„Stuðla að kostgæfni í námi,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)
„Stuðla að kostgæfni í námi,“ Kenna að hætti frelsarans
Stuðla að kostgæfni í námi
Það var vissulega mikilfenglegt að horfa á frelsarann ganga á vatninu. Það var samt ekki nóg fyrir Pétur. Hann vildi gera það sem frelsarinn gerði, vera þar sem hann var og upplifa það sama sjálfur. „Bjóð mér að koma til þín á vatninu,“ sagði hann. Frelsarinn svaraði með einföldu boði: „Kom þú.“ Þá stökk Pétur úr örygginu í bátnum og sýndi okkur að hlutverk lærisveinsins er ekki aðgerðarlaus upplifun (sjá Matteus 14:24–33). Það krefst trúar á Krist og dyggilegrar framgöngu. Það færir einnig hina ríkulegu umbun að ganga með frelsaranum.
„Kom þú.“ „Komið og sjáið.“ „Kom … fylg mér.“ „Far þú og ger hið sama“ (Matteus 14:29; Jóhannes 1:39; Lúkas 18:22; 10:37). Frá upphafi þjónustu hans, bauð frelsarinn fylgjendum sínum að upplifa sjálfir sannleikann, kraftinn og kærleikann sem hann bauð. Hann gerði svo vegna þess að það er raunverulegur lærdómur. Það er ekki einungis að hlusta eða lesa, það er einnig að breytast, iðrast og þroskast. Í orðum frelsarans þá kemur lærdómur „með námi og einnig með trú“ (Kenning og sáttmálar 88:118; breytt letur hér). Trú þýðir líka að hafa sjálf áhrif, ekki bara verða fyrir áhrifum (sjá 2. Nefí 2:26).
Þegar við fylgjum fordæmi frelsarans, bjóðum við þeim sem við kennum að spyrja, leita og knýja á – og síðan að finna (sjá Matteus 7:7–8). Við meðtökum það boð einnig sjálf. Saman munum við læra sjálf, með eigin trú á Jesú Krist og fyrir dyggilega framgöngu, hvað það þýðir að ganga með honum.
Frelsarinn hjálpaði öðrum að taka ábyrgð á eigin námi
Það væri erfitt verk fyrir hvern sem er að byggja barkarbáta til að sigla örugglega yfir höf. Bróðir Jareds var „undir stöðugri handleiðslu Drottins“ (Eter 2:6), og hlaut leiðsögn um lögun bátanna og hvernig loftræstingin yrði. Hverju takið þið samt eftir varðandi það hvernig Drottinn svaraði spurningu bróður Jareds um að sjá þeim fyrir ljósi í skipin? (sjá Eter 2:22-25). Hvernig var bróðir Jareds blessaður af boðinu að iðka trú sína á þennan hátt? (sjá Eter 3:1–16).
Það gæti virst auðveldara að segja nemendunum allt sem ykkur finnst þeir ættu að vita. Hins vegar ráðlagði öldungur David A. Bednar: „Tilgangur okkar ætti ekki að vera: ‚Hvað segi ég þeim?‘ Þess í stað eru spurningarnar sem við ættum að spyrja okkur: ‚Hvað get ég boðið þeim að gera? Hvaða innblásnu spurninga get ég spurt, ef þau eru tilbúin að svara, sem geta verið upphafið að því að hafa heilagan anda í lífi þeirra?‘“ (evening with a General Authority [kvöldstund með aðalvaldhafa], 7. feb. 2020, broadcasts.ChurchofJesusChrist.org).
Hugleiðið hvernig þið getið boðið nemendum að taka ábyrgð á eigin lærdómi. Þið gætuð til dæmis boðið þeim að spyrja eigin spurninga, leita svara, hugleiða og miðla eða skrá hugsanir sínar og tilfinningar. Þegar þeir gera svo, munu þeir styrkja trú sína, uppgötva sannleika í orði Guðs og upplifa eigin reynslu varðandi þennan sannleika. Þegar við tökum ábyrgð á eigin lærdómi, getum við sagt eins og Joseph Smith: „Ég [hef] komist að því sjálfur“ (Joseph Smith – Saga 1:20).
Spurningar til að hugleiða: Hvers vegna er það mikilvægt fyrir nemendur að vera virkur frekar en óvirkur í námi þeirra? Hvernig getið þið hjálpað þeim að taka ábyrgð á námi sínu? Hvernig hafa kennarar hjálpað ykkur við slíkt? Hvaða dæmi úr ritningunum munið þið eftir þar sem fólki var boðið að læra sjálft? Hvernig hafa þessi dæmi áhrif á það hvernig þið kennið?
