„Kennið með andanum,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)
„Kennið með andanum,“ Kenna að hætti frelsarans
Kennið með andanum
Þegar frelsarinn bauð Joseph Smith og Sidney Rigdon að kenna fagnaðarerindi hans, lofaði hann þeim að „heilögum anda [yrði] úthellt til að bera vitni um allt það, er þér mælið“ (Kenning og sáttmálar 100:8; sjá einnig Kenning og sáttmálar 42:15–17; 50:17–22). Sama loforð á við um alla þá sem kenna fagnaðarerindið, þar á meðal ykkur. Þegar þið kennið fagnaðarerindi Jesú Krists getið þið haft heilagan anda með ykkur til að leiðbeina ykkur og vitna um sannleikann í huga og hjarta þeirra sem þið kennið (sjá Kenning og sáttmálar 8:2). Þið eruð ekki einsömul þegar þið kennið, því „það eruð ekki þér sem talið heldur talar heilagur andi í yður“ (Markús 13:11).
Heilagur andi er hinn sanni kennari. Enginn jarðneskur kennari, sama hve hæfileikaríkur hann er eða reynslumikill, getur gengið í hlutverk hans við að bera vitni um sannleikann, vitna um Krist og breyta hjörtum. Allir kennarar geta hins vegar verið verkfæri við að hjálpa börnum Guðs að læra með andanum.
Frelsarinn undirbjó sig andlega fyrir kennslu
Til að undirbúa sig fyrir þjónustu sína, varði frelsarinn 40 dögum í óbyggðunum „til að vera með Guði“ (Þýðing Joseph Smith, Matteus 4:1 [í Matteus 4:1, neðanmálstilvísun b]). Andlegur undirbúningur hans hafði hins vegar hafist löngu áður. Þegar Satan freistaði hans gat hann notfært sér „lífsins orð“ sem hann hafði geymt fram að „þeirri stundu“ sem hann þyrfti á því að halda (Kenning og sáttmálar 84:85). Hugsið um þá vinnu sem þið leggið í að undirbúa ykkur andlega fyrir kennslu. Hvað lærið þið af Matteusi 4:1–11 varðandi það hvernig þið getið fylgt fordæmi frelsarans í andlegum undirbúningi ykkar?
Andinn er hinn raunverulegi kennari og hin sanna uppspretta trúarumbreytingar. Kröftug kennsla fagnaðarerindisins þarfnast ekki einungis kennsluundirbúnings heldur að undirbúa sig andlega, löngu fyrir kennsluna. Ef þið eruð andlega undirbúin, munið þið geta betur heyrt og fylgt leiðsögn andans er þið kennið. Leiðin til að bjóða heilögum anda inn í kennsluna ykkar, er að bjóða honum inn í líf ykkar. Það felur í sér að fylgja fordæmi frelsarans dyggilega og lifa eftir fagnaðarerindi hans af öllu hjarta. Vegna þess að enginn okkar gerir þetta fullkomlega, þá þýðir það líka að iðrast daglega.
Spurningar til að hugleiða: Hvað þýðir það fyrir ykkur að undirbúa sig andlega fyrir kennslu? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að bæta andlegan undirbúning ykkar? Hvernig haldið þið að andlegur undirbúningur geti skipt sköpum í kennslu ykkar?
Úr ritningunum: Esrabók 7:10; Lúkas 6:12; Alma 17:2–3, 9; Kenning og sáttmálar 11:21; 42:13–14
Frelsarinn var ávallt reiðubúinn að mæta þörfum annarra
Jaírus, stjórnandi samkomuhússins, hafði fallið við fætur Jesú og sárbað hann að hjálpa dauðvona dóttur sinni. Jesús og lærisveinar hans voru að þröngva sér í gegnum fólksfjöldann á götunum í áttina að húsi Jaírusar, þegar Jesús staðnæmdist skyndilega. „Hver var það sem snart mig?“ spurði hann. Það virtist vera skrítin spurning – hver var ekki að snerta hann í mannþrönginni? Frelsarinn skynjaði það samt í þessum mannfjölda, að einhver hafði nálgast hann með ákveðna þörf og með þeirri trú að öðlast þá lækningu sem hann bauð upp á. Það yrði samt tími til að heimsækja dóttur Jaírusar. Fyrst sagði hann við konuna sem snart klæði hans: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði“ (sjá Lúkas 8:41–48).
