Trúboðskallanir
12. kafli: Hjálpa fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu


„12. kafli: Hjálpa fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„12. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Jóhannes skírari skírir Jesú, eftir Greg K. Olsen

12. kafli

Hjálpa fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu

Til hugleiðingar

  • Hvernig get ég hjálpað fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu?

  • Hvernig stend ég að skírnarviðtali?

  • Hvernig er upplífgandi skírnarathöfn skipulögð og henni stjórnað?

  • Af hverju er mikilvægt að útfylla og senda eyðublað skírnar og staðfestingar?

  • Hvernig get ég stutt nýja meðlimi?

Skírn er gleðileg helgiathöfn vonar sem færir kraft Guðs í líf manns. Sá kraftur hlýst með því að meðtaka gjöf heilags anda. Hann mun viðhaldast þegar einstaklingurinn stendur stöðugur allt til enda við að halda skírnarsáttmálann.

Tilgangur kennslu ykkar er að hjálpa öðrum að þróa trú á Jesú Krist, iðrast synda sinna og láta skírast af einlægri þrá til að fylgja Kristi. Mormón kenndi: „Frumgróði iðrunarinnar er skírn“ (Moróní 8:25). Þegar fólkið sem þið kennið stendur við skuldbindingarnar sem þið bjóðið því að taka á sig, mun það vera tilbúið til að gera og halda sáttmála við Guð og njóta fyrirheitna blessana.

Skírn og staðfesting eru ekki endanlegur ákvörðunarstaður. Þessar helgiathafnir eru fremur hliðið sem börn Guðs ganga inn um á sáttmálsveginn. Sá vegur liggur til helgiathafna, sáttmála og gleðilegra blessana musterisins – og að lokum til eilífs lífs (sjá 3. Nefí 11:20–40).

Skilyrði fyrir skírn og staðfestingu

Guð býður öllum börnum sínum að koma til sín með skírn og staðfestingu (sjá 2. Nefí 26:33; 3. Nefí 27:20). Þessi skilyrði fyrir skírn gilda jafnt fyrir alla.

Eins og segir í Kenningu og sáttmálum 20:37:

  • Auðmýkið ykkur fyrir Guði.

  • Þráið að láta skírast.

  • Komið fram með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.

  • Iðrist allra synda ykkar og biðjið um fyrirgefningu.

  • Takið á ykkur sjálf nafn Krists.

  • Einsetjið ykkur að þjóna honum staðfastlega allt til enda.

  • Sýnið með verkum ykkar að þið hafið meðtekið anda Krists til fyrirgefningar synda ykkar.

Frá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni:

  • Svarið spurningunum í skírnarviðtalinu réttilega.

  • Meðtakið allar trúboðslexíurnar.

  • Hittið öldungasveitarforseta, Líknarfélagsforseta og biskup.

  • Sækið nokkrar sakramentissamkomur.

Að gera þetta eru vísbendingar um trúarlegt umbreytingarferli. Þegar fólk uppfyllir þessar hæfniskröfur, er það tilbúið fyrir helgiathafnir skírnar og staðfestingar.

Þegar einstaklingur hefur ákveðið skírnardag:

  • Farið þá vandlega yfir færslu hans eða hennar í smáforritinu Preach My Gospel, til að tryggja að þið hafið kennt nauðsynlegar kenningar og boðorð.

  • Búið til lista yfir þá atburði sem þarf til að undirbúa skírn og staðfestingu. Farið yfir þessa áætlun með viðkomandi.

  • Ef mögulegt er, bjóðið viðkomandi að mæta í skírnarathöfn áður en hann eða hún lætur skírast.

Ritningarnám

Lærið eftirfarandi ritningarvers. Hvernig getið þið hjálpað fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu? Skráið það sem þið lærið í náminu ykkar.

Ljósmynd
Ljúfur græðari, eftir Greg K. Olsen

Hjálpa fólki að búa sig undir skírnarviðtalið sitt

Skírnarviðtalið er mikilvægt skref til að tryggja að einstaklingur uppfylli skilyrði Drottins fyrir skírn. Skipuleggið skírnarviðtal aðeins þegar einstaklingur er tilbúinn fyrir skírn.

Hjálpið fólki að búa sig undir þetta viðtal, svo því líði vel með það. Útskýrið hvernig það verður. Segið því að það muni hitta annan trúboða eins og ykkur.

