Trúboðskallanir
10. kafli: Kenna til að byggja upp trú á Jesú Krist


„10. kafli: Kenna til að byggja upp trú á Jesú Krist,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„10. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Fjallræðan, eftir Harry Anderson

10. kafli

Kenna til að byggja upp trú á Jesú Krist

Hugleiðið þetta

  • Hvernig get ég kennt með andanum?

  • Hvernig get ég kennt úr ritningunum?

  • Hvernig ætti ég að miðla vitnisburði mínum þegar ég er að kenna?

  • Hvernig get ég skipulagt og aðlagað kennslu mína til að mæta þörfum fólks?

  • Hvernig get ég spurt betri spurninga og verið betri hlustandi?

  • Hvernig get ég hjálpað fólki að finna svör við spurningum sínum og fá leiðsögn og styrk?

Þið eruð kölluð til að kenna hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists eins mörgum og vilja taka á móti ykkur. Kennsla er kjarninn í öllu sem þið gerið. Þegar þið treystið á hjálp Drottins hefur hann lofað:

„Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (Kenning og sáttmálar 84:88).

Biðjist fyrir, lærið og æfið ykkur til að bæta kennsluhæfni ykkar. Tileinkið ykkur reglurnar í þessum kafla og í öðrum köflum þessarar bókar. Leitið gjafarinnar að kenna af einlægni svo þið getið blessað aðra og vegsamað Guð. Drottinn mun hjálpa ykkur að kenna með krafti og valdi þegar þið leitið hans af kostgæfni og lærið orð hans.

Leitast við að kenna eins og frelsarinn gerði

Meðan á jarðneskri þjónustu Jesú stóð „fór [hann] um, … kenndi …, prédikaði … og læknaði“ (Matteus 4:23). Hann kenndi við ýmsar aðstæður – í samkunduhúsum, á heimilum og á götum úti. Hann kenndi á fjölmennum samkomum og í einkasamtölum. Sum áhrifaríkustu samskipta hans voru mjög stutt eða við óvenjulegar aðstæður. Hann kenndi með verkum sínum, jafnt sem orðum sínum.

Frelsarinn kenndi hverjum og einum eftir einstökum þörfum hans eða hennar. Dæmi: Þegar hann þjónaði lömuðum manni fyrirgaf hann syndir hans og læknaði hann (sjá Markús 2:1–12). Þegar hann þjónaði konu sem hafði drýgt hór, verndaði hann hana og bauð henni að syndga ekki framar (sjá Jóhannes 8:2–11). Þegar hann talaði við ríkan mann sem þráði eilíft líf, sýndi hann honum „ástúð“, þótt þessi ungi maður hafi hafnað boði hans um að fylgja honum (Markús 10:21; sjá vers 17–21).

Þið getið bætt kennslu ykkar með því að læra hvernig frelsarinn kenndi. Dæmi: Hann elskaði föðurinn og þau sem hann kenndi. Hann var bænheitur. Hann kenndi úr ritningunum. Hann undirbjó sig andlega. Hann spurði innblásinna spurninga. Hann bauð fólki að bregðast við í trú. Hann tengdi trúarreglur við hið hversdagslega líf.

Að leitast við að kenna eins og frelsarinn kenndi er ævilangt viðfangsefni. Það hlýst orð á orð ofan er þið fylgið honum (sjá 2. Nefí 28:30; Eter 12:41).

„[Reynið] að öðlast orð mitt“

Til að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists, þurfið þið að þekkja grunnkenningu þess og reglur. Þið þurfið líka andlega þekkingu og staðfestingu á sannleika fagnaðarerindisins. Drottinn sagði: „Reyndu ekki að boða orð mitt, reyndu heldur fyrst að öðlast orð mitt.“

Að „öðlast“ orð Drottins merkir að læra það og láta það sökkva djúpt í hjarta sér. Þegar þið gerið þetta, þá lofar hann: „Þá mun tunga þín losna. Og þá, ef þú þráir það, skalt þú hafa anda minn og orð mitt, já, kraft Guðs til að sannfæra mennina“ (Kenning og sáttmálar 11:21).

einstaklingur merkir við ritningarvers

Drottinn bauð líka: „Varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar“ (Kenning og sáttmálar 84:85). Að varðveita orð Drottins mun auka þekkingu ykkar og styrkja vitnisburð ykkar. Þrá ykkar og hæfni til að kenna fagnaðarerindið mun líka aukast. (Sjá Jakob 4:6–7; Alma 32:27–42; 36:26; 37:8–9.)

Varðveitið og tileinkið ykkur orð Drottins í bænaranda með því að læra ritningarnar, orð lifandi spámanna og lexíurnar í 3. kafla.

Kenna með andanum

Fagnaðarerindi Jesú Krists er „kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir“ (Rómverjabréfið 1:16). Af þeirri ástæðu þarf að kenna boðskapinn um endurreisn fagnaðarerindisins með guðlegum krafti – krafti heilags anda.

Mikilvægt er að þið þróið með ykkur færni til að kenna. Ykkur er líka mikilvægt að læra kenninguna og reglurnar sem þið kennið. Þegar þið kennið andlegan sannleika reiðið þið ykkur þó ekki aðallega á eigin hæfni og þekkingu.

Andlegur sannleikur er kenndur með krafti heilags anda. Drottinn sagði: „Andinn skal veitast yður með trúarbæn. Og ef þér meðtakið ekki andann, munuð þér ekki kenna“ (Kenning og sáttmálar 42:14; sjá einnig Kenning og sáttmálar 50:13–14, 17–22).

Merking þess að kenna með andanum

Þegar þið kennið með andanum biðjist þið fyrir um að hafa kraft heilags anda með í kennslu ykkar. Þið biðjist líka fyrir um að fólk muni meðtaka sannleika með andanum. Hægt er að sannfæra fólk um einhver sannindi en til að snúast til trúar þarf það að hljóta upplifanir með andanum (sjá Kenning og sáttmálar 8:2–3).

Búið ykkur undir að vera verkfæri sem andinn getur notað til að kenna. Hugsið um heilagan anda sem félaga ykkar í kennslunni.

Reiðið ykkur á að andinn hjálpi ykkur að vita hvað ykkur ber að segja. Hann mun minna ykkur á kenninguna sem þið hafið lært. Hann mun hjálpa ykkur að skipuleggja og aðlaga það sem þið kennið að þörfum einstaklings.

Þegar þið kennið með andanum mun hann flytja boðskap ykkar í hjörtu fólks. Hann mun staðfesta boðskap ykkar þegar þið gefið vitnisburð ykkar. Þið sjálf og þau sem meðtaka það sem þið kennið með andanum munuð uppbyggjast, skilja hvert annað og gleðjast saman. (Sjá 2. Nefí 33:1; Kenning og sáttmálar 50:13–22.)

Ezra Taft Benson forseti

„Andinn er mikilvægasti einstaki þátturinn í þessu verki. Með andanum, sem eflir köllun ykkar, getið þið gert kraftaverk fyrir Drottin á trúboðsakrinum. Án andans munuð þið aldrei ná árangri, burtséð frá hæfileikum ykkar og getu“ (Ezra Taft Benson, námskeið fyrir nýja trúboðsforseta, 25. júní 1986).

Loforð köllunar ykkar

Þið hafið verið kölluð og sett í embætti „til að boða fagnaðarerindi [hans] með andanum, já, huggaranum, sem sendur var til að kenna sannleikann“ (Kenning og sáttmálar 50:14). Stundum gætuð þið fundið fyrir kvíða eða að þið séuð ekki nógu góð. Ef til vill hafið þið áhyggjur af því að þið vitið ekki nóg eða að þið hafið ekki næga reynslu.

Himneskur faðir ykkar, sem þekkir ykkur fullkomlega, kallaði ykkur vegna þess sem þið hafið fram að færa sem trúfastir fylgjendur Jesú Krists. Hann mun ekki yfirgefa ykkur. Reiðið ykkur á að andinn muni efla hæfileika ykkar og kenna þeim sannleikann sem eru móttækilegir.

Öldungur Neil L. Andersen

Öldungur Neil L. Andersen sagði: „Þegar ég hugleiddi þá áskorun að fara í trúboð, fannst mér ég vera afar ófullkominn og óviðbúinn. Ég man að ég bað: ‚Himneskur faðir, hvernig get ég þjónað í trúboði þegar ég veit svo lítið?‘ Ég trúði á kirkjuna, en mér fannst andleg þekking mín vera mjög takmörkuð. Þegar ég baðst fyrir, kom tilfinningin: ‚Þú þarft ekki að vita allt, en þú veist nóg!‘ Þessi hughreysting veitti mér hugrekki til að taka næsta skrefið út á trúboðsakurinn“ („Við vitum nóg,“ aðalráðstefna, október 2008).

