2023
Miðlið því sem þið elskið
Júlí 2023


„Miðlið því sem þið elskið,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2023.

Miðlið því sem þið elskið

Elska ykkar til fagnaðarerindisins, til annarra og til Drottins, veitir ykkur kraft til að miðla fagnaðarerindinu.

Jesús Kristur, origami, snjallsími, nál og þráður, brú, Mormónsbók

Í þessum tilgangi, eftir Yongsung Kim, Havenlight.com

Ég heimsótti Ribble-ána nálægt Preston á Englandi meðan ég starfaði sem ungur trúboði í breska trúboðinu. Þar skírði postulinn og trúboðinn Heber C. Kimball fyrstu trúskiptinga hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists utan Norður-Ameríku, í júlí 1837.

Þegar ég stóð á brú með útsýni yfir ána og hugsaði um það sem þar hafði átt sér stað, fékk ég óyggjandi vitnisburð um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans.

Trúboðið mitt var dásamleg, afgerandi lífsreynsla. Í dag velti ég oft fyrir mér hvílík gleði það hefur verið fyrir mig að verja stórum hluta ævinnar við að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég get ekki hugsað mér neitt mikilvægara.

Þörfin á að miðla fagnaðarerindinu

Ímyndið ykkur að þið hefðuð verið lærisveinar Jesú Krists á þeim tíma sem hann reis upp. Hversu dásamlegt hefði það verið að sjá hann og hlýða á boðskap hans?

Hinn ómótstæðilegi boðskapur hins upprisna Drottins var boð og tilskipun um að miðla fagnaðarerindi hans. Hann sagði: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum” (Matteus 28:19) og „farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Markús 16:15).

Russell M. Nelson forseti lýsti yfir: „Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists en á okkar tíma. … Við höfum þá helgu ábyrgð að deila krafti og friði Jesú Krists með öllum sem vilja hlusta og láta Guð ríkja í eigin lífi.“1

Drottinn þarfnast ykkar núna!

Þið lifið á einstökum og mikilvægum tíma – síðasta ráðstöfunartímanum fyrir síðari komu Jesú Krists. Spámaðurinn Joseph Smith spáði að áður en Drottinn kæmi aftur, myndi „sannleikur Guðs … sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“2

Hverjir munu hjálpa við að ná þessu fram? Þið!

Þið þurfið ekki að vera fastatrúboðar til að miðla fagnaðarerindinu. Drottinn þarfnast þess að þið gerið það núna að lífsstíl og hluta af því sem þið eruð, að miðla hinu gleðilega, eilíflega mikilvæga fagnaðarerindi hans í orði og verki.

Einblínið á elsku

Mikilvægasta ástæðan fyrir því að við miðlum fagnaðarerindinu, er sú að Drottinn hefur beðið okkur um það. Stundum getur það verið krefjandi, en ég lofa því að þegar þið einblínið á Drottin Jesú Krist og hversu heitt þið elskið hann og hversu heitt hann elskar ykkur, munið þið hljóta leiðsögn í þeirri viðleitni ykkar.

stækkunargler yfir mynd af Jesú Kristi

Hann er upprisinn, eftir Greg Olsen

Elska ykkar til fagnaðarerindisins, til annarra og ekki síst til Drottins, veitir ykkur kraft til meðtaka hið guðlega boð hans um að miðla fagnaðarerindi hans.

Elskið fagnaðarerindið

Drottinn hefur sagt: „Lærið af mér“ (Kenning og sáttmálar 19:23; Matteus 11:29). Því meira sem þið lærið um fagnaðarerindið og lærið um Jesú Krist og heilagt hlutverk hans sem frelsara og lausnara, því meiri verður elska ykkar til fagnaðarerindisins.

Þið miðlið elsku ykkar til fagnaðarerindisins þegar þið lifið eftir því. Páll postuli kenndi: „Ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika“ (1. Tímóteusarbréf 4:12). Oft er fólk móttækilegt fyrir fagnaðarerindinu vegna þess að það hefur haft jákvæða reynslu af kirkjumeðlimum. Lifið vinsamlega ekki í andlegum felulitum. „Þannig lýsi ljós yðar“ (Matteus 5:16) og sýnið öðrum að fagnaðarerindið sé mikilvægur hluti af því hver þið eruð og hvað þið gerið.

Elskið aðra

Hugsið um vini ykkar. Miðlið þið þeim kvikmyndum, tónlist og máltíðum sem ykkur líkar? Miðlið þið hæfileikum ykkar og áhugamálum? Ef til vill hafið þið velt því fyrir ykkur hvort þeir muni bregðast við fagnaðarerindinu, ef þið segið þeim frá því. Þið munuð aldrei vita það nema þið reynið. Nelson forseti hefur kennt: „Allir verðskulda að þekkja hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.“3

Liðsinnið vinum, fjölskyldumeðlimum, nágrönnum, bekkjarfélögum og öðrum í kærleika – og hafið hugfast að þau eru bræður ykkar og systur og ástkær börn föður ykkar á himnum – og ykkur mun reynast auðveldar að miðla þeim fagnaðarerindinu.

Elskið Drottin

Sem meðlimir í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er boðskapur okkar til heimsins sá að Jesús Kristur lifir! Hann hefur gert okkur öllum mögulegt að öðlast sáluhjálp og upphafningu.

Þið munið finna elsku Drottins til ykkar þegar þið íhugið allt það sem hann hefur gert fyrir ykkur. Sál ykkar mun fyllast elsku til hans og þið munið komast að því að þið getið ekki annað en miðlað hinum dásamlega sannleika sem þið hafið meðtekið frá honum.

Mikil verður gleði ykkar

Andlega hvetjandi reynsla mín á brúnni yfir ána Ribble, sem ungur trúboði, færði mér þá eilífu gleði sem þeim er heitið sem miðla fagnaðarerindinu (sjá Kenning og sáttmálar 18:15).

Sem postuli Drottins Jesú Krists, veit ég enn betur í dag að miðlun fagnaðarerindisins veitir gleði og er djúpstæð kærleikstjáning okkar til hins endurreista fagnaðarerindis, barna Guðs og Drottins.

Quentin L. Cook með ungu fólki

Öldungur Cook ræðir við ungt brottflutt fólk frá Taal-eldfjallinu í Batangas á Filippseyjum, 15. janúar 2020.

Ég ber vitni um að þegar þið meðtakið boð Drottins og miðlið því sem þið elskið, hjálpið þið honum að byggja upp kirkju hans og búa heiminn undir endurkomu hans, þegar „hann mun ríkja sem konungur konunganna og … Drottinn drottnanna.“4 Ég bið þess að þið munið fylgja honum og miðla fagnaðarerindi hans alla ykkar ævi.