Útskýrið tilgang viðtalsins. Það sé tækifæri fyrir þau til að vitna um að þau hafi „iðrast allra synda sinna og séu [fús] að taka á sig nafn Jesú Krists [og] sýna með verkum sínum, að [þau hafi] meðtekið af anda Krists til fyrirgefningar synda sinna“ (Kenning og sáttmálar 20:37).

Tilgreinið spurningarnar sem viðmælandinn mun spyrja (sjá hér að neðan). Þetta hjálpar einstaklingnum að búa sig undir að svara þeim.

Gangið úr skugga um að viðkomandi skilji hvað þið hafið kennt og sáttmálann sem hann eða hún mun gera við skírn. Þessi sáttmáli er að:

  • Vera fús til að taka á sig nafn Jesú Krists.

  • Halda boðorð Guðs.

  • Þjóna Guði og öðrum.

  • Standast allt til enda. (Sjá lexíu 4.)

Gefið vitnisburð um þær miklu blessanir sem fylgja því að vera skírð og staðfest og halda skírnarsáttmálann. Þessar blessanir fela í sér fyrirgefningu synda og gjöf heilags anda.

Framkvæmd skírnarviðtalsins

Sérhver einstaklingur sem vill láta skírast fer í viðtal hjá réttmætum prestdæmisleiðtoga. Í trúboði er sá einstaklingur umdæmis- eða svæðisleiðtogi. Hann tekur viðtöl við:

  • Einstaklinga sem eru 9 ára og eldri og hafa aldrei áður verið skírðir og staðfestir.

  • Börn sem eru 8 ára og eldri sem eiga foreldra sem eru ekki meðlimir kirkjunnar.

  • Börn sem eru 8 ára og eldri sem eiga foreldri sem er líka skírt og staðfest.

Leiðbeiningar fyrir viðmælanda eru hér að neðan.

  • Hafið viðtalið á þægilegum, afviknum stað, þar sem hægt er að finna fyrir andanum.

  • Þegar rætt er við barn, ungmenni eða konu, ætti félagi viðmælandans að vera í nálægð í aðliggjandi herbergi, anddyri eða sal. Ef sá einstaklingur sem viðtalið er tekið við óskar eftir því, þá er leyfilegt að bjóða öðrum fullorðnum að vera viðstöddum viðtalið. Trúboðar ættu að forðast allar aðstæður sem gætu valdið misskilningi.

  • Hefjið viðtalið með bæn.

  • Hjálpið viðkomandi að líða vel.

  • Gerið viðtalið að andlegri og upplyftandi upplifun.

  • Gætið þess að viðkomandi skilji tilgang viðtalsins.

  • Spyrjið spurningar skírnarviðtalsins, sem skráðar eru hér að neðan. Aðlagið spurningarnar að aldri, þroska og aðstæðum viðkomandi, eins og þörf er á.

  • Svarið spurningum viðkomandi.

  • Gætið að því að upplýsingarnar á eyðublaði skírnar og staðfestingar séu réttar. Ef viðkomandi er barn, þarf foreldri eða forsjáraðili að undirrita eyðublaðið fyrir skírnina (sjá hlutann „Skírn og staðfesting: Spurningar og svör“ í þessum kafla).

  • Bjóðið viðkomandi að gefa vitnisburð eða miðla tilfinningum sínum.

  • Tjáið þakklæti fyrir að fá að ræða við viðkomandi.

Spurningar skírnarviðtals

Spurningar skírnarviðtals eru sem hér segir:

  1. Trúir þú að Guð sé eilífur faðir okkar? Trúir þú að Jesús Kristur sé sonur Guðs og frelsari og lausnari heimsins?

  2. Trúir þú að kirkjan og fagnaðarerindi Jesú Krists hafi verið endurreist fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith? Trúir þú að [nafn núverandi forseta kirkjunnar] sé spámaður Guðs? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir þig?

  3. Hvað felst í því fyrir þig að iðrast? Finnst þér þú hafa iðrast fyrir áður drýgðar syndir?

  4. Þér hefur verið kennt að aðild að Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu feli í sér að lifa eftir stöðlum fagnaðarerindisins. Hver er skilningur þinn á eftirfarandi stöðlum? Ertu fús að hlíta þeim?

    • Skírlífislögmálið, sem bannar hvers kyns kynferðissambönd utan löglegs hjónabands karls og konu

    • Tíundarlögmálið

    • Vísdómsorðið

    • Halda hvíldardaginn heilagan, þar með talið að meðtaka sakramentið vikulega og þjóna öðrum?

