2010–2019
Hann elskar okkur sannlega
Apríl 2012


Hann elskar okkur sannlega

Vegna þessarar himnesku forskriftar fjölskyldunnar, skiljum við betur að faðir okkar á himnum elskar sérhvert okkar fullkomlega og að jöfnu.

Ég hef yndi af því að vera í návist fastatrúboðanna. Þeir eru fullir trúar, vonar og einlægs kærleika. Trúboðsreynsla þeirra er eins og lítill-lífsreynslu-pakki yfir 18 til 24 mánuði. Þeir koma sem andlegir hvítvoðungar, fullir af áhuga á að læra, og fara sem þroskaðir fulltíða menn, greinilega undir það búnir að sigrast á öllum áskorunum sem á vegi þeirra verða. Ég ann líka trúföstu eldri trúboðunum, sem eru fullir af þolinmæði, visku og sannfæringu. Þeir veita hinu fjörmikla æskufólki umhverfis kærleika og stöðugleika. Sameiginlega eru ungu trúboðarnir og eldri hjónin kraftmikið og þolgott afl til góðs, sem hefur djúp áhrif á líf þeirra og líf þeirra sem njóta þjónustu þeirra.

Nýlega hlustaði ég á tvo slíka unga og undursamlega trúboða, er þeir sögðu frá reynslu sinni og starfi. Á þeirri stund ígrundunar var þeim hugsað til einstaklinganna sem þeir höfðu hitt þann daginn, sem verið höfðu mismótækilegir. Er þeir íhuguðu aðstæðurnar, spurðu þeir: „Hvernig getum við hjálpað hverjum og einum að auka þrá sína eftir að þekkja betur himneskan föður? Hvernig hjálpum við þeim að skynja andann? Hvernig getum við hjálpað þeim að vita að okkur er annt um þá?“

Í huga mínum sá ég þessa tvo ungu menn fyrir mér að þremur til fjórum árum liðnum frá trúboði þeirra. Ég sá þá fyrir mér með eilífum maka að þjóna í öldungasveit eða kenna hópi ungra manna. Og í stað þess að hugsa um trúarnema sína, voru þeir að spyrja sömu spurninga varðandi meðlimi sveitar sinnar eða ungu mennina sem þeim var falið að annast. Ég sá fyrir mér hvernig trúboðsreynsla þeirra var sem sniðin fyrir síðari umönnun annarra alla þeirra ævi. Þegar þessi hersveit réttlátra lærisveina snúa heim úr trúboði sínu, til margra landa víða um heim, eruð þeir orðnir lykilverkamenn í því verki að efla kirkjuna.

Lehí, spámaður í Mormónsbók, hefði getað ígrundað þessar sömu spurningar trúboðanna, er hann hlustaði á andsvör sona sinna við leiðsögninni og sýninni sem hann hlaut: „Þannig mögluðu Laman og Lemúel, sem elstir voru, gegn föður sínum. Og þeir gjörðu svo, vegna þess að þeir þekktu eigi vegu þess Guðs, sem skóp þá“ (1 Ne 2:12).

Kannski höfum við öll upplifað samskonar vonbrigði og Lehí upplifði vegna tveggja elstu sona sinna: Þegar við sjáum villuráfandi barn, óráðinn trúarnema eða ómóttækilegt öldungaefni, finnum við sorg í hjarta, líkt og Lehí, og við spyrjum: „Hvernig get ég hjálpað þeim að skynja og hlusta á andann, svo þeir drukkni ekki í veraldlegu amstri?“ Tvær ritningargreinar eru mér minnisstæðar, sem geta hjálpað okkur í slíkum vanda og hjálpað okkur að finna kærleika Guðs.

Nefí opnar okkur leið til lærdóms með frásögn af eigin reynslu: „Ég, Nefí, sem var ... fullur af þrá eftir að kynnast leyndardómum Guðs, ákallaði Drottin. Og sjá. Hann vitjaði mín og mildaði hjarta mitt svo, að ég lagði trúnað á öll orð föður míns. Þess vegna reis ég ekki gegn honum eins og bræður mínir“ (1 Ne 2:16).

