2010–2019
Hreinsuð með iðrun
Apríl 2019


Hreinsuð með iðrun

Við getum, sökum áætlunar Guðs og friðþægingar Jesú Krists, verið hreinsuð fyrir tilverknað iðrunar.

Í jarðlífinu erum við háð lögum manna og lögmálum Guðs. Ég hef upplifað þá óvenjulegu reynslu að dæma alvarlega slæma breytni undir báðum þessum lögum – áður sem hæstaréttardómari Utah og nú sem meðlimur í Æðsta forsætisráðinu. Andstæður laga mannsins og lögmála Guðs, sem ég hef upplifað, hafa aukið þakklæti mitt fyrir raunveruleika og kraft friðþægingar Jesú Krists. Sá sem er sekur af alvarlegum glæp, undir lögum manna, getur verið dæmdur til lífstíðarfangelsis, án möguleika á reynslulausn. Þessu er öðruvísi háttað í miskunnaráætlun kærleiksríks himnesks föður. Ég hef verið vitni að því, að mögulegt er að verða fyrirgefið af þessum sömu alvarlegu syndum í jarðlífinu, sökum friðþægingarfórnar frelsarans, fyrir syndir „[allra] sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“ (2. Nefí 2:7). Kristur endurleysir og friðþæging hans er raunveruleg.

Hin kærleiksríka samúð frelsara okkar er tjáð í þessum fallega sálmi sem kórinn söng hér áðan.

Kom þú til Jesú, hann er þinn hirðir,

hart þó þú villist um myrkan geim.

Elska hans leitar, leiðir út sorta

ljóssins í dýrðina heim.

Friðþægingarfórn Jesú Krists lýkur upp dyrum, „svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans (Kenning og sáttmálar 18:11; sjá einnig Markús 3:28; 1. Nefí 10:18; Alma 34:8, 16). Í Bók Alma er sagt frá iðrun og fyrirgefningu jafnvel þeirra sem höfðu verið ranglátir og blóðþyrstir (sjá Alma 25:16; 27:27, 30). Boðskapur minn í dag er fylltur von fyrir sérhvert okkar, einnig þá sem hafa misst aðild sína að kirkjunni með brottvikningu eða nafnfjarlægingu. Við erum öll syndarar sem mögulegt er að hreinsa með iðrun. „Að iðrast synda er ekki auðvelt,“ kenndi Russell M. Nelson forseti á liðinni aðalráðstefnu, „en endurgjaldið er gjaldsins virði.“

I. Iðrun

Iðrun hefst hjá frelsara okkar og hún er gleði en ekki byrði. Á jólasamkomunni í desember síðastliðnum, kenndi Nelson forseti: „Sönn iðrun er ekki atburður. Hún er viðvarandi forréttindi. Hún er grundvöllur framþróunar, samviskufriðar, hugarrós og gleði.“

Sumar stórkostlegustu kenningarnar um iðrun má finna í prédikun Alma í Mormónsbók fyrir þeim meðlimum kirkjunnar sem hann sagði síðar vera í „miklu trúleysi,“ „uppblásnir hroka,“ og „[girnast] auðæfi og hégóma þessa heims“ (Alma 7:6). Hver meðlimur þessarar endurreistu kirkju, getur lært mikið af þessum innblásnu kenningum Alma.

Við byrjum á því að trúa á Jesú Krist, því „það er hann, sem kemur til að bera burtu syndir heimsins“ (Alma 5:48). Við verðum að iðrast, því eins og Alma kenndi: „Ef þér iðrist ekki, getið þér alls ekki erft ríki himins“ (Alma 5:51). Iðrun er nauðsynlegur þáttur í áætlun Guðs. Þar sem allir syndga í sinni jarðnesku reynslu og verða aðskildir návist Guðs, geta menn ekki „frelsast“ án iðrunar (Alma 5:31; sjá einnig Helaman 12:22).

