2023
Þegar ákvarðanir annarra særa ykkur
Júlí 2023


„Þegar ákvarðanir annarra særa ykkur,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2023.

Þegar ákvarðanir annarra særa ykkur

Hér er nokkuð til að hafa hugfast þegar aðrir nota eigið sjálfræði á þann hátt að það særir ykkur.

stúlka upplifir neikvæðar tilfinningar

Myndskreyting: Shana Keegan

Á hverjum degi takið þið fullt af ákvörðunum – hverju þið klæðist, hvað þið borðið í morgunmat, með hvaða vinum þið verjið tíma ykkar. Sjálfræði, eða frelsi til að velja og breyta að eigin vilja, er ein dýrmætasta gjöfin sem Guð hefur gefið okkur.

Það sem við veljum hefur líka afleiðingar og stundum geta ákvarðanir annarra sært okkur. Ef ykkur hefur einhvern tíma verið refsað fyrir eitthvað sem bróðir ykkar gerði, vitið þið hversu erfitt það getur verið þegar aðrir nota sjálfræðið sitt á þann hátt sem ykkur líkar ekki!

Stundum eru það þó jafnvel enn verri hlutir sem fólk getur notað sjálfræðið til að gera. Börn í skólanum gætu lagt ykkur í einelti eða kannski ákveður fjölskyldumeðlimur að yfirgefa kirkjuna. Það er oft sem lífið getur virst ósanngjarnt. Þegar öllu er á botninn hvolft eruð þið að reyna að nota sjálfræðið ykkar til að taka réttar ákvarðanir – svo hvers vegna gera þau það ekki?

Auðvitað getið þið ekki stjórnað öðrum. En góðu fréttirnar eru þær að þið getið breytt ykkur sjálfum. Úrræðið er að beina hugsunum sínum að einhverju öðru og taka góðar ákvarðanir, jafnvel þótt aðrir geri það ekki.

Hér er nokkuð til að hafa hugfast um að sækja fram í trú, jafnvel þegar aðrir nota eigið sjálfræði á þann hátt að það særir ykkur:

  1. Satan reyndi að eyðileggja sjálfræðið (sjá HDP Móse 4:3). Jafnvel þótt það sé erfitt að horfa á aðra taka slæmar ákvarðanir, er ykkur líka frjálst að taka góðar ákvarðanir til að fylgja Jesú Kristi og verða líkari honum!

  2. Breytni ykkar hefur áhrif. Munið: „Okkur er frjálst að velja, en við getum ekki valið afleiðingarnar.“1 Að sjá hvernig val annarra hefur áhrif á ykkur, getur verið góð áminning um að taka ákvarðanir sem hvorki skaða ykkur sjálf eða aðra.

  3. Allir bera ábyrgð á eigin vali (sjá Kenning og sáttmálar 101:78). Þið þurfið ekki að vera íþyngd af því að bera ábyrgð á að breyta öðru fólki eða ákvörðunum þess. Þess í stað getið þið einblínt á að taka jákvæðar ákvarðanir og fylgja Jesú Kristi.

  4. Þið getið valið að vera vingjarnleg. Einhver gæti verið illgjarn við ykkur, en þið getið engu að síður verið vingjarnleg við hann. Það þarf hugrekki til að vera vingjarnlegur við fólk og fyrirgefa því þegar það er óvingjarnlegt við ykkur, en það er nákvæmlega það sem Jesús myndi gera (sjá Lúkas 23:34).

  5. Þið ættuð að einblína á það sem þið getið stjórnað. Þið gætuð til dæmis ekki komið í veg fyrir að foreldrar ykkar sæki um skilnað, en þið gætuð valið að einblína á að halda ykkur á sáttmálsveginum, hjálpa systkinum ykkar, læra um heilbrigð sambönd og setja ykkur markmið fyrir eigin framtíðarfjölskyldu. Veljið að breyta áskorunum ykkar í tækifæri til að vaxa og læra.

  6. Sjálfsmynd ykkar er guðleg og þið hafið tilgang. Þegar þið hafið sjálfsmynd ykkar hugfasta sem barn Guðs og einblínið aftur á markmið ykkar í lífinu, getið þið séð heildarmyndina. Að einblína á tilgang ykkar og sjá að þessar áskoranir eru aðeins lítill hluti af lífssögu ykkar, getur hjálpað ykkur að sækja fram í trú.

  7. Með trú á Jesú Krist, getið þið fundið persónulegan frið, jafnvel þótt hlutirnir umhverfis séu ekki friðsælir. Russell M. Nelson forseti sagði: „Við getum fundið viðvarandi frið og gleði, jafnvel á örðugum tíðum.“2 Lífið er eins og ólgusjór og það er auðvelt að óska þess að Guð myndi lægja þá storma fyrir okkur. En stundum stillir hann okkur, sjófarendurna, í stað þess stilla sjóinn. Snúið ykkur til hans með erfiðleika ykkar og hann mun hjálpa ykkur.

stúlka

Guð gaf ykkur sjálfræði svo þið gætuð valið að fylgja honum og þess vegna orðið eins og hann er. Þegar þið gerið það, munið þið eðlilega læra af eigin vali og mistökum og af vali annarra. Jafnvel þótt erfitt sé að horfa á fólk taka ákvarðanir sem særa ykkur, getið þið lært af þeirri reynslu og haldið áfram í tilgangi, trú og gleði.