Trúboðskallanir
9. kafli: Finna fólk til að kenna


„9. kafli: Finna fólk til að kenna,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„9. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Góði hirðirinn, eftir Del Parson

9. kafli

Finna fólk til að kenna

Til hugleiðingar

  • Hvernig get ég iðkað trú á Krist til að finna fólk til að kenna?

  • Hvernig getum við útvíkkað sýn okkar og bætt áætlanir okkar til að finna fólk til að kenna?

  • Hvernig get ég aukið getu mína og sjálfstraust til að ræða við fólkið sem ég hitti á hverjum degi?

  • Hvernig getum við sameinast meðlimum til að miðla fagnaðarerindinu?

  • Hvað ber okkur að gera þegar við fáum tilvísanir?

  • Hvaða hugmyndir höfum við enn ekki látið reyna á til að finna fólk til að kenna?

Hinn upprisni frelsari bauð lærisveinum sínum: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda“ (Matteus 28:19; sjá einnig Markús 16:15). Drottinn endurtók þetta boð á okkar tíma með því að segja: „Farið um gjörvallan heiminn [og] prédikið fagnaðarerindið“ (Kenning og sáttmálar 68:8; sjá einnig 50:14).

Trúboðsstarf er að finna fólk, kenna því og hjálpa því að búa sig undir skírn. Þið munuð framfylgja þessu boði Drottins um að kenna fagnaðarerindi hans og skíra fólk þegar þið „finnið þá, sem vilja taka á móti [ykkur]“ (Kenning og sáttmálar 42:8). Ekkert gerist í trúboðstarfi fyrr en þið finnið einhvern til að kenna. Einblínið alltaf á tækifæri til að kynna fagnaðarerindið. Lærið að nota þær aðferðir sem skila árangri á ykkar svæði.

Það er einkar mikilvægt að starfa með meðlimum við að finna fólk. Vinnið hörðum höndum að því að verðskulda traust þeirra. Þegar meðlimir treysta trúboðum eru þeir líklegri til að bjóða vinum sínum og fjölskyldumeðlimum að hitta ykkur. Líklegra er þá að þetta fólk snúist til trúar á Drottin, láti skírast og nái framþróun á vegi fagnaðarerindisins.

Að finna fólk mun gerast í samræmi við undirbúning einstaklings til að hlýða á fagnaðarerindið. Tímasetningin verður mismunandi fyrir hvern einstakling. Að finna getur átt sér stað frá fyrstu samskiptum eða eftir tíð samskipti yfir langan tíma. Margir eiga nokkur samskipti við trúboðana eða kirkjumeðlimi áður en þeir hefja af alvöru að læra fagnaðarerindið. Hikið ekki við að hafa samband við þá aftur.

Viðleitni þín til að finna getur borið ávöxt eftir að þið hafið verið flutt til eða jafnvel eftir að þið hafið lokið trúboði ykkar. Drottinn er þakklátur fyrir viðleitni ykkar, óháð tímasetningu eða niðurstöðu.

Þessi kafli útskýrir reglur og hugmyndir til að hjálpa ykkur að finna fólk. Þessar reglur eru algildar. Trúboðar og trúboðsleiðtogar gætu þó þurft að laga þær að aðstæðum sínum.

Iðka trú til að finna fólk til að kenna

Hvar sem þið þjónið, þá hefur Drottinn kallað ykkur til að starfa „til hjálpræðis sálunum“ (Kenning og sáttmálar 100:4). Til að gera þetta, þurfið þið að iðka trú á Krist til að finna fólk til að kenna svo það geti ákveðið að fylgja honum og láta skírast.

Trú er grundvallarregla verka og máttar. Trúið á að Drottinn sé að búa fólk undir að taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi. Sýnið því þolinmæði að hann muni leiða ykkur til fólksins, eða það til ykkar. Breytið samkvæmt trú ykkar með því að setja ykkur markmið, gera áætlanir og framkvæma áætlanir ykkar um að finna fólk til að kenna (sjá kafla 8).

Ljósmynd
trúboðar á bæn

Biðjið í trú þegar þið leitið aðstoðar Guðs við að finna fólk til að kenna. Þegar Alma leiddi trúboð meðal Sóramítanna, bað hann: „Ó Drottinn! Gef að okkur lánist að leiða þá aftur til þín í Kristi. Sjá, ó Drottinn! Sálir þeirra eru dýrmætar. … Veit okkur þess vegna styrk og visku, ó Drottinn, til að leiða [þá] aftur til þín“ (Alma 31:34–35).

Fólkið sem þið hittið gerir sér oft ekki grein fyrir að það er að leita að hinu endurreista fagnaðarerindi fyrr en það hefur fundið það. Einn trúskiptingur sagði til að mynda: „Þegar ég hlýddi á fagnaðarerindið fyllti það tómarúm í hjarta mínu sem ég vissi ekki að var þar.“ Annar sagði: „Ég hef lokið leitinni sem ég vissi ekki að væri þar.“ Aðrir leita sannleikans af kostgæfni en vita ekki hvar hann er að finna (sjá Kenning og sáttmálar 123:12).

Leitið leiðsagnar andans þegar þið leitið að fólki til að kenna. Að finna með andanum er jafn mikilvægt og að kenna með andanum. Trúið á að þið munuð vita hvernig finna á þau sem taka á móti ykkur.

Félaganám

Það kunna að vera meðlimir á ykkar svæði sem eru trúskiptingar í kirkjunni. Spyrjið hvernig þeir komust í samband við kirkjuna. Frásagnir þeirra gætu aukið skilning ykkar á því hvernig finna má fólk. Spyrjið þá líka að því hvernig þeir áttuðu sig á því að trúboðarnir voru að kenna þeim sannleikann. Gerið samantekt á upplifunum þeirra í námsdagbók ykkar.

Ritningarnám

Hvernig eru börn Guðs undirbúin og leidd til hins endurreisa fagnaðarerindis?

Útvíkka þá sýn að áætla að finna

Þegar þið reynið að finna fólk til að kenna, skuluð þið vera meðvituð um muninn á tímasetningu og skipulagningu. Að tímasetja er að fylla upp skipulagsbók ykkar og daginn ykkar. Að skipuleggja er að inna af hendi innihaldsríkt og kostgæfið verk til að einblína á fólk og hvernig best er að finna það.

Réttar aðgerðir, á réttum tíma og á réttum stað, geta hjálpað ykkur að finna fólk til að kenna. Spyrjið ykkur sjálf eftirfarandi spurninga:

  • Hvar gætum við hitt fólk sem Drottinn kann að vera að undirbúa?

  • Hverjir eru bestu staðirnir og aðferðirnar til að finna fólk á ákveðnum tímum dags eða viku?

  • Hvernig getum við sýnt kærleika, þjónað því eða auðgað líf þess núna?

  • Hvernig getum við notað persónulega styrkleika, færni og hæfileika til að efla það?

  • Hverjar eru varaáætlanir okkar ef eitthvað gengur ekki upp?

Reynið að bera kennsl á það hvernig Drottinn er að undirbúa fólk. Er það fúst til að ræða við ykkur? Er það að leita að hjálp og huggun?

Hugið að því að finna aðferðir sem hafa skilað árangri. Hvar voru fyrstu samskiptin? Voru staðarmeðlimir með í verkinu? Var tæknin notuð?

Hefjið skipulagningu ykkar á því að einblína á hvernig þið getið blessað fólk og þá mun tímasetning ykkar líta dagsins ljós.

