„Elskið þau sem þið kennið,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)
„Elskið þau sem þið kennið,“ Kenna að hætti frelsarans
Elskið þau sem þið kennið
Allt sem frelsarinn gerði í jarðneskri þjónustu sinni var gert af kærleikshvöt. Þegar við vinnum að því að vera sannir fylgjendur Krists, getum við verið fyllt sömu elsku (sjá Jóhannes 13:34-35; Moróní 7:47–48; 8:26). Þegar kærleikur frelsarans er í hjörtum okkar, leitum við allra mögulegra leiða til að hjálpa öðrum að læra um Krist og koma til hans. Kærleikur verður hvatningin að kennslu okkar.
Frelsarinn sá guðlega möguleika í öllum sem hann kenndi
Flestir í Jeríkó héldu að þeir vissu allt sem þeir þurftu að vita um Sakkeus. Hann var tollheimtumaður – í raun yfirtollheimtumaður – og hann var auðugur. Þeir hugsuðu augljóslega að hann hlyti að vera óheiðarlegur og spilltur. Jesús leit hins vegar í hjarta Sakkeusar og sá heiðvirðan „[niðja] Abrahams“ (sjá Lúkas 19:1–10). Frelsarinn sá fólk eins og það var í raun, en ekki eins og það virtist vera – og einnig hvernig það myndi verða. Í ófáguðum fiskimönnum eins og Símoni, Andrési, Jakobi og Jóhannesi, sá hann framtíðarleiðtoga kirkjunnar. Í hinum illræmda ofsóknarmanni Sál, sá hann „valið … verkfæri,“ sem myndi kenna fagnaðarerindi hans frammi fyrir konungum og þjóðum (sjá Postulasagan 9:10–15). Í ykkur og hverjum þeim einstaklingi sem þið kennið, sér frelsarinn son eða dóttur Guðs með ótakmarkaða möguleika.
Meðal þeirra sem þið kennið eru líklega sumir sem virðast trúfastir og hafa snúist til trúar og aðrir sem virðast áhugalausir eða jafnvel uppreisnargjarnir. Farið varlega í að draga ályktanir á einungis því sem þið sjáið. Heilagur andi getur hjálpað ykkur að sjá eitthvað af því sem frelsarinn sér í hverjum einstaklingi – og hjálpað ykkur að byrja að elska þá á sama hátt og hann gerir.
Spurningar til að hugleiða: Hugsið um hvern þann sem þið kennið og hugleiðið hvernig himneskur faðir og Jesús sjá hvern og einn þeirra. Hvað gætu þeir séð í honum eða henni? Hvernig munu þessar hugleiðingar hafa áhrif á það hvernig þið kennið þeim einstaklingi?
Úr ritningunum: 1. Samúel 16:7; Sálmarnir 8:4–5; Rómverjabréfið 8:16–17; Kenning og sáttmálar 18:10–14
Frelsarinn þekkir okkur og skilur aðstæður okkar, þarfir og styrkleika
Samverska konan kom ekki að brunninum til að heyra boðskap fagnaðarerindisins. Hún kom til að ná í vatn. Frelsarinn gat hins vegar skynjað að þorsti hennar var ekki bara líkamlegur. Hann vissi að hún átti flekkaða fortíð í óstöðugum samböndum. Því tók Jesús líkamlegu þörfina, sem var efst í huga hennar – lífsnauðsynlegt vatn – og tengdi það við dýpri, andlega þörf hennar fyrir „lifandi vatn“ og „eilíft líf.“ Í lok samtals þeirra fékk konan persónulegan vitnisburð um að Jesús væri Kristur, innblásin að hluta af því hve vel hann þekkti hana. „[Hann] sagði mér allt sem ég hef gert,“ sagði hún. „Skyldi hann vera Kristur?“ (sjá Jóhannes 4:6–29).