Úr ritningunum: 1. Nefí 11; Kenning og sáttmálar 9:7–8; 58:26–28; 88:118–125; Joseph Smith – Saga 1:11–20
Frelsarinn hvatti aðra að kynnast honum með því að læra orð hans
Þegar kom að því að frelsarinn skipulegði kirkju sína formlega á síðari dögum, sagði hann þjónum sínum að „treysta því sem ritað er“ (Kenning og sáttmálar 18:3). Vissulega innihélt Mormónsbók, sem þeir höfðu nærri því lokið við þýðinguna á, vissar gagnlegar ábendingar fyrir verkið, þar með talið hvernig skíra ætti, hvernig þjónusta ætti sakramentinu og önnur dýrmæt atriði. Frelsarinn vildi hins vegar líka að þjónar hans sæju opinberanir hans sem tækifæri til að heyra í honum og kynnast honum á djúpstæðari máta. Í sömu opinberun sagði hann þeim: „Það er mín rödd, sem talar þau til yðar. … Þess vegna getið þér vottað, að þér hafið heyrt rödd mína og þekkið orð mín“ (Kenning og sáttmálar 18:35–36).
Hugsið um það fólk sem þið kennið. Hvernig lítur það á ritningarnám? Hvað það varðar, hvernig lítið þið á það? Er það meira en bara skylduverk? Þegar þið lesið ritningarnar, skynjið þið frelsarann tala við ykkur í persónu? Russell M. Nelson forseti kenndi: „ Hvert getum við … farið til að hlýða á hann? Við getum snúið okkur að ritningunum. … Dagleg ígrundun orðs Guðs, er nauðsynleg til andlegrar afkomu, einkum á þessum tíma aukins umróts. Þegar við nærumst daglega á orðum Krists, munu þau segja okkur hvernig bregðast skuli við óvæntum og ófyrirséðum erfiðleikum“ („Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020). Þegar þið kennið, hvetjið þá nemendurna til að læra ritningarnar með þeim tilgangi að finna frelsarann – ekki bara að finna vers eða staðreyndir um hann heldur að finna hann. Að hlýða á rödd Drottins daglega í ritningunum, er grunnurinn að eljusömu, sjálfstæðu og lífslöngu námi á fagnaðarerindinu.
Spurningar til að hugleiða: Hugleiðið ykkar eigin venjur við lestur ritninganna. Hvernig hefur það styrkt samband ykkar við hann að læra orð Guðs? Hvað getið þið gert til að bæta nám ykkar? Hvernig munið þið hvetja aðra til að læra orð Guðs reglulega og af eljusemi? Hvaða blessanir munu þeir hljóta er þeir gera það?
Úr ritningunum: Jósúa 1:8; 2. Tímóteus 3:15–17; 2. Nefí 32:3; Jakob 2:8; 4:6; Kenning og sáttmálar 33:16
Frelsarinn bauð öðrum að undirbúa sig fyrir lærdóm
Jafnvel hin bestu fræ geta ekki vaxið í harðri, grýttri eða þyrnum þaktri jörðu. Að sama skapi er ólíklegt að hin dýrmætasta og trúarhvetjandi kenning muni breyta hjarta sem er óundirbúið að meðtaka hana. Það er hluti af boðskap dæmisögu frelsarans um sáðmanninn, sáðkornin og misgóðan jarðveg. Það er í hinni „[góðu] jörð“ – hjartanu sem hefur mildast og verið hreinsað af andlegum steinum og þyrnum – sem orð Guðs færir fram lífsgefandi ávöxt (sjá Matteus 13:1–9, 18–23).
Andlegur undirbúningur skiptir máli – fyrir ykkur og það fólk sem þið kennið. Hvernig hjálpum við að undirbúa hjörtu okkar svo þau geti verið „[góð] jörð“ fyrir orð Guðs? Hugleiðið eftirfarandi lögmál undirbúnings, sem þið getið beitt í lífi ykkar og hvatt til í lífi þeirra sem þið kennið. Biðjið til að komast að því sem Drottinn vill að þið lærið. Hagið lífi ykkar þannig að það bjóði nærveru hans inn í líf ykkar. Iðrist daglega. Nærið þrá ykkar til að læra með því að spyrja einlægra spurninga. Lærið orð Guðs með trú um að hann muni leiða ykkur að svörum. Opnið hjörtu ykkar fyrir hverju sem hann mun kenna ykkur.
Þegar nemendur búa sig undir að læra á þennan hátt, munu þeir hafa andleg augu til að læra og eyru til að heyra það sem Drottinn vill að þeir viti (sjá Matteus 13:16).
Spurningar til að hugleiða: Hvað gerið þið til að búa ykkur undir að læra? Hvernig hefur undirbúningur ykkar áhrif á það hvernig þið sjáið, heyrið og skiljið orð Guðs? Hvernig getið þið hvatt aðra til að búa sig undir að læra? Hverju gæti það breytt varðandi það hvernig þeir meðtaka sannleika fagnaðarerindisins?
