Er við ljúkum þessari ráðstefnu
Megið þið ígrunda sannleikann sem þið hefið heyrt og megi hann hjálpa ykkur að verða jafnvel enn betri en þið voruð áður en ráðstefnan hófst.
Hjarta mitt er barmafullt er við ljúkum þessari dýrðlegu ráðstefnu. Við höfum verið svo ríkulega blessuð þegar við höfum hlustað á leiðsögn og vitnisburði þeirra sem talað hafa til okkar. Ég held að þið séuð mér sammála um að við höfum fundið anda Drottins, er við höfum hrærð í hjarta styrkt vitnisburði okkar.
Enn höfum við notið yndislegrar tónlistar, sem hefur auðgað alla aðalráðstefnuna og aukið áhrif hennar. Ég færi öllum þeim þakkir sem hafa miðlað okkur af hæfileikum sínum í þessum tilgangi.
Ég færi öllum þeim sem hafa talað til okkar, svo og þeim sem flutt hafa bænir á allri ráðstefnunni, mínar innilegustu þakkir.
Ótal manns starfar á bak við tjöld hverrar ráðstefnu eða í lítt áberandi stöðum. Við gætum ekki haldið slíka ráðstefnu án þeirra framlags. Við færum þeim líka þakkir.
Ég veit að þið sameinist mér í því að tjá þeim bræðrum og systrum sem voru leyst af á ráðstefnunni innilegar þakkir. Við munum sakna þeirra. Framlag þeirra til verks Drottins er mikið og áhrifa þess mun gæta meðal komandi kynslóða.
Við höfum líka stutt með upplyftum höndum bræðurna og systurnar sem kölluð voru í embætti á þessari ráðstefnu. Við bjóðum þau velkomin og viljum láta þau vita að við hlökkum til að starfa með þeim að málstað meistarans. Þau hafa verið kölluð með innbæstri að ofan.
Umfang ráðstefnu þessarar á sér ekki fordæmi, en hún nær yfir höf og meginlönd, til fólks hvarvetna. Þótt vegalengdin sé löng á milli margra okkar, skynjum við anda ykkar og hollustu, og færum ykkur þakkir og elsku, hvar sem þið eruð.
Hve blessuð við erum, kæru bræður og systur, að hafa hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists í lífi okkar og hjörtum. Það veitir svör við mikilvægustu spurningum lífsins. Það gefur lífi okkar merkingu, tilgang og von.
Við lifum á erfiðum tímum. Ég fullvissa ykkur um að himneskur faðir er minnugur áskorana okkar. Hann elskar sérhvert okkar og þráir að blessa og hjálpa okkur. Megum við ákalla hann í bæn, því hann hefur boðið: „Bið ávallt og ég mun úthella anda mínum yfir þig og mikil verður blessun þín ‒ já, jafnvel meiri en þó að þú hlytir fjársjóði á jörðu.“1
Kæru bræður og systur, megi heimili ykkar fyllast elsku og háttprýði og anda Drottins. Elskið fjölskyldu ykkar. Ef misklíð eða deilur eru meðal ykkar, brýni ég fyrir ykkur að útkljá slíkt nú. Frelsarinn sagði:
„Og engin sundrung skal vera á meðal yðar. …
Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hver gegn öðrum.
„[En] sjá! Það er ekki mín kenning … heldur er það kenning mín, að slíkt skuli afnumið.“2
Sem auðmjúkur þjónn ykkar enduróma ég orð Benjamíns konungs í ræðu hans til fólks síns, þar sem hann segir:
„Ég hef ekki boðað yður ... að þér ... haldið mig annað og meira ... en dauðlegan mann.
Ég er haldinn alls kyns veikleika á sálu og líkama eins og þér sjálfir. Engu að síður hefur ... hönd Drottins [valið ] mig. Og ég hef notið verndar og varðveislu hins óviðjafnanlega kraftar hans til að þjóna yður af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn hefur léð mér.“3
Kæru bræður og systur, ég þrái af öllu hjarta að gera vilja Guðs og þjóna honum og ykkur.
Er við nú höldum frá þessari ráðstefnu, bið ég auðmjúkur um blessanir himins yfir hvert ykkar. Megið þið sem eruð fjarri heimilum ykkar komast örugg heim. Megið þið ígrunda sannleikann sem þið hefið heyrt og megi hann hjálpa ykkur að verða jafnvel enn betri en þið voruð fyrir tveimur dögum, áður en ráðstefnan hófst.
Ég bið þess að blessanir Drottins verði með ykkur, þar til við hittumst aftur eftir sex mánuði, já, með okkur öllum, og það geri ég í hans helga nafni ‒ já, Jesú Krists, Drottins okkar og frelsara ‒ amen.