  5. Hefur þú einhvern tíma framið alvarlegan glæp? Ef svo, ert þú nú á skilorði eða reynslulausn?

  6. Hefur þú einhvern tíma tekið þátt í þungunarrofi? (Sjá Almenn handbók, 38.6.1.)

  7. Þegar þú lætur skírast, gerir þú sáttmála við Guð um að þú sért fús til að taka á þig nafn Krists, þjóna öðrum, standa sem vitni Guðs á öllum tímum og halda boðorð hans alla ævi. Ert þú fús til að gera þennan sáttmála og leitast við að vera honum trú/r?

Ef viðkomandi svarar spurningu 5 eða 6 játandi, sjá leiðbeiningar í Almennri handbók, 38.2.8.7 og 38.2.8.8.

Kynnið ykkur reglur og leiðbeiningar varðandi skírn og staðfestingu í Almennri handbók, 38.2.8. Sumar þessara reglna fela í sér sérstakar aðstæður sem þið gætuð fundið ykkur í.

Eftir viðtalið fara trúboðinn og skírnþeginn aftur til hinna trúboðanna. Ef viðkomandi er tilbúinn fyrir skírn, útskýra trúboðarnir hvað muni gerast í skírnarathöfninni. Þeir útskýra líka að staðfestingin fari yfirleitt fram á sakramentissamkomu þeirrar deildar þar sem viðkomandi býr.

Þegar fresta þarf skírn

Stundum þarf að fresta skírn vegna áskorana um vitnisburð eða verðugleika. Þegar það gerist, skuluð þið takast á við aðstæðurnar af næmni og í einrúmi. Hjálpið viðkomandi að skilja hvernig að búa sig undir skírn fyrir síðari dagsetningu.

Hvetjið viðkomandi og bjóðið fram von á Krist og friðþægingu hans. Biðjið deildarmeðlimi að veita vináttu. Haldið áfram að kenna grunnreglur fagnaðarerindisins þar til viðkomandi er tilbúinn til að láta skírast og verða staðfestur. Bíðið fram að þeim tíma með að dagsetja nýjan skírnardag.

Skírn og staðfesting: Spurningar og svör

Þarf ég leyfi til að skíra ólögráða barn? Kirkjunni er umhugað um velferð barna og að sátt ríki á heimili þeirra. Ólögráða barn, eins og skilgreint er í lögum á svæðinu, má skíra þegar bæði eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  1. Forsjárforeldri/ar eða forráðamaður/menn veita skriflegt leyfi. Þau ættu að hafa almennan skilning á kenningunni sem barni þeirra verður kennt sem meðlimur kirkjunnar. Þau ættu líka að vera fús til að styðja barnið við að gera og halda skírnarsáttmálann.

  2. Sá sem tekur viðtalið greinir að barnið skilur skírnarsáttmálann. Hann ætti að vera viss um að barnið muni reyna að halda þennan sáttmála með því að hlýða boðorðunum, þar á meðal að sækja kirkjusamkomur.

Þarf ég samþykki maka til að skíra eiginmann eða eiginkonu? Já. Giftur einstaklingur þarf að fá samþykki maka síns áður en hann er skírður.

Ef foreldri í fjölskyldu er ekki tilbúið fyrir skírn, ætti ég að skíra aðra fjölskyldumeðlimi eða bíða þar til foreldrið er tilbúið? Æskilegt er að fjölskyldumeðlimir séu skírðir saman. Hins vegar, ef einhverjir eru ekki tilbúnir, má skíra einstaka fjölskyldumeðlimi svo framarlega sem nauðsynlegt samþykki er gefið.

Ætti að fresta skírn fjölskyldumeðlima þar til faðirinn getur meðtekið Aronsprestdæmið og framkvæmt skírnirnar sjálfur? Nei. Nýskírðir bræður fá ekki Aronsprestdæmið daginn sem þeir eru skírðir. Þeir þurfa fyrst að fara í viðtal hjá biskupi og verða studdir af deildarmeðlimum.

Má ég kenna og skíra einstakling sem sagði upp kirkjuaðild eða hvers aðild var afturkölluð? Fólk sem hefur sagt upp kirkjuaðild eða sem hefur haft aðild sína afturkallaða má láta skírast og staðfestast aftur. Ef það vill fá kennslu, skuluð þið ráðfæra ykkur við prestdæmisleiðtoga á staðnum og trúboðsforseta ykkar, um það hlutverk sem þið gætuð gegnt.