Úr ritningunum: Enos 1:1–8; Alma 16:16–17; 32:6, 27–43; 3. Nefí 17:3
Frelsarinn hvatti aðra að miðla þeim sannleika sem þeir voru að læra
„Mér er tregt um mál,“ harmaði Enok þegar Drottinn kallaði hann til að kenna fagnaðarerindið. Málsnilld hefur hins vegar aldrei verið skilyrði fyrir þjóna Drottins. Í stað þess lofaði Drottinn Enok að ef hann hefði næga trú til að opna munn sinn þá myndu orðin koma. „Ég mun gefa þér málið,“ sagði hann (HDP Móse 6:31–32). Enok iðkaði trú sína og Drottinn talað sannlega fyrir munn hans, með orðum sem voru svo kröftug að þau ullu því að fólk skalf (sjá HDP Móse 6:47). Í raun urðu þau til þess að jörðin sjálf skalf. Fjöll hörfuðu, vatnsfljótin breyttu farvegi sínum og þjóðir óttuðust lýð Guðs: „svo kröftugt var orð Enoks og svo mikill var kraftur þess máls, sem Guð hafði gefið honum“ (HDP Móse 7:13).
Drottinn vill að við öll – ekki aðeins spámenn hans – höfum kraftinn til að mæla orð hans. Hann óskar þess fyrir okkur öll, einnig það fólk sem þið kennið (sjá Kenning og sáttmálar 1:20–21). Orð okkar færa kannski ekki fjöll eða breyta farvegi fljóta, en þau gætu hjálpað til að breyta hjörtum. Þess vegna er svo mikilvægt að veita nemendum tækifæri til að miðla því með hver öðrum sem þeir eru að læra um frelsarann og fagnaðarerindi hans. Það mun hjálpa þeim að tileinka sér þann sannleika sem þeim er kenndur og að tjá hann. Það mun einnig hjálpa þeim að öðlast sjálfsöryggi í getu þeirra til að miðla sannleikanum við aðrar aðstæður.
Spurningar til að hugleiða: Rifjið upp stund þegar þið töluðuð við einhvern um sannleika fagnaðarerindisins. Hvað lærðuð þið af þeirri reynslu? Hvenær voruð þið þakklát fyrir það að einhver hafði hugrekkið til að miðla hugsunum sínum og trú? Hvernig munu tækifærin gagnast þeim sem þið kennið við að tala um það sem þeir læra? Hvaða tækifæri getið þið veitt þeim?
Úr ritningunum: Alma 17:2–3; Moróni 6:4–6; Kenning og sáttmálar 84:85; 88:122; 100:5–8
Frelsarinn bauð öðrum að lifa eftir því sem hann kenndi
„Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna.“ „Elskið óvini ykkar.“ „Biðjið og yður mun gefast.“ „Gangið inn um þrönga hliðið.“ (Matteus 5:16, 44; 7:7, 13.) Sum af mest lýsandi, eftirminnilegustu boðunum í allri jarðneskri þjónustu frelsarans, voru sett fram er hann kenndi lærisveinum sínum í fjallshlíð, horfandi út yfir Galíleuvatn. Tilgangur frelsarans var að breyta lífi fólks, eins og kom skýrt fram í lokaboði hans: „Hver sem heyrir þessi orð mín, og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi“ (Matteus 7:24; skáletrað hér).
Rigning kemur og flóðin koma og vindar blása í lífi allra. Að læra um fagnaðarerindið er ekki nægilegt ef nemendur eiga að standast allar raunir sem verða á leið þeirra. Þess vegna ættum við ekki að hika við að bjóða nemendum að íhuga hvernig þeir geta lifað eftir því sem þeir læra. Af virðingu fyrir sjálfræði annarra, þá verða mörg boð okkar almenn: „Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera?“ Stundum verða boð okkar kannski að vera örlítið nákvæmari: „Mynduð þið vilja velja einn af eiginleikum frelsarann til að vinna að?“ Þegar þið veitið nemendum tækifæri til að hlýða á, bera kennsl á og miðla hvatningu heilags anda, mun hann kenna þeim hvað þau þurfa að gera persónulega. Hjálpið nemendum að ígrunda þær blessanir sem munu fylgja í kjölfarið er þeir framkvæma það sem þeir læra og hvetjið þá til að gefast ekki upp þó það verði erfitt. Að lifa sannleikann er fljótlegasta leiðin að sterkari trú, vitnisburði og trúarumbreytingu. Eins og frelsarinn sagði þá er leiðin fyrir okkur til að vita raunverulega hvort kenningin sé sönn, að lifa kenningu föðurins (sjá Jóhannes 7:17).
Spurningar til að hugleiða: Hvenær hefur boð frá einhverjum orðið til þess að þið finnið fyrir innblæstri til að framkvæma? Hvernig breyttist líf ykkar í kjölfarið? Takið eftir boðum sem hafa verið sett fram í ritningunum eða af leiðtogum kirkjunnar. Hvað lærið þið sem getur hjálpað ykkur þegar þið bjóðið öðrum að framkvæma? Hvernig getið þið fylgt boðum ykkar eftir?
Úr ritningunum: Lúkas 10:36–37; Jóhannes 7:17; Jakobsbréfið 1:22; Mósía 4:9–10; Kenning og sáttmálar 43:8–10; 82:10