Nám og Síðari daga heilagir
Þekkingarleit er ævilangt og heilagt ferli, þóknanlegt föður okkar á himnum og eftirsótt af þjónum hans.
Sá sem vill komast inn á svið þekkingar verður að nálgast það líkt og Móse þá er hann nálgaðist logandi runnann; hann stendur á heilagri jörð, hann verður að hafa heilagleikann,“ sagði forseti J. Reuben Clark yngri (1871–1961), meðlimur Æðsta forsætisráðsins, er hann ræddi um innsetningu nýs rektors í starf sitt við Brigham Young háskólann. „Við verðum að nálgast þessa sannleiksleit—á öllum sviðum mannlegrar þekkingar, ekki aðeins með lotningu heldur einnig í anda tilbeiðslu.“1
Við Síðari daga heilagir höfum trú á menntun, og við höfum grundvallarskoðun á hvernig og hvers vegna við ættum að leita hennar. Trú okkar kennir okkur að við eigum að leita fræðslu með andanum og að við berum þá ábyrgð að nota þekkingu okkar til góðs fyrir mannkyn.
Leit okkar að sannleikanum
„Trú [okkar] … hvetur [okkur] til að leita þekkingar af kostgæfni,“ kenndi Brigham Young forseti (1801–77). „Engir sem nú lifa þrá heitar að sjá, heyra, læra og skilja sannleikann.“2
Leit okkar að sannleikanum ætti að vera jafn víðtæk og lífsferlið sjálft og jafn djúp og aðstæður okkar leyfa. Lærður Síðari daga heilagur ætti að leitast við að skilja mikilvægi trúarlegs, líkamlegs, félagslegs og stjórnmálalegs vanda okkar tíma. Því meiri sem þekking okkar er á himneskum lögmálum og jarðneskum hlutum, því meiri geta áhrif okkar orðið til góðs á þá sem með okkur eru og því öruggari munum við verða gagnvart þeim ærumeiðandi og illu áhrifum sem rugla okkur og tortíma.
Í leit okkar að sannleikanum þörfnumst við hjálpar elskandi föður okkar á himnum. Andi hans getur veitt okkur leiðsögn, magnað tilraun okkar til náms og aukið getu okkar til að tileinka okkur sannleikann. Þetta nám með andanum er ekki bundið skólastofunni eða undirbúningi fyrir skólapróf. Hann á við allt sem við gerum í lífinu og hvern þann stað sem við erum á—heima, í starfi og í kirkju.
Þegar við leitumst við að taka á móti og fylgja leiðsögn andans í heimi sem knúinn er af tilhneigingum og málefnum líðandi stundar, stöndum við andspænis skriðu af oft villandi og smávægilegum upplýsingum sem nútíma tækni sér okkur fyrir. Við eigum á hættu að verða það sem einhver kallaði „‚pönnukökufólk‘—útflatt og þunnt er við tengjumst hinum víðáttumikla netheimi upplýsinga, sem við öðlumst aðgang að með því einu að smella á takka.“3
Yfir okkur dynja einnig vinsælir viðtalsþættir, sálfræðiþættir, tískutímarit og fréttaskýringaþættir, þar sem röng gildi og vafasöm iðja getur verið skoðanamyndandi og haft áhrif á hegðun okkar. Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) sagði til dæmis: „Aldrei í þessum heimi hefur jafn mikill ruglingur verið í sambandi við hlutverk [kvenna og karla].“4
Við þessar aðstæður getur glundroði, vonleysi og minnimáttarkennd tekið að herja á trú okkar og snúa okkur frá frelsaranum og uppbyggingu ríkis hans á jörðu. Ef við beinum ákvörðunum okkar að veraldlegum tilhneigingum og stefnum, munum við „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar“ (Ephesians 4:14).