Í stiku er enduraðild með skírn undir handleiðslu biskups eða stikuforseta. Í trúboði er enduraðild undir handleiðslu trúboðsforseta. Þessir leiðtogar munu fá leiðsögn frá Æðsta forsætisráðinu eftir þörfum. Trúboðar taka ekki þessi skírnarviðtöl, né heldur fylla þeir út eyðublað skírnar og staðfestingar. Hins vegar getur trúboða verið boðið að framkvæma skírnina.

Fyrrverandi meðlimir kirkjunnar sem ganga aftur í kirkjuna teljast ekki trúskiptingar. Engu að síður geta trúboðar stundum gegnt mikilvægu hlutverki við að hjálpa þeim að njóta blessana kirkjumeðlima á ný.

Hvað ef einstaklingur hefur settan skírnardag en stendur ekki við allar skuldbindingar? Bíðið með að ráðgera skírnarviðtal þar til viðkomandi stendur við skuldbindingarnar og uppfyllir skírnarskilyrðin. Sjá „Þegar fresta þarf skírn“ í þessum kafla.

Hvað ef par vill láta skírast sem býr saman? Ekki má skíra par sem býr saman utan löglegs hjónabands karls og konu fyrr en þau lifa eftir skírlífislögmálinu. Þetta þýðir að þau búi ekki lengur saman – hvort sem um er að ræða gagnkynhneigt eða samkynhneigt par – eða, fyrir karl og konu, þýðir það að þau gifti sig. Það felur einnig í sér að iðka trú til iðrunar eins og tilgreint er í Kenningu og sáttmálum 20:37. Hjónaband karls og konu er nauðsynlegur hluti af eilífri áætlun Guðs.

Spurningar 5 og 6 í skírnarviðtalinu kveða á um hvort einstaklingur hafi einhvern tíma framið alvarlegan glæp eða tekið þátt í þungunarrofi. Hvað ætti ég að gera ef einhver svarar „já“ við annarri hvorri þessara spurninga? Ef önnur hvor þessara aðstæðna kemur upp í skírnarviðtali, skuluð þið ekki spyrja um smáatriði. Lofið ekki að viðkomandi verði samþykktur fyrir skírn. Þess í stað skuluð þið tjá elsku ykkar og útskýra með vinsemd að einhver eldri og reynslumeiri muni ræða við og liðsinna viðkomandi.

Sendið beiðni um skírnarviðtal til trúboðsforseta ykkar. Hann eða einn af ráðgjöfum hans mun hafa viðtal við viðkomandi. Sjá Almenn handbók, 38.2.8.7 og 38.2.8.8.

Hvað ætti ég að gera ef meðlimaskýrsla hefur verið búin til áður en ég sendi inn eyðublað skírnar og staðfestingar? Hafið samband við trúboðsforseta ykkar til að fá leiðbeiningar.

Einkanám

Íhugið hvernig ykkur gæti liðið ef þið væruð í viðtali. Íhugið eftirfarandi spurningar og skráið hughrif ykkar.

  • Hvernig gæti ykkur virst viðtalið vera óþægilegt? Hvað gæti sá sem tekur viðtalið gert eða sagt, til að létta andrúmsloftið?

  • Hvernig mynduð þið vilja að samskiptin væru milli þín og þess sem tekur viðtalið?

  • Hvernig mynduð þið vilja að sá sem tekur viðtalið brygðist við, ef þið lýstuð yfir efasemdum eða misskilningi eða ef þið játuðuð alvarlegar syndir?

Ljósmynd
skírn

Skírnarathöfnin

Skírnarathöfnin og staðfestingin ættu að vera andlegur hápunktur fyrir nýjan meðlim. Ráðgera ætti skírnarathöfn um leið og einstaklingur hefur uppfyllt skilyrði fyrir skírn. Útskýrið hvað sé fyrirhugað og hvers vegna. Ræðið réttan klæðaburð, þar á meðal að viðkomandi fær hvít föt til að klæðast fyrir skírnina.

Skírnarathafnir fyrir trúskiptinga eru skipulagðar undir handleiðslu biskupsráðsins. Deildartrúboðsleiðtoginn (ef einhver er kallaður) eða meðlimur forsætisráðs öldungasveitar sem leiðir trúboðsstarfið skipuleggur og stjórnar þessum athöfnum. Hann samræmir með fastatrúboðunum. Skírnarathöfn ætti að vera einföld, stutt og andlega upplyftandi.

