyrir hugmyndir um hvernig nota á ferli markmiðasetningar við að kenna og finna. Ákveðið hvernig þið getið notað sumar þessara hugmynda.

Nota smáforritið Preach My Gospel

Moróní sagði um þá sem voru skírðir á hans tíma: „Nöfn þeirra voru skráð, svo að eftir þeim væri munað, og þeir væru nærðir hinu góða orði Guðs til að halda þeim á réttri braut“ (Moróní 6:4). Að halda góðar skrár er ein leið til að fylgja þessari reglu.

Skrá starf ykkar

Að halda skýrslur er hluti af því að vaka af kærleika og umhyggju yfir svæði ykkar af kostgæfni. Hafið skýrslur ykkar nákvæmar og uppfærðar. Það mun hjálpa ykkur að hafa hugfast hvað þið þurfið að gera til að hjálpa fólki.

Smáforritið Preach My Gospel gerir ykkur mögulegt að samræma og miðla mikilvægum upplýsingum með staðarleiðtogum og meðlimum um framþróun fólks og framvindu starfsins.

Fylgja leiðbeiningum um persónuvernd og meðferð upplýsinga

Fylgið leiðbeiningum um persónuvernd og meðferð gagna þegar þið skráið markmið og áætlanir í smáforritinu Preach My Gospel og við útprentanir. Fyrir upplýsingar, sjá þá Trúboðsstaðlar fyrir lærisveina Jesú Krists, 7.5.

Spyrjið ykkur sjálf eftirfarandi spurninga áður en þið skráið eða miðlið upplýsingum í smáforritinu Preach My Gospel, netpósti, á samfélagsmiðlum, með glósum eða öðrum samskiptum:

  • Hvað myndi þessari manneskju finnast um það sem ég er að skrá?

  • Hvernig myndi mér líða ef einhver miðlaði samskonar upplýsingum um mig?

  • Fylgi ég reglum kirkjunnar og persónuverndarlögum um dreifingu upplýsinga á mínu svæði ef ég skrái eða miðla þessum upplýsingum?

Ljósmynd
trúboðar á bæn

Ábyrgð

Reglan um að sýna ábyrgð er afar mikilvæg í eilífri áætlun Guðs (sjá Alma 5:15–19; Kenning og sáttmálar 104:13; 137:9). Þessi regla hefur áhrif á það hvernig þið hugsið og og hvað ykkur finnst um þá helgu ábyrgð sem Drottinn hefur falið ykkur. Ábyrgð hefur líka áhrif á það hvernig þið takist á við starfið ykkar.

Í jarðneskri þjónustu sinni gaf frelsarinn lærisveinum sínum verkefni til að hjálpa þeim að vaxa, þroskast og framkvæma verk sitt. Hann gaf þeim líka kost á að gera grein fyrir starfinu sem þeir inntu af hendi (sjá Lúkas 9:10; 3. Nefí 23:6–13). Sem trúboðar gerið þið líka grein fyrir því starfi sem Drottinn hefur falið ykkur að inna af hendi.

Nálgist markmiðasetningu ykkar og áætlanagerð með það í huga að gera Drottni grein fyrir starfi ykkar í bæn á hverjum degi. Verið líka ábyrg gagnvart sjálfum ykkur og trúboðsleiðtogum ykkar.

Að gera skil á starfi sínu ætti að vera kærleiksrík, jákvæð upplifun þar sem viðleitni ykkar er viðurkennd og þið finnið leiðir til að bæta ykkur.

Ritningarnám

Hvað merkir að vera ábyrgur?

Af hverju er sjálfræði mikilvægt í ábyrgð?

Hvernig eiga trúboði og trúboðsleiðtogi að starfa saman?

Hverju lofar Drottinn þeim sem eru trúföst í ábyrgð sinni?


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Hugleiðið eftirfarandi setningu í köllunarbréfi ykkar: „Þegar þú þjónar Drottni og helgar honum tíma þinn og krafta og segir skilið við öll önnur persónuleg málefni, mun Drottinn blessa þig með aukinni þekkingu og vitnisburði um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans.“ Spyrjið ykkur sjálf eftirfarandi spurninga og skráið hughrif ykkar.

