2010–2019
Sjá, Guðslambið
Apríl 2019


Sjá, Guðslambið

Okkar breytta sunnudagaþjónusta leggur aukna áherslu á sakramenti kvöldmáltíðar Drottins sem helga og viðurkennda þungamiðju okkar vikulegu tilbeiðslu.

Mér leið vel þar til ég sá tárin í augum þessara ungu kórmeðlima. Þessi tár tjá meira en nokkur ræða sem ég gæti flutt.

Jóhannes skírari leit upp frá vatnsfletinum, framhjá hinum ákafa mannfjölda sem leitaði skírnar af hans hendi og sá frænda sinn, Jesú frá Nasaret, skálma ákveðið í átt til sín úr fjarlægð, til að biðja um þessa sömu helgiathöfn. Af auðmýkt, en nægilega hátt svo aðrir nærstaddir heyrðu, sagði Jóhannes þessi aðdáunarfullu orð, sem enn snerta okkur, tvö þúsund árum síðar: „Sjá, [Guðslambið].“

Áhugavert er að þessi löngu fyrirspáði fyrirrennari Jesú, kallaði hann ekki „Jehóva“ eða „frelsara“ eða „lausnara“ eða jafnvel „son Guðs“ – sem allt voru viðeigandi titlar. Nei, Jóhannes kaus að nota þá trúarlegu hefðbundnu ímynd sem fólk hans hafði þekkt hvað lengst og hugsanlega var almennust. Hann notaði ímynd fórnarlambs friðþægingar fyrir syndir og sorgir fallins heims og allra þeirra sem fallnir eru og í honum dvelja.

Leyfið mér að rifja aðeins upp þá framvindu.

Eftir að Adam og Evu hafði verið vísað úr Aldingarðinum, stóðu þau frammi fyrir átakanlegri framtíð. Þau höfðu lokið upp dyrum jarðnesks og stundlegs lífs fyrir okkur, en lokað dyrum ódauðleika og eilífs lífs fyrir sig sjálf. Þau þurftu nú að takast á við líkamlegan dauða og andlega útlegð, vegna brots sem þau völdu sjálf að fremja í okkar þágu, ævarandi aðskilnað frá návist Guðs. Hvað gátu þau gert? Var til leið út úr þessum ógöngum? Við vitum ekki til hlítar hversu mikið þessum tveimur var leyft að muna af þeim fyrirmælum sem þau fengu meðan þau enn voru í garðinum, en þau mundu eftir að þeim bar að færa Guði reglulega fórn, lýtalaust og flekklaust lamb, frumborið karldýr hjarðarinnar.

Engill kom síðar til þeirra og útskýrði að þessi fórn væri færð að fyrirmynd þeirrar fórnar sem færð yrði í þeirra þágu af frelsara heimsins, sem var fyrirbúinn. „Þetta er í líkingu fórnar hins eingetna föðurins,“ sagði engillinn. „Þess vegna skalt þú … iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins að eilífu.“ Til allrar hamingju, var leið fyrirbúin bæði út og upp.

Í fortilveru himins hafði Guð lofað Adam og Evu (og okkur öllum hinum) að hjálp myndi berast frá hinum hreina, flekklausa og frumgetna syni, Guðslambinu, sem „[slátrað var] frá grundvöllun veraldar, eins og Jóhannes postuli lýsti honum síðar. Með sinni smáu og táknrænu lambsfórn í jarðlífinu, sýndu Adam og afkomendur hans að þeir skildu og væru háðir friðþægingarfórn Jesú, hins smurða. Tjaldbúðin í eyðimörkinni varð síðar umgjörð fyrir þessa helgiathöfn og þar á eftir musterið sem Salómon byggði.

Því miður náði þessi helgisiður þeirra, að fórna flekklausum lömbum, ekki að tákna einlæga iðrun og trúfast líferni nægilega vel, að svo miklu leyti sem fram kemur í Gamla testamentinu. Hinn siðferðislegi ásetningur, sem þessar fórnir hefðu átt að hafa í för með sér, virtist oft fjara út áður en blóðið náði að þorna á steinunum. Hvað sem öllu líður, þá náði hann ekki að fyrirbyggja bróðurmorð fyrstu kynslóðarinnar, er Kain drap bróður sinn, Abel.

