Verið þér því fullkomnir - að lokum
Ef við höldum ótrauð áfram, þá mun fágun okkar fullkomnast og henni ljúka einhvern tíma í eilífðinni.
Ritningarnar voru skrifaðar til að blessa og hvetja okkur og svo sannarlega gera þær það. Við þökkum Guði fyrir hvern kapítula og vers sem okkur hefur verið gefið. Hafið þið samt tekið eftir að öðru hvoru þá kemur einhver hending sem minnir okkur á að okkur skortirenn eitthvað uppá? Til dæmis þá byrjar fjallræðan á ljúfum, róandi ráðum en í versunum sem fylgja á eftir er okkur sagt, meðal annars, að það sé ekki nóg að fremja ekki morð, heldur eigum við ekki heldur að verða reið. Okkur er sagt að drýgja ekki hór, en einnig að hafa ekki óhreinar hugsanir. Við eigum ekki einungis að gefa þeim þurfandi kyrtil okkar heldur ef þeir biðja þess, þá einnig yfirhöfn okkar. Við eigum að elska óvini okkar, blessa þá sem ofsækja okkur og gera þeim gott sem hata okkur.
Ef þetta væri ritninganám morgunsins og þið væruð komin svona langt í lestrinum, þá væruð þið nokkuð viss um að þið fengjuð ekki sérlega góðar einkunnir skráðar á einkunnaspjald fagnaðarerindisins og öruggt væri að síðasta boðorðið af þeim sem upp voru talin, ræki endahnútinn á það. „Verið því fullkomnir, eins og faðir ykkar á himnum er fullkominn.“ Eftir þessi lokaorð þá langar okkur bara að fara aftur upp í rúm og breiða yfir höfuðið. Slík himnesk markmið virðast utan getu okkar. Samt, ætli Drottinn myndi nokkuð gefa okkur slík boðorð ef hann héldi að við gætum engan vegin haldið þau. Sjáum hvert þetta vandamál tekur okkur.
Í kirkjunni heyri ég frá mörgum sem eiga í vandræðum með þetta: „Ég er bara ekki nægilega góður.“ „Ég næ ekki að sinna þessu öllu.“ „Ég mun aldrei ná að uppfylla þessar kröfur.“ Ég heyri þetta frá unglingum. Ég heyri þetta frá trúboðum. Ég heyr þetta frá nýjum trúsystkinum. Ég heyri þetta frá þeim sem hafa verið í kirkjunni allt sitt líf. Eins og mjög glögg Síðari daga heilagra systir, Darla Isackson, sagði við mig, þá hefur Satan einhvern vegin náð að láta boðorðin og sáttmálana hljóma eins og blótsyrði og bölvanir. Fyrir suma hefur honum tekist að snúa hugsjónum og innblæstri fagnaðarerindisins yfir í sjálfsfyrirlitningu og vanlíðan.
Það sem ég segi núna afneitar engan vegin, ógildir eða gerir lítið úr neinum þeim boðorðum sem Guð hefur gefið okkur. Ég trúi á fullkomnun hans og ég veit að við erum andasynir og dætur hans með guðlega möguleika á að verða eins og hann er. Ég veit hins vegar líka að, sem börn Guðs, þá ættum við ekki að gera lítið úr okkur sjálfum, eins og það muni á einhvern hátt gera okkur að þeirri manneskju sem Guð vill að við verðum. Nei! Ef við erum fús til að iðrast og þráum aukið réttlæti í hjörtum okkar, þá myndi ég vona að við gætum unnið að persónulegri betrun okkar á þann hátt að það feli ekki í sér magasár, átraskanir, þunglyndi eða að niðurbrot á sjálfsáliti okkar. Það er ekki það sem Drottinn vill fyrir Barnafélagsbörnin eða nokkurn annan sem syngur einlæglega „Mig langar að líkjast Jesú.“
Til að setja þetta í samhengi, má ég þá minna okkur öll á að við búum í föllnum heimi og eins og er, þá erum við fallið fólk. Við erum í jarðneska ríkinu; sem hefur upphafsstafinn j, en ekki h. Líkt og Russell M. Nelson forseti hefur kennt, þá er fullkomnun hér í jarðlífinu enn „í biðstöðu.“
Ég trúi því að Jesús hafi ekki ætlað prédikun sinni að vera munnlegur hamar til að berja okkur með, sökum ófullkomleika okkar. Nei, ég trúi því að hann hafi ætlað prédikun sinni að vera viðurkenning á því hver og hvað Guð, hinn eilífi faðir, er og hverju við gætum áorkað með honum í eilífðinni. Hvað sem öllu líður, þá er ég þakklátur að vita, að þrátt fyrir minn ófullkomleika, þá er Guð hið minnsta fullkominn – að hann er t.d. megnugur þess að elska óvini sína, því að of oft, vegna hins „náttúrlega manns,“ í okkur, þá erum við sjálf stundum sá óvinur. Hve þakklátur ég er að Guð getur að minnsta kosti blessað þá sem nota hann af vonsku því að þó að okkur langi ekki til þess né ætlum að gera það þá eigum við það öll til að nota hann af vonsku. Ég er þakklátur fyrir það að Guð er miskunnsamur og friðarstillir því að ég þarf á miskunn að halda og heimurinn þarfnast friðar. Að sjálfsögðu á allt sem við segjum um föðurinn einnig við um hans eingetna son, sem lifði og dó fyrir þessa sömu fullkomnun.
