5. Kapítuli
Guðirnir ljúka áætlun sinni um sköpun allra hluta — Þeir gjöra sköpunina að veruleika í samræmi við áætlun sína — Adam nefnir sérhverja lifandi skepnu.
1 Og þannig viljum vér fullgjöra himna og jörð og allan þeirra herskara.
2 Og guðirnir sögðu sín á meðal: Í hið sjöunda sinn munum vér ljúka verki voru, sem vér höfum ráðgert. Og vér munum hvílast hið sjöunda sinn frá öllu verki voru, sem vér höfum ráðgert.
3 Og guðirnir luku því hið sjöunda sinn, vegna þess að hið sjöunda sinn hvíldust þeir frá öllum verkum sínum, sem þeir (guðirnir) ráðgerðu sín á meðal að móta, og helguðu það. Og þannig voru ákvarðanir þeirra, þegar þeir ráðgerðu sín á meðal að móta himna og jörð.
4 Og guðirnir komu niður og mótuðu þessi sköpunarstig himna og jarðar, þegar þau voru mótuð á þeim degi, er guðirnir mótuðu jörðina og himnana —
5 Í samræmi við allt, sem þeir höfðu sagt varðandi hverja plöntu vallarins áður en hún var á jörðu og hverja jurt vallarins áður en hún óx, því að guðirnir höfðu ekki látið rigna á jörðina, þegar þeir áformuðu að gjöra þau, og höfðu ekki mótað mann til að yrkja jörðina.
6 En þoku lagði upp af jörðu og vökvaði allt yfirborð jarðar.
7 Og guðirnir mótuðu mann úr dufti jarðar og tóku anda hans (það er anda mannsins) og settu hann í hann, og blésu lífsanda í nasir hans, og maðurinn varð að lifandi sál.
8 Og guðirnir gróðursettu aldingarð austan til í Eden og settu þar manninn, en anda hans höfðu þeir sett í líkamann, sem þeir höfðu mótað.
9 Og guðirnir létu upp vaxa af jörðunni hvers kyns tré, girnileg á að líta og góð af að eta, og lífsins tré einnig mitt í aldingarðinum, og skilningstré góðs og ills.
10 Fljót rann frá Eden til að vökva garðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum höfuðám.
11 Og guðirnir tóku manninn og settu hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
12 Og guðirnir buðu manninum og sögðu: Af öllum trjám í aldingarðinum er þér frjálst að eta —
13 En af skilningstré góðs og ills skalt þú ekki eta, því að á þeirri stundu, er þú etur af því, munt þú örugglega deyja. Nú sá ég, Abraham, að þetta var að tíma Drottins, sem var að tíma Kólobs, því að enn höfðu guðirnir ekki útnefnt Adam tímatal hans.
14 Og guðirnir sögðu: Vér skulum gjöra manninum meðhjálp við hæfi, því að eigi er gott að maðurinn sé einsamall. Vér viljum því móta handa honum meðhjálp við hæfi.
15 Og guðirnir létu fastan svefn falla á Adam, og hann svaf, og þeir tóku eitt rifja hans og fylltu aftur með holdi —
16 Og guðirnir mótuðu konu úr rifinu, er þeir höfðu tekið úr manninum, og leiddu hana til mannsins.
17 Og Adam sagði: Þetta var bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal kvenmaður nefnast, af því að hún er af karlmanni tekin —
18 Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og heldur sig fast að eiginkonu sinni, og þau verða eitt hold.
19 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og eiginkona hans, og blygðuðust sín ekki.
20 Þá mótuðu guðirnir af jörðunni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og létu þau koma fyrir Adam, til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem Adam gaf sérhverri lifandi skepnu, skyldi vera nafn hennar.
21 Og Adam gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. Og meðhjálp við hæfi fannst handa Adam.