2010–2019
Friðþæging Jesú Krists
Apríl 2019


Friðþæging Jesú Krists

Friðþæging frelsarans er ekki einungis óendanleg að umfangi, heldur einnig innan seilingar sérhvers.

Á þessum árstíma fögnum við sérstaklega og íhugum friðþægingu frelsarans. Það er sannarlega guðdómlegasta, mest hugarfarslega útvíkkandi, tilfinningaþrungnasta kenning, sem þessi veröld eða heimur hefur nokkru sinni þekkt. Hún er það sem veitir lífi okkar von og tilgang.

Hvað er þá friðþæging Jesú Krists? Annars vegar er hún röð atburða sem hófust í Getsemanegarðinum, héldu síðan áfram á krossinum og náðu hámarki sínu með upprisu frelsarans úr gröfinni. Hvatinn fyrir þessu var óskiljanleg elska til sérhvers okkar. Þetta krafðist veru sem var syndlaus, sem hafði óendanlegt vald yfir frumefnunum – jafnvel dauða, sem bjó yfir endalausri getu til að þjást fyrir afleiðingar synda og misbresta okkar allra, sem steig í raun niður fyrir þetta allt. Þetta var hlutverk Jesú Krists – þetta var friðþæging hans.

Hver var þá tilgangurinn? Að gera okkur það kleift að snúa aftur í návist Guðs, verða líkari honum og öðlast fyllingu gleðinnar. Þetta var mögulegt með því að sigrast á fjórum hindrunum.

  1. Líkamlegum dauða

  2. Andlegum dauða sem Adam var valdur að og syndum okkar

  3. Þjáningum okkar og vanmætti

  4. Veikleikum okkar og ófullkomleika

Hvernig getur svo frelsarinn afrekað þetta án þess að óvirða lögmál réttlætis?

Frjálst fall úr flugvél

Segjum sem snöggvast að maður sem er að hugleiða spennandi stökk í frjálsu falli, taki glannalega ákvörðun og stökkvi skyndilega út úr lítilli flugvél. Hann gerir sér fljótt grein fyrir því hve kjánalegt þetta hafi verið. Hann vill örugga lendingu en það er smá hindrun í veginum – þyngdarlögmálið. Hann hreyfir handleggi sína furðu hratt í von um að geta flogið, en án árangurs. Hann stillir líkama sínum þannig að hann geti flotið eða svifið til að hægja á fallinu, en þyngdarlögmálið er ósveigjanlegt og miskunnarlaust. Hann reynir að rökræða við þetta grunnlögmál náttúrunnar: „Þetta voru mistök. Ég mun aldrei gera þetta aftur.“ Bænir hans falla hins vegar á dauf eyru. Þyngdarlögmálið hefur enga samúð, það gerir engar undantekningar. Sem betur fer finnur maðurinn allt í einu fyrir einhverju á baki sér. Vinur hans í flugvélinni hafði áttaði sig á glannaskapnum og sett fallhlíf þar rétt fyrir stökkið. Hann finnur fyrir spottanum og togar í hann. Mjög feginn svífur hann örugglega til jarðar. Við gætum spurt: „Var þyngdarlögmálinu sýnd óvirðing eða virkaði fallhlífin innan þess lögmáls við að tryggja örugga lendingu?“

Að svífa í fallhlíf fyrir örugga lendingu

Þegar við syndgum erum við eins og hinn heimskulegi maður sem stökk úr vélinni. Sama hvað við gerum sjálf, það bíður okkar bara brotlending. Við erum háð lögmáli réttvísinnar, sem er kröfuhart og án fyrirgefningar, eins og þyngdarlögmálið. Við frelsumst aðeins vegna þess að af miskunn veitir frelsarinn okkur einskonar andlega fallhlíf með friðþægingu sinni. Ef við trúum á Jesú Krist og iðrumst (sem þýðir að við gerum okkar hlut og togum í spottann), verður hinn verndandi kraftur frelsarans virkur fyrir okkur og við getum lent andlega ósködduð.

Þetta er þó einungis hægt vegna þess að frelsarinn sigraðist á þeim fjórum hindrunum sem geta varnað andlegri framþróun okkar.