Félaganám

Notið töfluna hér að neðan með félaga ykkar til að meta viðleitni ykkar til að finna fólk til að kenna. Ráðgerið að prófa nokkrar af þeim hugmyndum sem eru nýjar fyrir ykkur.

Viðleitni okkar til að finna fólk

Stundum

Oft

Næstum alltaf

Við kynnumst meðlimum og styðjum þá í viðleitni þeirra til að miðla fagnaðarerindinu, þar með talið meðal nýja meðlimi, ungmenni, þau sem búa sig undir trúboðsþjónustu, heimkomna trúboða, fjölskyldur þar sem ekki allir eru meðlimir og tilvonandi öldunga.

Við keppum að því að ávinna okkur traust meðlima svo þeim líði vel með að bjóða fjölskyldumeðlimum sínum og vinum að hitta okkur.

Við störfum með deildarleiðtogum á vikulegum samræmingarfundum til að styðja við það verkefni okkar að finna fólk og komast að því hvort það sé fólk fyrir hendi sem við gætum haft samband við.

Við vinnum með fólk sem nú er verið að kenna, fólk sem áður var kennt og fólk sem vísað er til á samfélagsmiðlum í þeirri viðleitni að finna fólk.

Við ræðum við eins margt fólk og við getum á hverjum degi.

Við undirbúum okkur andlega og biðjum um hjálp Guðs þegar við hyggjumst finna fólk til að kenna.

Við trúum því að Drottinn sé að búa fólk undir kennslu okkar.

Við íhugum hvernig við getum hjálpað þeim sem við hittum að skynja áhrif heilags anda.

Við setjum okkur ákveðin vikuleg og dagleg markmið um að finna fólk (sjá kafla 8).

Við erum stöðugt að leita að fólki til að kenna.

Við erum skapandi og notum margvíslegar aðferðir til að finna fólk. Við reynum nýjar aðferðir og forðumst að festast í venjum.

Við gerum áætlun sérstaklega til að finna. Við skipuleggjum hvenær, hvar og hvernig við munum einbeita okkur.

Við íhugum hvaða staðir og tímar dagsins gætu verið bestir til að finna fólk til að kenna.

Við íhugum hvaða aðferðir til að finna hafa reynst bestar á liðinni tíð.

Við aðlögum áætlanir okkar um að finna fólk eftir þörfum og höfum varaáætlanir þegar tímasettir atburðir falla niður.

Við notum smáforritið Preach My Gospel til að finna fólk, setja okkur markmið og gera áætlanir og til að fara yfir og uppfæra greinargerðir okkar daglega.

Við notum persónulega hæfileika okkar og styrkleika til að finna fólk.

Við ráðgerum hvenær og hvernig við notum samfélagsmiðla og aðra tækni til að finna fólk til að kenna.

Við notum fjölmiðlaherferðir og staðartilboð sem vekja áhuga og höfða til þarfa fólks á okkar svæði.

Við bregðumst skjótt við beiðnum á netinu og skilaboðum frá fólki sem gæti haft áhuga.

Við skipuleggjum færslur okkar á samfélagsmiðlum fyrir fram og vinnum með meðlimum að því að finna fólk á netinu.

Sýna kostgæfni við að finna fólk

Gera það að stöðugri viðleitni að finna fólk

Á fyrstu dögum hinnar endurreistu kirkju bauð Drottinn hópi bræðra ítrekað að kenna fagnaðarerindi sitt „á leið þeirra“ þegar þeir ferðuðust. Hann vildi að þeir notuðu hvert tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu. (Sjá Kenning og sáttmálar 52:9–10, 22–23, 25–27.)

Farið eftir þessum leiðbeiningum við að finna fólk. Leggið kapp á að finna fólk allan daginn. Skipuleggið viðleitni ykkar til að finna fólk – og leitið líka að óskipulögðum tækifærum. Að finna nýtt fólk til að kenna er nokkuð sem þarf að gera stöðugt.

Leitið innblásturs og verið fús til að nota hinar ýmsu ólíku aðferðir. Einbeitið ykkur að aðferðum sem skila mestum árangri á ykkar svæði.

Ljósmynd
Kristur kallar Pétur og Andrés, eftir James T. Harwood

Hafið öngla í vatninu

Dallin H. Oaks forseti sagði um starf trúboða:

„Enginn okkar ætti að vera eins og fiskimaðurinn sem finnst hann hafa verið við veiðar allan daginn þegar hann hefur í raun varið mestum tíma sínum í að komast til og frá vatninu, snæða hádegisverð og tuða yfir búnaðinum sínum. Árangur veiðinnar tengist því hversu lengi þið eruð með önglana í vatninu, ekki hversu lengi þið eru fjarri íbúð ykkar. Sumir fiskimenn eru að heiman í tólf tíma og hafa öngulinn í vatninu í tíu tíma. Aðrir fiskimenn eru að heiman í tólf tíma og hafa öngulinn í vatninu í aðeins tvo tíma. Hinir síðari gætu velt fyrir sér hvers vegna þeir ná ekki sama árangri og aðrir.

Sama regla á við um trúboða, sem meistarinn kallaði til að láta þá ,menn veiða‘ [Matteus 4:19]. Öngli trúboðans ætti að kasta í veiðivatnið um leið og hann eða hún yfirgefur íbúð sína“ (námskeið fyrir nýja trúboðsforseta, 20. júní 2000).

Ljósmynd
margar veiðistangir

Öldungur Quentin L. Cook útskýrði þessa samlíkingu. Auk þess að hafa „öngul í vatninu“ í lengri tíma, kenndi hann að trúboðar sem finna fólk til að kenna „hafi stöðugt marga öngla í vatninu. …

Þeir bera kennsl á og hafa samband við fjölskyldur þar sem ekki allir eru meðlimir.

Þeir leita í [smáforritinu Preach My Gospel] að fólki sem áður hefur verið kennt, til að hafa samband við í gegnum síma og textaskilaboð.

Þeir bjóða meðlimum þjónustu, fólki sem áður hefur verið kennt, fólki sem nú er verið að kenna og samfélaginu í heild. …

Þeir hjálpa meðlimum að búa til trúarlegan boðskap til að miðla á þeirra eigin … samfélagsmiðlum.

Þeir fá tilvísanir frá fólkinu sem þeir heimsækja og kenna“ („Be Spiritual Pathfinders and Influencers,“ trúboðssamkoma, 10. sept. 2020; skáletrað hér).

Félaganám

Ræðið eftirtaldar spurningar:

  • Hverjar eru nokkrar aðferðir til að hafa „öngul í vatninu“ lengur yfir daginn?

  • Hverjar eru nokkrar aðferðir til að hafa marga öngla í vatninu við að finna fólk til að kenna?

  • Hvaða valkostir í smáforritinu Preach My Gospel geta hjálpað ykkur?

  • Hvernig gætuð þið notað tækni til að hjálpa ykkur að hafa marga öngla í vatninu?

Ræða við alla

Þróið sterka þrá til að leiða sálir til Krists (sjá Mósía 28:3). Þegar þið finnið fyrir slíkri þrá mun elska ykkar og umhyggja endurspeglast í viðleitni ykkar við að finna fólk. Elska ykkar mun líka endurspeglast í samtölum ykkar.