Sem kennarar gætuð þið stundum staðið ykkur að því að flýta ykkur að klára efnið sem þið hafið undirbúið að kenna. Þó að það kunni að vera mikilvægt, sjáið þá til þess að þið hraðið ykkur ekki óvart fram hjá mikilvægri þörf einhvers sem þið eruð að kenna. Til viðbótar við þá andlegu leiðsögn sem þið leituðust eftir í undirbúningi kennslunnar, leitið einnig eftir leiðsögn andans í kennslunni. Reynið að vera meðvituð um þarfir, spurningar og áhuga nemendanna. Heilagur andi getur hjálpað ykkur að greina hvernig nemendur eru að meðtaka eða skilja eitthvað sem þið hafið kennt. Hann gæti stundum hvatt ykkur til að breyta áætlunum ykkar. Þið gætuð til dæmis fundið fyrir hvatningu til að verja meiri tíma en áætlað var í ákveðið umræðuefni, eða að sleppa einhverri umræðu í staðinn fyrir eitthvað sem er nemendum mikilvægara á þessari stundu.
Spurningar til að hugleiða: Hvenær hafið þið upplifað að foreldri eða annar kennari væri meðvitaður um þarfir ykkar sem nemanda? Vita þeir sem þið kennið að þið hafið meiri áhuga á því að þau læri en að klára lexíuna? Hvernig getið þið tjáð áhuga ykkar betur?
Úr ritningunum: 1. Pétursbréf 3:15; Alma 32:1–9; 40:1; 41:1; 42:1
Frelsarinn bauð upp á tækifæri fyrir fólk að læra af heilögum anda
Það var erfitt fyrir marga að skilja það á tímum Jesú hver hann var í raun, en til voru margar ályktanir. Postular hans sögðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Þá spurði Jesú spurningar sem bauð lærisveinum hans að setja skoðanir annarra til hliðar og horfa innra með sér sjálfum: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Hann vildi að þeir fyndu svarið sjálfir: „Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum.“ Það var þess konar vitni – persónuleg opinberum frá heilögum anda – sem gerði Pétri kleift að lýsa yfir: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“ (sjá Matteus 16:13–17).
Til að komast af andlega á síðari dögum, þá þurfa nemendur ykkar andlegt vitni um sannleikann. Þið getið ekki veitt þeim það, en þið getið boðið, hvatt, innblásið og kennt þeim að leita þess. Þið getið gert þeim grein fyrir því – í gegnum orð ykkar og gjörðir – hve mikilvægur heilagur andi er í trúarnámi. Hugleiðið til dæmis námsumhverfið sem þið skapið og hvetjið til. Stundum getur eitthvað eins einfalt og uppröðun stólanna í herberginu eða hvernig þið heilsið nemendunum eða hvernig samskipti ykkar eru, sett andlegan tón fyrir þá lærdómsupplifun sem þeir öðlast. Þið getið einnig boðið nemendum að undirbúa sig andlega fyrir lærdóminn, á sama hátt og þið undirbúið ykkur fyrir kennsluna. Biðjið þá að taka ábyrgð á þeim anda sem þeir koma með á staðinn. Þið getið einnig veitt þeim tækifæri til að upplifa andann bera vitni um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Það vitni mun verða þeim „[klettur]“ og „máttur heljar mun ekki á [þeim] sigrast“ (Matteus 16:18).
Spurningar til að hugleiða: Hvað hafið þið séð sem stuðlar að andlegu umhverfi fyrir lærdóm á fagnaðarerindinu? Hvað dregur úr því? Hvað hjálpar fólkinu sem þið kennið að læra af andanum? Hugsið um aðstöðuna sem þið kennið oftast í. Hvernig líður ykkur þegar þið eruð þar? Hvernig getið þið boðið andanum betur að vera viðstaddur þar?