Ég vill samt ítreka að það að horfa á afrek föðurins og sonarins, frekar en mistök okkar, gefur okkur ekki minnsta leyfi til að réttlæta óagaðan lífsmáta eða að ofur-lækka staðla okkar. Nei, fagnaðarerindið hefur frá upphafi verið til þess „að fullkomna hina heilögu … þangað til [að við] … náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“ Ég er einfaldlega að leggja það til að stundum er aðal tilgangur ritningargreinar, dæmisögu eða boðorðs að minna okkur á hve dásamleg „vaxtartakmark Krists fyllingar“ í raun er, sem blæs okkur í brjóst meiri kærleika og aðdáun gagnvart honum og meiri þrá til að verða eins og hann.
„Já, komið til Krists, fullkomnist í honum …, “ býður Moróní „Elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá … fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“ Okkar eina von um raunverulega fullkomnun, er að taka á móti henni sem gjöf frá himni – við getum ekki „áunnið“ okkur hana. Þannig veitir náð Krists okkur ekki einungis sáluhjálp frá sorg, synd og dauða, heldur einnig sáluhjálp frá ítrekaðri sjálfsgagnrýni.
Mig langar að nota eina af dæmisögum frelsarans til að segja þetta á aðeins annan veg. Þjónn var í skuld við konung sinn upp á 10.000 talentur. Þegar hann heyrði bón þjónsins fyrir þolinmæði og miskunn „kenndi [herra þjónsins] í brjósti um hann, og … gaf … upp skuldina.“ Svo gat þessi sami þjónn ekki gefið samþjóni sínum upp skuld upp á 100 denara. Þegar konungurinn heyrði af þessu harmaði hann þetta og talaði við þann sem hann hafði fyrirgefið: „Bar þér ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?“
Það eru mismunandi skoðanir á meðal fræðimanna um hvert gildi þessara upphæða er – og afsakið tilvísunina í hinn bandaríska gjaldmiðil – en til að gera reikningsdæmið einfalt, þá skulum við segja að minni skuldin, 100 denara séu um 100 dollarar í nútímagjaldmiðli og að 10.000 talenta skuldin sem var veitt svo auðveldlega, hefði getað nálgast um það bil 1 milljarð dollara – eða meira!
Sem persónuleg skuld þá er það stjarnfræðileg upphæð – algerlega óskiljanleg okkur. (Enginn getur verslað fyrir svo háa upphæð!) Fyrir tilgang þessarar dæmisögu, þá á þetta að vera svona óskiljanlegt; það á að vera fyrir utan okkar getu að skilja, hvað þá að endurgreiða. Það er vegna þess að þetta er ekki saga um tvo þjóna að rífast í Nýja testamentinu. Þetta er saga um okkur, hið fallna mannkyn – dauðlega skuldara, syndara og fanga öll saman. Hvert og eitt okkar er skuldari og dómsúrskurður okkar allra var fangelsisvist. Þar hefðum við öll dúsað, ef ekki væri fyrir náð herra okkar, sem frelsaði okkar, einfaldlega af því að hann elskar okkur og „hrærist til meðaumkunar með oss.“
Jesús notar óskiljanlegar mælieiningar hér, því að friðþæging hans er ómetanleg gjöf, gefin með óskiljanlegum kostnaði. Mér virðist sem að það sé að minnsta kosti hluti merkingarinnar að baki kröfu Jesú að vera fullkominn. Við getum kannski ekki sýnt þá 10.000 denara fullkomnun sem faðirinn og sonurinn hafa náð, en það er ekki til of mikils mælst af þeim að biðja okkur um að sýna meiri guðleika í hinu smáa, að við tölum og breytum, elskum og fyrirgefum, iðrumst og bætum okkur, og náum allavega að halda okkur við 100 denara fullkomnun, sem er vel innan þeirra marka sem við ættum að geta gert.