Bjóða andanum er þið hefjið kennsluna

Fyrstu augnablikin með fólki eru mjög mikilvæg. Verið einlæg og sýnið virðingu. Sýnið einlægan áhuga og elsku. Leitist við að vinna traust þess. Ein leið til að ávinna sér traust er sú að stuðla að því að fólk finni fyrir andanum með ykkur.

Spyrjið nokkurra einfaldra spurninga til að hjálpa ykkur að skilja bakgrunn þess og væntingar gagnvart heimsóknum ykkar. Hlustið vandlega.

Áður en þú byrjið, skuluð þið bjóða öllum sem eru viðstaddir að taka þátt í kennslustundinni. Hvetjið þau til að fjarlægja truflanir svo hægt sé að finna fyrir anda Drottins.

Útskýrið að þið mynduð vilja hefja og ljúka hverri kennslustund með bæn. Bjóðist til að flytja inngangsbænina. Hafið bænina einfalda og einlæga um að Guð blessi fólkið sem þið kennið á öllum sviðum lífs þess. Biðjist fyrir um að það megi skynja sannleika þess sem þið munuð kenna. Hafið hugfast að „kröftug bæn réttláts manns megnar mikið“ (Jakobsbréfið 5:16).

Trúið á kraft heilags anda til að snúa fólki til trúar. Með leiðsögn andans gætuð þið tjáð hugsanir eins og eftirfarandi þegar þið hefjið kennslu ykkar:

  • Guð er okkar kærleiksríki faðir á himnum. Við erum öll bræður og systur. Hann vill að við upplifum gleði.

  • Við tökumst öll á við áskoranir og baráttu. Sama hvað við erum að ganga í gegnum, geta Jesús Kristur og kenningar hans hjálpað okkur. Hann getur hjálpað ykkur að finna frið, von, lækningu og hamingju. Jesús getur hjálpað ykkur að hafa aukinn styrk fyrir áskoranir lífsins.

  • Við gerum öll mistök sem geta vakið sektarkennd, skömm og eftirsjá. Þessar tilfinningar hverfa aðeins þegar við iðrumst og leitum fyrirgefningar Guðs. Aðeins fyrir friðþægingu Jesú Krists getum við læknast að fullu af syndum okkar.

  • Við munum vera leiðsögumenn svo þið getið lært sannleika boðskapar okkar sjálf. Við munum bjóða ykkur að gera ýmislegt, eins og að lesa, biðja og fara í kirkju. Hlutverk okkar er að hjálpa ykkur að bregðast við þessum boðum og útskýra þær blessanir sem þið getið hlotið. Spyrjið endilega spurninga.

  • Við höfum verið kallaðir/kallaðar af spámanni Guðs til að miðla því sem við vitum. Við vitum að boðskapur okkar er sannur.

  • Við munum kenna ykkur hvernig gera á sáttmála við Guð eða gefa honum sérstök loforð. Þessir sáttmálar munu tengja ykkur Guði og gera ykkur mögulegt að hljóta gleði, styrk og sérstök fyrirheit frá honum.

  • Þið munuð læra hvernig gera á breytingar í lífi ykkar og fylgja Jesú Kristi og kenningum hans. Ein nauðsynleg kenning Jesú Krists og fyrsti sáttmálinn sem við gerum er að fylgja fordæmi hans og láta skírast með réttu valdsumboði (sjá Jóhannes 3:5; Kenning og sáttmálar 22).

trúboðar á bæn

Áður en þið kennið lexíu, skuluð þið útskýra á einfaldan hátt það sem þið munuð kenna. Hjálpið fólki að sjá hvernig það mun hafa þýðingu fyrir það. Þið gætuð t.d. sagt: „Við erum hér til að miðla boðskap um að Jesús Kristur hafi stofnað kirkju sína á jörðinni á okkar tíma og kallað lifandi spámenn til að leiðbeina okkur.“ Eða þið gætuð sagt: „Við erum hér til að hjálpa ykkur að vita að Guð elskar ykkur og hefur áætlun um hamingju ykkar.“

Allir menn munu njóta góðs af því að meðtaka og lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Himneskur faðir gæti hafa blessað fólkið sem þið finnið með dýrmætum andlegum undirbúningi (sjá Alma 16:16–17).

Að bjóða andanum og miðla sannleikanum á fyrsta stefnumóti mun hjálpa fólki að sjá ykkur sem þjóna Drottins.

Einkanám eða félaganám

Notið ábendingarnar í þessum hluta til að æfa mismunandi leiðir til að hefja kennslustund.

Nota ritningarnar

Helgirit kirkjunnar eru meginverkfæri ykkar til að kenna hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Ástæður þess að mikilvægt er að nota ritningarnar sem grunn að kennslu ykkar eru margar. Dæmi:

Með því að nota ritningarnar í kennslu ykkar getið þið hjálpað fólki að hefja ritningarnám á eigin spýtur. Þar sem augljóst er að ritningarnar eru ykkur dýrmætar mun það hvetja þau til náms. Sýnið hvernig ritningarnám mun hjálpa því að læra fagnaðarerindið og finna kærleika Guðs. Gefið því dæmi um að hvernig ritningarnar geta hjálpað fólki að finna svör við spurningum sínum og öðlast leiðsögn og styrk.

Helgið ykkur sjálf námi á ritningunum, svo þið eigið auðvelt með að kenna úr þeim (sjá kafla 2). Hæfni ykkar til að kenna úr ritningunum mun aukast þegar þið lærið þær daglega, bæði persónulega og með félaga ykkar.

Hjálpið fólki að þróa trú á Jesú Krist með því að læra ritningarnar, einkum Mormónsbók. Eftirfarandi ábendingar geta verið gagnlegar.

hópur lærir ritningarnar

Kynna ritningarnar

Lýsið í stuttu máli bakgrunni ritningarhlutans. Eftirfarandi dæmi sýna hvernig kynna mætti ritningarvers:

  • „Í sögu Josephs Smith segir Joseph með eigin orðum hvað gerðist þegar hann fór út í lundinn til að biðjast fyrir. Hann sagði: ‚Ég [sá] ljósstólpa …‘“

  • „Í þessum kafla er spámaðurinn Alma að kenna fátæku fólki að iðka trú sína á orð Guðs. Hann líkir orði Guðs við sáðkorn sem mögulegt er að gróðursetja í hjörtum okkar. Vilt þú byrja á því að lesa vers …?“

Lesa ritningarhlutann

Lesið versin upphátt eða biðjið þann sem þið eruð að kenna að lesa þau upphátt. Takið tillit til þeirra sem eiga erfitt með að lesa. Ef fólk á erfitt með að skilja ritningarhluta, skuluð þið lesa með því og útskýra eftir þörfum. Skilgreinið erfið orð eða orðtök. Eða fáið þeim einfaldari ritningarhluta til að lesa. Bjóðið því að leita að sérstökum atriðum í ritningarhlutanum.

Tileinka sér ritningarnar

Nefí sagði: „Ég tileinkaði okkur allar ritningargreinarnar, svo að þær yrðu okkur til gagns og fróðleiks“ (1. Nefí 19:23). Að „tileinka“ merkir að heimfæra ritningarnar upp á líf ykkar.

Heimfærið ritningarnar upp á þau sem þið kennið með því að sýna hvernig sögurnar og reglurnar eiga við þau persónulega. Dæmi:

  • „Eins og þið, þá bar fólk Alma þungar byrðar, næstum þyngri en það fékk borið. En þegar það iðkaði trú og baðst fyrir, styrkti Guð það svo það fékk staðist erfiðleikana. Hann frelsaði það síðan úr raunum þess. Á sama hátt og hann gerði fyrir þetta fólk, þá veit ég að Guð mun hjálpa ykkur í prófraunum ykkar þegar þið …“ (Sjá Mósía 24.)

  • „Það sem Alma kenndi fólkinu við Mormónsvötn á við um okkur í dag. Jón, ertu til í að …?“ (Sjá Mósía 18.)

Kennið fólki hvernig þau geta sjálf „tileinkað“ sér ritningarnar. Að uppgötva hvernig tileinka á sér ritningarnar persónulega mun hjálpa þeim að virkja og upplifa kraft orðs Guðs.

Bjóða og hjálpa fólki að lesa á eigin spýtur

Fólkið sem þið kennið þarf að lesa ritningarnar, einkum Mormónsbók, til að öðlast vitnisburð um sannleikann. Með því að nota ritningarnar á áhrifaríkan hátt í kennslu ykkar getið þið hjálpað fólki að hefja ritningarnám á eigin spýtur.