Að vera kristilegur kennari felur í sér að kynnast því fólki sem þið kennið og að leggja ykkur fram við að skilja hvað býr í hjarta þeirra. Þið getið sýnt áhuga á lífi þeirra og sýnt samúð. Þið getið leitað leiða til að skilja bakgrunn þeirra, hæfileika, áhugamál og þarfir. Þið getið komist að því hvernig þau læra best. Þið getið spurt spurninga, hlustað vandlega og fylgst með. Umfram allt þá getið þið beðið fyrir skilningi sem einungis andinn getur veitt. Því betur sem þið þekkið einhvern, því betur getið þið hjálpað honum eða henni við að finna persónulega þýðingu og kraft í fagnaðarerindi Jesú Krists. Þegar þið skiljið þorsta einstaklings, getur andinn kennt ykkur hvernig seðja má þann þorsta með lifandi vatni frelsarans.
Spurningar til að hugleiða: Hvað vitið þið þegar um það fólk sem þið kennið? Hvað er þeim mikilvægt? Hverjir eru styrkleikar þeirra? Hvað eiga þau erfitt með? Hvað getið þið gert til að þekkja þau betur?
Úr ritningunum: Sálmarnir 139:1–5; Matteus 6:26–32; Markús 10:17–21; Jóhannes 10:14; 3. Nefí 17:1–9
Frelsarinn bað fyrir þeim sem hann kenndi
Ímyndið ykkur hvernig Símoni Pétri hafi liðið þegar hann heyrði frelsarann segja við hann: „Símon, Símon, Satan krafðist að fá … yður … En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki“ (Lúkas 22:31–32). Hvaða áhrif myndi það hafa á ykkur að vita að Jesús Kristur bað til föðurins fyrir ykkur? Fólkið í Ameríku til forna upplifði þetta og þeir lýstu því á eftirfarandi hátt: „Enginn fær gjört sér í hugarlund gleðina, sem fyllti sálir okkar, þegar við heyrðum [Jesú] biðja til föðurins fyrir okkur“ (3. Nefí 17:17).
Þið gætuð einnig hugsað um hvað gerist innra með ykkur þegar þið biðjið fyrir einhverjum – staðfastlega, með nafni. Hvaða áhrif hafa bænir ykkar á það hvernig þið sjáið þá manneskju? Hafa þær áhrif á gjörðir ykkar? Sannarlega þá heyrir faðirinn á himnum bænir okkar og svarar einlægum bænum kennara sem þráir að hjálpa nemanda. Í mörgum tilfellum svarar hann þessum bænum með því að snerta hjarta kennarans og innblása honum eða henni að gera eða segja eitthvað sem mun hjálpa nemandanum að skynja kærleika hans.
Spurningar til að hugleiða: Þegar þið hugsið um þá sem þið kennið, er þá einhver sem ykkur finnst þurfa sérstaklega á bænum ykkar að halda? Hvað fannst ykkur þið hvött til að biðja um fyrir hans eða hennar hálfu? Hvaða blessanir gætu komið er þið bjóðið nemendum að biðja fyrir hvert öðru?
Úr ritningunum: Jóhannes 17; Alma 31:24–36; 3. Nefí 18:15–24; 18:19–23, 27–34
Frelsarinn sá til þess að allir skynjuðu virðingu og að þeir væru metnir að verðleikum
Almennt viðhorf hjá trúarleiðtogum á tímum Jesú var að hunsa ætti syndara. Því voru þessir leiðtogar hneykslaðir þegar þeir sáu Jesú eiga samskipti við syndara. Hvernig gat einhver sem umgekkst slíkt fólk verið andlegur kennari?
Jesús hafði að sjálfsögðu aðra sýn á þetta. Hann leitaðist við að lækna þá sem voru andlega veikir (sjá Markús 2:15–17; Lúkas 4:17–18). Hann lagði sig stöðugt fram við að ná til þeirra sem voru öðruvísi en þeir sem í kring voru, eða áttu flekkaða fortíð og hann átti samskipti við þá sem höfðu syndgað. Hann lofaði trú rómversks hermanns (sjá Matteus 8:5–13). Hann kallaði skattheimtumann sem fólk vantreysti, sem einn af sínum nánustu lærisveinum (sjá Markús 2:14). Þegar kona var ásökuð um hórdóm, veitti hann henni öryggi og hvatti hana til iðrunar og til þess að lifa betra lífi (sjá Jóhannes 8:1–11).