Þetta hefur verið kennt allt frá upphafi. Drottinn bauð Adam: „Kenn því börnum þínum, að allir menn, hvarvetna, verði að iðrast, ella geti þeir engan veginn erft ríki Guðs, því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans“ (HDP Móse 6:57). Við verðum að iðrast allra synda okkar – öllum verkum eða aðgerðarleysi sem andstæð eru boðorðum Guðs. Enginn er þar undanskilinn. Nú í gærkvöldi skoraði Nelson forseti á okkur: „Bræður, við þurfum allir að iðrast.“

Við verðum að láta af syndum okkar, til að hreinsast, og játa Drottni þær og jarðneskum dómara hans, sé þess krafist (sjá Kenning og sáttmálar 58:43). Alma kenndi að við verðum að „[vinna] réttlætisverk“ (Alma 5:35). Allt er þetta hluti af hinu tíða ritningalega boði um að koma til Krists.

Við þurfum að meðtaka sakramentið hvern hvíldardag. Í þeirri helgiathöfn gerum við sáttmála og meðtökum blessanir sem hjálpa okkur að sigrast á allri breytni og þrám sem koma í veg fyrir þá fullkomnun sem frelsarinn æskir af okkur (sjá Matteus 5:48; 3. Nefí 12:48). Þegar við „[höfnum] öllu óguðlegu og [elskum] Guð af öllum mætti [okkar], huga og styrk,“ getum við náð „fullkomnun í Kristi“ og orðið „helguð“ fyrir úthellingu blóðs hans, til að „[verða] heilög og flekklaus“ (Moróní 10:32–33). Hve dásamlegt loforð! Hve dásamlegt kraftaverk! Hvílík blessun!

II. Ábyrgðarskylda og jarðneskir dómar

Einn tilgangur áætlunar Guðs fyrir þessa jarðnesku reynslu, er að „reyna“ okkur „og sjá hvort [við gerum] allt, sem Drottinn Guð [okkar] býður [okkur]“ (Abraham 3:25). Við erum ábyrg frammi fyrir Guði og þjónum hans, sem er hluti af áætlun hans, og sú ábyrgð felur í sér bæði jarðneska og guðlega dóma.

Í kirkju Drottins eru jarðneskir dómar meðlima eða væntanlegra meðlima í höndum leiðtoga sem leita guðlegrar leiðsagnar. Þeir bera ábyrgð á að dæma einstaklinga sem leitast við að koma til Krists og nýta sér kraft friðþægingar hans á sáttmálsveginum til eilífs lífs. Jarðneskir dómar kveða á um hvort einstaklingur sé reiðubúin fyrir skírn. Er einstaklingur verðugur meðmæla til þess að fara í musterið? Hefur einstaklingur, hvers nafn hefur verið fjarlægt úr skýrslum kirkjunnar, iðrast nægjanlega fyrir tilstilli friðþægingar Jesú Krists, til að fá aðgang aftur með skírn?

Þegar jarðneskur dómari, sem Guð kallar, samþykkir framþróun einstaklings, svo sem að hann hljóti blessanir musterisins, er það ekki staðfesting á fullkomleika einstaklingsins og fyrirgefning einhverra synda. Öldungur Spencer W. Kimball kenndi, að eftir það sem hann sagði vera fullnægjandi jarðneska „yfirbót,“ yrðu menn „líka að sækjast eftir og tryggja endanlega iðrun frá Guði himins, sem hann einn fær staðfest.“ Ef iðrun er ekki gerð vegna syndsamlegra verka og þráa fram að lokadómi, verður hinn iðrunarlausi áfram óhreinn. Endanleg reikningsskil, þar með talið hreinleiki iðrunar, eru á milli hvers okkar og Guðs.

