Var það þess virði?
Starf okkar og gleði í lífinu þarf að felast í því að miðla fagnaðarerindinu á náttúrulegan og eðlilegan hátt til þeirra sem okkur er annt um og við elskum.
Á þessari ráðstefnu og á öðrum samkomum nýverið1 hafa mörg okkar íhugað: Hvað get ég gert til að hjálpa til við uppbyggingu á kirkju Drottins og sjá raunverulegan vöxt þar sem ég bý?
Í þessu og öllu öðru mikilvægu verkefni er mikilvægasta starf okkar ætíð inni á okkar eigin heimilum og innan fjölskyldu okkar.2 Það er innan fjölskyldna sem kirkjan er stofnsett og raunverulegur vöxtur á sér stað.3 Við eigum að kenna börnum okkar reglur og kenningar fagnaðarerindisins. Við þurfum að hjálpa þeim að öðlast trú á Jesú Krist og búa sig undir skírn þegar þau eru átta ára gömul.4 Við verðum sjálf að vera trúföst svo þau sjái af fordæmi okkar kærleika okkar til Drottins og kirkju hans. Það hjálpar börnum okkar að gleðjast yfir því að halda boðorðin, finna hamingju í fjölskyldunni og gleði í þjónustunni við aðra. Á heimilum okkar ættum við að fylgja því mynstri sem Nefí gaf þegar hann sagði:
„Vér ritum af kappi til að hvetja börn vor … til að trúa á Krist og sættast við Guð. …
… Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“5
Við vinnum af kappi við að færa börnum okkar þessar blessanir með því að sækja kirkju með þeim, hafa fjölskyldukvöld og lesa saman í ritningunum. Við biðjum daglega með fjölskyldu okkar, tökum á móti köllunum, heimsækjum hina sjúku og einmana og gerum annað sem sýnir börnum okkar að við elskum þau og að við elskum himneskan föður okkar, son hans og kirkju þeirra.
Við tölum og spáum um Krist er við flytjum lexíur á fjölskyldukvöldi eða sitjum með barni og segjum frá ást okkar til þess barns og vitnisburði okkar um hið endurreista fagnaðarerindi.
Við getum skrifað um Krist með því að skrifa bréf til þeirra sem eru í burtu. Trúboðar sem eru að þjóna, synir og dætur í hernum og þeir er við elskum, öðlast blessanir með þeim bréfum sem við skrifum. Bréf að heiman eru ekki aðeins stuttir tölvupóstar. Raunveruleg bréf veita eitthvað sem er áþreifanlegt sem hægt er að halda á, hugsa um og varðveita.
Við hjálpum börnum okkar að treysta á friðþægingu frelsarans og þekkja fyrirgefningu ástríks himnesks föður þegar við sýnum kærleika og fyrirgefningu í okkar eigin foreldrahlutverki. Kærleikur okkar og fyrirgefning mun ekki eingöngu færa börn okkar nær okkur, heldur einnig byggja upp trú á að himneskur faðir þeirra elski þau og að hann muni fyrirgefa þeim er þau iðrast og kappkosta að gera betur og vera betri. Þau treysta á sannleika hans vegna þess að þau hafa upplifað hið sama frá jarðneskum foreldrum sínum.
Til viðbótar þeirri vinnu sem við munum inna af hendi í okkar eigin fjölskyldu, þá kenndi Nefí, að „vér ritum af kappi til að hvetja … bræður vora til að trúa á Krist og sættast við Guð.“6 Ein blessun aðildar að Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er sú ábyrgð að miðla fagnaðarerindinu. Sumir þeirra sem þarfnast fagnaðarerindisins í lífi sínu eru ekki enn orðnir meðlimir kirkjunnar. Aðrir voru eitt sinn meðal okkar en þurfa á ný að finna gleðina sem þau fundu þegar þau tóku á móti fagnaðarerindinu fyrr í lífi sínu. Drottinn elskar bæði þá sem aldrei hafa haft fagnaðarerindið sem og þá sem eru að snúa aftur til hans.7 Það skiptir hann og okkur ekki máli. Þetta er allt eina og sama verkið. Verðmæti sálna, hvert svo sem ástand þeirra er, er mikið í augum okkar himneska föður, sonar hans og okkar.8 Verk okkar himneska föður og sonar hans er „að gjöra ódauðleika og eilíft líf“9 sérhvers barns hans að veruleika, burt séð frá aðstæðum þeirra. Það er okkar blessun að fá að aðstoða í því mikla verki.