1. Dauða. Hann sigraðist á dauða með sinni dýrðlegu upprisu. Postulinn Páll kenndi: „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“

2. Synd. Frelsarinn sigraðist á synd og sekt fyrir alla þá sem iðrast. Hreinsunarkraftur hans er svo djúpur og altækur að Jesaja lofaði: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“

Öðru hverju hef ég hitt góða heilaga sem hafa átt erfitt með að fyrirgefa sér sjálfum, sem á saklausan, en rangan máta, hafa takmarkað endurlausnarkraft frelsarans. Óafvitandi hafa þeir gert óendanlega friðþægingu að takmarkaðri friðþægingu, sem nær ekki yfir þeirra tilteknu synd eða veikleika. Hins vegar er þetta óendanleg friðþæging, því hún nær yfir og umlykur hverja synd og veikleika, jafnt sem alla misnotkun eða sársauka sem aðrir hafa valdið.

Truman Madsen lagði fram þessa hughreystandi athugun:

„Ef það eru einhver ykkar sem hafa verið blekkt í þá sannfæringu að þið hafið gengið skrefi of langt … að þið hafið eitrast af synd sem gerir það vonlaust fyrir ykkur að verða það sem þið hefðuð getað orðið – heyrið þá orð mín.

Ég gef ykkur vitnisburð minn um að þið fáið ekki sokkið dýpra en ljós og altæk þekking Jesú Krists fá náð. Ég ber vitni um, að svo framarlega sem nokkur vilji er til að iðrast og nálgast hann, þá er hann þar. Hann sté ekki einungis niður í ykkar ástand: hann sté neðar því, ‚svo hann gæti verið í öllu og í gegnum allt, ljós sannleikans.‘ [Kenning og sáttmálar 88:6.]“

Ein af ástæðunum fyrir mikilvægi þess að skilja friðþægingu frelsarans og óendanlega áhrif hennar, er að með auknum skilningi kemur aukin þrá til að fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum.

Þó að við trúum á hreinsandi kraft Krists, þá vakna oft þessar spurningar: „Hvernig veit ég hvort syndir mínar hafi verið fyrirgefnar?“ Ef við skynjum andann, er það vitni okkar um að við höfum öðlast fyrirgefningu eða að hreinsunarferlið er í gangi. Henry B. Eyring forseti kenndi: „Ef þið hafið skynjað áhrif heilags anda … , getið þið tekið það sem sönnun þess að friðþægingin er virk í lífi ykkar.“

Blindgata

Sumir hafa spurt: „Ef mér hefur verið fyrirgefið, því finn ég enn fyrir sektarkennd?“ Kannski er minningin um sektina áminning frá miskunn Guðs, nokkurs konar tímabundið andlegt „stöðvunarmerki“ sem kallar þegar frekari freistingar verða á vegi okkar: „Ekki fara niður þennan veg. Þú veist hvaða sársauka það getur fært.“ Á vissan hátt er það vernd en ekki hegning.

Er það þá mögulegt að minnast synda okkar og vera laus við sektarkenndina?

Alma mundi syndir sínar, jafnvel mörgum árum eftir að hann iðraðist. Þegar hann kallaði til Jesú eftir miskunn, sagði hann: „Og sjá. Þegar ég hugleiddi þetta, gleymdi ég kvölum mínum. Já, minningin um syndir mínar hrjáði mig ekki lengur.“

Hvernig gat hann munað eftir syndum sínum en verið án sektar? Af því að þegar við iðrumst höfum við „fæðst af Guði.“ Við verðum eins og ritningarnar segja: „Ný sköpun“ í Kristi. Við getum nú sagt af fullkominni hreinskilni: „Ég er ekki sá karl eða kona sem drýgði þessar gömlu syndir. Ég er ný og breytt manneskja.“

3. Þjáningar og vanmáttur. Alma spáði því að Kristur „[muni] ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar.“ Hvers vegna? „Svo að hjarta hans fyllist miskunn, … svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“

Hvernig afrekar hann þetta? Stundum fjarlægir hann þjáningar okkar, stundum styrkir hann okkur til að þrauka og stundum veitir hann okkur eilíft sjónarhorn til að skilja betur tímabundið eðli þeirra. Eftir að Joseph Smith hafði dvalið í Liberty fangelsinu í um tvo mánuði, hrópaði hann loks upp: „Ó Guð, hvar ert þú?“ Í stað þess að veita honum huggun, svaraði Guð: „Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund. Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.“