Ræðið við eins margt fólk og þið getið á hverjum degi. Ræðið við það hvert sem þið farið. Farið á milli heimila þar sem það á við. Drottinn bauð sumum fyrstu öldungum kirkjunnar: „[Ljúkið] upp munni [ykkar og boðið] fagnaðarerindi mitt.“ Hann lofaði síðan að munnur þeirra myndi „fyllast“ af því sem kenna ætti (Kenning og sáttmálar 30:5; sjá einnig 33:7–10).

Á sama hátt sagði Drottinn við Joseph Smith og Sidney Rigdon: „Hefjið upp raust yðar til þessa fólks. Mælið fram það sem ég blæs yður í brjóst.“ Hann lofaði síðan: „Yður mun gefið einmitt á … því andartaki, hvað segja skal“ (Kenning og sáttmálar 100:5–6).

Þegar þið hittið fólk finnið þið oft að andinn hjálpar ykkur að vita hvað ykkur ber að segja. Ef þið aftur á móti finnið það ekki, byrjið þá bara einhvers staðar – kannski á því að spyrja spurninga og hlusta á svör fólks (sjá „Finna fólk þar sem það er“ í þessum kafla). Þið gætuð líka þess í stað rætt um Drottin Jesú Krist eða um köllun Josephs Smith til að vera spámaður Guðs.

Eftirfarandi hugmyndir geta hjálpað ykkur þegar þið ræðið við þau sem þið hittið:

  • Verið hlý, einlæg og vingjarnleg. Leitið að leiðum til að tengjast viðkomandi og hefja umræður.

  • Hlustið af einlægni á það sem fólk segir. Leitist við að skilja þarfir og áhugasvið hvers og eins. Bjóðið fram persónulega aðstoð eftir því sem við á.

  • Íhugið hvernig fagnaðarerindið getur hjálpað við að uppfylla þarfir þess. Kennið síðan grunnsannleika fagnaðarerindisins og bjóðið því að læra meira. Segið frá því hvernig hið endurreista fagnaðarerindi getur fært meiri von og merkingu í líf þess.

  • Spyrjið um fjölskyldur þess. Hjálpið því að sjá hvernig hið endurreista fagnaðarerindi getur blessað fjölskyldur þess. Bjóðist til að hjálpa því að finna nöfn látinna áa.

  • Bjóðið þeim að koma á sakramentissamkomu.

  • Bjóðið fram bæklinga eða annað kirkjuefni, bæði prentað og stafrænt.

  • Segið því frá tilgangi ykkar sem trúboðar og hvers vegna þið ákváðuð að þjóna í trúboði.

Þessar reglur eiga líka við um samskipti ykkar við meðlimi.

Það er eðlilegt að vera svolítið kvíðinn að ræða við fólk. Biðjið um trú og hugrekki til að kenna hið endurreista fagnaðarerindi. Allir sem þið hittið eru bræður ykkar og systur í fjölskyldu Guðs. Hafið hugfast að hann „neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu, … allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33).

Einkanám eða félaganám

Lesið frásögn Victors Manuel Cabrera í „Thirsting for the Living Water,“ Ensign, ágúst 2001, 60–61. Þegar þið gerið það, skuluð þið gæta að því hvernig hann var undirbúinn til að taka á móti trúboðunum og hvernig trúboðarnir notuðu ófyrirséð tækifæri til að kenna honum fagnaðarerindið.

  • Hvernig hafði maðurinn verið undirbúinn fyrir hið endurreista fagnaðarerindi?

  • Hvað hefði gerst ef öldungarnir hefðu ekki miðlað fagnaðarerindinu?

  • Farið yfir það sem þið gerðuð í gær. Rædduð þið við eins marga og þið gátuð? Ef ekki, setjið ykkur þá markmið og gerið áætlanir um að ræða við fleira fólk í dag.

Ritningarnám

Hvað getið þið lært af eftirfarandi ritningarversum um að finna fólk til að kenna? Hvað getið þið lært af þessum ritningarversum um hvað ykkur ber að kenna? Hverju lofar Drottinn?

Sameinist meðlimum

„Að bjóða öllum að meðtaka fagnaðarerindið, er hluti af starfi sáluhjálpar og upphafningar“ (Almenn handbók, 23.0). Starfið með meðlimum kirkjunnar að því að finna fólk til að kenna. Þegar meðlimir vísa einhverjum til ykkar og taka síðan þátt í kennslustundum er líklegra að fólk láti skírast og verði áfram virkt í kirkjunni.

Byggið upp sterk sambönd við staðarleiðtoga

Byggið upp sterk sambönd við biskupsráðið og aðra deildarleiðtoga. Deildartrúboðsleiðtoginn (ef einhver er kallaður) og forsætisráð öldungasveitar og Líknarfélagsins eru megintengiliðir ykkar. Leitið leiðsagnar þeirra og styðjið þau á vikulegum samræmingarfundum (sjá kafla 13).

Á vikulegum samræmingarfundum skuluð þið starfa með aðstoðarmanni prestasveitar og bekkjarforseta Stúlknafélagsins fyrir elsta bekkinn. Þessi ungmenni gegna mikilvægu hlutverki við að miðla fagnaðarerindinu. Hjálpið þeim að hvetja meðlimi sveitar og bekkjar til að miðla fagnaðarerindinu. Ein leið fyrir ungmennin til að gera það er með því að bjóða vinum á viðburði.

Spyrjið ykkur sjálf reglulega: „Er ég til blessunar fyrir staðarleiðtoga? Þróið viðhorfið: „Hvernig get ég hjálpað?“ Líkt og Ammon í Mormónsbók, skuluð þið sýna staðarleiðtogum þjónustulund (sjá Alma 17:23–25).

Russell M. Nelson forseti kenndi trúboðsleiðtogum: „Ég vona að þið lærið að elska staðarleiðtoga og staðarmeðlimi. Lyftið þeim og verið þeim innblástur. Ekki er hægt að leggja of mikla áherslu á getu ykkar til að tengja eldmóð trúboðanna við stöðugleika og kærleiksríka viðleitni meðlimanna. Árangur ykkar mun margfaldast“ („Hopes of My Heart,“ námskeið fyrir nýja trúboðsleiðtoga, 23. júní 2019).

Ljósmynd
trúboðar kenna konum

Styðjið meðlimi í viðleitni þeirra til að miðla fagnaðarerindinu

Það er margt hægt að gera til að styðja og hvetja meðlimi til að miðla fagnaðarerindinu. Hjálpið þeim að hugleiða hvernig fagnaðarerindið hefur blessað líf þeirra. Hvetjið þá til að „[halda ljósi sínu] á loft, til að það lýsi heiminum“ (3. Nefí 18:24).

Hjálpið meðlimum að tileinka sér reglurnar um að elska, miðla og bjóða. Tilgreinið dæmi um það hvernig miðla má eðlilega og blátt áfram til að fara eftir þessum reglum.

Elska. Ein leið til að sýna Guði kærleika er með því að elska og þjóna börnum hans. Hvetjið meðlimi til að sýna fjölskyldumeðlimum, vinum, nágrönnum og öðrum elsku. Öll viðleitni til að tjá elsku er mikilvæg til að halda sáttmálana sem þau hafa gert við Guð (sjá Mósía 18:9–10).

