Lokaorð
Megum við einnig helga og endurhelga líf okkar þjónustu við Guð og börn hans – beggja vegna hulunnar.
Kæru bræður og systur, er dregur að lokum þessarar sögulegu ráðstefnu, þá þökkum við Drottni fyrir innblástur hans og vernd. Boðskapurinn hefur uppfrætt og upplyft okkur.
Ræðumenn fengu ekki úthlutað ræðuefnum. Hver þeirra leitaði persónulegrar opinberunar í bæn, í undirbúningi fyrir boðskap sinn. Mér finnst athyglisvert hversu vel ræðuefnið fellur að hvert öðru. Er þið kynnið ykkur það, leitist þá við að læra hvað Drottinn er að reyna að kenna ykkur fyrir milligöngu þjóna sinna.
Tónlistin hefur verið guðdómleg. Við erum innilega þakklát hinum fjölmörgu tónlistarmönnum sem saman hafa sýnt hæfileika sína við að færa anda Drottins í hvern ráðstefnuhluta. Hann hefur einnig blessað bænir og söfnuð hvers hluta. Þessi ráðstefna hefur sannlega verið okkur öllum andleg veisla.
Við vonum og biðjum að heimili hvers meðlims verði sannur griðarstaður trúar, þar sem andi Drottins fær dvalið. Þrátt fyrir ósætti allt í kringum okkur, þá getur heimili okkar orðið himneskur staður, þar sem kærleikur ríkir í námi, bæn og trú. Við getum sannarlega orðið lærisveinar Drottins, staðið upp og talað hans máli hvar sem við erum.
Markmið Guðs ætti að vera okkar markmið. Hann vill að börnin sín velji að snúa aftur til hans, viðbúin, hæf, uppfrædd, innsigluð og trú sáttmálunum sem þau gerðu í heilögum musterum.
Við höfum nú 162 starfandi musteri. Þau elstu standa sem minnisvarðar um þá trú og sýn sem ástkærir frumherjar okkar höfðu. Hvert musteri sem þeir byggðu reis vegna mikilla persónulegra fórna þeirra og framlags. Hvert þeirra er sem undurfagur eðalsteinn í kórónu afreka frumherjanna.
Heilög ábyrgð okkar er að annast þau. Þessi musteri frumherjanna munu því fljótlega verða endurnýjuð og uppgerð og einhver endurbætt frá grunni. Lagt verður upp úr því að varðveita hinar einstæðu söguminjar hvers musteris, þar sem hægt er, varðveita innblásandi fegurð og einstakt handverk löngu horfinna kynslóða.
Þegar hafa verið birtar upplýsingar um St. George musterið í Utah. Áætlanir um viðgerðir á Salt Lake musterinu, Musteristorginu og samliggjandi torgi höfuðstöðva kirkjunnar, verða kynntar föstudaginn 19. apríl, 2019.
Manti-musterið og Logan-musterið í Utah verða einnig endurgerð á komandi árum. Þegar þessar áætlanir verða til reiðu, verða þær einnig kynntar.
Þessar aðgerðir munu krefjast þess að hvert þessara mustera verði lokað um tíma. Kirkjumeðlimir munu halda áfram að njóta musteristilbeiðslu og þjónustu í öðrum nálægum musterum. Þegar sérhvert þessara verkefna klárast verða þessi sögufrægu musteri endurvígð.
Bræður og systur, við lítum á musterin sem hinar helgustu byggingar í kirkjunni. Er við kynnum áætlanir um að byggja nýtt musteri, þá verður það hluti af helgri sögu okkar. Hlýðið nú vandlega á og með lotningu. Ef ég tilkynni um musteri á stað sem er ykkur kær, mætti ég þá leggja til að þið lútið einfaldlega höfði í hljóðri þakklætisbæn. Við viljum ekki upphrópanir til að draga úr helgi þessarar ráðstefnu og hinna heilögu mustera Drottins.
Í dag njótum við þeirrar ánægju að kynna áætlanir um byggingu fleiri mustera á eftirtöldum stöðum:
Pago Pago, Amerísku Samóaeyjum; Okinawa City, Okinawa Neiafu, Tonga Tooele Valley, Utah Moses Lake, Washington San Pedro Sula, Hondúras; Antofagasta, Síle; Búdapest, Ungverjalandi.
Þakka ykkur fyrir, kæru bræður mínir og systur.
Er við tölum um eldri og nýrri musterin okkar, megi þá hvert okkar sýna í verki að við séum sannir lærisveinar Drottins, Jesú Krists. Megum við endurnýja líf okkar í trú og trausti á hann. Megum við tengjast krafti friðþægingar hans með daglegri iðrun okkar. Megum við einnig helga og endurhelga líf okkar þjónustu við Guð og börn hans – beggja vegna hulunnar.
Ég færi ykkur kærleika minn og blessun og fullvissa ykkur um að opinberanir eru viðvarandi í þessari kirkju, kirkju Drottins. Þær munu berast áfram þar til „tilgangi Guðs verður náð og að hinn mikli Jehóva mun segja verkinu lokið.“
Ég blessa ykkur á þennan máta og ber ykkur minn vitnisburð að Guð lifir! Jesús er Kristur! Þetta er hans kirkja. Við erum hans börn. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.