Eftir hverja heimsókn, skuluð þið leggja til ákveðna kafla eða vers sem þau geta lesið. Leggið til spurningar sem þau gætu hugleitt við lesturinn. Hvetjið þau til að læra ritningarnar heima persónulega og með fjölskyldu sinni. Þið gætuð líka beðið meðlimi að lesa með þeim á milli kennslustunda.

Áður en þið hefjið næstu kennslustund, skuluð þið fylgja eftir og ræða það sem þið buðuð fólki að lesa. Hjálpið þeim að skilja og „tileinka“ sér þessi ritningarvers eins og þörf krefur. Hvetjið þau til að skrá hugsanir sínar og spurningar.

Þegar þið hjálpið fólki að lesa, skilja og nota ritningarnar – einkum Mormónsbók – munu þau hljóta andlega reynslu af orði Guðs. Þau verða líklegri til að lesa sjálf og gera ritningarnar að mikilvægum hluta af lífi sínu.

trúboðar kenna fjölskyldu

Hjálpa fólki að fá aðgang að ritningunum

Ritningarnar og orð lifandi spámanna eru fáanleg á fleiri vegu og fleiri tungumálum en nokkru sinni áður. Komist að því hvaða kostir eru til á prentformi eða stafrænu formi fyrir fólkið sem þið kennið. Hjálpið fólki að fá aðgang að ritningunum á þann hátt sem best hentar þörfum þess og óskum. Athugið eftirfarandi:

  • Spyrjið fólk á hvaða tungumáli það kysi að lesa eða hlusta á ritningarnar.

  • Þau sem eiga erfitt með að lesa eða eiga erfitt með að skilja það sem þau lesa geta haft gott af því að lesa upphátt saman eða hlusta á hljóðupptökur. Þær eru fáanlegar í gjaldfrjálsu smáforriti og á vefsíðu kirkjunnar.

  • Ef einstaklingur á stafrænt tæki, hjálpið þá honum eða henni að fá aðgang að ritningunum, einkum Mormónsbók. Smáforritið Gospel Library er gjaldfrjálst og auðvelt er að deila því.

  • Ef þið notið texta, spjall eða netpóst, skuluð þið senda hlekki eða myndir af síðum ritninganna. Þegar þið kennið í myndspjalli, skuluð þið íhuga að deila skjá ykkar svo þið getið lesið vers saman.

  • Hjálpið fólki að fá aðgang að orðum lifandi spámanna.

Einkanám eða félaganám

Gangið úr skugga um að þið og félagi ykkar hafið uppfært ritningarefni í símanum, þar á meðal smáforritið Gospel Library.

Veljið einn af eftirfarandi ritningarhlutum: Titilsíða Mormónsbókar; 3. Nefí 11; Moróní 10:3–8; Jóhannes 17:3; Rómverjabréfið 8:16–17; 1. Korintubréf 15:29; Jakobsbréfið 1:5; 1. Pétursbréf 3:19–20; Amos 3:7.

Ákveðið hvernig þið mynduð:

  • Kynna ritningarhlutann.

  • Segja frá bakgrunni og samhengi.

  • Lesa ritningarhlutann og útskýra merkingu hans.

  • Útskýra erfið hugtök.

  • Hjálpa þeim sem þið kennið að tileinka sér hann.

Ritningarnám

Af hverju er mikilvægt að kenna ritningarnar?

Miðla vitnisburði ykkar

Vitnisburður er andlegt vitni sem heilagur andi gefur. Að miðla vitnisburði ykkar er að gefa einfalda og skýra yfirlýsingu um þekkingu eða trú ykkar á sannleika fagnaðarerindisins. Að miðla vitnisburði ykkar bætir persónulegu vitni ykkar við sannleikann sem þið hafið kennt úr ritningunum.

Að miðla vitnisburði ykkar er áhrifarík aðferð til að laða að andann og hjálpa öðrum að finna fyrir áhrifum hans. Eitt hlutverk heilags anda er að bera vitni um himneskan föður og Jesú Krist. Hann uppfyllir þetta oft þegar þið eruð með félaga ykkar og berið vitni.

Áhrifamikill vitnisburður er ekki háður mælsku eða hljóðstyrk raddar – heldur sannfæringu og einlægni hjartans. Gætið þess að flýta ykkur ekki um of eða gera vitnisburð ykkar of tilkomumikinn. Veitið fólki tækifæri til að finna heilagan anda bera vitni um að það sem þið hafið kennt sé sannleikur.

Vitnisburður ykkar gæti verið jafn einfaldur og: „Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari“ eða „Ég hef komist að því á eigin spýtur að Mormónsbók er sönn.“ Þið gætuð líka sagt stuttlega frá því hvernig þið öðluðust þennan vitnisburð.

Þegar þið kennið, skuluð þið gefa vitnisburð ykkar um leið og þið finnið hvatningu til þess, ekki bara í lokin. Þegar félagi ykkar er að kenna, skuluð þið gefa vitnisburð ykkar til að veita annað vitni um það sem hann eða hún hefur kennt.

Gefið vitnisburð ykkar um að reglan sem þið kennið muni blessa líf einstaklingsins er hann eða hún lifir eftir henni. Segið frá því hvernig það hefur blessað líf ykkar að fylgja reglunni. Einlægur vitnisburður ykkar mun hjálpa við að skapa aðstæður til að fólk geti upplifað heilagan anda staðfesta sannleikann.

Einkanám

Eftirfarandi ritningarvers eru dæmi um að bera vitni. Íhugið spurningarnar við lestur hvers ritningarvers. Skráið svör ykkar í námsdagbók ykkar.

Ritningarnám

Hvað kenna eftirfarandi ritningarvers um reglur og loforð þess að gefa vitnisburð?

Skipuleggja og aðlaga kennslu að þörfum

Hver einstaklingur sem þið kennið er einstakur. Leitist við að skilja andleg áhugamál hans eða hennar og þarfir og áhyggjumál. Spyrjið spurninga og hlustið vandlega. Þótt þið skiljið ef til vill ekki þarfir viðkomandi, munið þá að himneskur faðir gerir það. Hann mun leiða ykkur með heilögum anda.

trúboðar kenna hjónum

Leyfa andanum að leiða hvernig lexían er kennd

Leyfið andanum að leiða í hvaða efnisröð þið kennið lexíuna. Þið hafið sveigjanleika til að kenna lexíurnar í þeirri efnisröð sem fellur best að þörfum, spurningum og aðstæðum þeirra sem þið kennið.

Stundum gætuð þið sameinað reglur mismunandi lexía til að ræða um þarfir og áhugasvið einstaklings. Sjá eftirfarandi þrjú dæmi.

Jónína fann þig á netinu og er að spyrja hvers vegna vinir hennar í kirkjunni reyki hvorki né drekki. Þið gætuð kennt henni um blessanir boðorðanna með því að nota eftirfarandi hluta í 3. kafla:

Samúel finnst hann hvergi eiga samastað. Þið gætuð kennt honum um sjálfsmynd hans og þann stað sem hann á sér í fjölskyldu Guðs með því að nota eftirfarandi hluta í 3. kafla:

Tóta hefur lært um fjölmörg trúarbrögð og vill vita hvað geri kirkjuna öðruvísi. Þið gætuð kennt henni um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists með því að nota eftirfarandi hluta í 3. kafla:

Himneskur faðir þekkir börn sín, svo leitið innblásturs við að taka þessar ákvarðanir er þið búið ykkur undir kennslu. Biðjist fyrir um gjöf dómgreindar er þið ákveðið hvað kenna á. Gætið að þeim hugsunum og tilfinningum sem vakna hjá ykkur.

fjölskylda les ritningarnar

Gefa fólki tíma til að tileinka sér það sem það hefur lært

Gefa fólki tíma til að tileinka sér það sem það hefur lært þegar þið kennið (sjá 3. Nefí 17:2–3). Leitið að viðeigandi aðferðum til að styðja það við að halda skuldbindingar sínar. Einbeitið ykkur að því að hjálpa því við breytni sem byggir upp trúargrundvöll, eins og að biðja, lesa og fara í kirkju. Það mun gera því mögulegt að halda fleiri skuldbindingar.

Þegar þið skipuleggið og kennið, skuluð þið vera næm fyrir því hversu mikið af nýjum upplýsingum þið miðlið. Meginmarkmið kennslu ykkar er að hjálpa einstaklingi að byggja upp trú á Jesú Krist svo hún leiði til iðrunar. Markmið ykkar er ekki að gæta að því hversu miklum upplýsingum þið getið miðlað.

Kennið á þeim hraða sem hentar viðkomandi. Spyrjið spurninga og hlustið vandlega svo þið skiljið hversu vel honum eða henni gengur að læra og tileinka sér það sem þið kennið.

