Á sama hátt og hann gerði
Þegar við þjónum eins og hann gerði, munum við geta gleymt okkur sjálfum og lyft öðrum.
Fyrir um átján mánuðum, haustið 2017, sagði hinn 64 ára gamli eldri bróðir minn, Mike, mér frá því að hann hefði greinst með krabbamein í brisi. Hann sagðist einnig hafa fengið prestdæmisblessun frá heimiliskennara sínum og hitt biskupinn sinn. Síðar sendi hann mér textaboð með mynd af Oakland-musterinu í Kaliforníu, sem tekin var frá sjúkrahúsinu sem hann var í meðferð á, með textanum: „Sjáðu hvað ég sé frá herberginu á sjúkrahúsinu.“
Ég var jafn hissa yfir ummælum hans um heimiliskennarana, prestdæmisblessunina, biskupinn og musterið og ég var yfir krabbameininu. Mike var nefnilega prestur í Aronsprestdæminu og hafði ekki sótt kirkju reglubundið í næstum 50 ár.
Við, sem fjölskylda, vorum næstum jafn áhugasöm yfir andlegri framþróun hans, eins og yfir baráttu hans við krabbameinið, að mestu vegna hinna mörgu spurninga hans um Mormónsbók, innsiglunarvaldið og lífið eftir dauðann. Eftir því sem mánuðirnir liðu og krabbameinið dreifði sér, jókst þörfin fyrir ennfrekari og sértækari meðferð í Huntsman krabbameinsstöðinni og Mike kom til Utah.
Stuttu eftir komu Mikes þangað, heimsótti John Holbrook hann, deildartrúboðsleiðtogi deildarinnar sem þjónaði hjúkrunarheimilinu sem hann dvaldi á. John sagði sig „augljóslega hafa séð að Mike var sonur Guðs“ og þeir urðu fljótt góðir vinir, sem leiddi til þess að John varð „fastur“ hirðisþjónn Mikes. Bróður mínum var þegar boðið að fá trúboðana í heimsókn, sem hann hafnaði kurteislega, en þegar vináttan hafði staðið yfir í mánuð, spurði John Mike aftur: „Ég held að þú myndir njóta þess að hlýða á boðskap fagnaðarerindisins.“ Í það skipti þáði hann boðið, sem leiddi til tíðra heimsókna trúboðanna, sem og biskupsins, Jons Sharp, sem loks varð til þess að Mike fékk patríarkablessun sína, 57 árum eftir skírn.
Í byrjun desember á síðasta ári, eftir mánuði í meðferð, ákvað Mike að hætta krabbameinsmeðferð, sem olli alvarlegum hliðarverkunum og láta náttúruna einfaldlega hafa sinn gang. Læknirinn sagði okkur að Mike ætti um þrjá mánuði ólifaða. Á meðan var rætt um fagnaðarerindið – og heimsóknir og stuðningur presdæmisleiðtoga hans héldu áfram. Í heimsóknum okkar til Mikes sáum við oft Mormónsbók opna á náttborðinu hans, er við ræddum um endurreisn fagnaðarerindisins, lykla prestdæmisins, helgiathafnir musterisins og eilíft eðli mannsins.
Um miðjan desembermánuð, eftir að hann hafði fengið partíarkablessun sína, virtist Mike fá aukinn styrk og lífslíkurnar jukust um hið minnsta aðra þrjá mánuði. Við væntum þess jafnvel að hann yrði með okkur á jólunum, áramótin og lengur. Þann 16. desember hringdi Sharp biskup óvænt í mig og lét mig vita af því að hann og stikuforsetinn hefðu tekið viðtal við Mike og fundið hann verðugan til að hljóta Melkísedeksprestdæmið og spurðu hvenær ég gæti tekið þátt í vígslunni. Vígsludagurinn var settur föstudaginn 21. desember.