Miðla. Vegna elsku sinnar til Guðs og barna hans, vilja meðlimir eðlilega miðla þeim blessunum sem hann hefur veitt þeim (sjá Jóhannes 13:34–35). Hvetjið meðlimi til að segja öðrum frá því hvernig fagnaðarerindið blessar líf þeirra. Hvetjið þá til að tala um frelsarann og áhrif hans. Hjálpið þeim að finna gleði í því að miðla elsku sinni, gefa af tíma sínum og segja frá atburðum lífs síns. Hjálpið þeim að læra hvernig miðla má eðlilega og blátt áfram – einfaldlega því sem þau eru nú þegar að gera í lífi sínu.

Ljósmynd
Öldungur Gary E. Stevenson

„Við miðlum öll einhverju með öðrum. Við gerum það oft. Við miðlum því hvaða bíómyndir eða mat við kunnum að meta, fyndnum atburðum sem við sjáum, stöðum sem við heimsækjum, list sem við njótum, tilvitnunum sem innblása okkur.

Hvernig getum við einfaldlega bætt því við listann sem við þegar miðlum, hvað við kunnum að meta við fagnaðarerindi Jesú Krists? … Með því að miðla jákvæðri reynslu okkar í fagnaðarerindinu, erum við að taka þátt í að uppfylla hið mikla boð frelsarans“ (Gary E. Stevenson, „Elska, miðla, bjóða,“ aðalráðstefna, apríl 2022).

Bjóða. Frelsarinn býður öllum að taka á móti fagnaðarerindi sínu og búa sig undir eilíft líf (sjá Alma 5:33–34). Líkt og að miðla, þá snýst málið oft um að bjóða fjölskyldu, vinum og nágrönnum til þess sem meðlimir eru nú þegar að gera. Hvetjið meðlimi til að biðjast fyrir um að bjóða fólki á eftirfarandi hátt:

  • Komið og sjáið. Bjóðið fólki að „koma og sjá“ þær blessanir sem það getur hlotið með Jesú Kristi, fagnaðarerindi hans og kirkju hans.

  • Komið og þjónið. Bjóðið fólki að „koma og þjóna“ öðrum nauðstöddum.

  • Komið og tilheyrið. Bjóðið fólki að „koma og tilheyra“ sem meðlimir hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists.

Öldungur Gary E. Stevenson sagði: „Það eru hundruð boða sem við getum miðlað öðrum. Við getum boðið fólki að ‚koma og sjá‘ sakramentissamkomu, deildarviðburð, rafrænt myndband sem útskýrir fagnaðarerindi Jesú Krists. ‚Kom og sjá‘ getur verið boð um að lesa Mormónsbók eða heimsækja nýtt musteri í opnu húsi áður en að vígslan fer fram. Stundum er boð eitthvað sem við bjóðum inn á við – boð til okkar sjálfra, um meðvitund og sýn á tækifærum umhverfis, sem hægt er að bregðast við“ („Elska, miðla, bjóða“).

Gætið vandlega að því að hjálpa ungmennum að elska, miðla og bjóða. Ungmenni eru einkar hæfileikarík í því að elska vini sína, miðla því sem þeim býr í hjartanu og bjóða þeim á viðburði.

Hjálpið meðlimum að skilja að öll viðleitni til að lifa eftir reglunum um að elska, miðla og bjóða er jákvæð, hvort sem einstaklingur hittir trúboðana eða gengur í kirkjuna eða ekki.

Hjálpið meðlimum að nota styrkleika sína við að miðla fagnaðarerindinu. Sumir eru góðir í því að finna fólk til að kenna og sumir eru góðir kennarar. Sumir hafa náttúrulega hæfileika til að tengjast vinum á meðan aðrir elska að biðja fyrir vinum sínum. Hjálpið þeim að skilja að það eru leiðir fyrir alla til að taka þátt.

Þegar þið heimsækið meðlimi gerið það þá með tilgangi. Sýnið að þið séuð óðfúsir þátttakendur í því að finna og kenna. Virðið tíma þeirra og áætlun.

Sumir meðlimir gætu vel þegið að þið kennduð boðskap úr einni lexíanna. Sannleikur fagnaðarerindisins er lífsbreytandi. Að efla skilning meðlima á fagnaðarerindinu mun auka traust þeirra á ykkur og auka áhuga á því að miðla því. Hjálpið þeim að bera kennsl á andann og bregðast við hughrifum.

Reynið að finna fólk til að kenna með aðstoð fjölskyldna þar sem ekki allir eru meðlimir, tilvonandi öldunga, endurkominna meðlima og nýrra meðlima. Líkast til munu þeir eiga marga fjölskyldumeðlimi og vini af annarri trú.

Fylgið andanum í öllu sem þið gerið með meðlimum og leitist við að byggja upp trú þeirra á frelsarann Jesú Krist.

Fyrir frekari hugmyndir og úrræði um hvernig þið getið stutt meðlimi við að miðla fagnaðarerindinu, sjá:

Lofa blessunum fyrir að miðla fagnaðarerindinu

Hjálpið meðlimum að skilja hinar undraverðu blessanir þess að miðla fagnaðarerindinu. Þær eru meðal annarra:

Félaganám

  • Farið yfir síðasta vikulega samræmingarfund ykkar. Hvernig hefðuð þið getað gert hann skilvirkari? Farið yfir beiðnir frá deildarleiðtogum og ráðgerið hvernig og hvenær bregðast skuli við.

  • Ráðgerið hvernig þið hyggist samræma trúboðsstarf ykkar á næsta samræmingarfundi.

  • Lærið nöfn deildarleiðtoga (karla og kvenna). Ráðgerið hvað þið hyggist gera næsta mánuðinn til að þróa sterkari sambönd við þau og styðja þau í trúboðsstarfi þeirra.

Finna með því að nota smáforritið Preach My Gospel

Smáforritið Preach My Gospel er frábært úrræði til að finna fólk til að kenna. Trúboðar sem stöðugt nota valkostina í þessu forriti ná meiri árangri. Til að kynnast þessum valkostum, skuluð þið skoða þjálfunina sem veitt er í smáforritinu. Verið næm fyrir andlegum hughrifum sem þið gætuð hlotið þegar þið farið yfir nöfn fólks.

Forritið hefur að geyma upplýsingar um fólk sem áður var vísað til ykkar, haft samband við eða var kennt. Sumt af þessu fólki gæti viljað hitta trúboða aftur. Það gæti líka vitað um aðra sem gætu haft áhuga á að fræðast um fagnaðarerindið.

Í skipulagningu ykkar, skuluð þið nota kortið og síurnar í smáforritinu til að forgangsraða því fólki sem á að heimsækja. Farið yfir upplýsingarnar um það og kynnið ykkur hvernig þeirra var aflað. Athugið hvort til sé skráning um þá meðlimi sem hjálpuðu fólkinu. Notið þessar upplýsingar til að ákvarða hvernig best er að ná til fólksins aftur.

Ljósmynd
trúboðar að læra í símum

Notið síunarvalkostinn í smáforritinu til að bera kennsl á alla þá sem:

  • Áður höfðu dagsettar skírnir en voru ekki skírðir.

  • Sóttu hið minnsta eina sakramentissamkomu en létu ekki skírast.

  • Fengu meira en þrjár lexíur.

  • Ekki hefur verið haft samband við nýlega.