Sannleikurinn sem þið kennið, ásamt krafti heilags anda, getur haft áhrif á fólk til að nota eigið sjálfræði á þann hátt sem byggir upp trú þess á Krist. Þegar það iðkar trú á Drottin með því að tileinka sér það sem það lærir mun það vita með andanum að fagnaðarerindið er sannleikur.

Nota margvísleg kennslutækifæri

Kennslutækifæri eru af mörgum toga, svo sem persónulegar heimsóknir, myndspjall, símtöl, textaskilaboð og samfélagsmiðlar.

Virða tíma fólks

Hafið kennsluna einfalda og stutta. Fólk er líklegra til að hitta ykkur þegar þið virðið tíma þess og óskir. Spyrjið hversu mikinn tíma það hefur fyrir heimsóknina. Hefjið og ljúkið öllum samtölum á umsömdum tíma, hvort sem þið kennið í eigin persónu eða á netinu. Gætið þess að sums staðar getur símtal eða myndspjall verið dýrt.

Þið þurfið að koma oft saman til að kenna reglurnar í einni lexíu. Venjulega ætti kennsluheimsókn ekki að vara lengur en 30 mínútur og 5 mínútur gætu jafnvel nægt til að kenna einstaklingi. Aðlagið kennslu ykkar að þeim tíma sem fólk hefur aflögu.

Nota tæknina skynsamlega

Ykkur gefast mörg tækifæri til að kenna fólki með hjálp tækninnar. Sumir kjósa þægindin eða friðhelgina sem felst í því að eiga samskipti með rafrænum hætti. Fólk sem þið þegar heimsækið í eigin persónu getur líka notið góðs af auknum stuðningi með hjálp tækninnar. Ræðið þau úrræði sem eru tiltæk til samskipta. Fylgið síðan eftir og verið í sambandi. Látið óskir hvers og eins vera leiðandi í samskiptum ykkar.

Tæknin, eins og myndspjall, getur verið einkar gagnleg við að kenna fólki með þéttskipaða dagskrá eða sem býr langt í burtu. Stundum er auðveldara fyrir meðlimi að taka þátt í kennslustund með hjálp tækninnar.

Hjálpa yngri nemendum

Í þjónustu sinni sagði frelsarinn við lærisveina sína: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki“ (Markús 10:14). Þegar þið kennir börnum, skuluð þið aðlaga kennsluna og boðskap ykkar að þörfum þeirra. Hjálpið þeim að læra fagnaðarerindið með því að ræða hluti sem þau þekkja. Gangið úr skugga um að þau skilji það sem þið eruð að kenna.

Ritningarnám

Lesið Kenningu og sáttmála 84:85. Hver er merking þess að verða „gefin þau þeirra, sem mæld verða hverjum manni“? Hvernig getið þið tileinkað ykkur þetta í kennslu ykkar?

Hverju hefur Drottinn lofað trúföstum trúboðum um að vita hvað segja skal?

Kenna með félaga ykkar í einingu

Drottinn sagði: „Þér skuluð fara í krafti anda míns og boða fagnaðarerindi mitt, tveir og tveir saman“ (Kenning og sáttmálar 42:6). Hann hefur líka boðið ykkur og félaga ykkar: „Verið eitt“ (Kenning og sáttmálar 38:27). Kennsla ykkar verður áhrifaríkari og áhugaverðari ef þið og félagi ykkar starfið saman í einingu. Skiptist á við að segja stuttlega frá hluta lexíanna.

Ræðið og æfið í félaganámi ykkar hvernig þið hyggist kenna svo þið séuð á sömu blaðsíðu. Undirbúið hvernig þið hyggist starfa saman þegar þið kennið fólki á netinu. Fylgið öryggisreglunum um notkun tækninnar, sem útskýrðar eru í kafla 2.

trúboðar kenna karli

Þegar félagi ykkar er að kenna, skuluð þið biðja fyrir honum og horfa á hann eða hana. Styðjið félaga ykkar með því að bjóða fram annan vitnisburð um þann sannleika sem hann eða hún hefur kennt (sjá Alma 12:1). Fylgið hughrifum ykkar þegar andinn hvetur ykkur til að segja eitthvað.

Sýnið fólkinu sem þið kennið einlægan áhuga. Hlustið á það. Viðhaldið augnsambandi þegar það eða þið eruð að að tala. Fylgist vandlega með svörum þess og hlustið eftir andlegum hughrifum.

Bjóða meðlimum að taka þátt

Bjóðið meðlimum að hjálpa ykkur að kenna og styðja fólkið sem þið eruð að vinna með. Það má gera í eigin persónu eða rafrænt. Ráðfærið ykkur við deildarleiðtoga á vikulegum samræmingarfundi um hver gæti hjálpað.

Þegar meðlimir taka þátt í kennslu og samskiptum geta þeir aukið skilning sinn og myndað vinatengsl. Þeir munu finna gleði trúboðsstarfs.

Bjóða meðlimum að hjálpa ykkur að kenna

Áður en lexíur eru kenndar, skuluð þið skipuleggja með meðlimum hvernig starfa á saman. Þið gætuð átt samskipti með textaskilaboðum eða stuttu símtali til að staðfesta hvað þið hyggist kenna, hver mun flytja bæn, hver mun leiða samtalið og aðrar upplýsingar.

Meginhlutverk meðlima í kennslustundum er að gefa einlægan vitnisburð, miðla stuttri persónulegri reynslu og þróa samband við þau sem verið er að kenna. Þið gætuð beðið meðlimi að segja frá því í kennslustund hvernig þeir lærðu, meðtóku og lifðu eftir einhverri tiltekinni reglu. Ef þeir eru trúskiptingar, bjóðið þeim þá að segja frá því hvernig þeir ákváðu að ganga í kirkjuna.

Þegar meðlimir vísa einhverjum til ykkar, skuluð þið biðja þá að taka þátt í kennslunni. Meðlimir gætu tekið meiri þátt í slíkum aðstæðum. Ráðfærið ykkur við þá um hvernig þeir myndu vilja taka þátt.

Íhugið hvernig notkun tækninnar til að kenna með meðlimum gæti verið viðeigandi. Tæknin gerir meðlimum kleift að kenna með ykkur án þeirrar tímaskuldbindingar sem persónuleg heimsókn krefst.

Á vikulegum samræmingarfundi skuluð þið skipuleggja með deildarleiðtogum að láta meðlim taka þátt í eins mörgum kennslustundum og mögulegt er (sjá kafla 13). Íhugið að biðja nýja meðlimi að hjálpa ykkur að kenna.

Einkanám eða félaganám

Ímyndið ykkur að þið eigið stefnumót til að kenna fjölskyldu lexíu á heimili meðlims. Ræðið hvernig þið mynduð virkja hvern af eftirfarandi meðlimum til að hjálpa ykkur að kenna:

  • Deildartrúboða sem nýverið kom heim úr fastatrúboði

  • Prest

  • Nýjan meðlim

  • Öldungasveitarforseta eða Líknarfélagsforseta

Bjóða meðlimum að veita stuðning

Meðlimir geta líka veitt fólki dýrmætan stuðning milli kennsluheimsókna. Þeir geta sent textaskilaboð, lesið ritningarnar með því, boðið fólki heim til sín eða á viðburði eða boðist til að sitja hjá því í kirkju. Þeir geta svarað spurningum og sýnt hvernig líf þeirra er sem meðlimir kirkjunnar. Lífsreynsla þeirra og sjónarhorn getur hjálpað þeim að tengjast fólki á þann hátt sem stundum er afar ólíkur því hvernig trúboðar tengjast fólki.

Ráðfærið ykkur við meðlimi um það hvernig þið getið starfað saman að því að styðja fólk utan kennsluheimsókna.

Kenna til skilnings

Kennið fagnaðarerindi Jesú Krists svo fólk skilji það. Lærið ritningarnar og lexíurnar svo þið getið kennt af skýrleika úr þeim. Því skýrari sem kennsla ykkar er, því betur á heilagur andi með að vitna um sannleikann.

Spyrjið spurninga til að hjálpa fólki að hugsa um það sem þið hafið kennt. Hlustið síðan til að sjá hvort það skilur og meðtekur efnið.

Að útskýra orð, orðtök og hugmyndir er hluti af því að kenna til skilnings. Þið getið bætt hæfni ykkar til að kenna fagnaðarerindið með því að:

  • Skilja orðin sem þið notið.

  • Skilgreina orð sem aðrir skilja ef til vill ekki.

