2010–2019
Samstillt tónlist trúar
Apríl 2012


Samstillt tónlist trúar

Guð elskar öll sín börn. Hann þráir að þau komi öll til sín. Hann þráir að sérhver verði samhljóma hinni helgu tónlist trúar.

Við sem aðalvaldhafar kirkjunnar, er hittum meðlimi víða um heim, sjáum frá fyrstu hendi hvernig hinir Síðari daga heilögu láta gott af sér leiða. Við þökkum ykkur fyrir allt sem þið gerið til að blessa aðra.

Þau okkar sem starfa við almannatengsl verða greinilega vör við að margt áhrifafólk og fjölmiðlafólk í Bandaríkjunum og víða um heim hafa aukið almenna umræðu um kirkjuna og meðlimi hennar. Margir og samverkandi þættir hafa valdið því að kirkjan er orðin mun þekktari.1

Margir sem hafa skrifað um kirkjuna hafa gert einlægar tilraunir til að skilja fólk okkar og kenningar. Þeir hafa sýnt kurteisi og reynt að vera hlutlausir og við erum þakklátir fyrir það.

Við sjáum líka að margir hér í heimi eru ekki samhljóma hinu helga. Lávarður Sacks, aðalrabbíni Englands, ávarpaði rómversk-kaþólska leiðtoga síðastliðinn desember í Pontifical Gregorian háskólanum, og benti á hve sumir hlutar heims væru orðnir veraldlegir. Hann sagði eina lögbrjótana vera „harðskeytta vísindalega trúsleysingja úr takt við tónlist trúar.“2

Hinn spámannlegi draumur Lehís um tré lífsins3 er dásamleg sýn í upphafi Mormónsbókar. Sú sýn lýsir algerlega þeim áskorunum sem fylgir trúnni á okkar tímum og gjánni sem er á milli þeirra sem elska Guð, tilbiðja hann og finna til ábyrgðar gagnvart honum og þeirra sem ekki gera það. Lehí tilgreinir nokkuð af þeirri breytni sem grefur undan trúnni. Sumt af því er dramb, hégómi og heimska. Slíkir hafa aðeins áhuga á því sem nefnist viska heimsins.4 Aðrir hafa einhvern áhuga á Guði, en eru villuráfandi í niðdimmri veraldlegri þoku og synd.5 Enn aðrir hafa upplifað elsku Guðs og orð hans, en fyrirverða sig sökum þeirra sem hæða þá, og þeim skrikar fótur á „forboðnum vegum.“6

Og loks eru það þeir sem eru samstilltir tónlist trúarinnar. Þið vitið hvaða hópi þið tilheyrið. Þið elskið Drottin og fagnaðarerindi hans og reynið stöðugt að lifa eftir og miðla boðskap hans, einkum með fjölskyldum ykkar.7 Þið eruð samhljóma innblæstri andans, meðvituð um kraft orðs Guðs, hafið trúarkennslu á heimilum ykkar og reynið af kostgæfni að lifa kristilegu lífi sem lærisveinar hans.

Við vitum hve önnum kafin þið eruð. Sú ábyrgð að þjóna í kirkjunni hvílir á ykkur, hinum trúföstu meðlimum, þar eð við höfum ekki launaða prestastétt. Við vitum að almennt er fyrir meðlimi biskupsráðs og stikuforsætisráðs og marga fleiri að inna af hendi margra klukkustunda dygga þjónustu. Forsætisráð aðildarfélaganna eru fordæmi um óeigingjarna fórn. Slík þjónusta og fórn eru viðvarandi allan aðildartímann hjá þeim sem halda kirkjuskrár, eru trúfastir heimilis- og heimsóknarkennarar og trúarnámskennarar. Við erum líka þakklát þeim sem hugdjarfir þjóna sem skátaleiðtogar og eða kenna í barnastofu. Þið njótið öll væntumþykju og þakklætis okkar fyrir það sem þið gerið og eruð!

Við vitum að sumir meðlimir hafa minni áhuga og eru ekki jafn trúfastir sumum kenningum frelsarans. Við þráum að þeir meðlimir verði fyllilega meðvitaðir um trú sína og auki virkni sína og skuldbindingu. Guð elskar öll sín börn. Hann þráir að þau komi öll til sín. Hann þráir að sérhver verði samhljóma hinni helgu tónlist trúar. Friðþæging frelsarans er sérhverjum gjöf.