Ef fólk sem þið hafið samband við hefur ekki áhuga á að fá kennslu eða kýs að hætta að fá heimsóknir, skuluð þið skrá þær upplýsingar í smáforritið. Skráið hvernig þið munuð hafa samband við það og huga að því þar til það er tilbúnið að læra meira. Íhugið til dæmis að bjóða því að skrá sig í netpóstsendingar til að fá boðskap um Jesú Krist eða annað efni fagnaðarerindisins. Þið gætuð líka komið því í samband við meðlim sem getur svarað spurningum, vakið áhuga þess og myndað vináttu. Stillið á áminningu í smáforritinu til að fylgja eftir varðandi það. Spyrjið hvort það þekki einhvern annan sem gæti haft áhuga.

Þið getið líka fundið fólk til að kenna í smáforritinu Preach My Gospel með því að nota síur eða hópa til að senda hópskilaboð. Það getur verið góð aðferð til að láta fólk vita um viðburði eins og deildarviðburði og skírnarathafnir. Fylgið eftir persónulegum boðum á þessa viðburði.

Félaganám

Til að skilja hversu gott úrræði smáforritið Preach My Gospel appið getur verið við að finna fólk, skuluð þið gera eftirfarandi verkefni. Gætið að hughrifum sem berast þegar þið gerið það.

  • Notið síu til að auðkenna allt fólkið sem hefur verið kennt þrjár eða fleiri lexíur. Bjóðið þeim persónulega að mæta í kirkju á sunnudaginn.

  • Búið til síu og finnið alla sem höfðu skírnardag og komu hið minnsta tvisvar í kirkju.

  • Ráðgerið að senda hverju og einu þeirra skilaboð um að taka þátt í deildarviðburði eða þjónustuverkefni. Stundum gætuð þið viljað senda hópskilaboð og fylgja eftir hjá hverjum og einum.

  • Ræðið við félaga ykkar um þau sem þið hafið sterka tilfinningu fyrir. Gerið áætlanir um að heimsækja eða hafið samband við þau fljótlega.

Finna gegnum þjónustu

Veitið fólki tækifæri til að koma og þjóna

Fólk getur haft jákvæðar upplifanir og tengst trúboðum og staðarmeðlimum í þjónustuverkefnum. Margir vilja af ánægju miðla hæfileikum sínum, hæfni eða þjónustu og það þarf bara að bjóða þeim.

Bjóðið fólki að taka þátt í þjónustuverkefnum á vegum deildarinnar. Þið getið líka tengt fólk gegnum þjónustutækifæri eins og á JustServe.org þar sem það er í boði. Þegar þið þjónið með öðrum, komið þið saman á áhrifamikinn hátt.

Bjóða fram þjónustu

Gerið eins og frelsarinn sem „gekk um, gerði gott“ (Postulasagan 10:38; sjá einnig „Fara um og gera gott“ í kafla 1). Biðjist fyrir um að vera meðvituð um tækifæri til að gera gott á hverjum degi. Stundum verður þjónustan ykkar skipulögð, en oft mun hún verða óskipulögð. Finnið einfaldar og skjótar leiðir til að þjóna, hjálpa og lyfta fólki. Munið að Drottinn notaði óvænt tækifæri til að rétta fram hönd og blessa aðra.

Þjónið af einlægri þrá til að hjálpa fólki. Verið þakklát ef þjónustan leiðir til kennslutækifæris. Ef ekki, verið þá þakklát fyrir að hafa gert einhverjum gott. Svarið spurningum ef fólk spyr. Ef einhver lýsir yfir áhuga, skuluð þið svara stuttlega og ákveða að hittast á öðrum tíma til að miðla boðskap.

Gætið þess vandlega að fylgja leiðbeiningunum um þjónustu í Trúboðsstaðlar fyrir lærisveina Jesú Krists, 2.7 og 7.2.

Finna fólk þar sem það er

Að finna fólk þar sem það er hefst á því að reyna að sjá það eins og Guð gerir. Gerið ráð fyrir að þið gætuð hafa verið leidd til að tala við þessa manneskju eða hann eða hún gæti hafa verið leidd til ykkar. Leitist við að skilja andlegar þarfir og langanir fólks. Komist að því hvað því er mikilvægast, einkum í samböndum þess við fjölskyldu sína og Guð. Þið gætuð spurt spurninga eins og hér að neðan – og hlustað síðan af einlægni:

  • Hvað er þér dýrmætast?

  • Hvað færir þér gleði?

  • Hvað viltu fyrir þína eigin framtíð og fyrir þau sem þú elskar?

  • Hvaða áskoranir tekst þú á við varðandi vonir þínar og drauma?

  • Hvaða þætti í lífi þínu vilt þú bæta?

Leitið innblásturs þegar þið hugleiðið hvað þið hafið lært um vonir og þrár viðkomandi. Hvaða sannleikur fagnaðarerindisins tengist því sem hann eða hún þráir?

Íhugið nálgun ykkar út frá sjónarmiði viðkomandi. Hvað veit hann eða hún um ykkur? Hvað getið þið boðið sem gæti verið gagnlegt? Finnst viðkomandi að samskipti við ykkur séu fyrirhafnarinnar virði?

Íhugið mismunandi ástæður fyrir því að fólk gæti viljað kynnast ykkur, öðrum meðlimum eða kirkjunni. Nokkur dæmi um það sem þið getið boðið fram eru tilgreind hér að neðan.

Ljósmynd
trúboðar ræða við konu

Veita upplifanir eða upplýsingar sem væru þeim dýrmætar

Notið úrræði kirkjunnar og hæfileika og styrkleika ykkar sjálfra til að tengjast áhugasviði einhvers. Leitið aðstoðar himnesks föður við að veita upplýsingar eða reynslu sem viðkomandi mun kunna að meta.

Verið opin fyrir innblæstri og verið skapandi þegar þið hugsið um mismunandi upplifanir eða upplýsingar sem þið getið boðið fram. Nokkrar hugmyndir eru tilgreindar hér að neðan.

  • Miðlið hlekk á kirkjusíðu sem veitir upplýsingar um eitthvað sem myndi vekja áhuga þeirra.

  • Hafið viðburð eins og trúarsamkomu (í eigin persónu eða í beinu streymi).

  • Bjóðið fram eitthvað á samkomu eða viðburði á staðnum (til dæmis að búa til ókeypis ættarsögutré á markaði).

  • Bjóðið upp á að kenna námsbekk.

  • Skipuleggið ritningarnámskeið eða bjóðist til að lesa Biblíuna og aðrar ritningar með fólki.

  • Kennið ensku sem annað tungumál.

  • Kynnið starfsemi kirkjunnar á staðnum, eins og hátíðarveislu eða sjálfsbjargarnámskeið. Notið dreifiblöð eða samfélagsmiðla.

  • Bjóðið fólki í skírnarathöfn.

  • Bjóðið fólki að fara með því í skoðunarferð um samkomuhúsið á staðnum.

Ein dýrmætasta upplifunin sem þið getið veitt fólki er að fá það til að koma á samkomu í kirkjunni. Bjóðið því og útskýrið hvernig það verður. Segið því hvernig það mun blessa líf þeirra að koma á sakramentissamkomu.

Koma á raunverulegum samböndum

Margir vilja kynnast öðrum í samfélagi sínu eða kynnast þeim betur. Sumir eru einmana. Nokkrar hugmyndir til að hjálpa við að koma á raunverulegum samböndum eru tilgreindar hér að neðan.

  • Heimsækið fólk sem hefur nýlega flutt á svæðið til að bjóða það velkomið.

  • Kynnið fólk í samfélaginu fyrir meðlimum sem hafa sameiginleg áhugasvið.

