„Hvernig frelsarinn kom fram við konur,“ Til styrktar ungmennum, mars 2023.
Hvernig frelsarinn kom fram við konur
Við getum fylgt fordæmi Jesú Krists um að sýna konum í lífi okkar góðvild og virðingu.
Í Nýja testamentinu kenndi Jesús Kristur oft óvænta hluti. (Eins og: Okkur er boðið að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur.1)
Sumar af þessum kenningum ögruðu menningu þess tíma. Frelsarinn var ekki að reyna að falla í hópinn. Hann var að reyna að kenna æðra lögmál og sýna okkur hvernig á að koma fram við hvert annað. Hann var fordæmi um elsku sem takmarkaðist ekki við ákveðinn aldur, kyn eða þjóðerni.
Á tímum Jesú var almennt litið á konur sem óæðri. Í sumum menningarheimum í dag er auk þess ekki almennt komið fram við konur af virðingu. Kannski búið þið á slíkum stað. Ef svo er, getið þið verið kristilegt fordæmi fyrir samfélag ykkar með því að sýna öllum góðvild og virðingu – þar á meðal stúlkum og konum í lífi ykkar.
Jesús elskaði móður sína
Fyrsta opinbera kraftaverk Krists var nokkuð sem hjálpaði móður hans. Hún var ábyrg fyrir því að hjálpa við að sjá fólki fyrir veitingum í brúðkaupi. Þegar drykkir kláruðust breytti Jesús vatni í vín svo nóg var til fyrir gestina.
Orðalagið í svari Jesú til móður sinnar í því samtali kann að hljóma harkalega í okkar nútíma eyra: „Hvað viltu mér, kona?“ (Jóhannes 2:4). Joseph Smith útskýrði þó að Jesús hafi verið að spyrja móður sína að því hvað hana vantaði: „Hvað viltu mér, kona?“2. Að ávarpa manneskju sem „konu,“ var virðingarvottur á þessum tíma. Hann var í raun að segja: „Kona góð, hvað sem þú biður um í trú, mun ég veita þér.“3
Spólað fram á við um þrjú ár. Rétt áður en Jesú dó á krossinum, var eitt hið síðasta sem hann gerði að ganga úr skugga um að hugsað yrði um móður sína.
„Hann [sagði] við móður sína: ,Kona, nú er hann sonur þinn.‘ Síðan sagði hann við lærisveininn: ,Nú er hún móðir þín.‘ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín“ (Jóhannes 19:26–27).
Jesús kom fram við útskúfaðar konur af virðingu
Við höfum að minnsta kosti tvö dæmi þess að frelsarinn kom fram við konur af virðingu sem voru sniðgengnar af samfélaginu.
Á tímum frelsarans litu flestir Gyðingar niður á samversku þjóðina. Þegar Jesús Kristur hins vegar hitti samverska konu við brunn, kom hann fram við hana af samúð og virðingu. Það sem meira var, það var á meðan hann talaði við hana sem hann opinberaði sig fyrst sem hinn fyrirheitna frelsara!4 (Sjá Jóhannes 4.)
Í öðru tilviki var kona staðin að verki við alvarlega synd. Samkvæmt lögum gyðinga átti að grýta hana til dauða. Þegar leiðtogar komu með þessa konu til frelsarans, spurði hann þá spurningar sem fékk þá til að staldra við og hugsa. Þeir grýttu hana ekki. Þá bauð frelsarinn henni að iðrast og sagði: „Far þú. Syndga ekki framar“ (Jóhannes 8:11).
Jesús birtist konum eftir upprisu sína
Eftir að Jesús var reistur upp, vitjaði hann fyrst Maríu Magdalenu, sem syrgði við gröf hans (sjá Jóhannes 20:11–18). Aðrar konur — Jóhanna, sem og María móðir Jakobs – voru meðal þeirra fyrstu sem vissu um hinn upprisna Drottin. Englar buðu þeim að miðla vitnisburði sínum um það sem þær höfðu séð. (Sjá Lúkas 24:1–10.)
Við getum fylgt fordæmi hans
Hvað getum við gert til að fylgja fordæmi frelsarans um virðingu fyrir konum?
Spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hann ól upp níu dætur og einn son með eiginkonu sinni, Dantzel. Eftir lát hennar, giftist hann Wendy Nelson.
„Við virðum systur – ekki aðeins í nánustu fjölskyldum okkar, heldur allar hinar yndislegu systur í lífi okkar,“ kenndi hann.5
Í þessum mánuði skulum við sýna konum í lífi okkar kristilegan kærleika og góðvild. Þið eruð nógu áhrifamikil til að breyta heiminum, einu sambandi í einu!