III. Upprisan og lokadómurinn

Sá dómur sem oftast er minnst á í ritningunum er lokadómurinn í kjölfar upprisunnar (sjá 2. Nefí 9:15). Í mörgum ritningaversum er sagt að „[öll] munum [við] verða að koma fram fyrir dómstól Guðs“ (Rómverjabréfið 14:10; sjá einnig 2. Nefí 9:15; Mósía 27:31), til að „verða [dæmd] af þeim verkum, sem unnin hafa verið í hinum dauðlega líkama“ (Alma 5:15; sjá einnig Opinberunarbókin 20:12; Alma 41:3; 3. Nefí 26:4). Allir verða dæmdir „ af verkum sínum“ (3. Nefí 27:15) og „samkvæmt því, sem hjörtu þeirra þrá“ (Kenning og sáttmálar 137:9; sjá einnig Alma 41:6).

Tilgangur þessa lokadóms er að ákveða hvort orðið hefur „gjörbreyting í hjörtum [okkar],“ eins og Alma lýsir því (sjá Alma 5:14, 26), að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“ (Mósía 5:2). Dómari þessi er frelsari okkar Jesús Kristur (sjá Jóhannes 5:22; 2. Nefí 9:41). Eftir dóm hans, munum við öll játa „að dómar hans eru réttvísir“ (Mósía 16:1; sjá einnig Mósía 27:31; Alma 12:15), því í alvisku hans (sjá 2. Nefí 9:15, 20) felst fullkomin þekking á öllum okkar verkum og þrám, bæði hinna réttlátu eða iðrunarfullu og hinna iðrunarlausu, sem ekki hafa breyst.

Í ritningunum er framvindu þessa lokadóms lýst. Alma kennir að réttvísi Guðs okkar krefjist þess að „hver einasti hlutur verði settur aftur á sinn stað“ í upprisunni (Alma 41:2). Í þessu felst að „hafi verk þeirra verið góð í þessu lífi og það, sem þeir þráðu í hjarta sínu, verið gott, þá [verða] þeir … á efsta degi endurreistir til hins góða“ (Alma 41:3). „En séu verk þeirra ill [eða þrár], þá munu þau,“ á sama hátt, „endurreist þeim til ills“ (Alma 41:4–5; sjá einnig Helaman 14:31). Spámaðurinn Jakob kenndi álíka að í lokadómnum munu „hinir réttlátu halda áfram að vera réttlátir og hinir saurugu halda áfram að vera saurugir“ (2. Nefí 9:16; sjá einnig Mormón 9:14; 1. Nefí 15:33). Þetta er undanfari þess sem Moróní segir vera „[hinar] ljúfu [dómgrindur] hins mikla Jehóva, hins eilífa dómara bæði lifenda og látinna“ (Moróní 10:34; sjá einnig 3. Nefí 27:16).

Við verðum að iðrast, til að tryggja að við verðum hrein frammi fyrir Guði, áður en lokadómurinn verður (sjá Mormón 3:22). Við getum ekki, líkt og Alma sagði við sinn synduga son, falið syndir okkar fyrir Guði „og ef [við iðrumst] ekki, munu [þær] standa sem vitnisburður gegn [okkur] á efsta degi (Alma 39:8; leturbreyting hér). Friðþæging Jesú Krists sér okkur fyrir einu mögulegu leiðinni til að hreinsast fyrir iðrun og okkur ber að gera það hér í jarðlífunu. Þótt okkur sé kennt að iðrun sé að hluta möguleg í andaheiminum (sjá Kenning og sáttmálar 138:31, 33, 58), þá er hún ekki jafn vís þar. Öldungur Melvin J. Ballard kenndi: „Þegar bæði hold og andi eru sameinuð, er mun auðveldar að sigrast á sjálfum sér og þjóna Drottni. Á þeim tíma eru menn auðmótaðri og móttækilegri. … Þetta líf er tími iðrunar.“

Þegar við iðrumst, höfum við fullvissu Drottins um að syndir okkar, einnig verk og þrár, verði hreinsaðar og okkar líknsami lokadómari „minnist þeirra ekki lengur“ (Kenning og sáttmálar 58:42; sjá einnig Jesaja 1:18; Jeremía 31:34; Hebreabréfið 8:12; Alma 41:6; Helaman 14:18–19). Við getum orðið hæf fyrir eilíft líf með því að hreinsast með iðrun, eða með orðum Benjamíns konungs, að „fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu“ (Mósía 2:41; sjá einnig Kenning og sáttmálar 14:7).