Það þarf að kenna og skilja að við elskum og virðum alla þá sem Lehí tilgreindi.8 Minnist þess að það er ekki okkar að dæma. Dómurinn er Drottins.9 Thomas S. Monson forseti hefur sérstaklega beðið okkur að hafa „hugrekki til að dæma ekki aðra.“10 Hann hefur líka beðið sérhvern trúfastan meðlim að koma þeim til bjargar sem hafa bragðað á ávexti fagnaðarerindisins og síðan villst frá, sem og þeim sem hafa enn ekki fundið hinn krappa og þrönga veg. Við biðjum þess að þeir nái taki á járnstönginni og meðtaki af elsku Guðs, sem fyllir „sál [þeirra] ákaflega miklum fögnuði.“11

Þótt sýn Lehís eigi við alla menn, er hið kenningarlega meginefni eilíft mikilvægi fjölskyldunnar. „Fjölskyldan er vígð af Guði. Hún er mikilvægasta einingin um tíma og eilífð.“12 Þegar Lehí hafði meðtekið af ávexti lífsins trés (elsku Guðs), þráði hann að „fjölskylda [hans] mætti einnig neyta hans.“13

Okkar dýpsta þrá er að ala börn okkar upp í sannleika og réttlæti. Ein sú regla sem hjálpar okkur að gera það er að forðast að vera of dómharður varðandi hegðun sem er heimskuleg eða óskynsamleg en ekki syndsamleg. Fyrir mörgum árum, meðan börnin bjuggu enn heima hjá okkur hjónunum, kenndi öldungur Dallin H. Oaks okkur að mikilvægt væri að gera greinarmun á æskubreki sem ætti að leiðrétta og syndum, sem krefðust ögunar og iðrunar.14 Sé skortur á visku, þarf að fræða börn okkar. Sé um synd að ræða, er iðrun nauðsynleg.15 Við höfðum gagn af þessu í fjölskyldu okkar.

Trúarsiðir á heimilinu blessa fjölskyldur okkar. Fordæmið er sérlega mikilvægt. Það sem við erum hljómar svo hátt að börn okkar heyra kannski ekki hvað við segjum. Þegar ég var um fimm ára gamall bárust móðir minni þau orð að yngri bróðir hennar hefði látist þegar orrustuskipið sem hann þjónaði á varð fyrir sprengju við strendur Japans, við lok Síðari heimsstyrjaldarinnar.16 Þetta voru henni hörmuleg tíðindi. Hún varð afar klökk og fór inn í svefnherbergi sitt. Að nokkurri stund liðinni leit ég inn í herbergið til að gá hvort allt væri í lagi. Hún kraup við rúmstokkinn í bæn. Ég fylltist miklum friði, því hún hafði kennt mér að biðja og elska frelsarann. Þetta var dæmigert fyrir það fordæmi sem hún sýndi mér. Mæður og feður sem biðja með börnum sínum kunna að sýna mikilvægasta fordæmi allra.

Boðskapur, þjónusta og friðþæging Jesú Krists, frelsara okkar, er nauðsynlegt námsefni fyrir fjölskylduna. Engin ritningargrein lýsir betur trú okkar en 2 Ne 25:26: „Og vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“

Eitt af því sem sýn Lehís kennir okkur er að trúfastir meðlimir þurfa að halda fast í járnstöngina, til að þeir haldist á hinum krappa og þrönga vegi sem liggur að lífsins tré. Mikilvægt er að meðlimir lesi, læri og ígrundi ritningarnar.17

Mormónsbók er afskaplega mikilvæg.18 Sumir munu auðvitað alltaf vanmeta eða jafnvel óvirða mikilvægi þessarar helgu bókar. Sumir sýna henni háðung. Áður en ég þjónaði í trúboði vitnaði háskólaprofessor í Mark Twain sem sagði, að ef orðin „og svo bar við“ yrðu tekin út úr Mormónsbók, yrði „hún aðeins bæklingur einn.“19

Nokkrum mánuðum síðar, er ég þjónaði í trúboði í London, Englandi, las háttvirtur prófessor og fræðimaður við Lundúnarháskóla, og sérfræðingur í semískum málum, Mormónsbók, átti bréfaskipti við David O. McKay forseta og átti stefnumót við trúboða kirkjunnar. Hann sagði þeim að hann væri sannfærður um að Mormónsbók væri þýðing á fræðum Gyðinga og málvenja Egypta þau tímabil sem fjallað er um í Mormónsbók.20 Eitt af mörgum dæmum sem hann vísaði í var samhengi orðasambandsins „og svo bar við,“ sem hann sagði endurspegla hvernig hann hefði þýtt orðasambandið úr semískum ritum.21 Þess var getið við prófessorinn að þótt fræðileg nálgun hans á efninu hefði verið honum gagnleg, yrðu hann samt að hljóta andlegan vitnisburð. Hann hlaut andlegan vitnisburð með bæn og ígrundun og var skírður. Það sem frægur húmoristi áleit háðungarefni, var fræðimanni óyggjandi sönnun um sannleiksgildi Mormónsbókar, sem hann hlaut staðestingu á með andanum.

