Aðskilin, en samt eitt
Drottinn væntir þess að við séum eitt í kirkjunni, þrátt fyrir það sem aðskilur okkur!
Í júní 1994 ók ég ákafur heim úr vinnu, til að horfa á fótboltalandsliðið okkar í sjónvarpinu spila í heimsbikarkeppninni. Fljótlega eftir að ég hóf ferð mína sá ég í fjarlægð á gangstéttinni hreyfihamlaðan mann keyra hratt áfram í hjólastól, skreyttan brasilíska fánanum okkar. Mér var þá ljóst að hann var líka á ferð heim til að horfa á leikinn!
Þegar við mættumst og horfðumst andartak í augu, þá fann ég sterka tengingu við manninn! Við vorum á leið í sitthvora áttina, þekktum ekki hvor annan, líkamsástand okkar og félagsleg staða voru augljóslega ólík, en ástríða okkar fyrir fótbolta og föðurlandsást okkar, sameinaði okkur á þessu andartaki. Ég hef ekki séð manninn eftir þetta, en Í dag, tveimur áratugum síðar, sé ég enn fyrir mér augnaráð hans og finn fyrir sterkum tengslum við hann. Þar að auki, þá unnum við leikinn og heimsbikarinn það árið!
Drottinn væntir þess að við séum eitt í kirkjunni, þrátt fyrir það sem aðskilur okkur! Hann sagði í Kenningu og sáttmálum: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“
Þegar við komum öll saman í samkomuhúsi til tilbeiðslu, þá ættum við að leggja til hliðar allt sem er ólíkt með okkur, t.d. hvað varðar kynþætti, félagslega stöðu, stjórnmálaafstöðu, menntunar- eða atvinnuafrek og þess í stað einbeita okkar að sameiginlegu andlegu viðfangsefni. Saman syngjum við sálma, íhugum sömu sáttmálana meðan á sakramentinu stendur, segjum „amen“ upphátt og samtímis eftir ræður, lexíur og bænir – sem þýðir að saman samþykkjum við það sem miðlað var.
Það sem við gerum saman á þennan hátt stuðlar að miklum einhug meðal safnaðarins.
Það sem hins vegar ákvarðar, eflir eða eyðileggur einhug okkar, er hvernig við hegðum okkur þegar við erum aðskilin frá meðlimum kirkjunnar. Eins og við vitum, þá er óhjákvæmilegt og eðlilegt að við tölum einhvern tíma um hvert annað.
Hvað við veljum að segja um hvert annað, mun þó annaðhvort gera það að verkum að „hjörtu [okkar verða] tengd böndum einingar,“ eins og Alma kenndi við Mormónavötn, eða grafa undan kærleikanum, traustinu og velviljanum sem ætti að vera ríkjandi meðal okkar.
Sumar athugasemdir draga úr einingu á lúmskan hátt, svo sem: „Já, hann er ágætur biskup, en þið hefðuð átt að sjá hann á yngri árum!“
Það sem gæti verið jákvæðar að segja, væri: „Biskupinn er góður og hefur þroskast mikið og vaxið að visku yfir árin.“
Oft setjum við varanlegan merkimiða á fólk með því að segja eitthvað á þessa vegu: „Líknarfélagsforsetinn á sér ekki viðreisnar von; hún er svo þver!“ Við gætum þó sagt: „Líknarfélagsforsetinn er ekki mjög sveigjanleg þessa dagana; kannski á hún í einhverjum erfiðleikum. Við skulum aðstoða og styðja hana!“
Bræður og systur, við höfum engan rétt á því að draga upp mynd af einhverjum, þar með talið þeim í kirkjunni, sem gallaðri vonlausri mannveru! Það sem við segjum um samferðafólk okkar ætti fremur að endurspegla trú okkar á Jesú Krist og friðþægingu hans og að í honum og fyrir hann getum við ávallt breyst til hins betra!
Sumir verða gagnrýnir og aðskilja sig frá leiðtogum og meðlimum kirkjunnar vegna einhverra smámuna.