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu kennir reglur og lætur ekki stjórnast af vinsælum skoðunum manna. Munurinn er mikill. Tilhneigingar, tíska og popp hugmyndaflæði eru hverful og skammvinn. Reglur þjóna sem akkeri öryggis, stefnu og sannleika. Ef við myndum skoðanir okkar og stefnu á kenningu og reglum, eins og að trúa á Drottin Jesú Krist og fylgja spámanninum, munum við hljóta fullkomlega trausta og óhagganlega leiðsögn í lífi okkar.5
Við þurfum ekki að óttast. Henry B. B. Eyring, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Drottinn veit bæði hvers hann mun þarfnast að þú gerir og hvað þú munt þurfa að vita. Hann er góðsamur og hann er alvitur. Þið getið því af öryggi reiknað með því að hann veiti ykkur tækifæri til að búa ykkur undir þá þjónustu sem þið munuð veita. Þið munuð ekki að fullu gera ykkur grein fyrir þeim tækifærum. … En þegar þið setjið hið andlega fremst í lífi ykkar, munuð þið hljóta þá blessun að finna að þið beinist að ákveðnu námi, og þið munuð hvött til að leggja harðar að ykkur.“6
Persónulegur verðugleiki
Tilraun okkar til að læra verður að tengjast persónulegum verðugleika okkar til að hljóta leiðsögn heilags anda. Við verðum að forðast kynferðislega saurgun, klám og fíknir, jafnt og neikvæðar tilfinningar gagnvart öðrum eða okkur sjálfum. Synd hrekur burt anda Drottins og þegar það gerist er hin sérstaka upplýsing andans horfin og lærdómsljósið flöktir.
Í nútíma opinberun er okkur lofað, að sé auglit okkar einbeitt á dýrð Guðs, sem felur í sér persónulegan verðugleika, muni „allur líkami [okkar] fyllast ljósi og ekkert myrkur [skuli í [okkur] búa. Og sá líkami, sem er fullur af ljósi skynjar allt“ (D&C 88:67).
Við getum sannað þessa eilífu reglu samstundis af eigin reynslu. Minnist þeirra stunda þegar þið voruð gröm, þrætugjörn og neikvæð. Áttuð þið auðvelt með að læra? Fenguð þið einhverja uppljómun þann tíma.
Synd og reiði myrkva hugann. Þær skapa aðstæður sem eru andstæðar því ljósi og sannleika sem einkenna vitsmuni, sem eru dýrð Guðs D&C 93:36). Iðrun, sem hreinsar okkur af synd fyrir friðþægingarfórn Jesú Krists, er þess vegna nauðsynlegt skref á námsbrautinni fyrir alla þá sem sækjast eftir ljósi og sannleika fyrir kennslumátt heilags anda.
Við erum ófullkomnar verur, en sérhvert okkar getur reynt að verða verðugri samfélags andans, sem magnar persónulega dómgreind okkar og býr okkur undir að verja betur sannleikann, standast félagslegan þrýsting og hafa jákvæðari áhrif.
Menntun
Við námsval okkar ættum við að búa okkur undir forsjá okkar sjálfra og þeirra sem geta orðið á okkar framfæri. Nauðsynlegt er að hafa eftirsóknarverða hæfni. Menntun er afgerandi hvað varðar persónulegt öryggi og velferð.
Faðir okkar á himnum ætlar okkur að nota sjálfræði okkar og innblástur til að kanna okkur sjálf og getu okkar, og til að ákveða námsbrautina sem við ætlum að fylgja. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir ungt fólk sem hefur lokið miðskólanámi og trúboðsþjónustu og þarf nú að ákveða frekara nám og starfsvettvang. Valið sem karlar og konur standa frammi fyrir getur verið mjög erfitt og því tökum við mið af margvíslegri reynslu okkar, trúum því að hún sé dæmigerð fyrir marga Síðari daga heilaga.
Elder Oaks: Líkt og hjá flestum ungum mönnum var formleg menntunarbraut mín erfið, langvarandi og stjórnaðist af þeirri þörf að verða hæfur til að sjá fyrir fjölskyldu. Eftir skyldunám tók við miðskólanám. Það var fjármagnað með hlutastarfi og láni sem greiðast átti af þeim auknu tekjumöguleikum sem menntunin veitti. Á meðan á þessu stóð giftist ég og við eignuðumst börn. Framfærsla eiginkonu og ábyrgðin sem fylgdi stækkandi fjölskyldu jók árangur minn í skóla og varð mér öflug hvatning til þess að útskrifast og halda áfram lífsstarfi minu. Þegar formlegri menntun lauk notaði ég nokkuð af nýtilkomnum frítíma mínum til áframhaldandi menntunar á mínu sviði og til frekari og langþráðs lestrar á kirkjusögu og almennri menntun.