Bjóðið meðlim biskupsráðsins, meðlim í forsætisráði Líknarfélagsins og meðlim í forsætisráði öldungasveitarinnar (ef hann stjórnar ekki) að vera viðstödd skírnarathöfnina. Þegar við á, skuluð þið bjóða öðrum samtakaleiðtogum, ungmennaleiðtogum og þjónandi bræðrum og systrum (ef þeim er hefur verið úthlutað). Vinnið með skírnþeganum að því að bjóða vinum og skyldmennum að koma í skírnarathöfnina og staðfestinguna.

Íhugið að bjóða öðru fólki sem þið eruð að kenna. Slíkar upplifanir munu hjálpa því að finna fyrir andanum og læra meira um fagnaðarerindið. Eftir athöfnina, skuluð þið fylgja eftir með því að ræða upplifun þeirra og bjóða þeim kennslu.

Skírnarathöfn getur falið í sér eftirfarandi:

  1. Forspil

  2. Prestdæmisleiðtogi sem stjórnar athöfninni býður fólk stuttlega velkomið (meðlimur biskupsráðsins ætti að vera í forsæti, ef mögulegt er)

  3. Inngangssálmur og bæn

  4. Ein eða tvær stuttar ræður um fagnaðarerindið, eins og skírn og gjöf heilags anda

  5. Valið tónlistaratriði

  6. Skírnin

  7. Tími lotningar meðan þeir sem tóku þátt í skírninni hafa skipti í þurr föt. (Heimilt er að spila eða syngja sálma eða Barnafélagslög á þessum tíma. Trúboðarnir gætu líka þess í stað haft stutta kynningu á fagnaðarerindinu.)

  8. Vitnisburður hins nýja meðlims, ef þess er óskað

  9. Lokasálmur og bæn

  10. Eftirspil

Ef þið ráðgerið að hafa skírn á sunnudegi, skuluð þið velja tíma sem stangast sem minnst á við venjubundnar sunnudagasamkomur.

Ljósmynd
staðfesting

Staðfesting

Einstaklingur tekur á móti staðfestingarathöfn eftir skírn hans eða hennar (sjá Kenning og sáttmálar 20:41). Nýr trúskiptingur telst meðlimur kirkjunnar eftir að helgiathafnir skírnar og staðfestingar hafa báðar verið fullnægjandi framkvæmdar og rétt skráðar.

Staðfestingar eru undir handleiðslu biskups. Hann hefur þó ekki sérstakt viðtal fyrir staðfestingar.

Vinnið náið með biskupi og deildartrúboðsleiðtoga (ef einhver er kallaður), til að tryggja að nýir trúskiptingar séu staðfestir. Staðfesting skal fara fram eins fljótt og eðlilegt er eftir skírn, helst á næsta sunnudegi eftir skírn. Biskup getur þó heimilað að staðfesting fari fram á skírnarathöfninni sem undantekningu (sjá Almenn handbók, 18.8).

Trúskiptingar eru venjulega staðfestir á sakramentissamkomu í deildinni þar sem þeir búa. Biskupinn býður venjulega trúboðsöldungum sem þjóna í deildinni að taka þátt í staðfestingunni. Ef trúboði framkvæmir staðfestinguna, þarf hann einnig samþykki trúboðsforseta (sjá Almenn handbók, 18.8.1). Hið minnsta einn meðlimur biskupsráðsins tekur þátt.

Fylla út eyðublað skírnar og staðfestingar

Mikilvægt er að meðlimaskýrsla sé búin til strax eftir að einstaklingur hefur verið skírður og staðfestur. Moróní ritaði um nýja meðlimi í tengslum við slíkar skýrslur á hans tíma, að þeir „töldust … meðal þeirra, sem tilheyrðu kirkju Krists. Og nöfn þeirra voru skráð, svo að eftir þeim væri munað, og þeir væru nærðir hinu góða orði Guðs til að halda þeim á réttri braut“ (Moróní 6:4).

