Trúarskóli eldri og yngri deildar
Kennið um Jesú Krist, hvert sem kennsluefnið er


„Kennið um Jesú Krist, hvert sem kennsluefnið er,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)

„Kennið um Jesú Krist, hvert sem kennsluefnið er,“ Kenna að hætti frelsarans

4:9

Kennið um Jesú Krist, hvert sem kennsluefnið er

Það er margt sem kenna má varðandi hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists – reglur, boðorð, spádóma og ritningasögur. Allt er þetta þó af sama meiði, því það hefur allt sama tilganginn: Að hjálpa öllum mönnum að koma til Krists og fullkomnast í honum (sjá Jarom 1:11; Moróní 10:32). Svo, hvað sem þið kennið, munið þá að þið eru í raun að kenna um Jesú Krist og hvernig á að verða eins og hann. Heilagur andi getur hjálpað ykkur að læra að bera kennsl á sannleika um frelsarann og endurleysandi kraft hans í hverri reglu fagnaðarerindisins, boðorði og spámannlegri kennslu (sjá Jakob 7:10-11).

Eruð þið að kenna um fórn? Hugleiðið að kanna með nemendunum hvernig þær fórnir sem við færum, beini sálum okkar að hinni „[algjöru] og [eilífu] fórn“ (Alma 34:10). Eruð þið að kenna um einingu? Hugleiðið að ræða þá einingu sem Jesús Kristur náði við föður sinn og boð hans til okkar um að verða eitt með þeim (sjá Jóhannes 17). Lítið á hvert umræðuefni fagnaðarerindisins sem tækifæri til að kenna og læra um Jesú Krist.

Hvert boðorð býður einnig upp á þetta tækifæri. Ekki einblína bara á lögmál fagnaðarerindisins – lærið einnig um löggjafann. Ef þið ræðið Vísdómsorðið og stoppið við boð og bönn heilbrigðs lífernis, þá missið þið af tækifærinu til að íhuga hversu innilega Jesús Kristur hlýtur að láta sér annt um okkur – bæði andlega og líkamlega velferð okkar – til að gefa okkur þetta lögmál. Einbeitið ykkur að því hversu fús og ákafur frelsarinn er að blessa okkur með krafti sínum til að hjálpa okkur að lifa eftir lögmálum sínum. Hvert boðorð sem hann gefur okkur opinberar okkur eitthvað um huga hans, vilja og hjarta – finnið gleði í að uppgötva þetta saman!

Leggið áherslu á fordæmi Jesú Krists

Við getum haft Jesú Krist sem þungamiðju í kennslu og námi með því að bera kennsl á og leggja áherslu á að hann er hið fullkomna fordæmi allra reglna fagnaðarerindisins. Sem lærisveinar, fylgjum við ekki bara reglunum – við fylgjum Jesú Kristi. Þegar við einblínum á hið fullkomna fordæmi frelsarans, mun heilagur andi bera vitni um hann og hvetja okkur til að fylgja honum.

Ímyndið ykkur eitt augnablik að þið séuð að kenna regluna um að standast allt til enda. Umræða um það hvernig frelsarinn er fordæmi að því að standast allt til enda gæti vakið ljúfar tilfinningar lotningar gagnvart honum. Hvað gætu þau sem þið kennið, lært og skynjað af fordæmi hans?

Frelsarinn læknar mann er liggur á jörðunni

Frelsarinn var fullkomið fordæmi fyrir okkur öll. Hann læknaði þau öll, eftir Michael Malm

Kennið um nöfn, hlutverk og eiginleika Jesú Krists

Jesús hefur mörg nöfn í ritningunum. Hvert þeirra endurspeglar eitt af hlutverkum hans í áætlun Guðs og kennir okkur um guðlega eiginleika hans. Þið gætið hugleitt að kanna með nemendum ykkar hvað nöfn, eins og Guðslambið, Málsvari, Fullkomnari trúarinnar og Ljós heimsins kenni okkur um Jesú Krist. Þið gætuð einnig farið út fyrir það sem hann sagði og gerði, þegar þið hjálpið nemendum að læra meira um frelsarann, og rætt um það hver hann er og hvaða hlutverki hann þráir að gegna í lífi ykkar. Þegar þið lærið saman um persónugerð og eiginleika frelsarans, mun heilagur andi dýpka skilning ykkar á honum og auka elsku ykkar til hans.

Leitið að táknum sem bera vitni um Jesú Krist

Drottinn sagði: „Allt er skapað og gjört til að bera vitni um mig“ (HDP Móse 6:63; sjá einnig 2. Nefí 11:4). Með þann sannleik í huga, getum við lært að sjá fjölda tákna í ritningunum sem bera vitni um frelsarann. Þessi tákn eru meðal annars brauð, vatn og ljós. Þegar við skiljum að þessir hlutir tengjast frelsaranum, geta þeir kennt okkur um kraft hans og eiginleika. Þið getið jafnvel fundið samsvaranir á milli lífs frelsarans og lífs spámanna og annarra trúfastra karla og kvenna í ritningunum. Að leita tákna opinberar sannleika um frelsarann á stöðum sem þið gætuð annars farið á mis við.