Eftir slíkt amstur og armæðu um aldir, er engin furða að englar himins hafi sungið af gleði þegar Jesús loks fæddist – sjálfur Messías, hinn langþráði. Eftir stutta jarðneska þjónustu sína, bjó þetta páskalamb, hreinna öllum, lærisveina sína undir dauða sinn, með því að innleiða sakramenti kvöldmáltíðar Drottins, sem var persónulegri mynd helgiathafnarinnar sem hafði verið kynnt utan Eden. Áfram skildi vera fórnfært, en fórnin átti að vera táknræn, mun dýpri, sjálfshugulli og persónulegri, en blóðsúthelling frumborins lambs Eftir upprisu sína, sagði frelsarinn við Nefítana um þetta:

„Og ekki skuluð þér fórna mér blóðfórnum framar. …

… En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Og hvern þann, sem kemur til mín með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, mun ég skíra með eldi og heilögum anda. …

… Iðrist því, … og látið frelsast.“

Kæru bræður mínir og systur, með aukinni og nýrri áherslu á trúarfræðslu á heimilinu, er okkur nauðsynlegt að muna eftir að okkur er enn boðið að „fara í hús bænarinnar … og færa sakramenti [okkar] á helgum degi [hans].“ Auk þess að verja auknum tíma í trúarfræðslu á heimilinu, er breytt sunnudagaþjónusta einnig til að einfalda samkomudagskrá, með aukinni áherslu á sakramenti kvöldmáltíðar Drottins sem helga og viðurkennda þungamiðju okkar vikulegu tilbeiðslu. Okkur ber að hafa í huga, eins persónulega og mögulegt er, að Kristur dó með sundurkramið hjarta af því að axla algjörlega einsamall syndir og sorgir alls mannkyns.

Þar sem við eigum þátt í þeirri örlagaríku byrði, þá krefst slík stund virðingar okkar. Við hvetjum ykkar því til að koma tímanlega á samkomur okkar og sýna lotningu og vera vel klædd til þátttöku í helgri athöfn. „Spariföt“ hafa að nokkru misst merkingu sína á okkar tímum og af virðingu við hann, sem við sækjum heim, ættum við að taka aftur upp þann sið að vera snyrtileg og vel klædd þegar því er hægt að koma við.

Hvað stundvísi varðar, munu hinar blessuðu mæður ávallt vera afsakaðar sem koma með börn, bleyjupoka og morgunkorn í dásamlegri óreiðu, þó seinar séu, og þakka fyrir að hafa yfirleitt komist. Að sama skapi eru aðrir sem óhjákvæmilega finna uxann sinn út í skurði að morgni hvíldardags. Við þennan síðari hóp segjum við þó að seinagangur er skiljanlegur, en ef uxinn er út í skurði alla sunnudaga, væri kannski þjóðráð að selja uxann eða fylla upp í skurðinn.

Í þessum sama anda, færum við ykkur postulegt boð um að draga úr háreysti í helgum byggingum okkar. Við höfum unun af því að heilsa upp á hvert annað, og svo ætti að vera – það er eitt gleðiefni kirkjusóknar – en við ættum ekki að vera hávær í rými sem sérstaklega er helgað tilbeiðslu. Ég óttast að gestum, sem ekki eru okkar trúar, gæti brugðið við það sem stundum telst hávaðasöm óvirðing í umgjörð sem einkennast ætti af bæn, vitnisburði, opinberun og friði. Kannski er himninum líka örlítið brugðið.

Það mun auka á anda sakramentissamkoma okkar, ef ráðandi embættismenn eru sestir nokkru áður en samkoma hefst, hlusta á forspilið og eru okkur hinum fyrirmynd lotningar sem fylgja ber. Sé spjallað upp við ræðupúltið, skal ekki undra að spjallað sé meðal safnaðarins. Við þökkum þeim biskupsráðum sem takmarka tilkynningar sem draga athygli frá anda tilbeiðslu okkar. Ég, til að mynda, á erfitt með að sjá fyrir mér prest, líkt og Sakaría – væri hann í hinu forna musteri Drottins, í þann mund að taka þátt í hinum einu, sönnu trúarlegu forréttindum lífs síns – ég hreinlega fæ ekki séð hann fyrir mér gera hlé við altarið til að minna okkur á að sex vikur séu í kassabílakeppnina og skráningu verði brátt lokið.

