2010–2019
Heit elska til barna föður okkar
Apríl 2019


Heit elska til barna föður okkar

Kærleikurinn er megin eiginleikinn og aflavaki þess andlega tilgangs sem okkar ástkæri spámaður býður okkur að vinna að.

Kæru bræður og systur, þetta er einstakt og mikilvægt tímabil sögunnar. Við erum blessuð að vera uppi á síðustu ráðstöfuninni, fyrir síðari komu frelsarans. Árið 1829, í upphafi þessarar ráðstöfunar, árinu áður en kirkjan var formlega stofnuð, var dásamleg opinberun gefin um að „undursamlegt verk“ væri „að hefjast.“ Þessi opinberun staðfestir að þeir sem þrá að þjóna Guði, geti verið hæfir til slíkrar þjónustu fyrir „trú, von, [kærleika] og ást, með einbeittu augliti á dýrð Guðs.“ Kærleikur sem er „hin hreina ást Krists,“ felur í sér eilífa elsku Guðs fyrir öll börn hans.

Ætlunarverk mitt í dag er að draga fram mikilvægi slíkrar elsku í trúboðsstarfi, musteris- og ættarsögustarfi og hinu heimilismiðaða og kirkjustyrkta trúarnámi fjölskyldunnar. Elska frelsarans og elska okkar til samferðafólks okkar er megin eiginleiki og tilgangur hirðisþjónustunnar og sá andlegi tilgangur sem okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, hefur boðið okkur að vinna að, með kynntum breytingum árið 2018.

Trúboðsstarf til samansöfnunar hinum dreifða Ísrael

Ég áttaði mig snemma í lífinu á sambandi trúboðsstarfs og kærleika. Þegar ég var 11 ára fékk ég patríarkablessun mína frá patríarka, sem líka var afi minn. Í þeirri blessun sagði að hluta: „Ég blessa þig með heitri elsku til samferðafólks þíns, því þú verður kallaður til að færa heiminum fagnaðarerindið … til að leiða sálir til Krists.“

Ég skildi, jafnvel á þeim unga aldri, að miðlun fagnaðarerindisins byggðist á heitri elsku til allra barna himnesks föður.

Þegar aðalvaldhöfum var falið að vinna að ritinu Boða fagnaðarerindi mitt fyrir 15 árum, var niðurstaðan sú að kærleikur væri nauðsynlegur í trúboðsstarfi okkar tíma, líkt og hann hefur alltaf verið. Kafli 6, um kristilega eiginleika, þar með talið kærleika og elsku, hefur alltaf verið vinsælasti kaflinn meðal trúboðanna.

Flestir trúboðar finna slíka elsku, sem sendiboðar frelsarans, og þegar þeir finna hana, er starf þeirra blessað. Þegar meðlimir hljóta skilning á slíkri elsku, sem er nauðsynleg til að hjálpa Drottni í verki hans, mun verk Drottins ná fram að ganga.

R. Wayne Shute

Ég naut þeirrar blessunar að gegna litlu hlutverki í dásamlegu dæmi um slíka elsku. Þegar ég þjónaði sem svæðisforseti Kyrrahafseyjanna, fékk ég símhringingu frá R. Wayne Shute forseta. Þegar hann var ungur maður þjónaði hann í trúboði á Samóaeyjum. Hann fór svo aftur síðar til Samóaeyja sem trúboðsforseti. Þegar hann hringdi í mig var hann forseti Apia-musterisins á Samóaeyjum. Einn hinna ungu trúboða hans, þegar hann var trúboðsforseti, var öldungur Vincent Haleck, sem nú er svæðisforseti Kyrrahafseyja. Shute forseti bar mikinn kærleika og virðingu fyrir Vince og allri Haleck-fjölskyldunni. Flestir í fjölskyldunni voru meðlimir kirkjunnar, en faðir Vince, Otto Haleck, partíarki fjölskyldunnar (þýskra og samóeyskra afkomenda), var ekki meðlimur. Shute forseti vissi að ég sótti stikuráðstefnu og aðra fundi á amerísku Samóaeyjum og spurði hvort ég gæti hugsað mér að dvelja á heimili Ottos Haleck, í þeim tilgangi að miðla honum fagnaðarerindinu.