Jesús gerði samt meira en það. Hann hvatti til sama viðhorfs viðurkenningar og kærleika á meðal fylgjenda sinna. Fordæmi hans var sannarlega í hjörtum postula hans þegar það kom að þeim að færa öllum fagnaðarerindið. Það kom fram í orðum Péturs: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit“ (Postulasagan 10:34).
Það eru góðar líkur á því að næstum allir sem þið kennið eigi í einhverskonar baráttu um að finna virðingu og að vera metnir að verðleikum. Í gegnum elsku ykkar og virðingu getið þið tjáð þeim að þeir séu ekki einungis velkomnir, heldur er þörffyrir þá. Þið getið náð sambandi við þá sem mæta ekki, eiga í baráttu eða sem virðast áhugalausir, verið þolinmóð ef ferlið virðist hægfara. Þið getið hjálpað öllum að upplifa öryggi og vellíðan er þeir miðla samtrúarfólki áhyggjum sínum. Þið getið svo gert meira en það. Þið getið hvatt alla nemendur til að hjálpa ykkur að skapa umhverfi þar sem kenning er kennd í anda virðingar, samkenndar og kærleika.
Spurningar til að hugleiða: Hvað hjálpar einstaklingi að upplifa virðingu og að vera metinn að verðleikum? Hvað hvetur einstakling til að virða og meta aðra? Þegar þið hugsið kostgæfið um það fólk sem þið kennið, hvað finnst ykkur þið hvött til að gera svo að það geti upplifað sig velkomið og mikilvægt?
Úr ritningunum: Jóhannes 4; 2. Nefí 26:27–28, 33; Alma 1:26; 3. Nefí 18:22–25
Frelsarinn tjáði þeim elsku sína sem hann kenndi
Í lok dásamlegs, upplyftandi kennslu og þjónustudags meðal Nefítanna, hafði Jesús orð á því að það væri kominn tími fyrir hann að fara. Hann þurfti að heimsækja aðra. „Farið þess vegna til heimila yðar,“ sagði hann „og búið hugi yðar undir morgundaginn.“ Fólki sat þar samt áfram, „grét og starði á hann, eins og það vildi biðja hann að dvelja örlítið lengur hjá sér.“ Jesús dvaldi örlítið lengur er hann skynjaði ósagða þörf þeirra, hjarta hans „fullt samúðar“ (3. Nefí 17:3, 5–6). Hann læknaði þeirra sjúku og aðþrengdu. Hann kraup og bað með þeim. Hann grét með þeim og fagnaði með þeim.
Ígrundið af kostgæfni orð og verk frelsarans í 3. Nefí 17. Ígrundið þann kærleika sem hann sýndi þeim sem hann kenndi. Leitið að tjáningu kærleiks hans annarstaðar í ritningunum. Hugsið síðan um það fólk sem þið kennið. Hvernig getið þið tjáð þeim kærleika ykkar á viðeigandi hátt? Látið andann leiða ykkur. Ef þið eigið erfitt með að skynja eða tjá kærleika gagnvart þeim sem þið kennið, byrjið á að bera vitni um elsku Guðs. „Biðjið þess vegna til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast [hinum hreina kærleika Krists], sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists“ (Moróní 7:48). Hafið síðan í huga að áhyggjur ykkar af því að kenna lexíu ættu aldrei að koma í veg fyrir að þið tjáið kærleika með orðum ykkar og gjörðum. Framkoma ykkar við fólk er oft jafn mikilvæg og námsefnið sem þið kennið.
Spurningar til að hugleiða: Hvernig hefur frelsarinn hjálpað ykkur að vita af elsku sinni gagnvart ykkur? Hvernig hefur foreldri eða annar kennari hjálpað ykkur að skynja kærleika hans. Veit fólkið sem þið kennið, að þið berið kærleika til þeirra? Veit það að frelsarinn elskar það?
Úr ritningunum: Markús 6:31–42; Jóhannes 13:3–16, 34–35; 15:12–13; 1. Korintubréf 13:1–7; 1. Jóhannesarbréf 4:7–11