ÞJS, 1. Mósebók 14:25–40. Samanber 1. Mósebók 14:18–20
Melkísedek blessar Abram. Mikilli þjónustu Melkísedekser lýst, sem og krafti og blessunum Melkísedeksprestdæmisins.
25 Og Melkísedek hóf upp raust sína og blessaði Abram.
26 En Melkísedek var trúaður maður og réttlátur, og sem barn óttaðist hann Guð, lokaði munni ljóna og lægði ofsa eldsins.
27 Og eftir að Guð hafði þannig lýst hann þóknanlegan, var hann vígður æðsti prestur eftir reglu sáttmálans, sem Guð hafði gjört við Enok.
28 Sem var eftir reglu Guðssonarins, en sú regla kom ekki með manninum, né að vilja mannsins, hvorki með föður né móður, hvorki með upphafi daganna né endi áranna, heldur Guði —
29 Og hana fengu menn með köllun frá hans eigin rödd, samkvæmt hans eigin vilja, jafn margir og á nafn hans trúðu
30 Því að Guð hafði sjálfur unnið þess eið við Enok og niðja hans, að hver sá sem vígður væri þessari reglu og köllun skyldi hafa kraft, með trú, til að kljúfa fjöll, skipta höfum, þurrka upp vötn og breyta stefnu þeirra —
31 Ögra herjum þjóða, skipta jörðinni, slíta hver bönd, standa í návist Guðs; til að gjöra allt í samræmi við vilja hans, samkvæmt boði hans, yfirbuga hátignir og völd, og það með vilja Guðssonarins, sem var frá því áður en heimurinn var grundvallaður.
32 Og menn með slíka trú, er gengu undir þessa reglu Guðs, voru ummyndaðir og teknir upp til himins.
33 Og Melkísedek var prestur þessarar reglu, því hlaut hann frið í Salem og var nefndur Friðarhöfðingi.
34 Og fólk hans iðkaði réttlæti og náði himnum og leitaði borgar Enoks, sem Guð hafði áður tekið og aðskilið frá jörðu, til varðveislu fram á síðari daga, eða til endaloka veraldar —
35 Og hafði sagt, og svarið með eiði, að himnar og jörð skyldu sameinuð, og synir Guðs yrðu reyndir sem með eldi.
36 Og þessi Melkísedek, sem komið hafði þannig á fót réttlæti, var kallaður konungur himins af fólki sínu, eða með öðrum orðum, Friðarkonungur.
37 Og hann hóf upp rödd sína og blessaði Abram, því hann var æðsti prestur og gætti forðabúrs Guðs —
38 Hann hafði Guð tilnefnt til þess að taka á móti tíund handa hinum fátæku.
39 Þess vegna greiddi Abram honum tíund af öllu sem hann átti, af öllum auði í hans eigu, þeim sem Guð hafði gefið honum umfram það sem hann hafði þörf fyrir.
40 Og svo bar við, að Guð blessaði Abram og veitti honum ríkidæmi, heiður og lönd til ævarandi eignar, í samræmi við sáttmálann sem hann hafði gjört og í samræmi við blessunina sem Melkísedek hafði veitt honum.