2010–2019
Að guðlegri skipan
Október 2017


Að guðlegri skipan

Hönd Drottins leiðir ykkur. Að „guðlegri skipan,“ er hann í hinu smæsta í lífi ykkar, sem og því sem veldur straumhvörfum.

Bræður og systur, er ég stend hér á þessari hvetjandi heimslægu aðalráðstefnu og finn styrk og anda ykkar, þá kemst ég ekki hjá því að hugsa um þessi orð Péturs postula: „[Drottinn], gott er, að vér erum hér.“

Það er nákvæmlega það sem Alma sagði eftir að hafa prédikað fyrir fólkinu í Ammóníaborg. Alma fór úr borginni sökum ranglætis fólksins. Nokkru síðar var Alma vitjað af engli, sem bauð honum að „snúa aftur til Ammóníaborgar og prédika á ný fyrir borgarbúum.“

Alma gerði það „í skyndi,“ og „hélt inn í borgina eftir annarri leið.“

„Þegar hann hélt inn í borgina, var hann hungraður og sagði við mann nokkurn: Vilt þú gefa auðmjúkum þjóni Guðs eitthvað að borða?

Og maðurinn svaraði honum: Ég er Nefíti, og ég veit, að þú ert heilagur spámaður Guðs, því að þú ert sá maður, sem engillinn sagði um í sýn: Honum skalt þú taka á móti.“

Maðurinn var Amúlek.

Var það bara tilviljun að Alma rambaði á Amúlek? Nei, það var engin tilviljun að hann hitti þennan trúfasta mann, sem varð trúboðsfélagi hans, eftir að hafa farið aðra leið inn í borgina.

Öldungur Neal A. Maxwell sagði nokkru sinni: „Ekkert okkar hagnýtir sér til fulls þau tækifæri sem veitast okkur með fólki innan vinahóps okkar. Við getum kallað það ,tilviljun,‘ að leiðir okkar skerist. Skiljanleg er að þetta orð sé tamt mönnum, en tilviljun er ekki hið rétta orð til að lýsa leiðum almáttugs Guðs. Hann lætur ekki ,tilviljun‘ ráð við verk sitt, heldur … er það að ,guðlegri skipan.‘“

Líf okkar er líkt og taflborð og Drottinn færir okkur af einum reit yfir á annan – ef við erum móttækileg fyrir andlegri leiðsögn. Við sjáum hönd hans í lífi okkar, ef við horfum yfir farinn veg.

Við sjáum slík afskipti himins þegar Nefí snýr aftur til að ná í töflurnar frá Laban. „Andinn leiddi [hann], og [hann] vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi.“ Laban stóð brátt frammi fyrir honum, ofurölvi og Nefí deyddi hann, náði í töflurnar og fór aftur til bræðra sinna. Var það bara heppni að hann rambaði á Laban? Var kannski um að ræða „guðlega skipan“?

Markverðir atburðir sem gerst hafa í tengslum við fagnaðarerindið og kirkjuna hafa eflt ríki Guðs á jörðu. Þeir gerast ekki fyrir af slysni, heldur samkvæmt áætlun Guðs. Sá sem að skapaði þessa jörðu megnar að lægja vinda með orði sínu og leiða Alma og Amúlek og Nefí og Laban að réttum stað á nákvæmlega réttum tíma.

Eins er um atburði og sambönd í okkar lífi sem efla verk Guðs á jörðu.

Hinn ástkæri öldungur Joseph B. Wirthlin minntist á tilvik þar sem Thomas S. Monson sagði við hann: „Það er handleiðsla yfir öllu. Oft þegar eitthvað gerist, þá ræður ekki tilviljun. Þegar við dag einn horfum um farinn veg, munum við sjá að það sem virtust vera tilviljanir í lífi okkar, hafi kannski ekki verið svo tilviljunarkennt þegar upp er staðið.“

Oftast þekkja aðeins fáeinir okkar góðu verk. Þau eru samt sem áður skráð á himnum. Dag einn munum við standa sem vitni um okkar óskiptu tryggð við verk réttlætis. Engin ógæfa eða hörmung fær sett hamingjuáætlun Guðs út af sporinu. Sannlega er það að „guðlegri skipan“ að „gleðisöngur [kemur] að morgni.“ „Ég kom í heiminn til að gjöra vilja [föðurins],“ kenndi Jesús. Bræður og systur, það á líka við um okkur.