Þegar sá dagur rann upp, fórum ég og eiginkona mín, Carol, á hjúkrunarheimilið og tekið var á móti okkur í herbergisgangi hans og sagt að Mike hefði engan hjartslátt. Við fórum inn í herbergið og sáum þar patríarkann, biskup hans og stikuforseta bíða okkar – og þá opnaði Mike augun. Hann þekkti mig og gaf merki um að hann heyrði í mér og væri reiðubúinn til að taka á móti prestdæminu. Fimmtíu árum eftir að Mike var vígður prestur í Aronsprestdæminu, naut ég þeirra forréttinda, með aðstoð staðarleiðtoga, að veita bróður mínum Melkísedeksprestdæmið og vígja hann til embættis öldungs. Fimm klukkustundum síðar andaðist Mike og fór í gegnum huluna á fund foreldra okkar, sem Melkísedeksprestdæmishafi.
Fyrir einu ári barst okkur öllum boð frá Russell M. Nelson forseta, um að annast bræður okkar og systur á „æðri og helgari hátt.“ Nelson forseti vísaði til frelsarans og sagði að „þar sem þetta er kirkjan hans, munum við, sem þjónar hans, þjóna hinum eina, á sama hátt og hann gerði. Við munum þjóna í hans nafni, með hans krafti og valdi og af gæsku hans.“
Sem svar við þessu boði spámanns Guðs, á sér nú stað undraverð þjónusta víða um heim í þágu hins eina, bæði samræmd þjónusta, þar sem meðlimir rækja hirðisþjónustu sína af trúmennsku, sem og óformleg þjónusta, þar sem svo margir bregðast við óvæntum atvikum og sýna kristilega elsku. Við, í fjölskyldu minni, vorum vitni að slíkri þjónustu.
John, vinur Mikes og hirðisþjónn hans, og fyrrverandi trúboðsforseti, var vanur að segja við trúboðana sína: „Sé einhver skráður á lista sem segist ‚ekki hafa áhuga,‘ gefist þá ekki upp. Fólk breytist.“ Hann sagði síðan: „Máttug breyting varð á Mike.“ John var vinur til að byrja með, veitti oft hvatningu og stuðning – en þjónusta hans var ekki aðeins vingjarnlegar heimsóknir. John vissi að hirðisþjónusta væri meira en vinskapur og að vinskapur styrktist með þjónustu.
Fólk þarf ekki að þjáist af lífshættulegum sjúkdómi, eins og bróðir minn, til að hafa þörf fyrir hirðisþjónustu. Slík þörf er af margskonar toga og ástæðum. Einstætt foreldri, lítt virk hjón, unglingur í baráttu, örvæntingarfull móðir, prófraun trúar, fjárhagerfiðleikar, heilsuleysi eða hjónabandsörðugleikar – og listinn er næstum endalaus. Líkt og átti við um bróðir minn, Mike, þá er enginn of langt leiddur og aldrei er of seint fyrir kærleika frelsarans.
Á vefsíðu kirkjunnar um hirðisþjónustu er okkur kennt: „Þótt tilgangur þjónustu sé margþættur, ætti viðleitni okkar til að þjóna öðrum að eiga rætur í þrá okkar til að hjálpa þeim að ná fram innilegri trúarumbreytingu og verða líkari frelsaranum.“ Öldungur Neal L. Andersen orðaði það þannig:
„Gæskurík manneskja gæti hjálpað einhverjum að skipta um dekk, farið með herbergisfélaga til læknis, borðað hádegisverð með einhverjum niðurdregnum eða heilsað brosandi til að lífga upp daginn.
Þeir sem lifa eftir æðsta boðorðinu munu þó ósjálfrátt auka við þá þjónustu.“
Þegar við lögum þjónustu okkar að hans, er mikilvægt að hafa í huga að viðleitni hans til að elska og blessa aðra og þjóna þeim, var bundin æðri tilgangi en að uppfylla aðkallandi þarfir þeirra. Vissulega var hann kunnur hinum daglegu þörfum fólksins og hafði samúð með því í þjáningum þess, er hann græddi, nærði, fyrirgaf og kenndi. Hann vildi þó gera meira en að slökkva þorsta hvers dags. Hann vildi að fólkið umhverfis fylgdi sér, þekkti sig og næði sínum guðlegum möguleikum.
