2010–2019
„Kom, fylg mér“
Apríl 2019


„Kom, fylg mér“

Jesús Kristur býður okkur að fara sáttmálsveginn til dvalar að nýju hjá himneskum foreldrum okkar og þeim sem við elskum.

Kæru bræður og systur, ég og eiginkona mín, Wendy, gleðjumst yfir að vera meðal ykkar á þessum hvíldardagsmorgni. Mikið hefur gerst frá síðustu aðalráðstefnu. Ný musteri hafa verið vígð, í Concepción, Síle; Barranquilla, Kólombíu og Róm, Ítalíu. Andanum var ríkulega úthellt á þessum helgu viðburðum.

Ég hrósa hinum mörgu konum (og körlum) sem nýlega lásu Mormónsbók og uppgötvuðu gleði og hulinn auð. Ég hrífst af greinargerðum um meðtekin kraftaverk.

Ég dáist að okkar 11 ára piltum, sem nú er djáknar og útdeila sakramentinu verðuglega hvern sunnudag. Þeir fara í musterið, ásamt okkar 11 ára stúlkum, sem nú læra og þjóna af áhuga sem Býflugur. Bæði piltar og stúlkur prédika sannleika fagnaðarerindisins af skýrleika og sannfæringu.

Ég fagna með börnum okkar og unglingum, sem aðstoða við kennslu fagnaðarerindisins á heimilum sínum, er þau starfa með foreldrum sínum við tileinkun hins heimilismiðaða og kirkjustyrkta námsefnis.

Okkur barst þessi mynd af hinum fjögurra ára gamla Blake, sem snemma á laugardagsmorgni greip kirkjubók og gall við: „Ég þarf að næra anda minn!“

Blake að næra anda sinn

Blake, við dáumst að þér og öðrum, sem velja að næra anda sinn, með því að gæða sér á sannleika hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Við fögnum í þeirri vitneskju að margir eru að taka á móti krafti Guðs í líf sitt, með því að tilbiðja og þjóna í musterinu.

Eins og mörgum ykkar er ljóst, þá upplifðum við ljúfan viðskilnað fyrir þremur mánuðum, er dóttir okkar, Wendy, yfirgaf þetta jarðneska líf. Á hennar síðustu dögum, í baráttu hennar við krabbamein, naut ég þeirrar blessunar að eiga við hana pabba-dóttur kveðjusamtal.

Ég hélt um hönd hennar og tjáði henni hve heitt ég elskaði hana og hve þakklátur ég væri fyrir að vera faðir hennar. Ég sagði: „Þú giftist í musterinu og hefur heiðrað sáttmála þína af trúfesti. Þú og eiginmaður þinn tókuð sjö börnum opnum örmum á heimili ykkar og óluð þau upp sem trúfasta lærisveina Jesú Krists, dygga kirkjumeðlimi og virka samfélagsþegna. Þau hafa valið sér maka af sama styrkleika. Pabbi er afskaplega stoltur af þér. Þú hefur verið mér mikil gleði!“

Hún sagði hljóðlega: „Takk fyrir, pabbi.“

Þetta var ljúf og társtokkin stund. Á hennar 67 árum, störfuðum við saman, sungum saman og fórum oft á skíði saman. Þetta kvöld töluðum við þó um það sem mestu skiptir, eins og sáttmála, helgiathafnir, hlýðni, trú, fjölskylduna, tryggð, elsku og eilíft líf.

Við söknum dóttur okkar mikið. Við höfum þó engar áhyggjur af henni, sökum hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Með því að halda áfram að heiðra sáttmála okkar við Guð, lifum við í þeirri von að eiga aftur samvist við hana. Þar til það verður þjónum við Drottni hérna megin og hún þjónar honum hinumegin – í paradís.

Reyndar heimsóttum ég og eiginkona mín Paradís fyrr á þessu ári – það er að segja Paradise í Kaliforníu. Áætluð heimsókn okkar þangað var minna en 40 klukkustundum eftir að dóttir okkar yfirgaf þennan heim. Við, ásamt öldungi Kevin W. Pearson og eiginkonu hans, June, nutum stuðnings hinna heilögu í Chico-stiku, Kaliforníu. Við kynntumst mikilli trú þeirra, þjónustu og kraftaverkum sem gerðust jafnvel mitt í hræðilegum missi þeirra af völdum skaðlegasta skógarelds í sögu Kaliforníu.

Þegar við vorum þar, ræddum við nokkuð lengi við ungan lögreglumann, John að nafni, sem var einn af mörgum sem voru fyrstir á vettvang. Hann sagði frá þykkum mökknum sem var yfir Paradise, 8. nóvember 2018, er eldur og glæringar fóru í gegnum bæinn og eyðilögðu miskunnarlaust eignir og muni, svo ekkert varð eftir nema aska og naktir múrsteinsskorsteinar.

