ÞJS, Jóhannes 1:1–34. Samanber Jóhannes 1:1–34
Fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið prédikað allt frá upphafi. Jóhannes skírari er Elía, sem greiðir veginn fyrir Krist og Jesús Kristur er Elía, sem endurreisir allt og færir sáluhjálp.
1 Í upphafi var fagnaðarerindið prédikað með syninum. Og fagnaðarerindið var orðið, og orðið var hjá syninum, og sonurinn var hjá Guði, og sonurinn var Guðs.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir voru af honum gerðir, og án hans varð ekkert gjört af því sem gjört var.
4 Í honum var fagnaðarerindið og fagnaðarerindið var lífið, og lífið var ljós mannanna —
5 Og ljósið skín í heiminum, og heimurinn tekur ekki á móti því.
6 Maður var sendur af Guði, nafn hans var Jóhannes.
7 Hann kom í heiminn til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, bera öllum vitni um fagnaðarerindið fyrir atbeina sonarins, að fyrir hans tilstuðlan mættu menn trúa.
8 Ekki var hann ljósið, en hann kom til að vitna um það ljós —
9 Sem var hið sanna ljós, er upplýsir hvern mann sem í heiminn kemur —
10 Já, son Guðs. Hann sem var í heiminum, og heimurinn var af honum gjörður, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til sinna eigin, og hans eigin tóku ekki við honum.
12 En öllum, sem tóku við honum, gaf hann kraft til að verða Guðs börn; aðeins þeim er trúa á nafn hans.
13 Hann fæddist, ekki af blóði né af holdsins vild, né af manns vilja, heldur af Guði.
14 Og hið sama orð varð hold, og bjó með oss, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem hins eingetna föðurins, fullur náðar og sannleika.
15 Jóhannes vitnar um hann, hrópaði og sagði: Þetta er sá sem ég átti við. Forgang hefur sá, sem kemur eftir mig, enda fyrri en ég.
16 Því í upphafi var orðið, já, sonurinn, sem varð hold og sendur var oss að vilja föðurins. Og allir, sem trúa á nafn hans, munu taka á móti fyllingu hans. Og af fyllingu hans höfum vér allir meðtekið, já, ódauðleika og eilíft líf, fyrir náð hans.
17 Því að lögmálið var gefið með Móse, en líf og sannleikur kom með Jesú Kristi.
18 Því að lögmálið var að holdlegu boði, til ráðstöfunar dauða, en fagnaðarerindið var að krafti óendanlegs lífs, fyrir Jesú Krist, hinn eingetna son, sem er við brjóst föðurins.
19 Og enginn maður hefur nokkurn tíma séð Guð, nema hann hafi borið vitni um soninn, því aðeins fyrir hann getur maðurinn orðið hólpinn.
20 Og þetta er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu presta og levíta frá Jerúsalem til þess að spyrja hann: Hver ert þú?
21 Og hann játaði og neitaði því ekki að hann væri Elía, heldur játaði og sagði: Ekki er ég Kristur.
22 Og þeir spurðu hann og sögðu: Hvernig þá, ertu Elía? Og hann svaraði: Ekki er ég sá Elía sem átti að endurreisa allt. Og þeir spurðu og sögðu: Ert þú sá spámaður? Hann kvað nei við.
23 Þá sögðu þeir við hann: Hver ert þú? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?
24 Hann sagði: Ég er rödd hrópanda í eyðimörkinni. Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir.
25 Og þeir, sem sendir voru, voru af flokki farísea.
26 Og þeir spurðu hann og sögðu við hann: Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur né Elía sem átti að endurreisa alla hluti, né heldur sá spámaður?
27 Jóhannes svaraði þeim og sagði: Ég skíri með vatni, en mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki —
28 Hann er sá sem ég ber vitni um. Hann er sá spámaður, sjálfur Elía, sem kemur á eftir mér, en er mér fremri, og skóþveng hans er ég eigi verður að leysa, eða hans stað er ég eigi fær um að fylla, því að hann mun skíra, ekki aðeins með vatni, heldur með eldi og með heilögum anda.
29 Næsta dag sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: Sjá, Guðs lamb, sem ber burt syndir heimsins!
30 Og Jóhannes bar fólkinu vitni um hann og sagði: Þetta er sá er ég sagði um: Á eftir mér kemur maður, sem er mér fremri, því hann er fyrri en ég, og ég þekkti hann, og vissi að hann myndi opinberast Ísrael. Því hef ég komið og skíri með vatni.
31 Og Jóhannes vitnaði og sagði: Þegar hann lét skírast af mér, sá ég andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
32 Og ég þekkti hann, því að sá er sendi mig til þess að skíra með vatni, hann sagði við mig: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.
33 Og ég sá og ég vitna, að þetta er sonur Guðs.
34 Þetta bar við í Betabara, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.
ÞJS, Jóhannes 1:42. Samanber Jóhannes 1:42
Kefas merkir „sjáandi“ eða „steinn“.
42 Og hann fór með hann til Jesú. Og þegar Jesús sá hann sagði hann: Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas, sem túlkað er sjáandi eða steinn. Og þeir voru fiskimenn. Og samstundis yfirgáfu þeir allt og fylgdu Jesú.