Systir Oaks: Námsbrautir kvenna og reynsla eru oft mjög ólík karla. Ég óx upp á þeim tíma þegar konur virtust aðeins hafa um tvennskonar val að ræða til að sjá fyrir sér, kennslu eða hjúkrun. „Vandi“ minn var sá að ég hugleiddi hvorugt þeirra. Að sjá fyrir mér sjálfri fjárhagslega var eitthvað sem ég taldi ekki mögulegt eða nauðsynlegt. Ég hafði yndi af að læra, og ég kunni til verka; í raun elskaði ég starf mitt. Ég vann margskonar sumarstörf, og mér gekk vel í skóla. Þegar mér varð ljós sú staðreynd að ég þyrfti að sjá fyrir sjálfri mér að fullu, varð ég óttaslegin, næstum lömuð, yfir þeim ófyrirsjáanlega vanda sem virtist bíða mín. Ég hafði í raun enga starfsmenntun. Nám mitt í frjálsum listgreinum hafði fyllt sál mína, en nú þurfti ég að fylla pyngju mína.
Ég sótti miðskóla til að læra starfsgrein er ég gæti unnið við. Ég hafði yndi af hverri mínútu í náminu og fékk ekki aðeins nýjar hugmyndir, heldur uppgötvaði einnig mína eigin getu. Ég hafði áður verið feimin og nokkuð viðkvæm, en nú fann ég mig megnuga og tilbúna til að horfast sjálf í augu við lífið.
Krossgötur
Við vitum að ekkert gerir okkur eins ráðþrota og að vita ekki hvað gera skal við framtíðina, en ekkert gefur okkur heldur eins mikið og að uppgötva eigin getu. Lesið patríarkablessun ykkar, hugleiðið eðlisgáfur ykkar og hæfileika, og haldið áfram. Stigið fyrsta skrefið, og dyrnar munu opnast. Þegar systir Oaks hóf til dæmis nám í enskum bókmenntum dreymdi hana ekki um að það myndi leiða hana til útgáfufyrirtækis í Boston. Þegar öldungur Oaks nam endurskoðun reiknaði hann aldrei með að það myndi leiða hann til lögfræðináms við Brigham Young háskólann, og síðan til hæstaréttar Utah. Hjá Drottni mun allt „samverka [okkur] til góðs“ (Romans 8:28), og sú menntun sem við hljótum kemur í stigvaxandi skrefum þegar lífið afhjúpast fyrir okkur.
Við þurfum að velja nám okkar vandlega vegna þess að nám hefur eilíft gildi, og hver sú gagnlega þekking eða viska eða „vitsmunastig“ sem við öðlumst í þessu lífi „mun fylgja okkur í upprisunni“ (D&C 130:18).
Það vekur ugg að svo margir, einkum konur, efast um sjálfar sig og getu sína. Öldungur Cecil O. Samuelson yngri, einn hinna sjötíu og rektor BYU, ávarpaði kvennemendur í stærðfræði, vísindum og verkfræði í mars 2005 og sagði: „Einn prófessora okkar hefur sagt við mig … að sumar hafið þið minni trú á getu ykkar og möguleikum en karlkyns samnemendur ykkar, jafnvel þótt sannanir bendi til að það sé ekki rétt. Þið þurfið að gera ykkur ljósa hæfileika ykkar, kunnáttu, hæfni og styrk og efist ekki um þær gjafir sem Guð hefur gefið ykkur.“7
Konur geta einkum fengið neikvæð viðbrögð þegar þær sækja um starf í sínu fagi. Ung systir hátt á þrítugsaldri þurfti a sjá um sig sjálf og leitaði ráða. Hún sagðist hafa leitað ráða eins kirkjunnar manna varðandi lögfræðinám og hann hefði latt hana til þess. Við þekkjum hvorki getu hennar né takmarkanir; ráðleggingarnar sem hún fékk kunna að hafa byggst á þeim eða innblæstri vegna sérstakra aðstæðna hennar. En augljóst var á bréfi hennar að hún var ákveðin og því ætti greinilega að ráðleggja henni að ná eins langt og hún gæti.