Þegar þið kennið einhverjum sem býr sig undir skírn, byrjið þá að fylla út eyðublað skírnar og staðfestingar í smáforritinu Preach My Gospel. Útskýrið að eyðublaðið verði notað til að búa til meðlimaskýrslu. Sú skýrsla muni hafa að geyma mikilvægar upplýsingar um helgiathafnir sem viðkomandi taki á móti. Þegar kirkjumeðlimir flytji sé meðlimaskýrslan þeirra send til nýju deildarinnar, svo leiðtogar og meðlimir þess staðar geti stutt hann eða hana.

Um leið og hinn nýi meðlimur er skírður og staðfestur, skuluð þið uppfæra eyðublaðið með upplýsingum um hverja helgiathöfn, þar á meðal hver framkvæmdi hana. Þegar þið hafið fyllt út eyðublaðið, skuluð þið skrá upplýsingarnar í smáforritið Preach My Gospel og senda þær rafrænt til deildarritara. Um leið og ritarinn hefur fengið eyðublaðið í hendur, fer hann yfir það og býr til meðlimaskýrslu.

Eftir að meðlimaskýrsla hefur verið búin til, útbýr ritarinn skírnar- og staðfestingarvottorð. Þetta vottorð er undirritað af biskupi og afhent viðkomandi.

Nafn og kyn á meðlimaskýrslunni og vottorðinu ættu að vera hið sama og á fæðingarvottorði viðkomandi, í fæðingarskrá Þjóðskrár eða núgildandi löglegt nafn.

Einkanám eða félaganám

Lærið Mósía 6:1–3 og Moróní 6:1–4. Hvernig tengjast þessir ritningarhlutar því að halda nákvæmar skýrslur um skírnir og staðfestingar?

Eftir skírn og staðfestingu

Halda áfram þjónustu

Haldið áfram að sýna vinskap og styðja nýja meðlimi eftir að þeir hafa verið skírðir og staðfestir. Hjálpið þeim að sækja kirkju og byggja upp tengsl við meðlimi. Lesið Mormónsbók með þeim og hjálpið þeim að miðla fjölskyldumeðlimum og vinum fagnaðarerindinu. Kynnið þeim bæklinginn Sáttmálsvegurinn minn. Haldið áfram að nota smáforritið Preach My Gospel, til að skrá framfarir þeirra, líkt og mætingu á sakramentissamkomu og lexíurnar sem þeir hafa tekið á móti.

Ljósmynd
karlar faðmast

Kennið trúboðalexíurnar aftur eftir staðfestingu. Þið ættuð að vera leiðandi í kennslunni. Þið skuluð þó eiga samráð við deildarleiðtoga, svo deildartrúboðar eða aðrir meðlimir taki þátt. Þegar þið kennið, skuluð þið hvetja nýja meðlimi til að standa við allar skuldbindingar lexíunnar.

Ráðgist um það á vikulegum samræmingarfundum, hvernig meðlimir geti stutt nýja trúskiptinga og hjálpað þeim að vera virkir þátttakendur í kirkjunni. Ráðgerið hver muni kynna þá fyrir leiðtogum sveitar eða samtaka. Samræmið þátttöku annarra meðlima er þið kennið lexíurnar aftur. Biðjið um að tilnefndir verði þjónandi bræður (og þjónandi systur fyrir konur).

Eftir að karlmaður hefur verið staðfestur, getur hann hlotið Aronsprestdæmið, ef hann verður hið minnsta 12 ára fyrir lok ársins. Aronsprestdæmisvígslur eru undir handleiðslu biskups (sjá Almenn handbók, 38.2.9.1).

Hafið samband við þau sem þið kennið alla ævi, eins og viðeigandi er. Styðjið þau í því að meðtaka blessanir fagnaðarerindis Jesú Krists.

Ljósmynd
Öldungur Gerrit W. Gong

„Þegar við komum með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda, getum við fundið rödd í Jesú Kristi, og verið umvafin skilningsríkum og öruggum örmum hans. Helgiathafnir bjóða upp á sáttmálsaðild og ‚[kraft] guðleikans,‘ til að helga innri tilgang og ytri verk [Kenning og sáttmálar 84:20]. Með kærleiksríkum góðvilja hans og langlundargeði verður kirkja hans, gistihús okkar“ (Gerrit W. Gong, „Rúm í gistihúsinu,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

Hjálpið nýjum meðlimum að taka þátt í blessunum musterisins

Nýir meðlimir á viðeigandi aldri geta fengið musterismeðmæli sem gera þeim mögulegt að láta skírast fyrir látin skyldmenni (sjá Almenn handbók, 26.4.2). Þeir fá þessi meðmæli hjá biskupnum. Hvetjið og hjálpið nýjum meðlimum að verða sér úti um musterismeðmæli, eins fljótt og raunhæft er. Ef musteri er nálægt, skuluð þið íhuga að bjóða nýjum meðlimum á ákveðnum tíma að skíra látna áa.

