2010–2019
Björgun til raunverulegs vaxtar
Apríl 2012


Björgun til raunverulegs vaxtar

Að frelsa sálir er verk sem frelsarinn hefur kallað okkur öll til að vinna.

Á umliðnum mánuðum hefur aukin áhersla verið lögð á „raunverulegan vöxt” kirkjunnar, að fá alla sem það vilja til að gera og halda endurleysandi helgiathafnir og sáttmála og lifa með gjörbreytingu í hjörtum sínum, líkt og Alma greinir frá (sjá Alma 5:14). Ein mikilvægasta leiðin til að stuðla að raunverulegum vexti er að koma þeim til bjargar sem hafa látið skírast og eru villuráfandi og lítt virkir, og njóta ekki blessana og endurleysandi helgiathafna. Hver sem köllun okkar er ‒ heimilis‒ eða heimsóknarkennari, sunnudagaskólakennari, biskup, faðir, móðir eða jafnvel aðalvaldhafi ‒ þá geta allir tekið mikilvægan þátt í björgunarstarfinu. Að öllu töldu er það guðleg köllun okkar allra að leiða alla ‒ fjölskyldu okkar, fólk utan kirkju, lítt virka meðlimi og syndara ‒ til Krists til að taka á móti öllum hinum endurleysandi helgiathöfnum.

Sunnudagsmorgunn einn, fyrir um 30 árum, þegar ég þjónaði í stikuforsætisráði, hringdi einn okkar trúföstu biskupa í mig. Hann tjáði mér að deildin hans yxi svo hratt að hann gæti ekki lengur séð öllum verðugum meðlimum fyrir mikilvægum köllunum. Hann lagði til að við skiptum deildinni. Á meðan við biðum samþykkis fyrir því, einsettum við okkur sem stikuforsætisráð að heimsækja deildina og kalla alla þessa dásamlegu bræður og systur sem stikutrúboða.

Þriðji einstaklingurinn sem ég heimsótti var ung kona og háskólanemandi. Eftir að hafa spjallað um stund, færði ég henni köllunina um trúboðsþjónustuna. Hún varð þá þögul um stund. Síðan sagði hún: „Forseti, veistu ekki að ég er óvirk í kirkjunni?”

Þá varð ég þögull um stund og sagði síðan: „Nei, ég vissi ekki að þú værir óvirk.”

Hún svaraði: „Ég haf ekki verið virk í kirkjunni árum saman.” Og þar næst sagði hún: „Veistu ekki að þegar maður hefur verið óvirkur er ekki svo auðvelt að koma til baka?”

Ég svaraði: „Nei, deildin þín byrjar klukkan níu árdegis. Þú kemur í kapelluna og þú ert meðal okkar.“

Hún svaraði: „Nei, það er ekki svo einfalt. Maður hefur áhyggjur af mörgu. Áhyggjur af því hvort einhver heilsi manni eða hvort maður situr einn og yfirgefinn á samkomunni. Og áhyggjur af því hvort vel verði tekið á móti manni og hverjir nýju vinir manns verða.”

Tár runnu niður vangana og hún hélt áfram: „Ég veit að móðir mín og faðir hafa árum saman beðið fyrir mér, að ég kæmi aftur í kirkju.” Og eftir enn eina þögnina sagði hún: „Síðastliðna þrjá mánuði hef ég beðið þess að hljóta hugrekki og styrk og ástæðu til að verða virk að nýju.” Hún sagði síðan: „Forseti, getur verið að þessi köllun sé svarið við bænum mínum?”

Mér tók að vökna um augu og ég svaraði: „Ég trúi að Drottinn hafi bænheyrt þig.”

Hún tók ekki aðeins á móti kölluninni, heldur varð hún góður stikutrúboði. Og ég er viss um að hún gladdist ekki aðeins sjálf, heldur líka foreldrar hennar og líklega aðrir fjölskyldumeðlimir.

Ég lærði nokkuð af þessu og álíka viðtölum:

  • Mér lærðist að margir lítt virkir meðlimir eiga ástvini sem biðja daglega Drottin um að koma þeim til bjargar.

  • Mér lærðist að það er alls ekki auðvelt eða þægilegt fyrir lítt virka meðlimi einfaldlega að koma aftur í kirkju. Þeir þarfnast hjálpar. Þeir þarfnast stuðnings. Þeir þarfnast vináttu.

  • Mér lærðist að við höfum lítt virka meðlimi sem reyna og eru fúsir til að verða aftur virkir.

  • Mér lærðist að margir lítt virkir meðlimir munu taka á móti köllun, ef þeir eru spurðir.

  • Mér lærðist að lítt virkir meðlimir verðskulda að komið sé fram við þá sem jafningja og á þá ber að líta sem syni og dætur kærleiksríks Guðs.

Síðan þá hef ég velt því fyrir mér hvernig viðtal þetta hefði þróast, ef ég hefði rætt við hana sem lítt virkan kirkjumeðlim. Ég læt ykkur eftir að dæma um það.

Endurvirkjun hefur ætíð verið mikilvægt í verki Drottins. Þótt björgunarstarfið sé ábyrgð allra meðlima, bera Aronsprestdæmishafar og Melkísedeksprestdæmishafar ábyrgð á að leiða starfið. Hvað sem öllu líður, þá snýst prestdæmisþjónustan um það ‒ að fá alla menn til að gera háleita sáttmála; sem færa frið, hamingju og sjálfsvirðingu.