Að vekja þrá eftir vitneskju gerir okkur andlega hæf til að hlýða á rödd himins. Að finna leið til að vekja og rækta slíka þrá, er verkefni og ábyrgð okkar allra ‒ trúboða, foreldra, kennara, leiðtoga og meðlima. Þegar við finnum slíka þrá bærast í hjörtum okkar, erum við undir það búin að njóta góðs af öðrum ritningargreinum sem ég ætla að ræða um.

Í júní 1831, þegar fyrri kirkjuleiðtogar voru kallaðir til starfa, var Joseph sagt að „Satan [færi] um landið og [að hann komi og blekki] þjóðirnar.“ Til að sporna gegn þessum afvegaleiðandi áhrifum sagðist Drottinn gefa okkur „forskrift að öllu, svo að [við létum] eigi blekkjast“ (K&S 52:14).

Forskriftir eru sniðmát, leiðarvísar eða endurtekin skref sem menn fylgja til að vera samhljóma tilgangi Guðs. Ef við fylgjum þeim, verðum við auðmjúk, vökul og hæf til að greina rödd heilags anda frá þeim röddum sem trufla og afvegaleiða. Drottinn býður okkur síðan: „Sá, sem skelfur undan krafti mínum, [skal] gjörður styrkur og bera ávöxt lof og visku, í samræmi við þær opinberanir og þann sannleika, sem ég hef gefið yður“ (K&S 52:17).

Blessun auðmjúkrar bænar, sem flutt er af einlægum ásetningi, gerir heilögum anda kleift að snerta hjörtun og hjálpa okkur að muna eftir því sem við vissum áður en við fæddumst í þennan dauðlega heim. Eftir því sem við skiljum betur áætlun himnesks föður varðandi okkur, gerum við okkur betur grein fyrir þeirri ábyrgð okkar að hjálpa öðrum að læra og skilja áætlun hans. Nátengt því að hjálpa öðrum að muna er það fordæmi okkar að lifa eftir fagnaðarerindinu og tileinka okkur það. Þegar við lifum í raun eftir fagnaðarerindinu, að forskrift Jesú Krists, eykst hæfni okkar til að hjálpa öðrum. Eftirfarandi frásögn sýnir hverju sú regla getur komið til leiðar.

Tveir ungir trúboðar knúðu á dyr í þeirri von að finna einhvern til að miðla boðskap sínum. Dyrnar lukust upp og nokkuð stórvaxinn maður heilsaði þeim fremur óvinsamlega: „Ég hélt að ég hefði sagt ykkur að banka ekki á dyrnar mínar aftur. Ég varaði ykkur við því, að ef þið kæmuð aftur yrði það ekki góð lífsreynsla. Látið mig í friði.“ Hann lokaði dyrunum á nefið á þeim.

Þegar öldungarnir gengu í burtu, lagði sá eldri og reyndari hönd síns á öxl hins yngri og reyndi að hughreysta og hvetja hann. Þeir tóku ekki eftir því að maðurinn horfði á eftir þeim út um gluggann, til að tryggja að þeir skildu orð hans. Hann átti alveg eins von á því að þeir færu að hlægja og gera gys að því hvernig hann brást við heimsókn þeirra. En þegar hann sá góðvild trúboðanna tveggja, mildaðist hjarta hans þegar í stað. Hann lauk upp dyrunum og bað trúboðana að koma aftur og miðla sér boðskap sínum.

Þegar við breytum að vilja Guðs og lifum eftir forskrift hans, munum við skynja anda hans. Frelsarinn kenndi: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ (Jóh 13:35). Þessi regla, um að bera elsku til hvers annars og keppa að því að vera kristileg í hugsun, máli og breytni, er grunnur að því að verða lærisveinn Krists og kennari fagnaðarerindis hans.