Hin mikilvæga kenning um sjálfræði gerir þá kröfu að vitnisburður um hið endurreista fagnaðarerindi byggist á trú, fremur en ytri eða vísindalegum sönnunum. Að ígrunda þrálátlega það sem enn hefur ekki verið fyllilega opinberað, líkt og hvernig getnaður og upprisa frelsarans gátu átt sér stað eða hvernig Joseph Smith nákvæmlega þýddi ritningarnar, er ekki gagnlegt eða andlega þroskandi. Þetta snýst um trú. Þegar allt kemur til alls, þá felst svarið í þeirri leiðsögn Morónís, að lesa og ígrunda og síðan að biðja Guð af einlægu hjarta og ásetningi, um að staðfesta andlegan sannleika með vitnisburði andans.22 Þegar við svo auk þess tileinkum okkur það sem er andlega nauðsynlegt og lifum eftir fagnaðarerindinu, njótum við blessana andans og upplifum góðvild hans, gleði, hamingju og einkum frið.23

Það sem greinilega er aðgreinandi fyrir þá sem heyra tónlist trúar og þá sem eru úr takt við hana, er stöðugt ritningarnám. Ég var djúpt snortinn fyrir mörgum árum yfir þeirri miklu áherslu sem okkar ástkæri spámaður, Spencer W. Kimball, lagði á lestur og nám ritninganna. Hann sagði: „Ég hef komist að því að þegar ég verð kærulaus í samskiptum mínum við Guðdóminn, og svo virðist sem ekkert guðlegt eyra hlusti og engin guðleg rödd mæli, og ég hef fjarlægst mjög, að fjarlægðin minnkar og andríkið eykst, þegar ég sökkvi mér niður í ritningarnar.“24

Ég vona að við séum reglubundið að lesa Mormónsbók með börnum okkar. Ég hef rætt það við börnin mín. Þau hafa gefið mér tvær ábendingar. Í fyrsta lagi, þá er þrautseigja lykillinn að því að lesa ritningarnar daglega saman sem fjölskylda. Dóttir mín lýsti á gamansaman hátt viðleitni þeirra til að hafa reglubundinn ritningarlestur með börnum sínum á unglingsaldri. Hún og eiginmaður hennar vakna árla morguns, ganga fram hálf sofandi og grípa um stigahandriðið til að fikra sig niður stigann þangað sem fjölskyldan kemur saman til að lesa orð Guðs. Þrautseigja er svarið og gamansemi kemur að gagni. Þetta krefst áreynslu allra í fjölskyldunni dag hvern, en það er erfiðisins virði. Þrautseigja sigrar tímabundið bakslag.

Í öðru lagi, er það hvernig yngsti sonur okkar og eiginkona hans lesa ritningarnar með ungum börnum sínum. Tvo af fjórum börnum þeirra eru svo ung að þau eru ekki læs. Þau nota fimm fingra tákn fyrir fimm ára son sinn, til að kalla fram ákveðin viðbröð hjá honum, svo hann taki fullan þátt í ritningarlestrinum. Við fyrsta fingurtáknið á hann að endurtaka: „Og svo bar við,“ alltaf þegar þau orð koma fyrir í Mormónsbók. Ég verð að segja að ég nýt þeirrar staðreyndar hve oft orðin koma fyrir. Tilviljun er, til að halda áhuga yngri barnanna vakandi, að annað fingratáknið er fyrir orðin „og þannig sjáum við.“ Foreldrarnir velja svo þriðja, fjórða og fimmta fingratáknið eftir orðum kaflans sem lesinn er.

Við vitum að fjölskylduritningarlestur og fjölskyldukvöld eru ekki alltaf hnökralaus. Látið ekki hugfallast, hverjar sem áskoranir ykkar eru.

Áttið ykkur vinsamlega á að trú á Drottin Jesú Krist og hlýðni við boðorð hans, eru og munu alltaf verða mikilvægasta prófraun jarðlífsins. Og framar öllu, þá verður hverju okkar að verða ljóst að þegar við daufheyrumst við tónlist trúar, erum við ekki samhljóma andanum. Líkt og spámaðurinn Nefí sagði: „Þið hafið heyrt rödd hans … ; og hann hefur talað til ykkar lágri, hljóðlátri röddu, en þið voruð orðnir svo tilfinningalausir, að þið gátuð ekki skynjað orð hans.“25

Kenning okkar er skýr; okkur ber að vera jákvæð og glöð. Við einblínum á trú okkar, ekki ótta. Við fögnum í þeirri fullvissu að Drottinn muni styðja okkur og veita okkur handleiðslu og leiðsögn.26 Heilagur andi vitnar í hjörtum okkar um að við eigum kærleiksríkan föður á himnum, og miskunnaráætlun hans um endurlausn okkar mun algjörlega ná fram að ganga, vegna friðþægingar Jesú Krists.