Öldungur O. Vincent Haleck sem ungur trúboði

Ég og eiginkona míns, Mary, dvöldum á fallegu heimili Ottos og eiginkonu hans, Dorothy. Ég sagði frá fagnaðarerindinu við morgunverðinn og bauð Otto að hitta trúboðana. Hann var vinsamlegur, en hafnaði boði mínu ákveðinn. Hann sagðist ánægður með að margir í fjölskyldu hans væru Síðari daga heilagir. Hann sagði þó ákveðið að sumir hinna samóeysku áa hans í móðurætt hafi verið kristnir prestar á Samóaeyjum og að hann fyndi til mikillar hollustu við hina hefðbundnu kristnu trú þeirra. Við skildum þó sem góðir vinir.

Síðar, þegar Gordon B. Hinckley forseti bjóst til að vígja Suva-musterið á Fidjieyjum, hringdi bróðir Don H. Staheli í mig í Nýja Sjálandi til að gera ráðstafanir í því sambandi. Hinckley forseti vildi fljúga frá Fidjieyjum til hinna bandarísku Samóaeyja, til að hitta hina heilögu þar. Mælt var með ákveðnu hóteli sem áður hafði verið notað. Ég spurði hvort ég mætti gera aðrar ráðstafanir. Bróðir Staheli sagði: „Þú ert svæðisforsetinn, svo það væri ágætt.“

Ég hringdi þegar í Shute forseta og spurði hvort við gætum hugsanlega aftur reynt að blessa vin okkar, Otto Haleck, andlega. Í þetta skipti átti trúboðinn að vera Gordon B. Hinckley forseti. Ég spurði hvort viðeigandi væri að Haleck-hjónin hýstu alla samferðamenn Hinckely forseta. Hinckley forseti og systir Hinckley, dóttir þeirra Jane, og öldungur Jeffrey R. Holland og systir Holland, voru líka með í för. Shute forseti sá um allar ráðstafanir, í samstarfi við fjölskyldu sína.

Þegar við komum frá Fidjieyjum, eftir vígslu musterisins, var vel á móti okkur tekið. Um kvöldið ávörpuðum við mörg þúsund meðlimi Samóaeyja og fórum síðan heim til Haleck-fjölskyldunnar. Þegar við komum saman til morgunverðar daginn eftir, voru Hinckley forseti og Otto Haleck þegar orðnir góðir vinir. Það vakti áhuga minn að umræðuefni þeirra var að miklu leyti það sama og í samræðum mínum við Otto fyrir rúmu ári. Þegar Otto lét í ljós aðdáun sína á kirkjunni okkar, en staðfesti aftur hollustu við sína núverandi kirkju, setti Hinckley forseti hönd sína á öxl Ottos og sagði: „Otto, þetta er ekki nægilega gott; þú átt að vera meðlimur kirkjunnar. Hún er kirkja Drottins.“ Í óeiginlegri merkinu hefðuð þið getað séð varnarklæði Ottos falla af honum, við þessi einlægu orð Hinckleys forseta.

Þetta var upphafið að ennfrekari trúboðskennslu og andlegri auðmýkt Ottos Haleck, sem rétt rúmu ári síðar varð til þess að hann skírðist og var staðfestur inn í kirkjuna. Ári þar á eftir var Haleck-fjölskyldan innsigluð í musterinu sem eilíf fjölskylda.

Haleck fjölskyldan innsigluð í musterinu

Það sem snart mig í allri þessari dásamlegu framvindu, var þjónustulund Wayne Shute forseta og hinn mikla elska sem hann sýndi og bar til öldungs Vince Haleck og þrá til að sjá alla Haleck-fjölskylduna sameinaða sem eilífa fjölskyldu.

Hvað varðar samansöfnun Ísraels, þá þurfum við að samstilla hjörtu okkar slíkri elsku og forðast skyldu- eða sektartilfinningu og tileinka okkur elsku og þátttöku í hinu guðlega samstarfi við að miðla heiminum boðskap, þjónustu og hlutverki frelsarans.

Við getum, sem meðlimir, sýnt elsku okkar til frelsarans og bræðra okkar og systra um heim allan, með einföldu boði. Hin nýja samkomudagskrá sunnudaga veitir meðlimum tilvalið tækifæri til að bjóða vinum og kunningjum farsællega og af elsku, að koma og sjá og upplifa kirkjuþjónustu. Í kjölfar andlegrar sakramentissamkomu, vonandi eins helgri og öldungur Holland lýsti, er 50 mínútna samfundur þar sem áhersla er lögð á Nýja testamentið og frelsarann eða viðeigandi ráðstefnuræðu, einnig með áherslu á frelsarann og kenningu hans.