Thomas S. Monson forseti útskýrði hvernig við getum hjálpað þegar hann sagði: „Trúboðsreynsla okkar verður að vera nýleg. Það nægir ekki að sitja og íhuga liðna reynslu. Við verðum að halda áfram að deila fagnaðarerindinu á náttúrlegan og eðlilegan hátt til að verða ánægð.”10
Starf okkar og gleði í lífinu þarf að felast í því að miðla fagnaðarerindinu á náttúrulegan og eðlilegan hátt til þeirra sem okkur er annt um og við elskum. Leyfið mér að segja ykkur frá tveimur slíkum tilvikum.
Dave Orchard ólst upp í Salt Lake City og þar voru flestir vina hans meðlimir kirkjunnar. Þeir höfðu góð áhrif á hann. Að auki voru kirkjuleiðtogar í hverfi hans stöðugt að bjóða honum á athafnir í kirkjunni. Vinir hans gerðu það líka. En þótt hann hafi ekki gengið í kirkjuna á þeim tímapunkti, þá naut hann á unglingsárum sínum blessunar af áhrifum góðra SDH vina og athafna sem kirkjan stóð fyrir. Þegar hann fór í framhaldsskóla flutti hann að heiman og flestir vina hans fóru í trúboð. Hann saknaði þeirra áhrifa sem þeir höfðu á líf hans.
Einn af grunnskólavinum Dave var enn heima. Hann hitti biskup sinn vikulega til að vinna að því að bæta líf sitt svo hann gæti þjónað í trúboði. Hann og Dave urðu herbergisfélagar og sem eðlilegt er ræddu þeir af hverju hann væri ekki í trúboði og hvers vegna hann færi til að hitta biskup sinn reglulega. Vinurinn lét í ljós þakklæti sitt og virðingu fyrir biskupi sínum og fyrir að gefast kostur á að iðrast og þjóna. Hann spurði Dave hvort hann vildi koma með í næsta viðtal. Þvílíkt boð! En í samhengi við vinskap þeirra og aðstæður var þetta boð náttúrulegt og eðlilegt.
Dave tók boðinu og fór brátt sjálfur að hitta biskupinn. Af þessu leiddi síðan ákvörðun Dave að hitta trúboðana. Hann fékk vitnisburð um að fagnaðarerindið væri sannleikur og skírnardagur hans var ákveðinn. Biskup Daves skírði hann og ári síðar giftust Dave Orchard og Katherine Evans í musterinu. Þau eiga fimm falleg börn. Katherine er litla systir mín. Ég mun ætíð verða þakklátur þessum góða vini sem, ásamt biskupnum, leiddi Dave inn í kirkjuna.
Þegar Dave talaði um trúskipti sín og bar vitnisburð sinn um þessa atburði, spurði hann: „En var það þess virði? Var öll þessi fyrirhöfn vina og ungmennaleiðtoga og biskups míns öll þessi ár þess virði að skíra einungis einn pilt?“ Hann benti á Katherine og börnin sín fimm og sagði: „Að minnsta kosti fyrir eiginkona mína og börnin okkar fimm, þá er svarið já.“
Það er aldrei „bara einn piltur“ þegar öðrum er miðlað fagnaðarerindinu. Í hvert sinn er einhver snýst til trúar eða einhver kemur aftur til Drottins, er fjölskyldu bjargað. Öll börn Dave og Katherine hafa meðtekið fagnaðarerindið eftir því sem þau hafa vaxið úr grasi. Ein dóttir og tveir synir hafa þjónað sem trúboðar og einn fékk nýlega köllun sína til að þjóna í hinu þýskumælandi Alpine-trúboði. Tveir elstu hafa gifst í musterinu og sá yngsti er nú í menntaskóla, trúfastur í alla staði. Var það þess virði? Ó já, það var þess virði.