Í Mormónsbók lærum við um þegar Alma yngri komst að því að Sóramítarnir hefðu orðið fráhverfir kirkjunni og hann skipulagði endurvirkjunarteymi til að koma fólkinu bjargar. Þegar þeir tókust á við það verkefni ákallaði Alma Drottin með þessum orðum:

„Ó Drottinn! Gef að okkur lánist að leiða þá aftur til þín í Kristi.

„Sjá, ó Drottinn! Sálir þeirra eru dýrmætar, og margir þeirra eru bræður okkar. Veit okkur þess vegna styrk og visku, ó Drottinn, til að leiða þessa bræður okkar aftur til þín” (Alma 31:34–35; skáletrað hér).

Fyrir nokkrum mánuðum, eftir fund með nýskírðum og lítt virkum meðlimum, kom til mín herramaður á mínum aldri, sem hafði orðið virkur aftur og sagði: „Ég er einn þeirra sem hef verið lítt virkur mestan hluta ævinnar. Ég varð fráhverfur kirkjunni á fyrri árum ævi minnar. En nú er ég kominn til baka og starfa í musterinu með eiginkonu minni.”

Til að láta hann vita að allt væri í lagi, svaraði ég eitthvað þessu líkt: „Allt er gott sem endar vel.”

Hann svaraði: „Nei, allt er ekki gott. Ég er í kirkjunni að nýju, en hef misst öll börnin mín og barnabörnin mín. Og nú stend ég frammi fyrir því að missa barnabarnabörnin mín ‒ öll í burtu frá kirkjunni. Allt er ekki gott.”

Ættingi nokkur í fjölskyldu okkar gekk í kirkjuna í Evrópu á fyrri dögum hennar. Einn sonurinn varð óvirkur. Systir Edgley og ég höfum reynt að hafa uppi á óvirkum afkomendum þessa ættingja.

Okkur hjónunum reyndist auðvelt að áætla að á þessu sex kynslóða tímabili gætu um 3.000 fjölskyldumeðlimir hafa tapast. Sjáum nú fyrir okkur tvær kynslóðir í viðbót. Og þá gætu hugsanlega um 20.000 til 30.000 börn okkar himneska föður hafa tapast.

Sú ábyrgð að koma öðrum til bjargar byggist á einni grundvallarkenningu kirkjunnar.

„Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs‒

Því að sjá, Drottinn lausnari yðar leið píslardauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans. …

Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!” (K&S 18:10–11, 15; skáletrað hér).

Ég hef notið þeirra forréttinda að koma fáeinum lítt virkum meðlimum til bjargar á æviskeiði mínu. Þegar ég hjálpa til við að leiða eina sál til virkni í kirkjunni, sé ég ekki aðeins fyrir mér eina sál ‒ heldur sex, sjö eða jafnvel fleiri kynslóðir ‒ þúsundir sálna. Og þá minnist ég ritningarinnar: „Og fari svo, að þér ... leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða“ (K&S 18:15).

Drottinn sagði við postula sína: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir” (Matt 9:37). Verkamennirnir þurfa ekki að vera fáir. Við höfum þúsundir hæfra og verðugra prestdæmishafa og milljónir skyldurækinna kirkjumeðlima hvarvetna um heim. Við höfum starfandi deildarráð, prestdæmissveitir, Líknarfélög og fleiri félög sem öll bera ábyrgð á björgunarstarfinu. Að frelsa sálir er verk sem frelsarinn hefur kallað okkur öll til að vinna.

Hér áður vitnaði ég í bænina sem Alma flutti þegar hann og félagar hans reyndu að koma Sóramítunum til bjargar. Í Síðari heimsstyrjöldinni voru nærri 500 bandarískir hermenn og heimamenn hafðir í haldi í fangabúðum. Vegna þjáninga þeirra og lífshættu var um 100 hermanna hópur sjálfboðaliða valinn til að koma þeim til bjargar. Þegar sjálfboðaliðarnir voru samankomnir, gaf yfirmaðurinn þeim fyrirskipun, eitthvað á þessa leið: „Í kvöld skuluð þið koma saman með trúarleiðtogum ykkar, krjúpa saman og heita því frammi fyrir Guði að þið munuð ekki láta nokkurn þessara manna þjást lengur, svo lengi sem þið dragið andann.” (Sjá Hampton Sides, Ghost Soldiers: The Forgotten Epic Story of World War II’s Most Dramatic Mission [2001], 28–29.) Þessi vel heppnaða björgun var björgun frá þjáningum og líkamlegri ánauð. Ættum við að sýna minni kjark við að bjarga þeim sem gætu þurft að líða andlegar og eilífar afleiðingar? Ættum við að leggja minna á okkur við slíkt frammi fyrir Drottni?

Að lokum vil ég segja, að skuldbinding okkar sem meðlima hinnar sönnu kirkju Krists, á rætur í þeirri staðreynd að Drottinn þjáðist fyrir sérhvert okkar ‒ fólk utan kirkjunnar, lítt virka, já, syndarann og alla fjölskyldu okkar. Ég trúi að við getum leitt þúsundir til gleði, friðar og sætleika fagnaðarerindisins og hundruð þúsunda, jafnvel milljónir, af þeirra komandi kynslóðum. Ég trúi að við fáum gert það, því þetta er kirkja Drottins og fyrir tilstilli prestdæmisins og aðildar okkar, erum við kölluð til að ná árangri. Um það ber ég ykkur vitni í nafni Jesú Krists, amen.