2009
Spenntur að læra
April 2009


Spenntur að læra

„Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ (K&S 88:118).

Russell setti vandlega blýantana sína tvo og stílabókina í skólatöskuna. Hann greiddi sér og athugaði hvort allt væri ekki í lagi með fötin hans. Eftir að hafa faðmað mömmu og kvatt hljóp hann að vagnskýlinu. Honum fannst sem hann myndi springa ef skólavagninn kæmi ekki strax. Hann var svo spenntur að fara í skóla í fyrsta sinn.

Á hverju ári hafði Russell séð eldri bræður sína og systur fara út í vagnskýlið og taka þar vagninn í skólann. Hann vildi fara í vagninn með þeim. Það sem meira var, hann vildi læra það sem þau lærðu. Hann vildi læra meira um risaeðlur. Hann vildi vita hvernig lestirnar virkuðu. Hann vildi læra að lesa. Hann vissi bara að honum myndi þykja gaman í skóla.

Kennari Russells, frú Wilson, brosti þegar hann gekk inn í skólastofuna. Hún sýndi honum hvar borðið hans var. Hún sýndi honum líka hvar hann átti að hengja skólastöskuna sína.

„Kannski lærum við um risaeðlur fyrst,“ hugsaði Russell.

„Velkomin í skólann,“ sagði frú Wilson. „Við ætlum að kynna okkur og segja svolítið frá okkur sjálfum.“

Russell gretti sig. „Jæja, við verðum að kynnast öllum,“ hugsaði hann. „Kannski lærum við um risaeðlur á eftir.“

Þegar kom að Russell að kynna sig, sagði hann: „Ég heiti Russell. Ég er spenntur að læra allt—sérstaklega um lestir og risaeðlur.“

„Það er gott,“ sagði frú Wilson. Russell brosti. Hann var viss um að hann myndi læra um lestir og risaeðlur fljótlega.

En það gerðist ekki. Þau borðuðu nestið sitt og léku sér með kubba, kringlótta, ferkantaða og þríhyrnda.

„Frú Wilson, hvenær lærum við um risaeðlur og lestir?“ spurði Russell.

„Ekki núna, Russell,“ sagði hún. „Nú ætlum við að lesa sögu.“

„Er hún um risaeðlur?“

„Nei, Russell.“

Eftir sögulesturinn lærðu þau um stafrófið. Síðan var komið að heimferð.

Russell var reiður.

Hann gretti sig út um gluggann á vagninum. Hann hljóp heim frá vagnskýlinu og stormaði inn um útidyrnar. Hann hljóp inn í herbergið sitt og gróf andlitið ofan í teppið.

Mamma kom inn og lagði höndina á höfuð hans. „Hvernig var fyrsti dagurinn þinn?“ spurði hún.

„Hræðilegur. Ég læri aldrei neitt, og ég ætla ekki aftur. Við gerðum ekkert annað en leika með kubba og lesa sögur.“

„En Russell, þetta er bara fyrsti dagurinn,“ sagði mamma.

Russell settist upp og leit á mömmu. Ég vil læra um risaeðlur og lestir og læra að lesa—núna.“

Mamma settist á rúmið hjá Russell. „Þú getur ekki lært allt í einu. Að læra krefst tíma. Og því meira sem þú lærir núna, því meira geturðu lært seinna.“

„Hvað áttu við?“ spurði Russell.

„Nú, þú þarft að læra stafrófið áður en þú getur lært að lesa. Og þú þarft að læra að lesa áður en þú getur lært um það sem þú hefur áhuga á,“ sagði hún.

Russell hugleiddi þetta. Kannski var það fleira sem þurfti að læra en aðeins um risaeðlur og lestir. „Jæja, ætli ég reyni ekki að fara í skólann á morgun,“ sagði hann.

Mamma brosti til hans.

„En mamma, heldurðu að við gætum fengið bók í bókasafninu um risaeðlur?“

„Ég tel víst að við getum það.“

Teikningar: Jim Madsen