  • Bjóðið fólki á samkomur, viðburði og opið hús í deildinni.

  • Bjóðist til að koma fólki í samband við leiðtoga musteris- og ættarsögustarfs sem getur hjálpað því að læra meira um látin ættmenni þess.

  • Bjóðist til að kenna fólki að halda heimiliskvöld eða lesa ritningarnar sem fjölskylda. (Sjá Almenn handbók, 2.2.4, fyrir gagnlegar reglur sem hægt er að laga að aðstæðum fólks.)

  • Bjóðið fólki á viðeigandi aldri að sækja trúarskóla yngri eða eldri deildar eða taka þátt í BYU–Pathway Worldwide.

Það eru margar heiðvirðar leiðir til að finna þau sem verið er að undirbúa fyrir hið endurreista fagnaðarerindi. Gerið það sem þið getið til að vegir ykkar skarist við þau sem verið er að undirbúa.

Félaganám

Auðkennið nokkrar hugmyndir í þessum hluta sem þið hafið ekki prófað. Gerið áætlanir um að prófa nokkrar af hugmyndunum í næstu viku.

Hafa samband við fólk sem vísað er til ykkar

Fólk sem vísað er til ykkar gæti verið undirbúið til að taka á móti fagnaðarerindi Jesú Krists. Tilvísanir gætu komið frá meðlimum kirkjunnar, öðrum trúboðum, höfuðstöðvum kirkjunnar og í gegnum virkni ykkar á samfélagsmiðlum.

Bregðast skjótt við

Þegar þið fáið tilvísun um einstakling frá höfuðstöðvum eða gegnum samfélagsmiðla, skuluð þið fara yfir upplýsingarnar í smáforritinu Preach My Gospel og skoða áhugasvið hans eða hennar. Reynið að hafa samband við fólkið eins fljótt og auðið er.

Ljósmynd
trúboði knýr dyra

Notið eftirfarandi leiðbeiningar þegar þið vinnið með tilvísanir sem þið hafið fengið um fólk:

  • Ef þið fáið tilvísun um einstakling frá meðlim eða öðrum trúboðum, hafið þá samband við þann sem sendi tilvísunina til að fá frekari upplýsingar. Ef þið fáið tilvísun frá trúboðum um einstakling, mega þeir kenna með ykkur rafrænt ef trúboðsleiðtogi þeirra samþykkir það. Meðlimir geta tekið þátt með ykkur í kennslu í eigin persónu eða rafrænt.

  • Reynið skjótt að hafa samband við einstaklinginn með heimsókn, símtali, textaskilaboðum, netpósti eða eftir öðrum samskiptaleiðum. Ef einstaklingurinn svarar ekki, skuluð þið reyna að hafa samband við hann eða hana á öðrum tíma dags.

  • Ef þið höfðuð upphaflega samband með símtali, textaskilaboðum eða netpósti, skuluð þið ráðgera tíma til að hittast í eigin persónu eða gegnum tæknina.

  • Farið yfir beiðni einstaklingsins sem félagar og greinið þarfir hans eða hennar og áhugasvið. Ákvarðið hvernig fagnaðarerindið getur hjálpað við að uppfylla þessar þarfir.

  • Þegar þið hittist, hafið þá með ykkur hluti sem beðið hefur verið um, eins og Mormónsbók. Miðlið sannleika fagnaðarerindisins í trúboðslexíunum sem fellur að áhugasviði eða þörfum einstaklingsins.

Stundum getur fólk sem vísað er á leitt ykkur til annarra sem Guð er að undirbúa. Ef fólkið sem þið hafið samband við hefur ekki áhuga, skuluð þið spyrja hvort það þekki aðra sem gætu haft áhuga eða sem þyrftu aukna von í lífi sínu. Ef til vill hafið þið verið leidd til þessa einstaklings vegna þess að einhver annar á heimilinu eða í hverfinu er undirbúinn fyrir fagnaðarerindið.

Ef heimsókn til einhvers fellur niður, skuluð þið íhuga hvernig þið getið unnið annars konar trúboð á svæðinu. Smáforritið Preach My Gospel getur hjálpað ykkur að finna fólk í nágrenninu sem áður var haft samband við eða því var kennt.

Vísa fólki til trúboða á öðru svæði

Þegar þið hittið fólk sem hefur áhuga á að læra meira um fagnaðarerindið en býr utan þess svæðis sem ykkur hefur verið úthlutað, skuluð þið kynna því fagnaðarerindið. Hjálpið því síðan að búa sig undir að hitta trúboða og meðlimi á því svæði sem það býr.

Með samþykki trúboðsforseta ykkar, getið þið áfram stutt þetta fólk til að hjálpa því að meðtaka fagnaðarerindið (sjá Trúboðsstaðla7.5.4).

Félaganám

Farið yfir allt fólkið sem vísað hefur verið til á ykkar svæði á síðasta mánuði. Berið kennsl á þau sem þið hafið ekki getað haft samband við og reynið að hafa samband við þau aftur. Ákveðið hvert þeirra sem haft hefur verið samband við skuli heimsækja aftur. Uppfærið þessar skrár í smáforritinu Preach My Gospel.

Ljósmynd
trúboðar að tala í síma

Nota tæknina

Aðferðirnar eru margar til að nota tæknina við að finna fólk til að kenna. Nokkur dæmi eru tilgreind hér að neðan:

  • Notið samfélagsmiðla til að starfa með meðlimum við að finna fólk.

  • Byggið upp sambönd með því að nota netpóst og samfélagsmiðla.

  • Miðlið uppbyggjandi ritningarversum, tilvitnunum og trúarboðskap.

  • Hjálpið fólki að nota FamilySearch.org til að læra meira um látin ættmenni.

  • Bjóðið fram netnámskeið til að kenna færni.

  • Búið til viðeigandi sambönd gegnum sameiginlega áhugasviðshópa á netinu.

  • Búið til færslu sem tilgreinir væntanlega viðburði deildarinnar.

Notkun tækninnar er mikilvæg leið til að hafa „marga öngla í vatninu“ yfir daginn. Auk annars sem þið gerið til að finna fólk, skuluð þið hafa marga öngla í vatninu á netinu.

Ljósmynd
Öldungur David A. Bednar

Öldungur David A. Bednar kenndi: „Tæknin sér okkur fyrir fjölda öflugra leiða til að boða ‚Jesú Krist og hann krossfestan‘ og ‚prédika fólkinu iðrun‘ [1. Korintubréf 2:2; Kenning og sáttmálar 44:3]. Hin upprennandi kynslóð er einkar vel undir það búin hlýða á og læra um hið endurreista fagnaðarerindi eftir þessum samskiptaleiðum“ („They Should Proclaim These Things unto the World,“ námskeið fyrir nýja trúboðsforseta, 24. júní 2016).

Félaganám

Finnið út hvað trúboð ykkar er að gera með samfélagsmiðla. Ræðið við félaga ykkar um það hvernig þið gætuð búið til færslur á samfélagsmiðlum sem eru í takt við það. Færslur ykkar ættu að vera í samræmi við netreglur kirkjunnar (sjá „Alnetið“ í kafla 38.8 í Almenn handbók).

Ef sérfræðingur í samfélagsmiðlamálum er í trúboði ykkar, skuluð þið nýta sérþekkingu hans eða hennar þegar þið búið til færslur á samfélagsmiðlum.

