Söngur og sögur
Þegar ég og eiginkona mín, Sandra, vorum kölluð til þjónustu í Durban trúboðinu í Suður-Afríku fórum við að huga að samfélagsþjónustuverkefni. Ég hafði verið meðlimur Laufskálakórs Mormóna í rúm 20 ár og kona mín, aðstoðamaður á bókasafni, hafði stjórnað sögustund í forskólanum. Þegar trúboðsforseti okkar ákvað að hefja trúboðsstarf í nágrannabæ einum, vissum við að nú væri tækifærið.
Við heimsóttum bæinn og komumst að því að engin bókasöfn voru í skólunum, aðeins eitt lítið bókasafn í bænum. Ungu öldungarnir kynntu okkur fyrir stjórnanda bókasafnsins. Við útskýrðum fyrir henni að okkur langaði að hafa vikulega sögustund fyrir börnin. Hún var tortryggin, en eftir smá umhugsun samþykkti hún að láta orð um þetta berast og við gætum reynt.
Fyrsta daginn komu fimm börn. Smátt og smátt fjölgaði þeim. Eftir nokkra mánuði fengum við aðstoð ungrar konu, sem nýlega hafði snúist til trúar og talaði góða ensku og tungu Súlúa. Mæting í sögustundirnar hélt áfram að aukast og bókasafnsstjórinn og foreldrar voru hrifin af því sem var að gerast.
Súlúar hafa yndi af söng og því bættum við einföldum söngvum og rímum inn í sögustundina Í lok trúboðs okkar höfðum við tvær eða þrjár söngva- og sögustundir á viku til að sinna þeim rúmlega 100 börnum sem komu. Hvílík blessun það var þegar við sáum börnin annars staðar fara að syngja söngva okkar og fara með rímur fyrir okkur.
Önnur blessun hlaust af því að þjóna á þessu sviði. Þegar meðlimafjöldi kirkjunnar jókst og okkur vantaði stað fyrir sunnudagasamkomur okkar, krafðist bókasafnsstjórinn að við notuðum bókasafnið endurgjaldslaust.
Við erum svo þakklát fyrir að Drottinn hjálpaði okkur að finna leið til að nota hæfileika okkar, þjóna samfélaginu og stuðla að því að opna nýtt trúboðssvið.