Systir Eileen Waite sótti stikuráðstefnuna þar sem Dave Orchard sagði frá hvernig hann snerist til trúar. Það eina sem hún gat hugsað um alla ráðstefnuna var hennar eigin fjölskylda og sér í lagi systir hennar, Michelle, sem hafði lengi verið lítt virk í kirkjunni. Michelle var fráskilin og var að ala upp fjögur börn. Eileen fannst eins og hún ætti að senda henni eintak af bók öldungs M. Russell Ballard Our Search for Happiness, ásamt vitnisburði sínum, og það gerði hún. Strax í vikunni á eftir sagði vinkona Eileen að henni hefði einnig fundist hún þurfa að hafa samband við Michelle. Þessi vinkona skrifaði Michelle einnig bréf og deildi vitnisburði sínum og tjáði kærleika sinn. Er ekki athyglisvert hve oft andinn snertir nokkrar manneskjur til að hjálpa hinum eina sem er í neyð?
Tíminn leið. Michelle hringdi í Eileen og þakkaði henni fyrir bókina. Hún sagðist vera farin að skynja andlegt tóm í lífi sínu. Eileen sagði henni að hún vissi að sá friður sem Michelle væri að leita að væri að finna í fagnaðarerindinu. Hún sagði að henni þætti vænt um hana og vildi að hún yrði hamingjusöm. Michelle hóf að breyta lífi sínu. Brátt kynntist hún dásamlegum manni sem var virkur í kirkjunni. Þau giftust og ári síðar voru þau innsigluð í Ogden-musterinu í Utah. Nýverið skírðist 24 ára gamall sonur hennar.
Til hinna í fjölskyldu Michelle, og allra annarra sem ekki enn vita að þessi kirkja er sönn, býð ég að íhuga í bænarhug hvort kirkjan sé sönn. Leyfið fjölskyldu ykkar, vinum og trúboðum að hjálpa. Þegar þið komist að því að kirkjan er sönn, og hún er það, komið þá og sameinist okkur með því að taka sömu skref í ykkar eigin lífi.
Sögulokin hafa enn ekki verið skrifuð, en þessi dásamlega kona hefur notið blessunar, sem og fjölskylda hennar, er þeir sem þykja vænt um hana hafa brugðist við leiðbeiningum og á náttúrulegan og eðlilegan hátt deilt vitnisburði sínum og boðið henni að koma til baka.
Ég hef hugsað mikið um þessi tvö tilvik. Einn ungur maður, sem var að bæta líf sitt, hjálpaði öðrum ungum manni sem var að leita að sannleikanum. Ein kona miðlaði systur sinni, sem hafði verið fjarri kirkjunni í 20 ár, vitnisburði sínum og trú sinni. Ef við biðjum og spyrjum himneskan föður hverjum við getum hjálpað og lofum að bregðast við leiðbeiningum sem hann veitir okkur um hvernig við getum hjálpað, þá mun hann svara bænum okkar og við munum verða verkfæri í höndum hans við að vinna verk hans. Hvatinn er að bregðast í kærleika við leiðbeiningum sem andinn veitir.11
Er þið hafið hlustað á þessi dæmi um hvernig hægt er að deila fagnaðarerindinu á náttúrulegan og eðlilegan máta, með þeim sem ykkur þykir vænt um, þá hafa mörg ykkar upplifað það sama og Eileen Waite. Þið hafið hugsað um einhvern sem þið ættuð að ná til, og annað hvort bjóða að koma til baka eða deila með tilfinningum ykkar varðandi fagnaðarerindi Jesú Krists. Boð mitt að er að bregðast við þessum innblæstri og fresta því ekki. Ræðið við vin ykkar eða ættmenni. Gerið það á náttúrlegan og eðlilegan hátt. Látið þau vita af kærleika ykkar til þeirra og Drottins. Trúboðar geta hjálpað. Ráðlegging mín er sú sama og sú sem Monson forseti hefur veitt svo oft úr þessu ræðupúlti: „Aldrei að fresta innblæstri.“12 Þegar þið bregðist við innblæstri af kærleika, takið þá eftir því hvernig himneskur faðir notar fúsleika ykkar til að gera kraftaverk í ykkar lífi og lífi þeirrar manneskju sem ykkur er annt um.13
Kæru bræður og systur, við getum byggt upp kirkju hans og séð raunverulegan vöxt er við vinnum að því að færa fjölskyldu okkar og þeim sem okkur þykir vænt um blessanir fagnaðarerindisins. Þetta er verk himnesks föður okkar og sonar hans. Ég veit að þeir lifa og bænheyra okkur. Er við bregðumst við slíkum innblæstri, trúum á getu þeirra til að gera kraftaverk, þá munu kraftaverk gerast og líf breytast. Í nafni Jesú Krists, amen.