Ljósmynd
tvær konur tala saman

Nota ættarsögu

Ættarsaga er enn önnur leið til að finna fólk til að kenna. Andinn hefur áhrif á milljónir manna um allan heim til að leita látinna ættmenna sinna. Margir óska eftir sterkari tengslum við stórfjölskyldu sína. Þetta getur vakið þrá til að finna samband og sjálfsmynd sem tengist fjölskyldu Guðs.

Það sem við segjum stundum vera anda Elía eru áhrif heilags anda sem hefur áhrif á fólk til að auðkenna, skrá og þykja vænt um ættmenni sín – bæði látin og lifandi (sjá Malakí 3:23–24).

Í viðleitni ykkar til að finna fólk, þá gætuð þið kynnt fólki FamilySearch.org eða boðið því að hlaða niður smáforritunum FamilySearch Tree eða FamilySearch Memories. Þið gætuð líka gefið þeim eintak af bæklingnum Fjölskyldan mín: Sögur sem sameina okkur. Þessi úrræði hjálpa fólki að uppgötva ættingja og skyldmenni og taka saman sögur um þau.

Finnið út hvaða ættarsöguúrræði eru í boði á ykkar svæði og hvernig þau gætu hjálpað fólki sem þið hafið samband við. Leiðtogi musteris- og ættarsögustarfs í deildinni getur hjálpað fólki að bera kennsl á sína látnu áa.

Bjóðið fólki að segja ykkur frá minningum um ástvini sína. Þegar það gerir það gæti það skynjað heilagan anda bera því vitni um mikilvægi fjölskyldunnar í áætlun Guðs. Slíkar stundir geta leitt til eðlilegra umræðna um tilgang lífsins, hamingjuáætlun Guðs og hlutverk frelsarans í þeirri áætlun.

Þegar við á, skuluð þið kenna fólki kenninguna um ástæðu þess að kirkjumeðlimir vinna ættarsögustarf og hvernig það tengist musterum.

Biðjist fyrir um að vera meðvituð um tækifæri til að nota ættarsögu í viðleitni ykkar til að finna fólk. Verið skapandi og kynnið ykkur tiltæk úrræði.

Ritningarnám

Lærið eftirfarandi ritningarvers um ættarsögu. Skráið það sem þið lærið.

Innsiglunarvaldið endurreist fyrir milligöngu Elía

Verk fyrir dána

Einkanám eða félaganám

Prófið eitt eða fleiri eftirfarandi verkefna til að hjálpa ykkur að finna fólk með hjálp ættarsögu.

  • Ráðgerið að fara í heimsókn með meðlim sem hefur reynslu af ættarsögu. Lærið hvaða þjónusta er í boði hjá deildarmusteris– og ættarsöguleiðtoga ykkar.

  • Æfið hvernig þið hyggist bjóða þeim sem þið hittið aðstoð við ættarsögu. Gerið áætlanir um að bjóða aðstoð við ættarsögu í viðleitni ykkar við að finna fólk.

  • Lesið og ræðið efni bæklingsins Fjölskyldur og musteri til að öðlast aukinn skilning á ættarsögustarfi. Skráið það sem þið lærið í námsdagbók ykkar.

  • Notið bæklinginn Fjölskylda mín og ættmenni eða efnið á FamilySearch.org til að finna og kenna fólki.

  • Hafið opið hús þar sem það er hægt, kennið ættarsögunámsbekk á opinberum stað eða bjóðið fram leiðsögn.

Finna þegar þið kennið

Að finna og kenna eru skyldar aðgerðir. Fólk sem þið kennið á oft vini eða ættingja sem eru undir það búnir að taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi. Þegar fólkið sem þið kennið upplifir blessanir fagnaðarerindisins verður þrá þess sterkari til að miðla því (sjá 1. Nefí 8:12). Í öllum aðstæðum – eins og við að finna, kenna og starfa með meðlimum – spyrjið: „Veistu um einhvern sem myndi njóta þess að hlýða á þennan boðskap?“

Þegar þau sem þið kennið eru að búa sig undir skírnarathöfn sína, skuluð þið spyrja þau um fjölskyldu og vini sem þau vilja bjóða í skírn sína. Gerið áætlanir um að bjóða og hvetja alla til að koma. Andann má skynja ríkulega á skírnarathöfnum.

Félaganám

Farið yfir lista með öllum þeim sem þið eruð að kenna. Búið til lista yfir þá sem þið hafið beðið um tilvísanir og þá sem þið hafið enn ekki beðið um þær. Æfið ykkur í því hvernig þið hyggist setja fram boð um tilvísanir fyrir þá sem eru í hverjum hópi. Skráið athugasemd í skipulagsbók um að setja fram þetta boð í næstu heimsóknum ykkar.

Ljósmynd
konur horfa á síma

Kenna þegar þið finnið

Þegar þið hittið fólk og komist að áhugasviði þess og þörfum, skuluð þið temja ykkur þann vana að byrja á því að kenna og miðla vitnisburði ykkar. Þið munuð finna fleira fólk til að kenna þegar þið berið vitni um frelsarann og fagnaðarerindi hans og gerið því mögulegt að skynja kraft heilags anda.

Íhugið að kenna efnisatriði eins og hamingju, mótlæti, tilgang lífsins eða dauða. Hver sem upphafleg nálgun ykkar var, vísið þá fljótt og einfaldlega til frelsarans, fagnaðarerindis hans og að hann kallaði spámanninn Joseph Smith. Það er okkar einstæði boðskapur til heimsins.

Eftirfarandi hlutar hafa að geyma dæmi um það hvernig þið gætuð kennt stuttlega um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og mikilvægi fjölskyldunnar.

Kenna og vitna um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists

Berið vitni um Jesú Krist og kennið stuttar samantektir um endurreistan sannleika. Þið getið t.d. vitnað um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists í aðeins tveimur eða þremur setningum:

Eftir að sannleikurinn glataðist um aldir, hefur hann verið endurreistur af kærleiksríkum Guði fyrir milligöngu lifandi spámanns. Við höfum staðfestingu um þetta sem þú getur haft í hendi þinni, lesið og hugleitt í hjarta þínu. Við bjóðum þér að lesa bókina og biðjast fyrir til að læra sannleika hennar. Viltu leyfa okkur að …

Ef þið hafið örlítið meiri tíma gætuð þið líka sagt:

Boðskapur okkar er einfaldur. Guð er faðir okkar. Við erum börn hans. Við tilheyrum fjölskyldu hans. Hann þekkir okkur persónulega og elskar okkur. Hann vill að við upplifum gleði. Frá upphafi heims hefur hann í kærleika endurtekið opinberað fagnaðarerindi Jesú Krists svo börn hans geti vitað hvernig snúa á aftur til hans. Hann hefur opinberað spámönnum eins og Adam, Nóa, Abraham og Móse fagnaðarerindið. En margir völdu ítrekað að hafna fagnaðarerindinu og spámönnunum sem kenndu það. Fyrir tvö þúsund árum kenndi Jesús Kristur sjálfur fagnaðarerindi sitt. Fólk hafnaði jafnvel Jesú. Eftir dauða postula Jesú afbakaði fólk hina sönnu kenningu, svo sem um Guðdóminn. Það breytti líka helgiathöfnum, eins og skírninni.