  • Spyrja fólk spurninga eins og: „Viltu segja okkur frá skilningi þínum á því sem við vorum að útskýra?“ eða „Viltu draga saman það sem við töluðum um?“

Þegar þið kennið kenninguna í kafla 3, skuluð þið gæta að öllum orðum, orðtökum og hugmyndum sem fólk gæti ekki skilið. Skilgreinið þetta með því að nota úrræðin í Gospel Library, svo sem Leiðarvísi að ritningunum, Bible Dictionary og Gospel Topics.

Hafið kennsluna einfalda og stutta. Leggið áherslu á fagnaðarerindi Jesú Krists, byggið upp skilning á grunnkenningu og reglum. Hjálpið fólki að leita sér þess skilnings sem kemur frá heilögum anda. Þegar það öðlast þann skilning mun það trúa boðskap fagnaðarerindisins.

Ritningarnám

Af hverju ættum við að útskýra kenningu vandlega?

Hvernig lærum við? Af hverju er mikilvægt að kenna efni í litlum mæli í einu?

Af hverju er einfaldleiki mikilvægur?

Hvað getið þið lært af eftirfarandi versum um það hvernig Guð á samskipti við börn sín?

Spyrja spurninga

Frelsarinn spurði spurninga sem fengu fólk til að íhuga og skynja djúp áhrif þess sannleika sem hann kenndi. Spurningar hans kölluðu á sjálfsskoðun og skuldbindingu.

Góðar spurningar eru líka mikilvægar í kennslu ykkar. Þær munu hjálpa ykkur að skilja áhugasvið fólks, áhyggjumál og spurningar. Góðar spurningar geta boðið andanum í kennsluna og hjálpað fólki að læra.

Spyrjið innblásinna spurninga

Leitið leiðsagnar andans til að spyrja gagnlegra spurninga. Réttar spurningarnar á réttum tíma geta hjálpað fólki að læra fagnaðarerindið og finna fyrir andanum.

Innblásnar spurningar og einlæg hlustun mun hjálpa fólki að vera öruggara með að tala opinskátt og deila tilfinningum sínum. Það getur hjálpað því að finna vitnisburð vaxa. Það verður líka öruggara með að spyrja ykkur spurninga þegar það skilur ekki eitthvað eða hefur áhyggjur.

Eftirfarandi tafla sýnir nokkrar reglur sem tengjast því að spyrja innblásinna spurninga, ásamt nokkrum dæmum.

Reglur og dæmi varðandi innblásnar spurningar

Reglur

Dæmi

Spyrjið spurninga sem hjálpa fólki að finna fyrir andanum.

  • Getur þú sagt frá reynslu af því að finna áhrif Guðs í lífi þínu?

  • Hvernig hefur þú fundið elsku Guð til þín?

Spyrjið spurninga sem eru einfaldar og auðskiljanlegar.

  • Hvað lærir þú um Jesú Krist af þessu ritningarversi?

Spyrjið spurninga sem hjálpa fólki að hugsa um það sem þið eruð að kenna.

  • Hvernig svipar þessu til þess sem þú trúir nú þegar? Hvernig er þetta öðruvísi?

Spyrjið spurninga sem hjálpa ykkur að vita hversu vel fólk skilur það sem þið eruð að kenna.

  • Hvaða spurningar hefur þú um efnið sem við höfum kennt í dag?

  • Hvernig myndir þú draga saman umræður okkar í dag?

Spyrjið spurninga sem hjálpa fólki að miðla því sem það skynjar.

  • Hvernig hefur Jesús Kristur hjálpað þér í lífi þínu?

  • Hvað var mikilvægast fyrir þig af því sem við ræddum um í dag?

Spyrjið spurninga sem sýna elsku og umhyggju.

  • Hvernig getum við hjálpað þér?

Spyrjið spurninga sem hjálpa fólki að tileinka sér það sem það lærir.

  • Hvað getum við lært af þessu ritningarversi?

  • Hvernig getur þetta ritningarvers hjálpað þér í lífi þínu?

  • Hvað hefur þú fundið þig knúinn/knúna til að gera varðandi það sem þú hefur lært, eins og við höfum rætt um?

Félaganám

Farið yfir kennsluáætlun ykkar frá lexíu sem þið hafið nýlega kennt. Skrifið eina spurningu fyrir hverja þá reglu sem tilgreind er í áætlun ykkar.

Farið yfir spurningarnar ykkar til að gæta að því hvort þær séu í samræmi við reglurnar í þessum hluta.

Næst skuluð þið svara hverri spurningu eins og þið væruð þau sem verið er að kenna.

Miðlið félaga ykkar spurningum ykkar. Metið og bætið spurningar ykkar í sameiningu.

Einkanám eða félaganám

Fólk sem þið eruð að kenna gæti tekist á við eftirfarandi:

  • Hlotið andlega upplifun meðan það les Mormónsbók.

  • Vinnufélagar hæðast reglubundið að andlegum hlutum.

  • Fjölskyldumeðlimir eru sterkir meðlimir annarrar kirkju.

  • Vinir trúa því að „mormónar“ séu ekki kristnir.

Hugsið um spurningar sem þið gætuð spurt til að skilja betur ofangreindar aðstæður. Skrifið þessar spurningar í námsdagbók ykkar. Ræðið við félaga ykkar um það hvernig þið gætuð bætt spurningarnar sem þið skrifuðuð.

Forðast gagnslausar eða óhóflegar spurningar

Reynið að spyrja ekki spurninga sem:

  • Hafa augljós svör.

  • Gætu verið vandræðalegar fyrir einhvern, ef hann eða hún veit ekki svarið.

  • Fela í sér fleiri en eina hugmynd.

  • Tengjast kenningum sem þið hafið ekki enn kennt.

  • Hafa ekki skýran tilgang.

  • Eru óhóflegar.

  • Eru hnýsnar eða gætu skapraunað og móðgað fólk.

Eftirfarandi eru dæmi um spurningar sem skila litlum árangri:

  • Hver var fyrsti spámaðurinn? (Viðkomandi veit ef til vill ekki svarið.)

  • Hvernig mun það hjálpa okkur að hafa andann og sýna að við erum fús til að fylgja spámanni Guðs, ef við höldum líkama okkar hreinum? (Í þessu felst meira en ein hugmynd.)

  • Er mikilvægt að þekkja boðorð Guðs? (Þetta er já og nei spurning og svarið er augljóst.)

  • Hvað getum við gert dag hvern sem hjálpar okkur að finna nálægð Guðs? (Þetta er óskýr spurning um ákveðið atriði: Bæn.)

  • Hver var næsti spámaður á eftir Nóa? (Viðkomandi veit ef til vill ekki svarið og spurningin er ekki mikilvæg fyrir boðskap ykkar.)

  • Skilur þú hvað ég er að segja? (Viðkomandi gæti fundist sem þið væruð að tala niður til hans eða hennar.)

Einkanám eða félaganám

Íhugið þarfir þess sem þið eruð að kenna. Ræðið hvernig hann eða hún gæti svarað spurningum ykkar. Setjið saman spurningar sem þið gætuð spurt og samræmast leiðbeiningunum í þessum hluta. Ræðið hvernig þessar spurningar gætu boðið andanum í kennsluna og hjálpað viðkomandi að læra fagnaðarerindið.

Hlusta

Þegar þið hlustið vandlega á fólk skiljið þið það betur. Þegar það veit að hugsanir þess og tilfinningar eru ykkur mikilvægar er líklegra að það verði móttækilegra fyrir kenningum ykkar, persónulegum upplifunum sem þið miðlið og að skuldbinda sig.

Þegar þið hlustið öðlist þið skilning á því hvernig þið getið lagað kennslu ykkar að þörfum þess og áhugasviðum. Þið munuð skilja betur hvaða sannleikur fagnaðarerindisins kæmi því að mestu gagni.

Hlustið einkum á hina kyrrlátu rödd andans. Þegar aðrir deila tilfinningum sínum gæti heilagur andi hvatt ykkur með hugsunum eða hugmyndum. Andinn getur líka hjálpað ykkur að skilja hvað aðrir eru að reyna að tjá.

trúboðar ræða við fjölskyldu

Hlusta af einlægri umhyggju

Hlustun krefst átaks og einlægrar umhyggju. Á meðan fólk talar, verið þá viss um að þið einbeitið ykkur að því sem það er að segja. Forðist þá tilhneigingu að ráðgera það sem þið hyggist segja.

Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi: „Ennþá mikilvægara er að hlusta en að tala. Þetta fólk er ekki dauðir hlutir eða tölur í skýrslu um trúboðsárangur. … Spyrjið þessa vini hvað þá varðar mestu, hvað þeir meta mest og hvað er þeim kærast. Hlustið síðan. Við réttar aðstæður gætuð þið spurt hvað þau óttast, hvað þau þrá eða hvað þeim finnst vanta í lífi sínu. Ég lofa ykkur því að eitthvað af því sem þau segja mun alltaf tengjast sannleika fagnaðarerindisins sem þið getið borið vitni um og boðið fram meira. … Ef við hlustum af kærleika, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því hvað segja skal. Það munum við fá að vita – með andanum og frá vinum okkar“ („Vitni frammi fyrir mér,“ aðalráðstefna, apríl 2001).