Sumar Líknarfélagssystur hafa velt fyrir sér afhverju þeim hefur verið falið verkefni „samansöfnunar“ með meðlimum prestdæmissveita. Það eru ástæður fyrir því og Nelson forseti gerði grein fyrir mörgum þeirra á síðustu aðalráðstefnu. Hann sagði að lokum: „Við getum einfaldlega ekki safnað Íslael saman án ykkar.“ Á okkar tíma njótum við þeirrar blessunar að um 30 prósent fastatrúboða eru systur. Það veitir Líknarfélagssystrum viðbótar hvatningu til að miðla fagnaðarerindinu af ástúð. Það sem þarf er kærleiksrík, samúðarfull og andleg skuldbinding hvers okkar – karla, kvenna, unglinga og barna – til að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists. Ef við sýnum elsku, góðvild og auðmýkt, munu margir taka á móti boði okkar. Þeir sem kjósa að taka ekki á móti því, verða samt áfram vinir okkar.

Musteris- og ættarsögustarf við samansöfnun Ísraels

Kærleikur er líka kjarni musteris- og ættarsögustarfs við samansöfnun Ísraels hinum megin hulunnar. Þegar við lærum um harðræðið sem áar okkar upplifðu, vex kærleikur okkar og þakklæti til þeirra. Musteris- og ættarsögustarf okkar hefur eflst að miklu marki, með hinum nýju breytingum, bæði hvað varðar samkomudagskrá sunnudaga og skiptingu í námsbekki og sveitir æskufólksins. Þessar breytingar ná til yngri hópa og efla starfið til að læra um áa okkar og safna saman Ísrael hinum megin hulunnar. Bæði musteris- og ættarsögustarf hefur aukist til muna.

Alnetið er áhrifaríkt verkfæri; heimilið er nú okkar megin ættarsögumiðstöð. Yngri meðlimir okkar eru einkar hæfir í ættarsögurannsóknum og andlega áfjáðir að framkvæma skírnir fyrir áa sína, sem þeim hefur lærst að elska og virða. Allt frá því að breytingin kom til framkvæmda um að leyfa 11 ára börnum að skírast fyrir hina dánu, hafa musterisforsetar víða um heim tilkynnt um mikla aukningu í musterissókn. Einn musterisforseti sagði „aukningu skírnargesta vera undraverða … og að viðbót 11 ára barna hafi aukið komu fjölskyldna. … Þrátt fyrir [ungan] aldur, virðast þau skynja heilagleika og tilgang helgiathafnarinnar sem þau taka þátt í. Það er dásamlegt að fylgjast með því!”

Ég veit að Barnafélagið okkar og leiðtogar æskufólksins eru og munu halda áfram að gera ættarsögu- og musterisstarf að áhersluverkefni. Líknarfélagssystur og prestdæmisbræður geta af ástúð hjálpað við að uppfylla eigin musteris- og ættarsöguskyldur sem einstaklingar og líka með því að aðstoða og innblása börn og unglinga til að taka þátt í samansöfnun Ísraels hinu megin hulunnar. Þetta er einkar mikilvægt að gera á heimilinu og á hvíldardegi. Ég lofa, að ef þið takið ástúðlega þátt í helgiathöfnum í þágu áa ykkar, mun það styrkja og vernda æskufólk ykkar og fjölskyldur, í heimi stöðugt vaxandi illsku. Ég vitna líka af eigin reynslu um að Russell M. Nelson forseti hefur hlotið afar mikilvægar opinberanir varðandi musteris- og ættarsögustarf.

Búa eilífar fjölskyldur og einstaklinga undir að dvelja hjá Guði

Nýjar áherslur á hið heimilismiðaða trúarnám og tileinkun þess og gögnin sem kirkjan sér okkur fyrir, eru undursamlegt tækifæri til að búa eilífar fjölskyldur og einstaklinga ástúðlega undir að mæta og lifa hjá Guði.

Þegar karl og kona eru innsigluð í musterinu, bindast þau helgri hjónabandsreglu, í hinum nýja og ævarandi sáttmála, sem er prestdæmisregla. Saman hljóta þau blessanir og kraft prestdæmisins, sér til leiðsagnar í málefnum fjölskyldunnar. Konur og karlar gegna sérstökum hlutverkum, eins og útskýrt er í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ en ráðsmennska þeirra er jafngild og mikilvæg. Þau hafa sömu möguleika á að fá opinberun fyrir fjölskyldu sína. Þegar þau vinna saman, í kærleika og réttlæti, verða ákvarðanir þeirra blessaðar af himni.

