Ritningar
2 Nefí 6


6. Kapítuli

Jakob segir sögu Gyðinga: Ánauð þeirra í Babýlon og endurkoma; þjónusta og krossfesting hins heilaga Ísraels; hjálp frá Þjóðunum; og síðari daga endurreisn Gyðinga þegar þeir trúa á Messías. Um 559–545 f.Kr.

1 Orðin sem Jakob, bróðir Nefís, mælti til Nefíþjóðarinnar:

2 Sjá, hjartkæru bræður mínir. Ég, Jakob, sem kallaður hef verið af Guði og vígður að hætti hans heilögu reglu og helgaður af bróður mínum Nefí, sem þér lítið til sem konungs yðar eða verndara og bindið öryggi yðar við, sjá, þér vitið, að ég hef talað margt og mikið við yður.

3 Engu að síður tala ég enn til yðar, því að mér er annt um velferð sálna yðar. Já, áhyggjur mínar vegna yðar eru þungar, og þér vitið sjálf, að það hafa þær ávallt verið, því að ég hef hvatt yður af óþreytandi elju, kennt yður orð föður míns og rætt við yður um allt það, sem ritað hefur verið, allt frá sköpun jarðar.

4 Og sjá. Nú hyggst ég tala við yður bæði um það, sem er, og það, sem verður. Þess vegna ætla ég að lesa orð Jesaja fyrir yður, en það eru þau orð, sem bróðir minn vill, að ég lesi yður. Og ég mæli þau til yðar sjálfra yðar vegna, svo að þér megið fræðast og gjöra nafn Guðs yðar dýrðlegt.

5 Orðin, sem ég ætla að lesa, eru þau orð, sem Jesaja mælti varðandi alla Ísraelsætt. Þau eiga þess vegna við yður, þar eð þér eruð af Ísraelsætt. Og margt af því, sem Jesaja hefur sagt, á við yður, þar eð þér eruð af Ísraelsætt.

6 Og þetta eru orðin: Svo mælir Drottinn Guð: Ég mun banda hendi minni til Þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðinn, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér og bera dætur þínar hingað á herðum sér.

7 Og konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og þeir verða sér ekki til skammar, sem eftir mér bíða.

8 Og nú langar mig, Jakob, að ræða þessi orð nokkuð. Því að sjá, Drottinn hefur sýnt mér, að þeir, sem voru í Jerúsalem, þaðan sem við komum, hafa verið drepnir eða fluttir burtu ánauðugir.

9 Engu að síður hefur Drottinn sýnt mér, að þeir munu snúa aftur. Og hann hefur auk þess sýnt mér, að Drottinn Guð, hinn heilagi Ísraels, mun opinbera sig þeim í holdinu. Og þegar hann hefur opinberað sig þeim, munu þeir húðstrýkja hann og krossfesta samkvæmt orðum engilsins, sem sagði mér frá þessu.

10 Og er þeir hafa hert hjörtu sín gegn hinum heilaga Ísraels og gerst harðsvíraðir í hans garð, sjá, þá munu dómar hins heilaga Ísraels upp kveðnir yfir þeim. Og sá dagur mun upp renna, er þeir verða niður slegnir og að þeim þrengt.

11 Eftir að hafa því verið hraktir fram og aftur, því að þannig orðaði engillinn það, munu margir þeirra verða fyrir þrengingum í holdinu, en þeim ekki leyft að farast vegna fyrirbæna hinna trúuðu. Þeim mun tvístrað, þeir munu lostnir og fyrirlitnir. Engu að síður mun Drottinn vera þeim miskunnsamur, að þegar þeir hafa öðlast þekkingu á lausnara sínum mun þeim safnað aftur til erfðalands síns.

12 Og blessaðar eru Þjóðirnar, en um þær ritaði spámaðurinn: Sjá, fari svo að þeir iðrist, berjist ekki gegn Síon og sameinist ekki hinni voldugu og viðurstyggilegu kirkju, munu þeir hólpnir, því að Drottinn Guð mun uppfylla þá sáttmála, sem hann hefur gjört við börn sín. Og af þessari ástæðu hefur spámaðurinn fært þetta í letur.

13 Af þessum sökum munu þeir, sem berjast gegn Síon og sáttmálsþjóð Drottins, sleikja duftið af fótum þeirra. Og lýður Drottins verður sér ekki til skammar, því að Drottins eru þeir, sem hans vænta, því að þeir vænta enn komu Messíasar.

14 Og sjá. Samkvæmt orðum spámannsins, mun Messías öðru sinni takast á hendur að endurheimta þá. Þess vegna mun hann opinbera sig þeim í veldi og mikilli dýrð til tortímingar óvinum þeirra, þegar sá dagur rennur upp, að þeir trúa á hann. Og engum mun hann tortíma, sem á hann trúir.

15 En þeim, sem trúa ekki á hann, mun tortímt, bæði með eldi, fárviðri, jarðskjálftum, blóðsúthellingum, drepsótt og hungursneyð. Og þeim verður ljóst, að Drottinn er Guð, hinn heilagi Ísraels.

16 Því að hvort mun herfangið tekið af hinum sterka eða réttmætur fangi leystur úr haldi?

17 En svo mælti Drottinn: Jafnvel fangar hinna sterku verða frá þeim teknir og herfang ofbeldismannsins mun framselt, því að hinn máttugi Guð mun varðveita sáttmálsþjóð sína. Því að svo mælti Drottinn: Ég mun berjast gegn þeim, sem berjast gegn þér —

18 Og ég mun láta kúgara þína éta sitt eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði eins og af gómsætu víni, og allt hold mun komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn og lausnari, hinn máttugi Jakobs.