Úr ritningunum: Lúkas 24:31–32; Jóhannes 14:26; 16:13–15; Moróní 10:4–5; Kenning og sáttmálar 42:16–17; 50:13–24
Frelsarinn hjálpaði öðrum að leita, bera kennsl á og framkvæma samkvæmt persónulegri opinberun
Drottinn vill eiga samskipti við okkur – og hann vill að við vitum að hann er að tala við okkur. Árið 1829 var 22ja ára gamall kennari, að nafni Oliver Cowdery, að læra um hina djörfu kenningu að hver sem er gæti meðtekið persónulega opinberun. Hann var hins vegar með spurningu sem mörg okkar hafa spurt: „Er Drottinn raunverulega að tala til mín? Hvernig get ég svo vitað hvað hann er að segja?“ Til að svara þessum spurningum bauð Jesús Kristur Oliver að hugsa til baka til persónulegrar stundar andlegrar hugleiðingar. „Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta,?“ spurði hann (Sjá Kenning og sáttmálar 6:21-24). Seinna kenndi hann Oliver um fleiri leiðir sem andinn gæti talað til hans (sjá Kenning og sáttmálar 8:2–3; 9:7–9; sjá einnig Kenning og sáttmálar 11:12–14).
Þar sem við búum í heimi sem er svo ómeðvitaður um andleg málefni, þurfum við öll aðstoð við að bera kennsl á rödd andans. Við gætum hafa numið andann án þess að gera okkur grein fyrir því. Við getum öll lært meira um það hvernig leita skuli andans, þekkja áhrif hans og framkvæma í samræmi við þá hvatningu sem hann veitir okkur. Þegar þið kennið, hjálpið þá nemendunum að uppgötva hvernig andinn getur talað til okkar – og hvernig hann talaði við þá. Ein af stórkostlegustu gjöfunum sem þið getið gefið sem kennarar, er að hjálpa þeim sem þið kennið, að taka framförum í þessari ævilöngu leit eftir persónulegri opinberun.
Spurningar til að hugleiða: Hvers vegna er það mikilvægt að læra að taka á móti persónulegri opinberun? Hefur einhver nokkurn tíma hjálpað ykkur að skilja hvernig leita skuli og bera kennsl á opinberun? Hvernig getið þið hvatt þá sem þið kennið að leita að, bera kennsl á og framkvæma í samræmi við opinberun frá heilögum anda?
Úr ritningunum: Galatabréfið 5:22–23; Alma 5:45–47; Kenning og sáttmálar 42:61; 121:33; Joseph Smith – Saga 1:8–20
Frelsarinn bar þeim sem hann kenndi vitnisburð
Á einstaklega ljúfri stundu kennslu og þjónustu, leitaði Jesú huggunar hjá vinkonu sinni, Mörtu, sem hafði misst bróður sinn. Hann miðlaði henni einföldum vitnisburði sínum um eilífan sannleika: „Bróðir þinn mun upp rísa“ (Jóhannes 11:23). Vitnisburður hans hvatti Mörtu til að bera sinn eigin vitnisburð: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi“ (Jóhannes 11:24). Takið eftir því hvernig þetta mynstur endurtekur sig í Jóhannes 11:25–27. Hvað finnst þér um fordæmi frelsarans? Hvers vegna er það svo mikilvægur þáttur í að kenna að gefa vitnisburð um sannleika fagnaðarerindisins?
Vitnisburður ykkar getur haft mikil áhrif á þá sem þið kennið. Hann þarf ekki að vera málskrúðugur eða langur. Hann þarf ekki að byrja á: „Mig langar að gefa ykkur vitnisburð minn.“ Miðlið einfaldlega því sem þið vitið með krafti heilags anda. Vitnisburður um sannleika er áhrifaríkastur þegar hann er blátt áfram og einlægur. Vitnið oft um frelsarann, fagnaðarerindi hans og kraft í lífi ykkar og hvetjið þau sem þið kennið til að gera slíkt hið sama. Munið svo eftir því að stundum kemur kröftugasti vitnisburðurinn ekki frá kennaranum heldur samnemanda.
Spurningar til að hugleiða: Leitið dæma í ritningunum sem sýna fram á þau kröftugu áhrif sem geta komið frá því er einhver gefur vitnisburð sinn. Hvað lærið þið af þeim fordæmum? Hvenær hafið þið verið blessuð af vitnisburði annars? Hvernig hefur miðlun vitnisburðar ykkar, haft áhrif á þá sem þið kennið? Hvernig áhrif hefur það haft á ykkur?
Úr ritningunum: Postulasagan 2:32–38; Mósía 5:1–3; Alma 5:45–48; 18:24–42; 22:12–18; Kenning og sáttmálar 46:13–14; 62:3