Thomas S. Monson forseti sagði konum í boðskap sínum á fundi aðalforsætisráðs Líknarfélagsins sem haldinn var 29. september 2007: „Biðjið ekki um verkefni til jafns við getu ykkar, biðjið heldur um getu til jafns við verkefni ykkar. Þá verður framkvæmdin á verki ykkar ekki kraftaverkið, þið verðið kraftaverkið.“8
Við vörum við því að þörfin á að ljúka námi og ná fjárhagslegu öryggi gæti leitt til þess að karlar eða konur freistist til að líta á hjónabandið sem aukaatriði. Það er eilíf skammsýni að leita þeirrar starfsmenntunar sem útilokar ykkur samtímis frá hjónabandi, eilífu gildi, vegna þess að tímasetningin passar ekki, veraldlegt gildi.
Vinkona ein fór með dóttur sinni að skoða miðskóla í austurhluta Bandaríkjanna. Hæfileikarík og ákveðin dóttir hennar vissi að ef hún færi í þann skóla sem hún vildi helst sækja, myndi menntun hennar leiða til mikillar skuldsetningar. Oft er besta menntunina þess virði að borga vel fyrir hana, en í þessu tilviki baðst dóttirin fyrir og fann að þótt mikil skuldsetning þyrfti ekki að standa í vegi fyrir giftingu, þá gæti hún að lokum komið í veg fyrir að hún hætti að vinna til að vera heima hjá börnum sínum. Verið vitur. Öll erum við ólík. Ef þið leitið ráða Drottins, mun hann láta ykkur vita hvað er best fyrir ykkur.
Hungur eftir að læra
Öldungur Jay E. Jensen, í forsætisráði hinna sjötíu, hefur sagt að við þurfum ævinlega að „vera að læra og vaxa.“9 Það nám skerpist af löngun okkar til að læra og ræðst af eilífum forgangsatriðum.
Auk þess að bæta starfshæfni okkar ættum við að þrá að læra hvernig við mætum best tilfinningalegri þörf okkar og bætum persónulegt samband okkar, verðum betri foreldrar og betri þjóðfélagsþegnar. Fátt veitir meiri ánægju og skemmtun en að læra eitthvað nýtt. Það færir mikla hamingju, ánægju og fjárhagslegan hag. Menntun takmarkast ekki við formlegt nám. Ævilangur lærdómur getur gert okkur færari um að sjá og meta tilveru og fegurð heimsins í kringum okkur. Þess konar nám nær lengra en bækur og val og notkun nýrrar tækni, svo sem alnetsins. Það felur í sér listræna reynslu. Það felur einnig í sér reynslu af fólki og stöðum; samræður við vini, heimsóknir á söfn og tónleika, og tækifæri til þjónustu. Við ættum að útvíkka svið okkar og njóta ferðarinnar.
Við þurfum ef til vill að berjast til að ná marki okkar, en baráttan getur veitt okkur mikinn þroska og fræðslu. Sá styrkur sem við öðlumst við að sigrast á áskorunum verður með okkur í komandi eilífð. Við ættum ekki að öfunda þá sem reynist þetta líf auðvelt vegna auðs eða gáfna. Þroskanum er aldrei ætlað að vera auðveldur, og sá sem á auðvelt líf mun þurfa að ná þroska sínum með öðrum fórnum eða fara á mis við framþróun, sem er tilgangur lífsins.
Það sem mestu skiptir er að við höfum þá skyldu að halda áfram andlegri menntun okkar með því að lesa ritningarnar og kirkjuritin og sækja kirkju og musterið. Að endurnærast af orðum lífsins mun auðga okkur, auka gtu okkar til að kenna þeim sem við elskum, og búa okkur undir eilíft líf.
Endanlegt takmark menntunar er að gera okkur að betri foreldrum og þjónum í ríkinu. Þegar til lengdar lætur er það þroskinn, þekkingin og viskan sem við öðlumst sem stækkar sálir okkar og býr okkur undir eilífðina, ekki einkunnir á skólaspjöldum. Það sem andans er er eilíft, og fjölskyldubönd okkar, innsigluð með krafti prestdæmisins, eru hinir endanlegu ávextir andans. Menntun er gjöf frá Guði; hún er hyrningarsteinn trúar okkar þegar við notum hana öðrum til góðs.