Bræður og systur, að Jesú undanskildum, þá hefur frammistaðan í þessari jarðnesku ferð okkar hér ekki verið gallalaus, svo við skulum því sækjast eftir jöfnum og stöðugum framförum, án þess að vera heltekin af því sem atferlisfræðingar kalla „eitraða fullkomnunaráráttu.“ Við ættum að forðast að vænta þess síðastnefnda af okkur sjálfum, öðrum, og ég gæti bætt við, af þeim sem kallaðir eru til að þjóna í kirkjunni – sem, hvað Síðari daga heilaga varðar, eru allir, því við erum öll kölluð til að þjóna einhversstaðar.
Leo Tolstoy skrifaði sögu sem tengist þessu, um prest sem var gagnrýndur af einum safnaðarmeðlimi sínum fyrir að lifa ekki eins staðfastlega og hann ætti að gera. Sá sem gagnrýndi komst að þeirri niðurstöðu að þær reglur sem hinn syndugi prestur kenndi hlytu þar af leiðandi líka að vera rangar.
Sem svar við þessari gagnrýni þá svaraði presturinn: „Lítið á líf mitt núna og berðu það saman við líf mitt áður. Þú munt þá sjá að ég reyni að lifa eftir þeim sannleika sem ég boða.“ Þar sem prestinum hafði ekki tekist að lifa eftir þeim háa staðli sem hann kenndi, þá viðurkenndi hann eigin breyskleika. Hann grátbað:
„Beindu spjótum að mér, [ef þér býður svo], því það er ég sem geri þetta, en [ekki] rakka niður … veginn sem ég fylgi. … Ef ég rata veginn heim, [en] geng hann óstöðugur og skjögra til beggja hliða, er það þá vegurinn sem er ekki réttur?
… Hrópaðu ekki sigrihrósandi: ‚Sjáið hann! … Þarna skríður hann í forinni!‘ Nei, og aftur nei, ekki hlakka yfir því, en veitu mér heldur … aðstoð [við að ganga veginn aftur til Guðs.]“
Bræður og systur, sérhvert okkar vill lifa kristilegra lífi en okkur tekst vanalega að gera. Ef við viðurkennum það heiðarlega og reynum að bæta okkur, þá erum við ekki hræsnarar, heldur mannleg. Megum við neita að láta okkar mannlegu galla og óhjákvæmilegu takmarkanir, jafnvel hinna bestu karla og kvenna meðal okkar, gera okkur meinhæðin gagnvart sannleika fagnaðarerindisins, sannleika kirkjunnar eða von framtíðar eða mögulegum guðleika. Ef við höldum ótrauð áfram, þá mun fágun okkar fullkomnast og henni ljúka einhvern tíma í eilífðinni – sem er merking Nýja testamentisins á fullkomnun.
Ég ber vitni um hin guðlegu örlög, sem okkur voru gerð möguleg með friðþægingu Drottins Jesú Krists, sem sjálfur hélt áfram „frá náð til náðar,“ þar til hann í ódauðleika sínum öðlaðist mestu fyllingu himneskrar dýrðar. Ég ber vitni um að í þessu, og á öllum stundum, styður hann við okkur og býður þessa sömu náð, með naglaför á höndum, allt þar til við höfum náð örugg heim í eilífðarskaut himneskra foreldra. Að slíkri fullkominni stundu held ég áfram að keppa, þótt klaufalegur sé. Fyrir slíka fullkomna gjöf held ég áfram að þakka, þótt ófullnægjandi sé. Það geri ég í nafni sjálfrar fullkomnunar, þess sem aldrei var klaufalegur eða ófullnægjandi, en elskar okkur öll, sem er Drottinn Jesús Kristur, amen.