Samkomuhús eftir eldsvoða

Í 15 klukkustundir ók John í gegnum óslitið myrkrið, með ógnandi eldglæringar þjótandi um loftið, er hann hjálpaði manni eftir manni og fjölskyldu eftir fjölskyldu að komast í skjól – og hætti með því eigin lífi. Það sem þó skelfdi John meira en þessi erfiða þrekraun, var hin gagntakandi spurning: „Hvar er fjölskyldan mín?“ Eftir margar og langar skelfilega klukkustundir, komst hann loks að því að hún væri komin í skjól.

Frásögnin um áhyggjur Johns af fjölskyldu sinni, blés mér í brjóst að tala í dag til þeirra ykkar, sem gætu spurt, er dregur að lokum þessa jarðneska lífs: „Hvar er fjölskyldan mín?“ Á þeim komandi degi, er þið munið ljúka ykkar jarðnesku prófraun og fara í andaheiminn, munið þið standa frammi fyrir hinni átakanlegu spurningu: „Hvar er fjölskyldan mín?“

Jesús Kristur kennir leiðina aftur til okkar eilífu heimkynna. Hann skilur áætlun himnesks föður um eilífa framþróun betur en nokkurt okkar. Hvað sem öllu líður, þá er hann burðarsteinn alls í henni. Hann er lausnari okkar, græðari okkar og frelsari okkar.

Allt frá því að Adam og Evu var vísað út úr Edengarðinum, hefur Jesús Kristur boðið fram sinn máttuga arm, öllum til hjálpar sem kjósa að fylgja honum. Í ritningunum er stöðugt endurtekið, að þrátt fyrir hverskyns syndir, allavega fólks, þá er armur hans áfram útréttur.

Anda sérhvers okkar er eðlilegt að þrá ævarandi fjölskylduást. Ástarsöngvar vekja falskar vonir um að elska sé allt sem þið þurfið, ef þið viljið vera saman að eilífu. Sumir trúa ranglega að í upprisu Jesú Krists felist loforð um að allir menn muni verða með ástvinum sínum eftir dauðann.

Í raun hefur frelsarinn sjálfur gert það algjörlega ljóst, að þótt upprisa hans tryggi að sérhver maður sem lifað hefur muni vissulega rísa upp og lifa ævinlega, þá er mikils meira krafist, ef við viljum njóta æðstu forréttinda upphafningar. Sáluhjálp er einstaklingsbundin, en upphafning er bundin fjölskyldunni.

Hlýðið á orð Drottins Jesú Krists til spámanns síns: „Allir sáttmálar, samningar, bönd, skyldur, eiðar, heit, framkvæmdir, sambönd, tengsl eða vonir, sem ekki eru gjörð, stofnað til og innsigluð, bæði um tíma og alla eilífð, einnig á helgasta hátt, með heilögum anda fyrirheitsins, … allt þetta hefur ekkert gildi, áhrif eða afl í upprisunni frá dauðum eða eftir hana, því að öllum samningum, sem ekki eru gjörðir í þessum tilgangi, lýkur við dauða mannanna.“

Hvers er þá krafist af fjölskyldu til ævarandi upphafningar? Við verðum hæf fyrir þau forréttindi með því að gera sáttmála við Guð, halda þá sáttmála og taka á móti nauðsynlegum helgiathöfnum.

Sú hefur verið raunin allt frá upphafi tímans. Adam og Eva, Nói og eiginkona hans, Abraham og Sara, Lehí og Saría og allir aðrir trúfastir lærisveinar Jesú Krists – allt frá sköpun heimsins – hafa gert sömu sáttmála við Guð. Þau hafa tekið á móti sömu helgiathöfnum og við í dag, sem meðlimir hinnar endurreistu kirkju Drottins, þá sáttmála sem við meðtökum með skírn og í musterinu.

Frelsarinn býður öllum að fylgja sér ofan í skírnarvatnið og, þegar að því kemur, að gera fleiri sáttmála við Guði í musterinu og taka á móti og vera trúföst þessum nauðsynlegu helgiathöfnum. Alls þessa er krafist, ef við viljum verða upphafin með fjölskyldum okkar og með Guði.

Ég hryggist í hjarta yfir að margir sem ég elska, dáist að og virði hafna boði hans. Þau hunsa boð Jesú Krists, er hann býður: „Kom, … fylg mér.“

Ég skil afhverju Guð grætur. Ég græt líka yfir slíkum vinum og ættmennum. Þau eru dásamlegir karlar og konur, tryggir fjölskyldu sinni og hollir samfélagsþegnar. Þau gefa rausnarlega af eigin tíma, orku og efnum. Heimurinn er betri vegna framlags þeirra. Þau hafa þó kosið að gera ekki sáttmála við Guðs. Þau hafa ekki tekið á móti þeim helgiathöfnum sem veita þeim upphafningu með fjölskyldum sínum og innsigla þau saman að eilífu.