    • Hvernig stend ég mig í því að þjóna Drottni og helga honum tíma minn og krafta?

    • Hvaða blessanir hef ég upplifað?

    • Hvernig hefur vitnisburður minn styrkst?

    • Hvernig get ég bætt mig?

  • Hugsið í nokkrar mínútur um síðasta dag ykkar á trúboðsakrinum. Þegar sá dagur rennur upp:

    • Hvernig viljið þið að samband ykkar verði við himneskan föður og Jesú Krist?

    • Hvaða tilveruþroska vilduð þið hafa náð?

    Skrifið svar við hverja þessara spurninga í námsdagbók ykkar. Notið ferli markmiðasetningar við að ráðgera hvað þið getið gert núna til að vinna að þessum markmiðum. Skráið áætlanir ykkar.

Félaganám og félagaskipti

  • Notið smáforritið Preach My Gospel til að svara spurningunum hér að neðan:

    • Eru allar greinargerðir uppfærðar og nákvæmar?

    • Myndi trúboði sem er nýr á svæðinu njóta góðs af greinargerð ykkar um starf ykkar til að finna nýtt fólk til að kenna?

    • Ef þið mynduð fara yfir smáforritið ykkar núna, myndi það hjálpa ykkur að vita hvar fólk er? Myndi það hjálpa ykkur að þekkja framþróunarstig þess?

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Bjóðið trúboðum að miðla upplifunum af markmiðum sem þeir hafa sett sér og áætlunum sem þeir hafa gert til að hjálpa fólki við framþróun þess. Dæmi um það gætu verið markmið og áætlanir til að hjálpa fólki að:

    • Þróa sterkari trú á frelsarann.

    • Iðrast og gera breytingar til að komast nær Guði.

    • Skírast og verða staðfest.

    • Koma aftur til kirkju og endurnýja skírnarsáttmála sinn.

  • Lesið eina af eftirfarandi aðstæðum fyrir trúboðana. Látið trúboðana skipta sér í fámenna hópa. Látið hvern hóp nota skref 1 og 2 í ferli markmiðasetningar til að hjálpa fólkinu í þessum dæmum í framþróun sinni til skírnar og staðfestingar. Fáið hvern hóp til að miðla hugmyndum sínum.

    • Einstaklingur sem þið eruð að kenna hefur meðtekið boð um að koma í kirkju í þessari viku.

    • Einstaklingur hefur meðtekið skírnarboð og sett sér það markmið með ykkur að láta skírast.

    • Einstaklingur hefur meðtekið boð ykkar um að lesa Mormónsbók og hefur skuldbundið sig til að lesa 1. Nefí 1.

  • Bjóðið trúboðum að nota smáforritið Preach My Gospel sér til hjálpar við að setja sér raunhæf en verðug markmið með því að:

    • Fara yfir áður skráða sögu og framþróun tengda lykilþáttum.

    • Setja dagleg, vikuleg og mánaðarleg markmið.

    • Bæta fólki við markmið tengd lykilþáttum.

    Ræða hvernig þessi skref geta hjálpað trúboðum að gera betri áætlanir við að hjálpa fólki við framþróun þess. Biðjið trúboðana að íhuga eftirfarandi:

    • Hvernig munuð þið nota smáforritið Preach My Gospel í framtíðinni við áætlanagerð?

    • Hvaða aðrar skilvirkari leiðir hafið þið uppgötvað til að nota smáforritið?

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Farið oft yfir trúboðssmáforritið Preach My Gospel hjá trúboðunum. Bjóðið þeim að segja frá því hvernig þau nota það til að fylgjast með markmiðum sínum og áætlunum og til að hjálpa fólki við framþróun þess.

  • Fylgist stundum með vikulegum eða daglegum skipulagsfundum trúboða.

Viðauki 1

Notið ferli markmiðasetningar til að vinna með fólk sem þið eruð að kenna

Þessi hluti hefur að geyma dæmi um það hvernig þið gætuð notað ferli markmiðasetningar til að hjálpa fólki sem þið eruð að kenna.