Það var tilfellið með mann að nafni Simonds Ryder, sem varð meðlimur kirkjunnar árið 1831. Eftir að hafa lesið opinberun sem varðaði hann, þá varð hann ráðvilltur yfir að sjá nafnið sitt misritað sem Rider, með bókstafnum i í stað bókstafsins y. Viðbrögð hans við þessu atviki leiddi til þess að hann tók að efast um spámanninn, loks tók hann að ofsækja Joseph og varð afhuga kirkjunni.
Það er einnig líklegt að við munum öll upplifa einhverja ofanígjöf frá kirkjuleiðtogum okkar, þar sem reynt verður á einhug okkar með þeim.
Ég minnist þess, þegar ég var aðeins 11 ára gamall, fyrir 44 árum, að gera átti miklar endurbætur á samkomuhúsinu sem fjölskylda mín fór í til kirkju. Áður en verkið hófst var haldinn fundur þar sem staðar- og svæðisleiðtogar ræddu hvernig meðlimirnir gætu komið að verkinu með vinnuframlagi. Faðir minn, sem hafði áður verið í forsæti þessarar einingar í mörg ár, lagði afar mikla áherslu á þá skoðun sína að verkið yrði unnið af verktökum, en ekki viðvaningum.
Ábendingu hans var ekki aðeins hafnað, heldur heyrðum við að hann hefði verið alvarlega og opinberlega ávítaður í þessu tilefni. Hann var afar dyggur kirkjunni og líka hermaður í Síðari heimstyrjöldinni í Evrópu og vanur baráttu og að standa fast á eigin sannfæringu! Menn veltu fyrir sér hver viðbrögð hans yrðu eftir þetta atvik. Myndi hann standa með þessari skoðun sinni og halda áfram að fara gegn þeirri ákvörðun sem tekin hafi verið?
Við höfðum þegar séð fjölskyldur í deildinni okkar, sem höfðu veikst í fagnaðarerindinu og hætt að koma á samkomur, því þær gátu ekki sýnt leiðtogunum einhug. Ég varð sjálfur vitni að því að margir vina okkar frá því í Barnafélaginu héldu ekki áfram að vera trúfastir á unglingsárum, því foreldrar þeirra fundu stöðugt að þeim sem voru í kirkjunni.
Faðir minn ákvað hins vegar að vera einhuga með hinum heilögu. Einhverjum dögum síðar, þegar meðlimir komu saman til að hjálpa við bygginguna, þá „bauð“ hann fjölskyldu sinni að fara með sér til samkomuhússins þar sem hann bauð fram krafta okkar eins og þörf var á.
Ég varð foxillur. Mig langaði að spyrja hann: „Pabbi, afhverju ætlum við að aðstoða við bygginguna, þar sem þú varst mótfallinn því að meðlimirnir gerðu það?“ Svipurinn á andliti hans latti mig frá því að gera það. Ég vildi verða í heilu lagi við endurvígsluna. Til allrar hamingju þá ákvað ég að segja ekkert og fara bara og aðstoða við bygginguna!
Faðir minn fékk ekki að sjá kapelluna fullbyggða, því hann lést áður en verkinu lauk. Við fjölskyldan, nú leidd af móður minni, héldum þó áfram að gera okkar hlut þar til hún var fullbyggð og með því vorum við einhuga föður mínum, kirkjumeðlimum, leiðtogum okkar og það sem mikilvægast var, Drottni!
Aðeins nokkrum andartökum áður en Jesús tókst á við óbærilega reynslu sína Getsemane, þá bað hann til föðurins fyrir postulum sínum og öllum hinum heilögu og sagði: „Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér.“
Bræður og systur, ég ber vitni um að þegar við ákveðum að vera einhuga með meðlimum og leiðtogum kirkjunnar – þegar við komum saman, en þó einkum þegar við erum aðskilin – þá munum við finna að við verðum meira einhuga með himneskum föður og frelsaranum. Í nafni Jesú Krists, amen