Gamla testamentið 2022
28. nóvember–4. desember. Nahúm; Habakkuk; Sefanía: „[Vegir hans eru eilífir]“


„28. nóvember–4. desember. Nahúm; Habakkuk; Sefanía: ‚[Vegir hans eru eilífir],‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„28. nóvember–4. desember. Nahúm; Habakkuk; Sefanía,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Ljósmynd
Jesús horfir á stjörnurnar

„[Vegir hans eru eilífir]“ (Habakkuk 3:6). Í upphafi var orðið, eftir Evu Timothy

28. nóvember–4. desember

Nahúm; Habakkuk; Sefanía

„[Vegir hans eru eilífir]“

Þið getið lært ritningarnar alla ævi og alltaf fundið nýjan skilning. Teljið ekki að þið fáið skilið allt á þessari stundu. Biðjist fyrir um hjálp til að átta ykkur á þeim boðskap sem þið þurfið á þessum degi.

Skráið hughrif ykkar

Að lesa Gamla testamentið, felur oft í sér lestur spádóma um eyðileggingu. Drottinn kallaði oft spámenn til að aðvara hina ranglátu um að dómar hans vofðu yfir þeim. Þjónusta Nahúms, Habakkuks og Sefanía eru góð dæmi um það. Í ógnvænlegum smáatriðum spáðu þessir spámenn falli borga sem á þeim tíma virtust sterkar og valdamiklar – Níníve, Babýlon og jafnvel Jerúsalem. Það var þó fyrir þúsundum ára. Af hverju er dýrmætt að lesa þessa spádóma á okkar tíma?

Þótt þessum drambsömu, ranglátu borgum hafi verið eytt, er dramb og illska ríkjandi. Í heimi nútímans getum við stundum verið umkringd því vonda sem hinir fornu spámenn fordæmdu. Við gætum jafnvel greint eitthvað slíkt í eigin hjarta. Þessir spádómar Gamla testamentisins opinbera hvað Drottni finnst um dramb og ranglæti og kenna að við getum látið af slíkri illsku. Ef til vill er það ein ástæða þess að við lesum þessa fornu spádóma á okkar tíma. Nahúm, Habakkuk, Sefanía og fleiri voru ekki bara spámenn ömurlegra endaloka – þeir voru spámenn endurlausnar. Lýsingar eyðileggingar eru mildaðar með boðum um að koma til Krists og hljóta miskunn hans: „Leitið Drottins, … ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt“ (Sefanía 2:3). Þetta var vegur Drottins til forna og þetta er vegur hans á okkar tíma. „[Vegir hans eru eilífir]“ (Habakkuk 3:6).

Til fá yfirlit þessara bóka, sjá þá „Nahúm,“ „Habakkuk“ og „Sefanía“ í Leiðarvísi að ritningunum.

Ljósmynd
táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Nahúm 1

Drottinn er bæði máttugur og miskunnsamur.

Verkefni Nahúms var að spá fyrir um eyðingu Níníve – höfuðborgar hins ofbeldisfulla heimsveldis Assýríu, sem hafði tvístrað Ísrael og misþyrmt Júda. Nahúm byrjaði á því að lýsa reiði Guðs og óviðjafnanlegum mætti hans, en talaði líka um miskunn og gæsku Guðs. Þið gætuð íhugað að bera kennsl á vers í kapítula 1 sem hjálpa ykkur að skilja hvern þessara eiginleika – og aðra eiginleika Guðs sem þið komið auga á. Af hverju haldið þið að mikilvægt sé að vita allt þetta um Drottin?

Sumum gæti reynst erfitt að greina samræmi á milli kenningar ritningarinnar um að „Drottinn [sé] góður“ (Nahúm 1:7) og kenningarinnar um að hann „hefnir sín á andstæðingum sínum“ (Nahúm 1:2). Í Mormónsbók hafði Koríanton, sonur Alma, álíka spurningu er „[varðaði] réttvísi Guðs við refsingu syndarans“ (Alma 42:1). Til að læra meira um miskunn Guðs og réttvísi hans, lesið þá svar Alma til Koríantons í Alma 42.

Ljósmynd
steinvirki

„Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar“ (Nahúm 1:7).

Habakkuk

Ég get treyst vilja og tímasetningu Drottins.

Jafnvel spámenn hafa stundum spurningar varðandi hætti Drottins. Habakkuk, sem var uppi á tíma mikils ranglætis í Júda, byrjaði heimild sína á spurningum til Drottins (sjá Habakkuk 1:1–4). Hvernig mynduð þið taka saman áhyggjumál Habakkuks? Hafið þið einhvern tíma haft álíka tilfinningar?