Gæta að ósögðum skilaboðum

Fólk tjáir sig líka með líkamanum. Gætið að því hvernig það situr, svipbrigðum þess, hvað það gerir við hendur sínar, raddblæ þess og hvert það horfir. Að gæta að slíkum ósögðum skilaboðum getur hjálpað ykkur að skilja tilfinningar þeirra sem þið kennið.

Verið líka meðvituð um líkamstjáningu ykkar sjálfra. Sendið skilaboð um áhuga og eldmóð með því að hlusta af einlægni.

Gefa fólki tíma til að hugsa og svara

Frelsarinn spurði oft einstaklinga spurninga sem þurfti tíma til að svara. Þegar þið spyrjið spurningar, skuluð þið gefa viðkomandi tækifæri til að hugsa og svara. Hræðist ekki þögn. Fólk þarf oft tíma til að hugsa um og svara spurningum eða tjá það sem það upplifir.

Þið gætuð staldrað við eftir að hafa spurt spurningar, eftir að hafa miðlað andlegri upplifun eða þegar fólk á í erfiðleikum með að tjá sig. Verið viss um að gefa því tíma til að hugsa hlutina til enda áður en það svarar. Grípið ekki fram í meðan það er að tala.

Bregðast við af samkennd

Þegar einstaklingur svarar spurningu, bregðist þá fyrst við af skilningi, ef við á. Samkennd sýnir að umhyggja ykkar er einlæg. Forðist að draga ályktanir, bjóða þegar fram lausnir eða virðast hafa svör við öllu.

Staðfesta að þið skiljið hvað fólk segir

Þegar þið reynið að skilja það sem einstaklingur er að segja, skuluð þið spyrja til að ganga úr skugga um að þið skiljið hann eða hana. Þið gætuð t.d. spurt: „Þannig að það sem þú ert að segja er . Er það rétt?“ eða „Ef ég skil rétt, þá finnst þér að .“ Þegar þið eruð ekki viss um að þið skiljið, skuluð þið biðja viðkomandi um skýringar.

Brjóta krefjandi samskipti til mergjar

Þið munuð koma fólki að mestu gagni með því að kenna því fagnaðarerindi Jesú Krists. Sumir vilja ef til vill tala mest allan tímann. Stundum þarf fólk einfaldlega einhvern til að hlusta af samkennd á það tjá erfiðleika sína og tilfinningar. Aðrir gætu leitast við að drottna eða deila.

Lærið að stjórna slíkum aðstæðum af háttvísi og kærleika. Þið gætuð ef til vill aðlagað kennslu ykkar til að ræða eitthvað sem einstaklingur tjáði sig um. Þið gætuð líka þess í stað þurft að segja kurteislega að þið viljið ræða áhyggjumál fólksins á öðrum tíma. Andinn getur hjálpað ykkur að vita hvernig bregðast á við í krefjandi aðstæðum.

Hjálpa fólki að líða vel með að tjá einlægar tilfinningar

Til að komast hjá vandræðaleika, munu sumir svara spurningum eins og þau halda að þið viljið að þau svari, fremur en að tjá einlægar tilfinningar sínar. Leitist við að þróa samband þar sem þeim getur liðið vel með að tjá ykkur einlægar tilfinningar sínar.

Að skilja og tengjast fólki getur gert ykkur mögulegt að hjálpa fólki, mæta þörfum þess og áhugasviðum og tjá kærleika frelsarans til þess. Skapið samband trausts með því að vera einlæg við fólk, viðhalda viðeigandi trúboðssambandi og sýna virðingu.

Einkanám eða félaganám

Hugleiðið hversu vel ykkur tekst að hlusta á aðra. Skrifið svör í námsdagbók ykkar við spurningunum hér að neðan. Eða ræðið um þær við félaga ykkar.

A = Á aldrei við um mig, B = Á stundum við um mig, C = Á yfirleitt við um mig, D = Á alltaf við um mig

  • Þegar aðrir tala við mig hugsa ég um álíka upplifanir sem ég get sagt frá í stað þess að hlusta vandlega.

  • Þegar aðrir tjá mér tilfinningar sínar reyni ég að setja mig í þeirra spor til að sjá hvernig mér liði.

  • Þegar ég kenni fólki hugsa ég um hvað ég ætla að segja eða kenna næst.

  • Ég finn fyrir ergelsi þegar fólk talar mikið.

  • Ég á erfitt með að fylgja því eftir eða skilja það sem aðrir eru að reyna að segja mér.

  • Hugur minn fer oft á reik meðan félagi minn er að kenna.

  • Ég kemst í uppnám ef einhver talar við mig og aðrir grípa fram í eða trufla athygli mína.

  • Ég hlýt andleg hughrif til að segja eða gera eitthvað en hunsa þau.

Hjálpa fólki að finna svör við spurningum sínum og áhyggjumálum

Reynið einlæglega að takast á við spurningar fólks og hjálpa því að leysa vanda sinn. Það er þó ekki á ykkar ábyrgð að svara öllum spurningum. Endanlega verður fólk að takast sjálft á við spurningar sínar og áhyggjumál.

Hafið hugfast að ekki er hægt að svara öllum spurningum og áhyggjumálum fullkomlega. Sum svör verða skýrari með tímanum. Önnur hafa enn ekki verið opinberuð. Einbeitið ykkur að því að byggja traustan grunn að mikilvægum sannleika fagnaðarerindisins. Slíkur grunnur mun hjálpa ykkur og þeim sem þið kennið að sækja fram með þolinmæði og trú þegar spurningar eru erfiðar eða þeim er ekki svarað.

Nokkrar reglur um hvernig svara á spurningum eru útskýrðar í þessum hluta.

Jesús og samverska konan við brunninn

Skilja áhyggjumálin

Sumt það sem þið kennið fólki gæti virst erfitt eða ókunnugt. Ef fólk hefur spurningar eða áhyggjur, skuluð þið fyrst reyna að leitast við að skilja þær vandlega. Stundum eru áhyggjumál fólks eins og ísjaki. Aðeins lítill hluti sést á yfirborðinu. Slík áhyggjumál geta verið flókin. Biðjið um gjöf dómgreindar og fylgið andanum í því hvernig þið bregðist við. Himneskur faðir þekkir hjörtu og upplifanir allra manna (allur ísjakinn). Hann mun hjálpa ykkur að vita hvað best gagnast hverjum einstaklingi.

Oft eru áhyggjuefni meira félagslegs eðlis en kenningarlegs eðlis. Sumt fólk gæti til að mynda óttast andstöðu frá fjölskyldumeðlimum ef það gengi í kirkjuna. Eða það gæti óttast höfnun frá vinnufélögum sínum.

Leitist við að skilja kjarna áhyggjuefnisins með því að spyrja spurninga og hlusta. Vaknaði áhyggjuefnið vegna þess að viðkomandi hefur ekki andlega staðfestingu á sannleika endurreisnarinnar? Kom það til vegna þess að viðkomandi vill ekki skuldbinda sig því að lifa eftir einhverri reglu fagnaðarerindisins? Að þekkja rót áhyggjuefnisins mun hjálpa ykkur að vita hvort þið eigið að einbeita ykkur að vitnisburði eða skuldbindingu.

Nota ritningarnar, einkum Mormónsbók, til hjálpar við að svara spurningum

Sýnið fólki hvernig sannleikurinn í ritningunum getur hjálpað við að svara spurningum þess og takast á við áhyggjumál þess. (Sjá „Mormónsbók svarar spurningum sálarinnar“ í kafla 5.) Þegar fólk leitar innblásturs með því að læra og tileinka sér ritningarnar mun það auka hæfni sína til að heyra og fylgja Drottni. Trú þess á hann mun aukast. Með aukinni trú mun vitnisburður hljótast, iðrun eiga sér stað og helgiathöfn skírnarinnar fylgja í kjölfarið.

Henry B. Eyring forseti

„Stundum fer ég í ritningarnar eftir kenningu. Stundum fer ég í ritningarnar eftir leiðsögn. Ég fer með spurningu og spurningin er venjulega: ‚Hvað myndi Guð vilja að ég gerði?‘ eða ‚Hvað myndi hann vilja að ég skynjaði?‘ Ég fæ undantekningarlaust nýjar hugmyndir, hugsanir sem ég hef aldrei haft áður og ég hlýt innblástur og kennslu og svör við spurningum mínum“ (Henry B. Eyring, í „A Discussion on Scripture Study,“ Ensign, júlí 2005, 22).