Fyrir reynslu minnar eigin lífsferðar, þá veit ég að Drottinn mun færa okkur á hinu ímyndaða taflborði til að vinna sitt verk. Það sem kann að virðast tilviljunarkennt, er í raun undir handleiðslu kærleiksríks föður á hinum, sem hefur tölu á höfuðhárum allra manna. Einn spörvi fellur jafnvel ekki til jarðar án þess að faðir okkar viti af því. Drottinn er í hinu smæsta í lífi okkar og þau tilvik og tækifæri eru til að búa okkur undir að lyfta fjölskyldu okkar og öðrum, er við byggjum upp ríki Guðs á jörðu. Hafið í huga, líkt og Drottinn sagði við Abraham: „Ég þekki endalokin frá upphafinu. Fyrir því mun hönd mín vera yfir þér.“

Drottinn kom mér fyrir á heimili með kærleiksríkum foreldrum. Að hætti heimsins, þá voru þau venjulegt fólk; faðir minn, trúfastur maður, var vörubílstjóri; mín dásamlega móðir var heimavinnandi. Drottinn hjálpaði mér að finna mína ástkæru eiginkonu, Melanie; hann hafði áhrif á kaupsýslumann, sem varð góður vinur minn, til að veita mér atvinnutækifæri. Drottinn kallaði mig til að þjóna á trúboðsakrinum, bæði sem ungan mann og trúboðsforseta; hann kallaði mig í sveit hinna Sjötíu og nú hefur hann kallað mig sem postula. Er ég lít tilbaka, verður mér ljóst að það var ekki ég sem ráðgerði neitt af þessu; Drottinn gerði það, á sama hátt og hann ráðgerir margt mikilvægt fyrir ykkur og ástvini ykkar.

Að hverju ættuð þið að leita í ykkar lífi? Hvaða kraftaverk Guðs minna ykkur á að hann er nálægur og segir: „Ég er þér við hlið“? Hugsið um þær stundir, stundum daglega, þegar Drottinn hefur aðhafst í lífi ykkar – og síðan aðhafst aftur. Varðveitið þær sem stundir þar sem Drottinn hefur sýnt ykkur og vali ykkar, traust. Leyfið honum samt að gera meira úr ykkur en þið getið sjálf gert á eigin spýtur. Metið aðkomu hans mikils. Stundum teljum við breytingar á áætlunum okkar sem hrösun á ferð okkar. Lítið heldur á þær sem fyrstu skrefin til þess að ganga „erinda Drottins.“

Fyrir nokkrum mánuðum gekk eitt barnabarna okkar í æskulýðshóp, til að fara í skoðunarferð á nokkra sögustaði kirkjunnar. Í ferðalýsingunni kom fram að hún myndi fara fram hjá svæðinu þar sem bróðir hennar, afadrengurinn okkar, þjónaði í trúboði. Afastelpan okkar hafði alls ekki ætlað sér að vitja bróður síns í trúboðinu. Þegar rútan ók inn í bæinn þar sem bróðir hennar þjónaði, sá hún tvo trúboða á gangi eftir götunni. Annar trúboðanna var bróðir hennar.

Æskufólkinu í rútunni fannst þetta spennandi og bað bílstjórann að nema staðar, svo hún gæti heilsað bróður sínum. Á innan við mínútu, eftir tár og ljúf orð, var bróðir hennar aftur á leið til að framfylgja trúboðsskyldum sínum. Við komumst að því síðar að bróðir hennar hafði verið á gangi að bíl sínum við þessa götu í minna en fimm mínútur, eftir stefnumót.

Barnabörn öldungs Rasbands hittast

Himneskur faðir getur leitt okkur í aðstæður með ákveðinn tilgang í huga. Hann hefur gert það í mínu lífi og er að gera það líka í ykkar lífi, líkt og hann gerði í tilviki barnabarna okkar.

Sérhvert okkar er dýrmætt í augum Drottins og elskað af honum, sem innblæs og vakir yfir okkur á sinn sérstaka hátt. Hann er óendanlega vitrari og máttugri en jarðneskir karlar og konur. Hann þekkir áskoranir okkar, sigra og réttlátar þrár hjartans.

Fyrir rúmu ári, þegar ég var á gangi á Musteristorginu, kom trúboðssystir nokkur til mín og spurði: „Manstu eftir mér?“ Ég er frá Flórída.“ Hún sagðist heita, systir Aida Chilan. Jú, ég mundi eftir að hafa hitt hana og fjölskyldu hennar. Stikuforseti hennar hafði lagt til að við heimsæktum fjölskyldu hennar. Augljóst var að við vorum þar vegna dótturinnar, Aidu, sem ekki hafði látið skírast. Eftir heimsókn okkar og kennslu og ræktun vináttubanda í rúmt ár, skírðist Aida.