Annar þáttur „áætlunar [Guðs] um endurreisn“ (Alma 41:2) er að með upprisunni verði „allt endurreist í sína réttu og fullkomnu umgjörð“ (Alma 40:23). Þetta á við um fullkomnun allra okkar líkamlegu bresta og annmarkar í jarðlífinu, meðfæddra eða af völdum meiðsla eða sjúkdóma.

Hreinsar þessi endurreisn okkur af andlegum vanheilögum þrám eða ánetjunum, sem við höfum ekki sigrast á? Það getur ekki verið. Við vitum af nútíma opinberunum, að við verðum dæmd samkvæmt þrám okkar, sem og verkum (sjá Alma 41:5; Kenning og sáttmálar 137:9) og að jafnvel eigin hugsanir muni sakfella okkur (sjá Alma 12:14). Við megun ekki „skjóta degi iðrunar [okkar] á frest“ fram að dauða (Alma 34:33), kenndi Amúlek, því að hinn sami andi og ræður líkama okkar í þessu lífi – hvort heldur Drottins eða djöfulsins – „mun hafa vald yfir líkama [okkar] í [hinum] eilífa heimi“ (Alma 34:34). Frelsari okkar hefur máttinn og er fús til að hreinsa okkur af illu. Þetta er tíminn til að leita liðsinnis hans til að iðrast af ranglátum eða ósæmilegum þrám og hugsunum, svo við verðum hrein og undir það búin að standa frammi fyrir Guði í lokadómnum.

IV. Armur miskunnarinnar

Áætlun Guðs og öll hans boðorð einkennast af elsku hans til hvers okkar, sem er „eftirsóknarverðust af öllu … og það sem færir sálinni mesta gleði“ (1. Nefí 11:22–23). Spámaðurinn Jesaja fullvissaði jafnvel hina ranglátu um, að „snúi [þeir] sér til Drottins, … þá mun hann miskunna … [og fyrirgefa] ríkulega“ (Jesaja 55:7). Alma kenndi: „Sjá. Hann býður öllum mönnum til sín, því að armur miskunnarinnar er útréttur til þeirra“ (Alma 5:33; sjá einnig 2. Nefí 26:25–33). Hinn upprisni Drottinn sagði við Nefítana: „Sjá! Armur miskunnar minnar er útréttur til yðar, og ég mun taka á móti hverjum þeim, sem koma vill“ (3. Nefí 9:14). Af þessum og mörgum öðrum kenningum ritninganna, vitum við að okkar kærleiksríki frelsari er fús til að taka á móti öllum körlum og konum, að hans forsögðu ástúðlegu skilyrðum, til að þau fái notið æðstu blessunar Guðs fyrir börn sín.

„Í fullkomnu vonarljósi,“ sökum áætlunar Guðs og friðþægingar Jesú Krists, ber ég vitni um að Guð elskar okkur og að við getum verið hreinsuð fyrir tilverknað iðrunar. Okkur er lofað: „Ef þið þess vegna sækið fram, [endurnærð] af orði Krists og standið [stöðug] allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf“ (2. Nefí 31:20). Að við megum öll gera það, er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Kom þú til Jesú,“ Sálmar, nr. 39.

  2. Russell M. Nelson, “Repentance and Conversion,” Liahona, maí 2007, 102.

  3. Russell M. Nelson, „Fjórar gjafir sem Jesús Kristur býður okkur“ (jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins des. 2018), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.

  4. Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betri,” aðalráðstefna, apríl 2019.

  5. The Teachings of Spencer W. Kimball, ritst. af Edward L. Kimball (1982), 101.

  6. Melvin J. Ballard, í Melvin R. Ballard, Melvin J. Ballard: Crusader for Righteousness (1966), 212–13.

  7. Sjá Tad R. Callister, The Infinite Atonement (2000), 27–29.