1. Setja markmið og gera áætlanir

Íhugið í bænaranda andlegar þarfir fólks sem þið eruð að kenna. Setjið markmið og gerið áætlanir til að hjálpa því að uppfylla þessar þarfir. Notið smáforritið Preach My Gospel til að fara yfir framþróun hvers einstaklings. Notið lykilþættina fyrir trúskipti til að bera kennsl á það sem gera þarf sem mun hjálpa hverjum einstaklingi að taka næsta skref í því að koma til Krists.

Þegar þið setjið markmið og gerið áætlanir, skuluð þið spyrja ykkur sjálf spurninga eins og þessar:

  • Hvaða ákvarðanir tekur einstaklingurinn sem sýnir vaxandi trú á Jesú Krist?

  • Hvaða upplifanir hefur einstaklingurinn með andanum?

  • Hvaða áskorunum gæti hann eða hún staðið frammi fyrir?

  • Hvað getum við lært meira af þessum einstaklingi honum eða henni til hjálpar?

  • Hvað þarf að gerast til að hjálpa þessum einstaklingi að þróa trú á Jesú Krist, skynja og þekkja andann, iðrast og láta skírast?

  • Hvernig getum við búið okkur undir vikulegan samræmingarfund deildarinnar til að fá deildarleiðtoga og meðlimi til að hjálpa þessum einstaklingi? (Sjá kafla 13.)

  • Hvaða markmið tengd lykilþáttum getum við sett okkur sem endurspegla trú okkar á Drottin?

2. Skrá og tímasetja áætlanir

Notið smáforritið Preach My Gospel til að skrá og tímasetja markmið og áætlanir ykkar nákvæmlega. Það mun hjálpa ykkur að skipuleggja starfið og bera kennsl á aðgerðir hvers dags. Farið eftir persónuverndarlögum fyrir ykkar svæði.

Þegar þið setjið markmið og tímasetjið áætlanir ykkar, skuluð þið spyrja ykkur sjálf spurninga eins og þessar:

  • Hvaða sérstaka hluti getum við gert í dag og þessa viku til að styðja framþróun þessa einstaklings?

  • Hvaða kenning (eða lexía) mun hjálpa þessum einstaklingi að þróa sterkari trú á Krist og lifa eftir fagnaðarerindinu? Hvernig gætum við kennt þessa kenningu svo að hann eða hún skilji hana og uppbyggist af heilögum anda?

  • Hvernig og hvenær munum við staðfesta stefnumót?

  • Hvaða boð ættum við að setja fram eða fylgja eftir? Hvernig og hvenær munum við fylgja þeim eftir?

  • Hvernig og hvenær munum við hjálpa viðkomandi að sækja kirkju, lesa ritningarnar, biðjast fyrir og halda skuldbindingar sem mun leiða til sáttmálsgjörðar við Guð?

  • Hvernig geta meðlimir tekið þátt?

  • Hvaða efni á netinu gætum við miðlað viðkomandi?

  • Hvaða varaáætlanir getum við gert ef eitthvað gengur ekki eins og áætlað var?

3. Framfylgja áætlunum ykkar

Hafið bæn í hjarta allan daginn þegar þið vinnið að áætlunum ykkar. Andinn mun hjálpa ykkur að vita hvert þið eigið að fara, hvað þið eigið að gera, hvað þið eigið að segja og hvaða aðlaganir þið eigið að gera.

Spyrjið ykkur sjálf spurninga á borð við þessar:

  • Hvernig getum við starfað í trú, treyst Drottni til að hjálpa okkur og eflt starf okkar til að þjóna börnum hans?

  • Hvernig getum við verið skapandi og sýnt hugdirfsku þegar við framfylgjum áætlunum okkar?

  • Hvernig getum við lagað áætlanir okkar að þörfum og aðstæðum fólks?

Áætlanir munu ekki alltaf ganga eins og þið báruð vonir til. Sýnið sveigjanleika og notið varaáætlanir þegar þörf krefur.

4. Fara yfir framþróun og fylgja eftir

Farið yfir framþróun með félaga ykkar tengt þeim markmiðum sem þið hafið sett ykkur til að kenna fólki og hjálpa því við framþróun þess. Ráðgerið leiðir til að fylgja eftir. Aðlagið áætlanir ykkar eftir þörfum þegar þið leitast við að ná markmiðum ykkar.