Drottinn svaraði spurningum Habakkuks með því að segja að hann myndi senda Kaldea (Babýloníumenn) til að refsa Júda (sjá Habakkuk 1:5–11). Habakkuk var þó enn áhyggjufullur, því honum virtist óréttmætt af Drottni að halda að sér höndum „meðan hinn rangláti [Babýlónía] svelgdi í sig þann sem honum [var] réttlátari [Júda]“ (sjá vers 12–17). Hvað finnið þið í Habakkuk 2:1–4 sem innblæs ykkur til að treysta Drottni þegar þið eruð með ósvaraðar spurningar?

Kapítuli 3 í Habakkuk er bænarlofgjörð til Guðs og trúartjáning á hann. Hvað vekur athygli ykkar við orð Habakkuks í versum 17–19? Hvernig er undirtónn þessara versa annar en í Habakkuk 1:1–4? Íhugið hvernig þið getið þróað sterkari trú á Guð, jafnvel þótt lífið virðist ósanngjarnt?

Sjá einnig Hebreabréfið 10:32–39; 11; Kenning og sáttmálar 121:1–6; Robert D. Hales, „Þeir er vona á Drottin: Verði þinn vilji,“ , október 2011.

Sefanía

„Leitið Drottins, allir hógværir í landinu.“

Sefanía spáði að fólkið í Júda yrði algjörlega eytt af Babýloníumönnum, vegna ranglætis þess. „Ég mun gereyða öllu af yfirborði jarðar, segir Drottinn“ (Sefanía 1:2). Sefanía sagði ennfremur að þeim yrði þyrmt sem „eftir [yrðu]“ (Sefanía 3:13). Þegar þið lesið þessa spádóma, gætið þá að því hverskonar atferli og viðhorf leiddi Júda og aðra hópa til tortímingar – sjá einkum Sefanía 1:4–6,12; 2:8, 10,15; 3:1–4. Gætið síðan að eiginleikum þeirra sem Guð þyrmdi – sjá Sefanía 2:1–3; 3:12–13, 18–19. Hvaða boðskap haldið þið að Drottinn ætli ykkur í þessum versum?

Sefanía 3:14–20 lýsir gleði hinna réttlátu, eftir að Drottinn hafði „hrakið fjendur [þeirra] á brott“ (vers 15). Hvaða fyrirheitnar blessanir í þessum versum vekja ykkur mestan áhuga? Af hverju er ykkur mikilvægt að þekkja þessar blessanir? Þið gætuð borið þessi vers saman við upplifanirnar sem lýst er í 3. Nefí 17 og íhugað hvað Jesú Kristi finnst um fólk sitt – líka ykkur.

Ljósmynd
táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Nahúm 1:7.Hvernig er Drottinn eins og „athvarf“? Ef til vill gæti fjölskylda ykkar byggt einfalt athvarf eða virki á heimili ykkar og rætt Nahúm 1:7 inni í því. Hvað gerir okkar dag að „degi neyðarinnar“? Hvernig er Jesús Kristur og fagnaðarerindi hans okkur vörn og athvarf? Hvernig sýnum við að við treystum honum?

Habakkuk 2:14.Hvernig getum við hjálpað við uppfyllingu spádómsins í þessum versum?

Habakkuk 3:17–19.Hvað lærum við af fordæmi Habakkuks í þessum versum?

Sefanía 2:3.Þið gætuð farið í leik þar sem fjölskyldumeðlimir leita orðanna „réttlæti“ og „auðmýkt“ á blaðsíðu með mörgum öðrum orðum. Þeir gætu síðan rætt fordæmi um réttlæti og auðmýkt sem þau hafa séð í öðrum. Hver er merking þess að leita réttlætis og auðmýktar?

Sefanía 3:14–20.Hvað finnum við í Sefanía 3:14–20 sem fær okkur til að „[syngja og] kætast og gleðjast af öllu hjarta“? Ef til vill gæti fjölskylda ykkar sungið sálma eða söngva sem koma í hugann við lestur þessara versa.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Í æsku leita ég lausnarans,“ Barnasöngbókin, 67.

Bæta persónulegt nám

Verið þolinmóð. Stundum viljum við svör við spurningum okkar þegar í stað, en andlegur skilningur krefst tíma og verður ekki knúinn fram. Eins og Drottinn sagði við Habakkuk: „[Bíð] engu að síður því að þetta rætist vissulega“ (Habakkuk 2:3).

Ljósmynd
Jesús stígur niður í rauðum kirtli

„Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hin frelsandi hetja“ (Sefanía 3:17). Hann kemur aftur til að ráða og ríkja, eftir Mary R. Sauer

Prenta