Þegar við þjónum „eins og hann gerði,“ mun okkur gefast tækifæri til að gleyma sjálfum okkur og lyfta öðrum. Slík tækifæri geta oft verið óþægileg og reyna á einlæga þrá okkar til að líkjast meira meistaranum, en hans þjónusta, öllum æðri, hin óendanlega friðþæging hans, var allt annað en þægileg. Í Matteus, kapítula 25, segir Drottinn hvað honum finnist um okkur þegar við, líkt og hann, erum næm gagnvart erfiðleikum, raunum og áskorunum hinna mörgu, sem oft yfirsést:
„Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.
Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig. …
Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?
Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig? …
Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“
Hvort sem við erum hirðisþjónar sem bræður og systur eða sjáum einhvern nauðstaddan, þá erum við hvött til að leita leiðsagnar andans – og bregðast síðan við. Við getum velt fyrir okkur hvernig best sé að þjóna, en Drottinn veit það og við munum leidd af anda hans í þjónustu okkar. Við getum, líkt og Nefí sem „andinn leiddi … og [hann] vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi,“ líka verið leidd af andanum, er við kappkostum að vera verkfæri í höndum Drottins, börnum hans til blessunar. Þegar við leitum leiðsagnar andans og treystum Drottni, verðum við leidd í aðstæður til að bregðast við og blessa aðra – með öðrum orðum, til að þjóna.
Þau tilvik geta líka komið upp að við sjáum þörf, en okkur finnst við of vanmáttug til að bregðast við og að það sem við getum gefið sé ófullnægjandi. Að gera „eins og hann gerði,“ er hins vegar að þjóna með því að gefa það sem við getum gefið og að treysta að Drottinn muni efla framlag okkar, til að blessa „samferðafólk okkar í þessari jarðlífsferð.“ Hjá sumum getur það verið að gefa gjöf tíma og hæfileika; hjá öðrum getur það verið ljúft orð eða sterkt bak. Okkur gæti þótt framlag okkar ófullnægjandi, en Dallin H. Oaks forseti miðlaði mikilvægri reglu um „hið smáa og einfalda.“ Hann kenndi að smá og einföld verk væru áhrifarík, því þau byðu „heilögum anda heim,“ sem blessar bæði gefanda og þiggjanda.
Þegar Mike bróðir minn vissi að hann myndi brátt deyja, sagði hann: „Það er furðulegt hvernig briskrabbamein getur fengið mann til að hugsa um það sem mestu skiptir.“ Þökk sé dásamlegum körlum og konum, sem sáu þörf, felldu ekki dóm og þjónuðu eins og frelsarinn, að það var ekki um seinan hjá Mike. Breyting sumra getur gerst fljótar, en hugsanlega handan hulunnar hjá öðrum. Við verðum þó að gera okkur ljóst að það er aldrei of seint og að enginn hefur villst svo langt frá veginum að hin altæka friðþæging Jesú Krists, sem er ótakmörkuð að umfangi og tíma, nái ekki til hans.
Á aðalráðstefnu síðastliðinn október, sagði öldungur Dale G. Renlund: „Guð hjálpar okkur aftur inn á veginn sama hversu lengi sem við höfum verið utan hans, … [um leið og við ákveðum að breytast].“ Sú ákvörðun að breytast, er þó oft vegna boðs eins og: „Ég held að þú munir njóta þess að hlýða á boðskap fagnaðarerindisins.“ Á sama hátt og það er aldrei of seint hvað frelsarann varðar, þá er aldrei of snemmt fyrir okkur að bjóða.
Á þessum páskum býðst okkur enn einu sinni dásamlegt tækifæri til að íhuga hina miklu friðþægingu frelsara okkar Jesú Krists og það sem hann gerði fyrir hvert okkar, er var svo gríðarlega dýrkeypt – svo dýrkeypt – að hann sagði sjálfur að það hafi orðið þess „valdandi að [hann], sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka.“ „Eigi að síður,“ sagði hann „tæmdi [ég bikarinn] og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn.“
Ég vitna að sökum þess að hann „lauk,“ mun voninni aldrei ljúka. Í nafni Jesú Krists, amen.