Spyrjið ykkur sjálf spurninga á borð við þessar:

  • Er fólkið sem við erum að kenna að þróast í þá átt að gera sáttmála við Guð?

  • Hverjar eru áskoranir þess? Hver eru áhyggjumál þess?

  • Hvað getum við gert í dag til að hjálpa því og hvetja til að bregðast við – í eigin persónu eða með tækninni?

  • Er það að öðlast upplifanir af því að skynja andann?

  • Hefur það tengst leiðtogum og meðlimum kirkjunnar og myndað vináttu? Hver gæti tekið þátt næst þegar við kennum?

  • Hvað getum við lært af því sem miður fer?

  • Hversu vel gekk okkur við að ná markmiðum okkar? Er eitthvað sem við ættum að breyta eða gera öðruvísi?

  • Er kominn tími á að eiga sjaldnar samskipti?

Sjá kafla 11 fyrir fleiri reglur og hugmyndir um hvernig fylgja á eftir og hjálpa fólki við framþróun þess.

Viðauki 2

Nota ferli markmiðasetningar til að finna fólk til að kenna

Þessi hluti hefur að geyma dæmi um hvernig þið gætuð notað ferli markmiðasetningar við að finna nýtt fólk til að kenna. Notið þetta ferli í vikulegu og daglegu skipulagi ykkar.

1. Setja markmið og gera áætlanir

Íhugið með félaga ykkar í bænaranda hvað himneskur faðir myndi vilja að þið gerðuð til að finna fleira fólk til að kenna. Gerið þetta í hverri viku og á hverjum degi. Trúið að hann sé að undirbúa fólk fyrir ykkur (sjá Kenning og sáttmálar 100:3–8).

Setjið ykkur markmið á hverjum degi um að finna fólk. Gerið áætlanir um aðgerðir sem þið hafið stjórn á og hafa áhrif á niðurstöður lykilþátta. Sem dæmi má nefna:

  • Hversu margt nýtt fólk þið munið ræða við um fagnaðarerindið á hverjum degi.

  • Hversu oft þið munið spyrja meðlimi, fólk sem þið eruð að kenna og fólk sem þið hafið samband við hvort það þekki einhvern sem gæti haft áhuga á boðskap ykkar.

  • Hversu fljótt þið munuð bregðast við tilvísunum eða athugasemdum í færslum á samfélagsmiðlum.

Farið yfir smáforritið Preach My Gospel og spyrjið ykkur sjálf spurninga eins og þessar:

  • Hvað myndi himneskur faðir vilja að við gerðum í dag og þessa viku til að finna fólk til að kenna?

  • Hvaða daglegu og vikulegu markmið tengd lykilþáttum getum við sett okkur til að finna fólk til að kenna?

  • Hvaða leitaraðgerðir eru bestar fyrir þennan tíma dags og staðsetningu?

  • Hvernig getum við hvatt og stutt deildarmeðlimi í viðleitni þeirra til að miðla fagnaðarerindinu með því að nota reglurnar um að elska, miðla og bjóða?

  • Hvaða nýja meðlimi getum við haft samband við til að hjálpa þeim að sækja sakramentissamkomuna? Eiga þeir vini sem þeir gætu boðið?

  • Hvernig getum við starfað með deildarráðinu eða þátttakendum á vikulegum samræmingarfundi deildarinnar við að bera kennsl á fjölskyldur þar sem ekki allir eru meðlimir, endurkomna meðlimi og tilvonandi öldunga til að hafa samband við?

  • Hvaða fólk sem nú er verið að kenna, fólk sem áður var kennt og fólk sem vísað er til getum við haft samband við? Hvernig munum við hafa samband við það? (Í eigin persónu, með tækninni, í síma eða á annan hátt)

  • Hvaða nýstárlegu leiðir getum við notað til að finna fólk?

  • Hvaða persónulegu hæfileika og styrkleika getum við notað?

  • Hvernig getum við bætt hæfni okkar til að finna fólk til að kenna?