Þeir sem leita þess að þekkja vilja Drottins, fyrir sig sjálfa og fjölskyldu sína, þurfa að keppa að réttlæti, hógværð, góðvild og kærleika. Auðmýkt og kærleikur eru aðalsmerki þeirra sem leita vilja Drottins, einkum fyrir fjölskyldu sína.

Það er einstaklingsbundin ábyrgð að vinna að fullkomnun okkar sjálfra, gera okkur hæf fyrir blessanir og sáttmála og búa okkur undir að mæta Guði. Við þurfum að vera sjálfbjarga og starfa af kappi við að gera heimili okkar að skjóli gegn stormunum sem umlykja okkur og „griðarstað trúar.“ Foreldrar hafa þá ábyrgð að kenna börnum sínum af ástúð. Heimili fyllt kærleika er gleðiríkt, dásamlegt og í raun himinn á jörðu.

Eftirlætis sálmur móður minnar var „Ást ef heima býr.“ Alltaf þegar hún heyrði fyrstu línuna: „Allt er fagurt, allt er blítt, ást ef heima býr,“ þá komst hún við og táraðist. Við börnin vorum meðvituð um að við áttum slíkt heimili; það var aðal forgangsatriði hennar.

Til viðbótar við að hvetja til ástúðar á heimilinu, hefur Nelson forseti lagt áherslu á að takmarka notkun miðla sem trufla megin ætlunarverk okkar. Eitt af því sem mætti breyta og verða mun næstum öllum fjölskyldum til góðs, er að gera Alnetið, samfélagsmiðla og sjónvarp að þarfaþjóni frekar en truflun, hvað þá heldur drottnara. Stríðið um sálir allra, einkum þó barnanna, er oft háð á heimilinu. Við, sem foreldrar, þurfum að gæta þess að miðlaefnið sé heilbrigt, hæfi aldri og í samhljóm við það ástúðlega umhverfi sem við reynum að búa okkur.

Kennsla á heimilum okkar þarf að vera skýr og sannfærandi, en líka andleg, gleðirík og fyllt kærleika.

Ég lofa, að ef við einblínum á elsku okkar til frelsarans og friðþægingar hans, höfum hann sem þungamiðju starfs okkar við samansöfnun Ísraels, beggja vegna hulunnar, þjónum öðrum og búum okkur sjálf undir að mæta Guði, þá mun draga úr áhrifum óvinarins og gleði, yndisleiki og friður fagnaðarerindisins, munu auka kristilega elsku á heimilum okkar. Ég vitna um þessi kenningarlegu loforð og ber öruggt vitni um Jesú Krist og friðþægingarfórn hans í ykkar þágu, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 4:1, 5.

  2. Moró 7:47.

  3. Sjá „Kærleikur og elska,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu, endursk. útgáfa (2019), 118.

  4. Sjá 5 Mós 6:5.; Matt 22:36–40.

  5. Sjá „Ábyrgðarskyldur forsætisráða öldungasveitar og Líknarfélags tengdar trúboðsstarfi og musteris- og ættarsögustarfi,“ tilkynning, 6. okt. 2018.

  6. Afa mínum var heimilt að gefa barnabörnum sínum patríarkablessun, sem bjuggu í hinum ýmsu stikum. Ég fékk mína við 11 ára aldur, því hann var veikur og talið var að hann myndi falla frá.

  7. Patíarkablessun gefin Quentin L. Cook, af patríarkanum Crozier Kimball, 13. okt. 1951, Draper, Utah.

  8. R. Wayne Shute forseti þjónaði líka með eiginkonu sinni, Lornu, í ýmsum öðrum trúboðum í Shanghai, Kína; Armeníu; Singapore; og Grikklandi. Eftir lát Lornu, giftist hann Rheu Mae Rosvall og þau þjónuðu í Brisbane trúboðinu í Ástralíu. Sjö af níu börnum hans hafa þjónað í trúboði. Í tvö af þeim árum sem öldungur John H. Groberg þjónaði sem trúboðsforseti á Samoa, þjónaði hann sem trúboðsforseti á Tonga. Sú reynsla sem bæði upplifðu er söguleg.