Joseph skildi nú að þessi bitra reynsla væri einungis sem punktur á skala eilífðarinnar. Með þessari auknu sýn, skrifaði hann hinum heilögu frá fangelsinu: „Þess vegna skulum vér, ástkæru bræður, með glöðu geði gera allt, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs.“ Vegna friðþægingar frelsarans getum við haft eilífa sýn sem gefur erfiðleikum okkar gildi og okkur von fyrir huggun.

4. Veikleikar og ófullkomleiki. Sökum friðþægingarinnar hefur frelsarinn virkjandi krafta, stundum nefndir náð, sem geta hjálpað okkur að sigrast á veikleikum okkar og ófullkomleika og aðstoðað okkur þannig í leit okkar eftir að verða líkari honum.

Moróni kenndi: „Já, komið til Krists, fullkomnist í honum, … en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“ Það virðast vera hið minnsta tvær leiðir til að notfæra sér þessa virkjandi krafta sem geta fágað – jafnvel fullkomnað – okkur.

Fyrst, hinar sáluhjálpandi helgiathafnir. Ritningarnar segja okkur: „Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“ Stundum hugsum við um athafnirnar sem tékklista – nauðsynlegar fyrir upphafningu, en í raun þá leysir hver þeirra guðlegan kraft úr læðingi, sem hjálpar okkur að verða líkari Kristi. Dæmi:

  • Þegar við skírumst og meðtökum gjöf heilags anda, erum við gerð hrein – við verðum þannig heilagari eins og Guð.

  • Að auki getur hugur okkar upplýstst í gegnum heilagan anda og hjörtu okkar mildast svo við getum hugsað og skynjað líkar honum.

  • Þegar við svo innsiglumst maka okkar, þá öðlumst við réttinn til að erfa „hásæti, ríki, hátignir og völd,“ sem gjafir frá Guði.

Önnur leið til að öðlast þessa virkjandi krafta eru gjafir andans. Vegna friðþægingar Krists eigum við rétt á að meðtaka gjöf heilags anda og meðfylgjandi andlegar gjafir hans. Þessar gjafir eru eiginleikar guðdómleika, þar af leiðandi verðum við líkari Guði í hvert sinn sem okkur hlotnast gjöf andans. Það er vafalaust þess vegna sem ritningarnar bjóða okkur sífelt að leita þessara gjafa.

George Q. Cannon forseti sagði: „Engin ætti að segja: ‚Ég get ekkert gert að þessu; þetta er mitt eðli.‘ Hann réttlætist ekki af því, vegna þess að Guð hefur lofað að veita okkur gjafir sem munu uppræta [veikleika okkar]. … Ef eitthvert okkar er ófullkomið, er það skylda okkar að biðjast fyrir til að hljóta þá gjöf sem fullkomnar okkur.“

Í hnotskurn, þá veitir friðþæging frelsarans okkur líf fyrir dauðann, „höfuðdjásn í stað ösku,“ sálarheill fyrir særindi og fullkomnun fyrir veikleika. Það er mótefni himins fyrir hindranir og átök þessa heims.

Í síðustu viku frelsarans í jarðlífinu, sagði hann: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ Vegna friðþægingar frelsarans, þá er engin utanaðkomandi kraftur, viðburður eða persóna – engin synd, dauði eða skilnaður – sem getur varnað því að við öðlumst upphafningu, svo fremi sem við höldum boðorð Guðs. Með þá þekkingu getum við haldið áfram létt í bragði og fullviss um að Guð er með okkur í þessum himneska leiðangri.

Ég ber mitt vitni um að friðþægingarfórn frelsarans er ekki einungis óendanleg að umfangi, heldur innan seilingar sérhvers – að hún geti ekki einungis leitt okkur til baka í návist Guðs, heldur gert okkur kleift að verða eins og hann – sem er æðsta markmið friðþægingar Krists. Um það ber ég öruggt vitni af þakklæti, í nafni Jesú Krists, amen.