Að vekja slíka þrá býr okkur undir að finna hinar fyritheitnu forskriftir. Þegar við leitum forskriftanna leiðir það okkur að kenningu Krists, líkt og frelsarinn og spámenn hans hafa kennt hana. Ein forskrift þeirrar kenningar er að standast allt til enda: „Og blessaðir eru þeir, sem á þeim degi reyna að leiða fram mína Síon, því að gjöf og kraftur heilags anda verður með þeim. Og standi þeir stöðugir allt til enda, mun þeim lyft upp á efsta degi og þeir frelsast í ævarandi ríki lambsins“ (1 Ne 13:37).

Hvað er það sem helst gerir okkur kleift að njóta gjafar og kraftar heilags anda? Það er sá kraftur sem við hljótum með því að vera trúfastir lærisveinar Jesú Krists. Það er elska okkar til hans og samferðafólks okkar. Frelsarinn skilgreindi forskriftina að þeirri elsku með því að kenna: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan“ (Jóh 13:34).

Gordon B. Hinckley forseti staðfesti þessa reglu með því að segja: „Að elska Drottin er ekki aðeins leiðsögn; ekki aðeins hvatningarorð. Það er boðorð. ... Elska Guðs er undirstaða allrar dyggðar, alls góðleika, alls perónuleikastyrks, allrar hollustu við hið rétta“ („Words of the Living Prophet,” Líahóna, des. 1996, 8; „Excerpts from Recent Addresses of President Gordon B. Hinckley,” Ensign, apríl 1996, 73).

Í áætlun föðurins er að finna forskriftina að fjölskyldunni sem stofnun, til að hjálpa okkur að læra, skilja og tileinka okkur mátt kærleikans. Daginn sem fjölskylda mín var stofnuð, fór ég og mín ljúfa Anna í musterið til að gera hjónabandssáttmála. Hve heitt mér fannst ég elska hana á þeim degi, en það var aðeins upphafið að skilningi mínum á elsku. Eftir því sem hvert barna okkar og barnabarna hefur fæðst, hefur elska okkar vaxið jafnt til þeirra allra. Kærleikurinn á sér greinilega engin takmörk.

Kærleikstilfinning frá himneskum föður er líkt og afl sem dregur okkur nær himni. Þegar við útilokum þær truflanir sem draga okkur að heiminum og notum sjálfræði til að leita hans, ljúkum við upp hjörtum okkar fyrir himnesku afli sem dregur okkur nær honum. Nefí sagði elsku hans svo öfluga að „[honum] fannst sem hold [sitt] brynni“ (2 Ne 4:21). Þessi sama elska fékk Alma til að „syngja söng hinnar endurleysandi elsku“ (Alma 5:26; sjá einnig vers 9). Hún hrærði svo við Mormón að hann hvatti okkur til að „[biðja] ... af öllum hjartans mætti,“ um að við mættum fyllast elsku hans (Moró 7:48).

Í bæði fornum og nýjum ritningum er fullt af frásögnum um hina eilífu elsku himnesks föður til barna sinna. Ég trúi að faðmur himnesks föður sé sérhverju okkar alltaf opinn og að hann muni segja með sinni ljúfu og kærleiksríku röddu: „Ég elska þig.“

Vegna þessarar himnesku forskriftar fjölskyldunnar skiljum við betur að faðir okkar á himnum elskar sérhvert okkar fullkomlega og að jöfnu. Ég ber vitni um að þetta er sannleikur. Guð þekkir og elskar okkur sannlega. Hann hefur veitt okkur skilning á sínum heilaga stað og kallað spámenn og postula til að kenna okkur þær reglur og forskriftir sem leiða okkur aftur til hans. Þegar við keppum að því að vekja í okkur og öðrum þrá eftir að vita og lifa eftir forskriftunum sem við uppgötvum, munum við komast nær honum. Ég ber vitni um að Jesús er sannlega sonur Guðs, fyrirmynd okkar og ástkær frelsari, og það segi ég í nafni Jesú Krists, amen.