Gagnlegt getur verið að útskýra að mikið af skilningi okkar á fagnaðarerindi Jesú Krists á rætur að rekja til þess sem hefur verið opinberað spámanninum Joseph Smith og þeim sem tóku við af honum. Vitnisburður um að Joseph Smith hafi verið spámaður Guðs getur svarað spurningum um sannleiksgildi fagnaðarerindisins. Að lesa og biðja varðandi Mormónsbók er mikilvæg aðferð til að öðlast þennan vitnisburð.

Hjálpið fólki að einbeita sér að því að efla trú sína á Jesú Krist. Að lesa og biðja varðandi Mormónsbók er mikilvæg aðferð til að efla vitnisburð þess.

Bjóðið fólki að bregðast við í trú

Þegar fólk ræktar og styrkir vitnisburð sinn um hið endurreista fagnaðarerindi mun það geta svarað spurningum sínum og áhyggjumálum út frá grunni trúar. Þegar það breytir samkvæmt þeim sannleika sem það trúir á mun það geta öðlast vitnisburð um fleiri sannindi fagnaðarerindisins.

Sumar leiðir til að breyta í trú eru að:

  • Biðjast fyrir oft og einlæglega um innblástur og leiðsögn.

  • Læra ritningarnar, einkum Mormónsbók.

  • Sækja kirkju.

Félaganám

Veljið eitt boð til að setja fram þegar þið kennið lexíu. Berið síðan kennsl á áhyggjuefni sem gætu hindrað einhvern í að meðtaka boðið eða skuldbinda sig. Ræðið og æfið hvernig þið getið hjálpað fólki að vinna að lausn áhyggjuefna sinna.

Einkanám eða félaganám

Skrifið í námsdagbók ykkar hvernig þið mynduð vísa í Joseph Smith og Mormónsbók til að bregðast við eftirfarandi áhyggjumálum:

  • „Ég trúi ekki að Guð tali lengur við fólk.“

  • „Ég trúi að ég geti vegsamað Guð á minn eigin hátt, fremur en í gegnum skipulögð trúarbrögð.“

  • „Af hverju ætti ég að hætta að drekka áfengi með máltíðum mínum ef ég geng í kirkjuna ykkar?“

  • „Af hverju þarfnast ég trúarbragða?“

Skilja eitthvað eftir til að læra og biðjast fyrir um

Í lok hverrar kennsluheimsóknar, skuluð þið fá fólki eitthvað til að læra, ígrunda og biðjast fyrir um, til að búa sig undir næstu heimsókn. Að lesa, biðjast fyrir og ígrunda á milli kennsluheimsókna býður áhrifum heilags anda í líf þess.

Þið gætuð boðið fólki að lesa ákveðna kafla í Mormónsbók. Eða þið gætuð hvatt það til að nota úrræði kirkjunnar, eins og Gospel Library, til að finna svör við spurningum, fræðast um efni eða horfa á myndband. Það getur orðið upphafsumræðuefni næst þegar þið komið saman.

einstaklingur lærir ritningarnar

Forðist að fela fólki of mikið að gera, einkum ef kennslusamskipti við það eru stutt og tíð.

Einkanám eða félaganám

Íhugið hvern einstakling sem þið ráðgerið að kenna í þessari viku. Hvaða kaflar í Mormónsbók munu nýtast honum eða henni best? Hvaða önnur úrræði myndu gagnast honum eða henni? Skráið það sem þið hyggist gera með hverjum og einum. Skráið líka hvað þið hyggist gera til að fylgja eftir í næstu heimsókn ykkar.

Hjálpa fólki með ávanafíkn

Þið getið hjálpað fólki sem á erfitt með að sigrast á ávanafíkn með því að ræða ástúðlega um baráttu þess, styðja það og tengja það við úrræði. Þið gætuð hvatt það til að mæta á einhvern stuðningshópafunda kirkjunnar fyrir batameðferð ávanafíknar. Slíkir hópar geta hist í eigin persónu eða á netinu. (Sjá AddictionRecovery.ChurchofJesusChrist.org.) Hvetjið fólk til að nota úrræðin í hlutanum „Addiction“ í Life Help í Gospel Library.

Kirkjuleiðtogar og meðlimir heimasafnaða geta líka veitt stuðning. Sumt fólk með ávanafíkn gæti þurft faglega læknis- og geðheilbrigðismeðferð.

Hér eru nokkrar ábendingar um það hvernig þið getið stutt fólk sem á erfitt með að sigrast á fíkn:

  • Styrkið viðleitni þess til að koma til Krists. Hjálpið því að sjá að viðleitni þess til að ná bata og lækningu er viðurkennd og metin af himneskum föður og Jesú Kristi. Kennið fólki að mögulegt sé að hljóta styrk fyrir tilstilli frelsarans og friðþægingar hans. Hann þekkir algjörlega ásetning hjarta þess að gera gott.

  • Biðjið fyrir fólki í einkabænum ykkar og biðjið með því. Hvetjið það eftir því sem við á, að bera sig eftir prestdæmisblessun hjá prestdæmisleiðtogum heimasafnaða.

  • Haldið áfram að kenna því fagnaðarerindi Jesú Krists. Kennið því að himneskur faðir, frelsarinn og heilagur andi elski það og óski því farsældar.

  • Hvetjið það til að mæta reglulega í kirkju og leggja rækt við vinarbönd við meðlimi.

  • Verið jákvæð og stuðningsrík, einkum ef það fellur í batameðferðinni.

Jesús liðsinnir konu

Erfitt er að sigrast á ávanafíkn og bakslög geta gerst. Kirkjuleiðtogar og meðlimir ættu ekki að láta sér bregða við það. Þeir ættu að sýna gagnrýnislausan kærleika.

Nýr meðlimur sem hættir að koma í kirkju kann að hafa snúið aftur í sína gömlu fíkn og kann að upplifa óverðugleika og vonbrigði. Að fara samstundis í heimsókn til að hvetja og styðja getur hjálpað. Meðlimir ættu að sýna í orði og verki að kirkjan sé staður þar sem kærleikur Krists er ríkjandi (sjá 3. Nefí 18:32).

Einkanám eða félaganám

Hugsið um einhvern sem þið eruð að kenna eða nýjan meðlim eða endurkominn meðlim sem reynir að sigrast á ávanafíkn. Farið yfir „Trú á Jesú Krist“ og „Iðrun“ í lexíunni „Fagnaðarerindi Jesú Krists“ í kafla 3.

  • Hvað gætuð þið kennt viðkomandi einstaklingi úr þessari lexíu og úr þessum kafla sem gæti hjálpað honum eða henni?

  • Búið til kennsluáætlun til að hjálpa þessum einstaklingi.

Kenna fólki sem hefur ekki kristinn bakgrunn

Sumt fólk sem þið kennið hefur ef til vill ekki kristinn bakgrunn eða trúir jafnvel ekki á himneskan föður og Jesú Krist. Margir meðal þess hafa hins vegar trú, venjur og staði sem því finnst vera heilagt. Nauðsynlegt er að þið sýnið að þið virðið trúarskoðanir og hefðir fólks.

Hjálpa fólki að skilja hver Guð er

Þið gætuð velt fyrir ykkur hvernig þið ættuð að aðlaga kennslu ykkar að fólki sem hefur ekki kristinn bakgrunn. Reglurnar sem hjálpa einstaklingi að rækta trú eru þær sömu í öllum menningarheimum. Hjálpið fólki að öðlast réttan skilning á Guði og guðlegu hlutverki Jesú Krists. Besta leiðin fyrir það til að læra þennan sannleika er með persónulegri andlegri reynslu. Hér á eftir eru nokkrar aðferðir tilgreindar til að hjálpa því að öðlast þessa reynslu:

  • Kenna að Guð er himneskur faðir okkar og að hann elskar okkur. Við erum börn hans. Bjóðið því að leita þessa vitnis fyrir sig sjálf.

  • Kennið um sáluhjálparáætlunina.

  • Kennið að Guð faðirinn og Jesús Kristur birtust spámanninum Joseph Smith.

  • Gefið einlægan vitnisburð um fagnaðarerindið, þar á meðal hvernig þið finnið fyrir kærleika himnesks föður og hvers vegna þið veljið að fylgja Jesú Kristi.

  • Bjóðið fólki að flytja einfaldar, einlægar bænir – með ykkur og persónulega.

  • Bjóðið því að lesa Mormónsbók daglega – með ykkur og persónulega.

  • Bjóðið því að koma í kirkju.

  • Kynnið það fyrir meðlimum kirkjunnar sem geta útskýrt hvernig þeir komust til trúar á himneskan föður og Jesú Krist.