Bræður og systur, þessi klukkustund vikunnar, helguð af Drottni, er helgust allra. Að boði komum við saman fyrir þá helgiathöfn, sem er mest viðtekna helgiathöfn kirkjunnar. Það er í minningu hans, sem spurði hvort bikarinn, sem hann hugðist dreypa á, mætti fram hjá sér fara, aðeins til að halda ótrauður áfram, því hann vissi að fyrir okkar sakir gat það ekki gerst. Það hjálpar að hafa í huga að tákn þessa sama bikars er hægt og sígandi á leið til okkar eftir röðinni, í umsjá 11 eða 12 ára djákna.

Þegar sú helga stund rennur upp að við færum Drottni fórnargjöf okkar, höfum við eigin syndir og bresti til að útkljá, það er ástæða veru okkar þar. Við gætum þó verið farsælli við slíka iðrun, ef við hugum að öðrum umhverfis sem eru brostnir í hjarta og sorgmæddir í anda. Þeir gætu setið nærri sem hafa grátið – hið ytra eða innra – allan sakramentissálminn og bænir prestanna. Gætum við veitt því hljóða athygli og boðið fram okkar smáa brauðmola huggunar og smáa bikar samúðar – og helgað þeim það? eða þeim meðlim sem grætur og á erfitt, en er ekki á samkomunni, og mun ekki koma í næstu viku, nema við líknum honum á einhvern hátt? eða þeim bræðrum okkar og systrum sem hreint ekki tilheyra kirkjunni, en eru þó bræður okkar og systur? Það er engin hörgull á þjáningum í þessum heimi, innan eða utan kirkju, því ef þið lítið umhverfis finnið þið einhvern sem upplifir sársauka sem virðist of sár og sorg sem virðist aldrei taka enda. Ein leið til að „hafa hann ávallt í huga“ er að ganga til liðs við hinn mikla græðara í hans viðvarandi verki að létta byrðar hinna íþyngdu og græða sár hinna örvæntingarfullu.

Kæru vini, þegar við komum saman í viku hverri um víða veröld, til þeirrar stundar sem við vonum að verði stöðugt helgari þakkargjörð fyrir hina miklu friðþægingarfórn Krists í þágu alls mannkyns, megum við þá, við altari sakramentis „[auka] tár af hans trega [og] sorg af hans kvöl.“ Þegar við síðan íhugum, biðjum og endurnýjum sáttmála okkar, megi þá helga stund „[auka] þolgæði í þrautum, … [auka] auðmýkt í raunum.“ Slíkrar þolinmæði og líknar, slíks heilagleika og vonar, bið ég ykkur öllum, í nafni þess sem braut hið dýrmæta brauð fyrirgefningar og skenkti fyrsta víni endurlausnar, já, Jesú Krists, hins dýrmæta, líknsama, heilaga Guðslambs, amen.

Heimildir

  1. Jóhannes 1:29.

  2. Sjá 2. Nefí 9:8–9.

  3. Sjá HDP Móse 5:5; sjá einnig 2. Mósebók 12:3–10.

  4. HDP Móse 5:7–8; sjá einnig HDP Móse 5:9.

  5. Opinberunarbókin 13:8.

  6. Sjá Bible Dictionary, “Anointed One”; sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Hinn smurði,“ scriptures.ChurchofJesusChrist.org.

  7. Kaldhæðnislegt er að sá gjörningur Kains að drepa Abel, sem rekja má til áhrifa Satans, gæti tengst því að Kain reiddist áður yfir að Drottinn hafnaði fórn hans og hafði velþóknun á fórn Abels.

    „Guð … hafði fórn til reiðu, en það var gjöf hans eigin sonar, … til að … ljúka upp dyrum … [að] návist Guðs. …

    Í trú á friðþæginguna, eða endurlausnaráætlunina, færði Abel Guði þóknanlega fórn, sem var frumburður hjarðar hans. Kain færði fórn af ávexti jarðar, en sú fórn var ekki þóknanleg. … [Í fórn hans var ekki innifalið] úthelling blóðs“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 48; sjá einnig 107–8).

  8. 3. Nefí 9:19–20, 22.

  9. Kenning og sáttmálar 59:9.

  10. Moróní 4:3; 5:2.

  11. „Auk heilaga helgun,“ Sálmar, nr. 39.