Öldungur Rasband með Aida Chilan og félaga hennar

Aida skrifaði mér bréf, eftir að við hittumst á Musteristorginu. Hún skrifaði: „Ég veit af öllu hjarta að himneskur faðir þekkir sérhvert okkar og hann heldur áfram að láta leiðir okkar skerast af ástæðu. Þakka þér fyrir að hafa verið einn af mínum trúboðum, að þú skulir hafa komið til mín og fundið mig fyrir fimm árum.“ Aida sendi mér líka trúarsögu sína og sagði frá hinum „guðlegu tilviljunum“ í lífi sínu, sem leitt höfðu til skírnar hennar og staðfestingar, trúboðsþjónustu á Musteristorginu og nýstofnaðs musterishjónabands.

Var það bara tilviljun að stikuforsetinn hafði leitt okkur að heimili Chilan-fjölskyldunnar eða að ég og hún skyldum hittast aftur á Musteristorginu? Vitnisburður Aidu staðfestir að allt þetta hafi verið hluti af „guðlegri skipan“ Guðs.

Drottinn ann því að vera með okkur. Það er engin tilviljun að þegar þið finnið anda hans og bregðist við fyrsta hugboði, að þið upplifið þetta loforð hans: „Ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.“

Við upplifum öll svipaða hluti í lífinu. Við gætum hitt einhvern sem virðist kunnuglegur, við endurnýjum kunningsskap eða finnum að við eigum eitthvað sameiginlegt með ókunnugum. Þegar það gerist, þá er Drottinn kannski að minna okkur á að við erum öll sannlega bræður og systur. Við erum í raun þátttakendur í sama málstaðnum – í því sem Joseph Smith sagði vera „málstaður Krists.“

Hvernig tengist svo sjálfræði okkar hinni „guðlegu skipan“? Við getum valið að fylgja frelsaranum og hans kjörnu leiðtogum eða ekki. Afleiðingarnar þess að snúa frá Drottni, eins og Nefítarnir gerðu, eru skýrar í Mormónsbók: Mormón harmaði:

„Og þeir sáu, …að andi Drottins varðveitti þá ekki lengur. Já, hann hafði dregið sig í hlé frá þeim, vegna þess að andi Drottins dvelur ekki í vanhelgum musterum–

Þess vegna hætti Drottinn að vernda þá með undursamlegum og óviðjafnanlegum krafti sínum, því að þeir voru orðnir trúlausir og hörmulega ranglátir.“

Það sem Drottinn býður okkur að gera, er ekki allt bundið því hve sterk við erum eða trúföst eða hversu mikið við vitum. Hugsið um Sál, sem Drottinn vitjaði á veginum til Damaskus. Hann var á rangri leið í lífi sínu og það hafði ekkert að gera með norður eða suður. Stefna Sáls var guðlega leiðrétt. Síðar varð hann kunnur sem Páll, og með postullegri þjónustu sinni sýndi hann það sem Drottinn vissi þegar að hann gæti gert og orðið, en ekki það sem hann hafði sjálfur einsett sér að gera sem Sál. Að sama skapi veit Drottinn hverju við getum áorkað og hvað við getum orðið. Hvað kenndi Páll postuli? „Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.“

Þegar við erum réttlát, fús og dugandi, og keppum að verðugleika og hæfni, þá verður framþróun okkar meiri en við fáum ímyndað okkur og við verðum hluti af hinni „guðlegu skipan“ himnesks föður. Guðleikinn býr hið innra með sérhverju okkar. Þegar við sjáum að Guð vinnur með okkur og í gegnum okkur, þá ættum við að láta hvetjast og jafnvel vera þakklát fyrir þá leiðsögn. Þegar himneskur faðir sagði: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ þá var hann að tala um öll sín börn – einkum þig.

Hönd Drottins leiðir ykkur. Að „guðlegri skipan,“ er hann í hinu smæsta í lífi ykkar, sem og því sem veldur straumhvörfum. Líkt og segir í Orðskviðunum: „ Treystu Drottni af öllu hjarta, … þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Ég ber vitni um að hann mun blessa og styðja okkur og veita okkur frið. Í nafni Jesú Krists, amen