Hve ég vildi geta heimsótt þau, til að bjóða þeim að íhuga alvarlega hin blessunarríku lögmál Drottins. Ég hef íhugað hvað ég gæti hugsanlega sagt, svo þau finni hve heitt frelsarinn elskar þau, viti hve heitt ég elska þau og geri sér ljóst hvernig konur og karlar sem halda sáttmála sína geta hlotið „fyllingu gleðinnar.“

Þau þurfa að skilja, að þótt til sé staður fyrir þau hér eftir – með dásamlegum körlum og konum, sem líka kusu að gera ekki sáttmála við Guð – þá er það ekki sá staður þar sem fjölskyldur verða sameinaðar og njóta þeirra forréttinda að lifa og þróast að eilífu. Sá staður er ekki ríkið þar sem þau munu upplifa fyllingu gleðinnar – ævarandi framþróun og hamingju. Þær geta aðeins hlotist með því að lifa í æðsta ríki himins hjá Guði, okkar eilífa föður; sonar hans, Jesú Krists; og okkar dásamlegu, verðugu og fullgildu fjölskyldumeðlimum.

Við mína fámálu vini vil ég segja:

„Í þessu lífi hafið þið aldrei sætt ykkur við næst besta kostinn í neinu. Þó er það svo, að með því að taka ekki fyllilega á móti hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, eruð þið að sætta ykkur við það næst besta.

„Frelsarinn sagði: ,Í húsi föður míns eru margar vistarverur.‘ Þó er það svo, að ef þið kjósið að gera ekki sáttmála við Guð, eruð þið að sætta ykkur við mun rýrara þak yfir höfuð ykkar um alla eilífð.“

Við mína fámálu vini vil ég ennfremur segja:

„Úthellið hjarta ykkar frammi fyrir Guði. Spyrjið hann hvort þetta sé sannleikur. Gefið ykkur tíma til að ígrunda orð hans. Lærið af alvöru! Ef þið elskið fjölskyldu ykkar sannlega og þráið upphafningu með henni í eilífðinni, greiðið þá gjaldið núna – með alvarlegu námi og heitri bæn – til að fá að þekkja þessi eilífu sannindi og lifið svo eftir þeim.

Ef þið eruð ekki viss um að trúa á Guð, byrjið þá á þessu. Hafið skilning á því að menn geta efast um tilveru Guðs, ef þeir hafa ekki átt neinar upplifanir með Guði. Setjið ykkur sjálf í þá stöðu að geta átt upplifanir með honum. Auðmýkið ykkur. Biðjið þess að hafa augu til að sjá hönd Guðs í lífi ykkar og í veröldinni umhverfis. Biðjið hann að segja ykkur hvort hann sé í raun til – hvort hann kannist við ykkur. Spyrjið hvað honum finnist um ykkur. Leggið síðan við hlustir.“

Einn slíkur kær vinur hafði ekki upplifað margt með Guði. Hann þráði þó samvist sinnar látnu eiginkonu. Hann bað mig um liðsinni. Ég hvatti hann til að eiga fund með trúboðunum, til að fá skilið kenninguna um Krist og lært um sáttmála, helgiathafnir og blessanir fagnaðarerindisins.

Hann gerði það. Honum fannst þó lífsmátinn sem þeir kenndu krefjast of margra breytinga á eigin lífi. Hann sagði: „Þessi boðorð og sáttmálar eru mér einfaldlega of erfið. Ég get heldur ekki greitt tíund og hef ekki tíma til að þjóna í kirkjunni.“ Hann spurði síðan: „Viltu vinna nauðsynlegt musterisverk fyrir mig og eiginkonu mína, þegar ég dey, svo við getum verið saman aftur?“

Til allrar hamingju, þá er ég ekki dómari þessa manns. Ég efast þó um gagnsemi staðgengilsverks í þágu manns sem sjálfur hefði getað skírst í þessu lífi – verið vígður prestdæminu og tekið á móti blessunum musterisins – en meðvitað hafnaði því að gera það.

Kæru bræður og systur, Jesús Kristur býður okkur að fara sáttmálsveginn til dvalar að nýju hjá himneskum föður og þeim sem við elskum. Hann býður okkur: „Kom, … fylg mér.“

Sem forseti kirkju hans, sárbið ég og skora á ykkur sem hafið fjarlægst kirkjuna og ykkur sem hafið í raun enn ekki sóst eftir að vita að kirkja frelsarans hefur verið endurreist. Vinnið hið andlega verk til að komst að þessu fyrir ykkur sjálf og gerið það nú þegar. Tíminn er á þrotum.

Ég ber vitni um að Guð lifir! Jesús er Kristur. Kirkjan hans og fylling fagnaðarerindis hans hafa verið endurreist, til að blessa okkur með gleði, hér og hér eftir. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.