Við bjóðum þér að auka við þann sannleika sem þér er þegar dýrmætur. Íhugaðu sannanir þess að himneskur faðir hafi enn á ný náð til barna sinna í kærleika og opinberað spámanni sanna kenningu og helgiathafnir. Nafn þess spámanns er Joseph Smith. Staðfestinguna um þennan sannleika er að finna í bók – Mormónsbók. Þú getur haft hana í hendi þér, lesið hana og ígrundað sannleika hennar í huga og hjarta. Við bjóðum þér að koma í kirkju til að læra meira.

Kenna og vitna um mikilvægi fjölskyldunnar

Að ræða um mikilvægi fjölskyldunnar mun hjálpa ykkur að finna fólk til að kenna, hvort sem það hefur kristni að bakgrunni eða ekki. Þið getið fljótlega tengt það sem flestir vita um fjölskylduna við sáluhjálparáætlun himnesks föður. Þið gætuð sagt eitthvað á þessa leið:

Fjölskylda okkar getur verið einn mikilvægasti áhrifavaldurinn í lífi okkar. Fjölskylda okkar bindur okkur hvert öðru og getur hjálpað okkur að finnast að þörf sé fyrir okkur og að við séum elskuð.

Að eiga sterka og hamingjusama fjölskyldu er forgangsatriði margra. Það getur verið mjög krefjandi að búa að sterku hjónabandi og ala upp börn í heimi okkar tíma.

Þið gætuð síðan skipt yfir í boðskap endurreisnarinnar:

Þú hefur verið hluti af fjölskyldu Guðs frá því fyrir þann tíma sem þú fæddist. Hann er faðir okkar. Himneskur faðir vill að við snúum aftur til að dvelja hjá honum. Þú ert barn Guðs og hann elskar þig. Hann hefur áætlun um að hjálpa þér að koma aftur til hans.

Þessi sannleikur og annar hefur verið endurreistur á jörðu af kærleiksríkum himneskum föður fyrir milligöngu lifandi spámanns. Þessi sannleikur hjálpar okkur að skilja stöðu okkar í fjölskyldu Guðs. Megum við kenna þér meira um þennan sannleika? Vilt þú koma í kirkju svo þú getir lært meira?

Félaganám

Undirbúið einnar mínútu boðskap byggðan á einni af lexíunum í kafla 3. Æfið ykkur í því að miðla hann öðrum. Íhugið hvernig þið gætuð miðlað þessum boðskap við aðstæður leitunar. Ráðgerið að miðla honum við viðeigandi aðstæður til að bjóða öðrum að læra meira um Jesú Krist.

Engin fyrirhöfn fer í súginn

Þegar fólk kýs að læra ekki meira um hið endurreista fagnaðarerindi fer fyrirhöfn ykkar ekki í súginn. Þið hafið ef til vill gróðursett sáðkorn sem mun taka að vaxa á öðrum tíma. Hvort sem það gerist eða ekki, mun þjónusta ykkar og tjáning á einlægum kærleika blessa bæði ykkur og það.

Ef fólk er ekki undir það búið að taka á móti fagnaðarerindinu, skuluð þið íhuga hvað annað þið getið gert til að auðga líf þess. Samböndin sem þið myndið verða áfram þýðingarmikil og dýrmæt. Sýnið áfram vináttu.

Fólk þarf stundum tíma til að íhuga þær breytingar sem beðið er um. Hjálpið því að taka á móti boðskap með netpósti eða á vefsíðum kirkjunnar. Sá boðskapur gæti hjálpað við að búa fólk undir að meðtaka boðið síðar um að læra meira.

Þegar einstaklingur meðtekur ekki fagnaðarerindið er eðlilegt að upplifa vonbrigði. Þegar þið snúið ykkur til Drottins á erfiðum tímum, hefur hann þó lofað: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig“ (Jesaja 41:10).

Með því að iðka trú á Krist getið þið fundið frið og fullvissu yfir erfiði ykkar. Viðhaldið sýn um það hver þið eruð og hvers vegna þið þjónið Drottni sem trúboðar. Trú mun hjálpa ykkur að sækja fram og viðhalda réttlátum þrám.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

Félaganám og félagaskipti

  • Gerið áætlanir um að hitta nýja meðlimi á svæði ykkar. Notið smáforritið Preach My Gospel til að auðkenna þá, ef þörf krefur. Spyrjið spurninga á borð við þessar:

    • Hvernig varst þú undirbúinn fyrir fagnaðarerindið?

    • Hvenær og hvernig kynntist þú kirkjunni fyrst?

    • Hvað var það sem knúði þig til að hitta trúboðana?

    • Hvernig getum við hjálpað við framþróun þína?

    Hvað lærðuð þið af þessum heimsóknum um að finna fólk? Gerið áætlanir um að nota það sem þið lærðuð í þessari viku.

  • Farið yfir hvert eftirfarandi atriða. Undirbúið hvernig þið á einfaldan hátt svarið fólki sem þið finnið með því að nota lexíurnar í kafla 3. Æfið kennslu við aðstæður þar sem þið finnið fólk.

    • Finnur þörf fyrir aukna handleiðslu og tilgang í lífinu

    • Vill komast nær Guði

    • Þarfnast hjálpar við mikilvægar ákvarðanir

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Lesið hlutann „Útvíkka þá sýn að áætla að finna“. Látið hvert félagapar fullgera matið.

    • Ræðið hvernig þessar hugmyndir hafa hjálpað trúboðum að finna fólk til að kenna.

    • Tilgreinið aðrar hugmyndir til að finna fólk til að kenna. Bjóðið trúboðunum að sýna hugmyndir sínar.

    • Bjóðið trúboðunum að setja sér persónuleg markmið til að bæta hæfni sína til að finna fólk.

  • Búið til lista yfir nokkrar aðstæður til að finna fólk.

    • Úthlutið hverjum trúboða einum aðstæðum. Gefið hverjum trúboða fimm mínútur til að búa sig undir það hvernig hann eða hún myndi kenna hluta af lexíu við þær aðstæður sem úthlutaðar voru.

    • Leggið áherslu á nauðsyn þess að hafa lengd boðskaparins viðeigandi langan fyrir aðstæðurnar.

    • Bjóðið nokkrum trúboðum að kenna lexíuna sem þeir undirbjuggu fyrir þær aðstæður sem þeim voru úthlutaðar.

  • Bjóðið trúboðunum að æfa sig í því að miðla hver öðrum trúarlegum boðskap í eina mínútu. Þið gætuð viljað setja upp ýmsar aðstæður við að finna fólk, svo sem kennslu heima hjá meðlimi, kennslu á dyraþrepi, kennslu á gangstétt eða hafa samband með tilvísun. Látið trúboðana æfa kennslu við allar þessar aðstæður.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Sýnið fordæmi um meðlimatrúboðsstarf í fjölskyldu ykkar. Miðlið trúboðunum og meðlimum upplifunum ykkar.

  • Ráðfærið ykkur við staðarleiðtoga prestdæmis og samtaka um bestu aðferðirnar fyrir trúboða til að finna fólk til að kenna í trúboði ykkar.

  • Skipuleggið trúboðssamkomur þar sem þið getið rætt við fólkið sem verið er að kenna í trúboði ykkar. Samræmið með staðarleiðtogum prestdæmis svo meðlimir geti komið með vini sína. Bjóðið nýjum meðlimum að miðla vitnisburði sínum og segja frá trúskiptum sínum áður en þið takið til máls.

  • Farið stundum með trúboðum til að hjálpa þeim að finna fólk til að kenna.

Prenta