Námshjálp
ÞJS, Opinberunarbókin1


ÞJS, Opinberunarbókin 1:1–8. Samanber Opinberunarbókin 1:1–8

Postulinn Jóhannes tekur á móti opinberunum Opinberunarbókar. Jesús Kristur og engill vitja hans.

1 Opinberun Jóhannesar, þjóns Guðs, sem Jesús Kristur gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum —

2 Sem ber vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, og um allt það er hann sá.

3 Blessaður er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og skilja, og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að komutími Drottins er í nánd.

4 Þetta er vitnisburður Jóhannesar til þjónanna sjö, sem yfir söfnuðunum sjö í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og koma mun, sem sent hefur engil sinn frá hásæti sínu, til að vitna fyrir þeim, sem eru þjónarnir sjö yfir söfnuðunum sjö.

5 Því vitna ég, Jóhannes, sem er votturinn trúi, um þá hluti sem engillinn færði mér frá Jesú Kristi, frumburði dauðra, höfðingja yfir konungum jarðarinnar.

6 Og dýrð sé honum sem elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu og gjörði oss að konungum og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

7 Sjá, hann kemur í skýjunum með tíu þúsundum sinna heilögu úr ríkinu, umvafinn dýrð föður síns. Og hvert auga mun sjá hann, þeir sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.

8 Því að hann segir: ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn, Drottinn sem er og sem var og sem mun koma, hinn alvaldi.