Líkt og Naomi W. Randall, höfundur sálmsins „Guðs barnið eitt ég er,“ orti: „Hans andi mig leiðir; elska hans rekur út ótta, er trúin sigrar.“27

Við skulum því, hvar sem við erum á vegi lærisveinsins í sýn Lehís, vekja okkur og fjölskyldu okkar sterkari þrá til að hagnýta okkur hina óviðjafnanlegu gjöf frelsarans, sem er eilíft líf. Ég bið þess að við megum vera samhljóma tónlist trúar. Ég ber vitni um guðleika Jesú Krists og raunveruleika friðþægingar hans, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Kenning og sáttmálar 1:30.

  2. Jonathan Sacks, „Has Europe Lost Its Soul?“ (ræða flutt 12. des. 2011, í Pontifical Gregorian háskólanum), chiefrabbi.org/ReadArtical.aspx?id=1843.

  3. Sjá 1 Ne 8.

  4. Sjá 1 Ne 8:27; 11:35.

  5. Sjá 1 Ne 8:23; 12:17.

  6. 1 Ne 8:28.

  7. Sjá 1 Ne 8:12.

  8. Kennsla frelsarans um að leita hinna týndu sauða; sjá Matt 18:12–14.

  9. Sjá Jóh 5:22; sjá einnig Matt 7:1–2.

  10. Thomas S. Monson, „May You Have Courage,” Líahóna og Ensign, maí 2009, 124.

  11. 1 Ne 8:12.

  12. Handbook 2: Administering the Church (2010), 1.1.1.

  13. 1 Ne 8:12.

  14. Sjá Dallin H. Oaks, „Sins and Mistakes,” Ensign, okt. 1996, 62. Öldungur Oaks kenndi þessa hugmynd þegar hann var forseti Brigham Young háskólans um 1980.

  15. Sjá Kenning og sáttmálar 1:25–27.

  16. Sjá Marva Jeanne Kimball Pedersen, Vaughn Roberts Kimball: A Memorial (1995). Vaughn lék fótbolta sem leikstjórnandi fyrir Brigham Young háskólann haustið 1941. Daginn eftir árásina á Pearl Harbor, 8. desember 1941, skráði hann sig í sjóher Bandaríkjanna. Hann beið bana 11. maí 1945, í sprengjuárás óvinarins gegn USS Bunker Hill, og var greftraður í sjó.

  17. Sjá Jóh 5:39.

  18. Sjá Ezra Taft Benson, „The Book of Mormon ‒ Keystone of Our Religion,” Ensign, nóv. 1986, 4; eða Líahóna og Ensign, okt. 2011, 52.

  19. Mark Twain, Roughing It (1891), 127–28. Ábendingar Twins eru kynntar hverri nýrri kynslóð, líkt og þær væru merkilegar nýjar uppgvötanir. Lítið er yfirleitt vísað til þeirrar staðreyndar að Mark Twain var lítt hliðhollur öllum kristnum trúarbrögðum og almennt öllum trúarbrögðum.

  20. Sjá 1 Ne 1:2.

  21. Ég hitti dr. Ebeid Sarofim í London, þegar öldungarnir kenndu honum. Sjá einnig N. Eldon Tanner, í Conference Report, apríl 1962, 53. Margir fræðimenn í semískum og egypskum ritum hafa tekið eftir endurtekinni notkun orðasambandsins „og svo bar við“ í upphafi setningar; sjá Hugh Nibley, Since Cumorah, 2. útg. (1988), 150.

  22. Sjá Moró 10:3–4; afar fáir gagnrýnendur hafa látið á þetta reyna af einlægum ásetningi.

  23. Sjá Kenning og sáttmálar 59:23.

  24. Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball (2006), 67.

  25. 1 Ne 17:45; sjá einnig Ezra Taft Benson, „Seek the Spirit of the Lord,” Tambuli, sept. 1988, 5; Ensign, apr. 1988, 4: „Oftast heyrum við orð Drottins sem tilfinningu. Ef við erum auðmjúk og næm, mun Drottinn veita okkur innblástur gegnum tilfinningar.“

  26. Sjá Kenning og sáttmálar 68:6.

  27. „When Faith Endures,” Hymns, nr. 128.