  • Bjóðið því að halda boðorðin.

Flestir þrá að hafa nánara samband við Guð og finna tilgang og merkingu lífsins. Hjálpið fólki að sjá hvernig það er barn kærleiksríks föður á himnum og hvernig hann hefur áætlun fyrir það. Þið gætuð til að mynda byrjað á því að segja eitthvað eins og eftirfarandi:

Guð er faðir okkar á himnum og hann elskar okkur. Við erum börn hans. Við lifðum hjá honum áður en við fæddumst. Þar sem við erum öll börn hans erum við öll bræður og systur. Hann þráir að við snúum aftur til hans. Vegna elsku sinnar til okkar hefur hann séð okkur fyrir leið til að snúa aftur til hans fyrir milligöngu sonar síns Jesú Krists.

Aðlaga kennsluna eftir þörfum

Margir trúskiptingar sem ekki eru kristnir segja að þeir hafi ekki skilið mikið af því sem trúboðarnir voru að kenna. Þeir fundu þó fyrir andanum og vildu gera það sem trúboðarnir báðu um. Gerið allt sem þið getið til að hjálpa fólki að skilja kenningu fagnaðarerindisins. Verið þolinmóð og stuðningsrík. Það getur tekið tíma fyrir fólk að læra að bera kennsl á og tjá tilfinningar sínar. Þið gætuð þurft að aðlaga hraða og dýpt kennslunnar til að hjálpa því.

Eftirfarandi ábendingar gætu hjálpað ykkur þegar þið búið ykkur undir að kenna fólki sem hefur ekki kristinn bakgrunn:

  • Skiljið hvaða andlega þörf eða áhugasvið hvetur fólk til að hitta ykkur.

  • Gefið einfalt yfirlit og umsagnir fyrir hverja lexíu.

  • Biðjið það að segja ykkur hvað það skilur og hvað það hefur upplifað.

  • Skilgreinið mikilvæg orð og reglur. Fólk er ef til vill ekki kunnugt mörgum orðum sem þið notið við kennslu.

  • Farið aftur í áður kennda lexíu til að kenna kenninguna skýrar. Það getur verið nauðsynlegt á hvaða tímapunkti sem er í kennsluferlinu.

  • Ákveðið boð sem þið gætuð sett fram til að hjálpa fólki að upplifa blessanir fagnaðarerindisins.

Hér að neðan eru nokkur úrræði í Gospel Library sem þið gætuð notað til að hjálpa þeim sem ekki hafa kristinn bakgrunn:

  • Hver er Guð?

  • Hver er Jesús Kristur?

  • Jesús Kristur, sonur Guðs

  • Hvers vænta má í heimsókn trúboða Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu

  • Múslimar og Síðari daga heilagir: Trú, gildi og lífshættir

Einkanám eða félaganám

Ef mögulegt er, skuluð þið finna trúskipting sem ekki hafði kristinn bakgrunn áður en hann hitti trúboðana. Ráðgerið að hittast og spyrja um trúarlega upplifun hans eða hennar. Þið gætuð til að mynda spurt viðkomandi að því:

  • Hvað hafi fengið hann eða hana til að trúa á himneskan föður og Jesú Krist.

  • Hvernig upplifunin hafi verið af því að biðjast fyrir í fyrsta sinn.

  • Hvernig fyrsta skiptið hafi verið sem hann eða hún fann fyrir bænheyrslu.

  • Hvert hlutverk ritninganna hafi verið í trúskiptum hans eða hennar.

  • Hvernig það hafi verið að sækja kirkju.

Skráið það sem þið lærið í námsdagbók ykkar.

Íhugið að bjóða einstaklingnum að hjálpa ykkur að kenna einhverjum sem hefur ekki kristni að bakgrunni.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Gerið ráð fyrir að þið séuð sett í eftirfarandi aðstæður. Hvernig gætuð þið notað reglurnar og aðferðirnar í þessum kafla til að hjálpa þessu fólki við framþróun þess? Ráðgerið hvernig þið mynduð tileinka ykkur þetta í hverjum aðstæðum.

    • Einstaklingur sem hefur verið að búa sig undir skírn segir ykkur að hann eða hún vilji ekki lengur hitta ykkur.

    • Þið hittir einstakling í sjöunda sinn sem hefur verið kennt af nokkrum trúboðum yfir tveggja ára tímabil. Fá ef nokkur merki sjást um framþróun.

  • Veljið eina af trúboðslexíunum. Berið kennsl á einn eða tvo ritningarhluta sem tengist hverri meginreglu. Æfið að kenna úr þessum ritningarhlutum eins og útskýrt er í hlutanum „Nota ritningarnar“ í þessum kafla.

Félaganám og félagaskipti

  • Lesið frásögnina um Ammon og Lamoní konung í Alma 18–19 og frásögnina um Aron í Alma 22:4–18. Berið kennsl á og lýsið við lesturinn hvernig Ammon og Aron:

    • Fylgdu andanum og kenndu af kærleika.

    • Hófu kennslu sína.

    • Aðlöguðu kennslu sína að þörfum fólks.

    • Gáfu vitnisburð.

    • Lásu ritningarnar.

    • Spurðu spurninga, hlustuðu og hjálpuðu þeim sem þeir kenndu við að leysa áhyggjumál sín.

    • Hvöttu þau sem þeir kenndu til að skuldbinda sig.

    Ræðið hvernig þjónusta þeirra og kennsla höfðu áhrif á Lamoní konung, föður hans og Abish.

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Bjóðið meðlimum eða þeim sem þið kennið nú þegar að koma á fundinn ykkar. Útskýrið fyrir hópnum að þið viljið að trúboðar bæti hæfni sína til að koma sínum mikilvæga boðskap á framfæri. Veljið lexíu og aðferð. Látið trúboðana kenna einstaklingnum eða fólkinu lexíuna sem þið völduð í 20 mínútur, með áherslu á hæfnina sem þið tilgreinduð. Látið þá færa sig á milli og skipta um einstaklinga eða hópa sem þeir kenna eftir 20 mínútur. Eftir að trúboðarnir hafa kennt, skuluð þið leiða hópinn saman. Fáið einstaklingana eða hópana til að segja trúboðunum hvað var árangursríkast og eitt sem þeir gætu gert til að gera betur.

  • Sýnið myndband með dæmum um trúboða sem kenna eða hafa samband við fólk. Veljið aðferð og ræðið hversu vel trúboðarnir notuðu reglurnar fyrir þá aðferð.

  • Veljið aðferð og berið kennsl á kenningu eða ritningarhluta sem styðja hana. Kennið trúboðunum kenningarlegan grunn aðferðarinnar.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Verið stundum með trúboðum þegar þeir kenna. Ráðgerið hvernig þið hyggist taka þátt í kennslunni.

  • Hvetjið staðarleiðtoga til að taka þátt í kennsluheimsóknum með trúboðum.

  • Sýnið og hjálpið trúboðum að æfa eina þeirra kennsluaðferða sem tilgreindar eru í þessum kafla, eins og að spyrja góðra spurninga og hlusta.

  • Sýnið árangursríka notkun ritninganna þegar þið kennið trúboðum á svæðisráðstefnum, í trúboðsleiðtogaráði og í viðtölum. Gerið það sama þegar þið kennið með þeim.

  • Hjálpið trúboðum að skilja ritningarnar og læra að hafa unun af þeim. Öldungur Jeffrey R. Holland veitti trúboðsleiðtogum þessa leiðsögn:

    „Gerið það að algjörri þungamiðju í trúboðsmenningu ykkar að hafa unun af orði Guðs. … Vinnið að því að gera þekkingu á opinberunum og reglubundna notkun helgiritanna að einu helsta einkenni trúboða ykkar það sem eftir er ævi þeirra.

    Þegar þið kennið trúboðum ykkar – og það er alltaf – kennið þeim þá úr ritningunum. Látið þá sjá hvaðan þið fáið styrk ykkar og innblástur. Kennið þeim að elska og treysta á þessar uppsöfnuðu opinberanir.

    [Minn] trúboðsforseti kenndi úr Mormónsbók og [öðrum] ritningum í hvert sinn sem við vorum í návist hans, eða svo virtist vera. Einkaviðtöl voru hlaðin ritningum. Dagskrá … fyrir fundi var sett saman úr helgiritunum. …

    Við vissum það ekki á þeim tíma, en forseti okkar var að vopnvæða okkur til hægri og vinstri, hvetja okkur af allri sálarorku sinni og því atgervi sem hann bjó yfir til að halda fast í járnstöngina svo við myndum aldrei farast [sjá 1. Nefí 15:23–25]“ („The Power of the Scriptures“ námskeið fyrir nýja trúboðsleiðtoga, 25. júní 2022).