ÞJS, 1. Mósebók 17:3–12. Samanber 1. Mósebók 17:3–12
Fólkið fylgir ekki helgiathöfnum fagnaðarerindisins þar á meðal skírn. Guð útskýrir sáttmála umskurnar fyrir Abraham, og ábyrgðaraldur barna.
3 Og svo bar við, að Abram féll fram á ásjónu sína og ákallaði nafn Drottins.
4 Og Guð talaði við hann og sagði: Fólk mitt hefur vikið frá kenningum mínum og ekki fylgt helgiathöfnum mínum, sem ég fól feðrum þess —
5 Og það hefur ekki virt smurning mína og greftrun, eða skírn, eins og ég bauð þeim —
6 Heldur hefur það snúið frá boðorðunum og tekið upp hjá sjálfu sér að lauga börn og stökkva blóði —
7 Og hafa sagt að blóð hins réttláta Abels hafi verið úthellt fyrir syndir. Og hafa ekki vitað hver ábyrgð þeirra er gagnvart mér.
8 En hvað þig varðar, sjá ég mun gjöra við þig sáttmála minn, og þú skalt verða faðir margra þjóða
9 Og þennan sáttmála gjöri ég, að börn þín verði þekkt á meðal allra þjóða. Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig
10 Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér og þínum niðjum skulu konungar koma
11 Og ég mun gjöra sáttmála umskurnar við þig, og hann skal vera sáttmáli milli mín og þín og niðja þinna eftir þig, frá einum ættlið þeirra til annars. Svo að þú megir eilíflega vita að börn eru ekki ábyrg gagnvart mér fyrr en þau eru átta ára að aldri.
12 Og þú skalt gæta þess að halda alla sáttmála mína sem ég gjörði við feður þína. Og þú skalt halda boðorðin, sem ég hef gefið þér af mínum eigin munni, og ég mun verða þér Guð og niðjum þínum eftir þig.
ÞJS, 1. Mósebók 17:23–24. Samanber 1. Mósebók 17:17–18
Abraham fagnar spádómnum um fæðingu Ísaks og biður fyrir Ísmael.
23 Þá féll Abraham fagnandi fram á ásjónu sína og sagði í hjarta sínu: Barn mun fæðast honum, sem er hundrað ára gamall, og Sara, sem er níræð, mun fæða.
24 Og Abraham sagði við Guð: Ég vildi að Ísmael mætti lifa grandvar fyrir þínu augliti!