Á vikulegum samræmingarfundum, skuluð þið ráðgera hverjir munu kynna nýja meðlimi fyrir leiðtoga musteris- og ættarsögustarfs í deildinni. Sá leiðtogi getur hjálpað þeim að búa sig undir að hljóta blessanir musterisins með því að gera eigin musterissáttmála.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Tilgreinið þær áskoranir sem skírnþeginn gæti staðið frammi fyrir. Hvers vegna er mikilvægt að einstaklingur finni fyrir kærleika og vináttu kirkjumeðlima?

  • Lærið Moróní 6 og Kenningu og sáttmála 20:68–69. Hvað getið þið lært af þessum versum um að hjálpa fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu? Skráið það sem þið lærið. Miðlið félaga ykkar hugsunum ykkar meðan á félaganámi stendur.

Félaganám og félagaskipti

  • Henry B. Eyring forseti útskýrði hvers vegna staðlar fagnaðarerindisins eru mikilvægir. Ræðið eftirfarandi leiðsögn. Hvernig getið þið vakið þrá fólks til að uppfylla þessa staðla?

    „Drottinn setur reglur sínar svo að hann geti blessað okkur. Hugleiðið blessanirnar. Þeim sem reglurnar halda lofar hann hjálp heilags anda. Hann lofar persónulegum friði. Hann lofar þeim tækifæri til að hljóta helgiathafnirnar í húsi hans. Og hann lofar þeim sem af staðfestu lifa eftir reglum hans að þeir hljóti eilíft líf. …

    Við elskum það fólk sem við þjónum og því viljum við öll enn betur hjálpa börnum himnesks föður að vera það staðföst og hrein að þau hljóti allar blessanir Drottins. …

    Þið byrjið með því að leggja áherslu á reglur Drottins, greinilega og án afsökunar. Og því lengra sem heimurinn hrekst frá þeim og hæðir þær, því ákveðnari verðum við í því verki okkar“ („Standards of Worthiness,“ First Worldwide Leadership Training Meeting, jan. 2003, 10–11).

  • Kynnið ykkur viðtalsspurningar skírnar. Íhugið hvernig þið mynduð takast á við aðstæður eins og eftirfarandi:

    • Einstaklingurinn sagði þér ekki að hann væri á skilorði fyrir glæp.

    • Einstaklingurinn hefur ekki fengið svar við bæn um að Joseph Smith hafi verið spámaður.

    • Einstaklingurinn reykti sígarettu fyrir tveimur dögum.

    • Einstaklingurinn er ekki viss um að hann hafi hlotið svar við bænum sínum.

    • Fjölskyldan fann fyrir þrýstingi frá vinum og er ekki viss um að þau séu tilbúin fyrir skírn.

  • Farið yfir eyðublað skírnar og staðfestingar. Hvers vegna ættu upplýsingarnar sem þið skráið að vera réttar og fullnægjandi?

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Lesið um mikilvægi skírnarviðtalsins. Ræðið hvernig trúboðar geta hjálpað fólki að búa sig undir viðtalið.

  • Ræðið hvernig hægt er að nota skírnarathafnir og staðfestingar sem tækifæri til að finna fólk.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Vinnið með leiðtogum prestdæmis og samtaka til að ganga úr skugga um að þeir noti Framfaraskýrslu sáttmálsvegar á áhrifaríkan hátt.

  • Kennið umdæmisleiðtogum, svæðisleiðtogum og þjálfunarleiðtogum systra hvernig búa á fólk undir skírnarviðtalið. Bjóðið þeim að þjálfa aðra trúboða í því að búa fólk undir þetta viðtal.

  • Kennið umdæmis- og svæðisleiðtogum hvernig standa á að skírnarviðtölum.

  • Kennið hvernig bregðast á við í skírnarviðtali þegar einstaklingur opinberar að hann eða hún hafi drýgt alvarlega synd.

  • Sækið skírnarathafnir nýrra meðlima þegar mögulegt er. Ræðið við nýju meðlimina og kynnið ykkur trúarlegar upplifanir þeirra. Miðlið félaga ykkar og öðrum trúboðum því sem þið lærið.

Prenta