  9. Otto Haleck var ólærður leiðtogi í Congregational Christian Church á Samóaeyjum, sem átti rætur í London Missionary Society. Faðir hans var af þýskum uppruna, frá Dessau, Þýskalandi.

  10. Don H. Staheli forseti þjónar sem stendur sem forseti Bountiful-musterisins í Utah.

  11. Gordon B. Hincley forseti, systir Marjorie P. Hincley og dóttir þeirra, Jane Hinckley Dudley, öldungur Jeffrey R. og systir Patricia T. Holland, öldungur Quentin L. og systir Mary G. Cook og bróðir Don H. Staheli, voru öll viðstödd.

  12. Öldungur O. Vincent Haleck sagði mér frá því að faðir hans hefði boðið Vince og bróður hans, David, að koma yfir hafið til að skoða húsið og dvelja þar yfir heimsókn Hinckleys forseta. Öldungur Haleck sagði föður sinn hafa sagt: „Veistu að þetta gætu verið englar.“ Hann sagði við syni sína, að ef þeir hygðust hýsa spámanninn, ættu þeir að hafa húsið í besta standi.

  13. Hinckley var boðinn velkominn af leiðtogum bandarísku Samóaeyjum og mörg þúsundum Samóabúum á fótboltaleikvanginum.

  14. Sameining fjölskyldna með kostgæfu trúboðsstarfi, hefur stórum einkennt bæði Samóabúa og annað pólínesískt fólk.

  15. Shute forseti var svo elskaður og mikils metinn að honum var boðið að tala við útför Ottos Haleck árið 2006.

  16. „Í upphafi gætum við stundum þjónað af skyldurækni, en jafnvel slík þjónusta getur laðað okkur að einhverju æðra … að þjóna að ,miklu ágætari leið‘ [1 Kor12:31]“ (Joy D. Jones, „Fyrir hann,“ aðalráðstefna, okt. 2018).

  17. Sjá Tad R. Callister, The Infinite Atonement (2000), 5–8.

  18. Kirkjumeðlimir ættu alltaf að samræma með trúboðum, þegar þeir bjóða öðrum.

  19. Russell M. Nelson, „Hlutverk systra í samansöfnun Ísraels,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  20. Greinargerð B. Jackson forseta og systur Rosemary M. Wixom, forseta og ráðskonu Salt Lake musterisins, til Aðalforsætisráðs Barnafélagsins í mars 2019. Wixam hjónin tóku fram að þau „væru að panta fleiri XXXS skírnarfatnað til að mæta eftirspurn!“

  21. Sjá Russell M. Nelson, „Upphafsorð,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  22. Sjá Kenning og sáttmálar 131:1–4.

  23. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ https://www.lds.org/bc/content/shared/content/icelandic/pdf/language-materials/35602_isl.pdf?lang=isl.

  24. „Sérhver faðir er fjölskyldu sinni patríarki og sérhver móðir er ættmóðir, sem jafningjar í tveimur ólíkum foreldrahlutverkum“ (James E. Faust, “The Prophetic Voice,” Ensign, maí 1996, 6).

  25. Sjá Kenning og sáttmálar 45:26–27; 88:91.

  26. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  27. Sjá “Home Can Be a Heaven on Earth,” Hymns, nr. 298.

  28. „Ást ef heima býr,“ Sálmar, nr. 110.

  29. Ef slíkum kærleika skal náð, ætti leiðsögnin í Kenningu og sáttmálum 121:41–42 að vera markmið:

    „Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita af hendi prestdæmisins, heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást–

    Með góðvild og hreinni þekkingu, sem stórum mun þroska sálina, án hræsni og án flærðar.“

    Forðast ætti að gagnrýna börn að óþörfu. Að sigrast á villu og óskynsemi krefst kennslu, ekki gagnrýni. Syndin krefst ögunar (sjá Kenning og sáttmálar 1:25–27).

  30. Sjá Russell M. Nelson, „Hlutverk systra í samansöfnun Ísraels,“ Sjá einnig Russell M. Nelson, „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní, 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  31. Kennsla á heimilinu er að nokkru eins og ein skólastofa fyrir alla aldurshópa. Þegar við kennum 11 ára börnum, getum við ekki leitt þau þriggja ára hjá okkur.

  32. Sjá Jóh 17:3; 2 Ne 31:20; Moró 7:47.