  • Hvernig getum við hjálpað þeim sem við höfum samband við að finna áhrif heilags anda?

Fyrir dæmi um hvernig finna má fólk, sjá kafla 9, 10 og 13.

Notið smáforritið Preach My Gospel ykkur til hjálpar við að finna aðgerðir sem hafa verið árangursríkar í fortíðinni. Þið gætuð t.d. séð hvernig nýlegir trúskiptingar fundust.

Leitið innblásturs og verið opin fyrir nýjum hughrifum og hugmyndum. Forðist að festast í venjum. Trúboðar sem stöðugt finna nýtt fólk til að kenna nota oft ýmsar aðferðir til þess í hverri viku. Þeir vinna stöðugt að því.

2. Skrá og tímasetja áætlanir

Notið smáforritið Preach My Gospel til að skrá og tímasetja markmið og áætlanir ykkar nákvæmlega. Skráning og tímasetning áætlana ykkar mun hjálpa ykkur að bera kennsl á hvað þið getið gert og hvenær þið getið gert það.

Spyrjið ykkur sjálf spurninga á borð við þessar:

  • Hvenær og hvernig munum við hafa samband við fólk? Hverjar eru bestu aðferðirnar til að nálgast það? Hvar eru bestu staðirnir? Hvaða tímar dagsins eru bestir fyrir mismunandi aðferðir til að finna fólk?

  • Hvernig getum við átt innihaldsrík samtöl við fólk sem við hittum?

  • Hvernig og hvenær munum við finna fólk á netinu með því að nota samfélagsmiðla og aðra tækni?

  • Hvenær munum við hafa samband við fólk sem vísað er til?

  • Hvaða varaáætlanir munum við gera þegar aðrar áætlanir ganga ekki upp?

3. Framfylgja áætlunum ykkar

Keppið af kostgæfni að því að ná markmiðum ykkar sem tengjast því að finna og kenna fólki. Hafið bæn í hjarta allan daginn. Verið opin fyrir því að heilsa og ræða við fólk sem á vegi ykkar verður. Andinn mun hjálpa ykkur að vita hvert þið eigið að fara, hvað þið eigið að gera, hvað þið eigið að segja og hvaða aðlaganir þið eigið að gera.

Spyrjið ykkur sjálf spurninga á borð við þessar:

  • Hvernig getum við starfað í trú, treyst Drottni til að hjálpa okkur og eflt starf okkar til að þjóna börnum hans?

  • Hvernig getum við verið skapandi og sýnt hugdirfsku þegar við framfylgjum áætlunum okkar?

  • Hvernig getum við lagað áætlanir okkar að þörfum og aðstæðum fólks?

  • Hvernig getum við hjálpað fólki að skynja áhrif heilags anda?

Áætlanir munu ekki alltaf ganga eins og þið báruð vonir til. Sýnið sveigjanleika og notið varaáætlanir þegar þörf krefur.

4. Fara yfir framþróun og fylgja eftir

Farið kostgæfið yfir árangur þeirra markmiða ykkar að finna fólk til að kenna yfir allan daginn og vikuna. Spyrjið ykkur sjálf spurninga á borð við þessar:

  • Hversu vel gekk okkur við að ná markmiðum okkar og fylgja áætlunum okkar eftir?

  • Hvaða aðlaganir ættum við að gera til að ná þeim markmiðum okkar að finna fólk?

  • Hvernig getum við forðast að festast í venjum sem skila engum árangri við að finna fólk til að kenna?

  • Hvað nýstárlegt getum við prófað á þessum tíma dags?

  • Hvaða hugmyndir getum við rætt á vikulegum samræmingarfundi deildarinnar til að hjálpa okkur að finna fólk til að kenna? (Sjá kafla 13.)

Notið saman töfluna „Viðleitni okkar til að finna fólk“ í kafla 9 til að meta vikulegt og daglegt starf ykkar við að finna fólk. Berið kennsl á það sem þið gerið vel og íhugið hvernig þið gætuð bætt ykkur.

Staldrið við yfir daginn í nokkrar mínútur til að bera kennsl á hönd Guðs í verki ykkar.

Prenta