Hinn eilífi hversdagsleiki
Nauðsynlegt er að sýna auðmýkt gagnvart tilgangi Guðs fyrir okkur og því hver við erum.
Frá því að ég þjónaði í Bretlandi sem ungur maður, þá hef ég notið hins breska húmors. Hann einkennist stundum af sjálfsvanmati og hófsemi. Dæmi um það er hvernig grín er gert að sumrinu. Bresk sumur eru tiltölulega stutt og ófyrirsjáanleg. Líkt og einn höfundur sagði á hlédrægan hátt: „Ég elska breskt sumar. Það er minn eftirlætis dagur ársins.“ Ein mín eftirlætis teiknimyndafígúra í Bretlandi var sýnd nývöknuð í rúminu, síðla morguns, þar sem hún sagði við hundinn sinn: „Ó, hvílík ósköp! Ég held að við höfum sofið yfir okkur og misst af sumrinu.“
Finna má samsvörun í þessum húmor og lífinu á þessari fallegu plánetu. Ritningarnar segja greinilega að okkar jarðneski tími sé afar afar stuttur. Segja mætti að í eilífu samhengi, væri tími okkar á þessari jörðu eins og skammvinnt breskt sumar.
Stundum er tilgangi mannsins og tilverunnar líka lýst af slíkri hófsemi. Spámaðurinn Móse ólst upp við forréttindaaðstæður, líkt og sumir í dag kalla það. Líkt og skráð er í Hinni dýrmætu perlu, þá þegar Drottinn undirbjó Móse undir hans spámannlega verkefni, veitti hann honum yfirlitssýn um heiminn og öll mannanna börn, sem eru og voru sköpuð. Viðbrögð Móse voru nokkuð þjakandi: „Af þessu veit ég, að maðurinn er ekkert, en það hafði ég aldrei talið.
Guð lýsti þá yfir sönnum tilgangi sínum, til að draga úr þessari vanmáttartilfinningu Móse: Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín ‒ að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“
Við erum öll jöfn frammi fyrir Guði. Kenning hans er skýr. Í Mormónsbók er ritað: „Allir eru jafnir fyrir Guði,“ hvort heldur „[svartir eða hvítir, ánauðugir eða frjálsir eða karl eða kona]“ Samkvæmt þessu, þá er öllum boðið að koma til Drottins.
Sérhver sá sem telur sig æðri í áætlun föðurins, sökum eiginleika sem tengjast kynþætti, kyni, þjóðerni, tungumáli eða efnahagi, hefur siðferðislega rangt fyrir sér og fær ekki skilið hinn sanna tilgang fyrir öll börn föður okkar.
Því miður er það þó svo á okkar tíma að á næstum öllum sviðum samfélagsins, er hroka og stærilæti hampað, en rýrð varpað á auðmýkt og ábyrgð gagnvart Guði. Stór hluti samfélagsins hefur misst fótfestuna og fær ekki skilið ástæðu tilveru okkar á þessari jörðu. Sönn auðmýkt, sem er nauðsynleg til að framfylgja tilgangi Drottins, er yfirleitt ekki áberandi:
Mikilvægt er að skilja umfang auðmýktar Krists, réttlætis, persónugerðar og vitsmuna, eins og fram kemur í ritningunum. Heimskulegt er að vanmeta nauðsyn þess að temja sér stöðugt þessa kristilegu eiginleika og mannkosti, á daglegum grunni, einkum þó auðmýktina.
Ritningarnar undirstrika greinilega að þótt þetta líf sér tiltölulega stutt, þá er það afar mikilvægt. Amúlek, sem var trúboðsfélagi Alma, sagði: „Þetta líf er tími mannanna til að búa sig undir að mæta Guði. Já, sjá. Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi.“ Við viljum ekki, líkt og teiknimyndafígúran mín, fara sofandi í gegnum þetta líf.
Fordæmi frelsarans um auðmýkt og fórnfýsi í þágu alls mannkyns er djúpstæðasti atburður sögunnar. Frelsarinn, sem er einn af aðilum Guðdómsins, var fús til að koma til jarðar sem lítillátt barn og hefja tilveru þess að kenna og lækna bræður sína og systur og loks að þola ólýsanlegar þjáningar í Getsemane og á krossinum, til að fullkomna friðþægingu sína. Þetta verk auðmýktar og kærleika kallast lítillæti Krists. Hann gerði þetta fyrir sérhvern karl og konu sem Guð hefur eða mun skapa.
Himneskur faðir vill ekki að börn sín láti hugfallast eða gefist upp í þeirri viðleitni að öðlast himneska dýrð. Þegar við í raun hugsum um Guð föðurinn og son hans, Krist, hverjir þeir eru, fyllir það okkur lotningu, aðdáun, þakklæti og auðmýkt.
Auðmýkt er nauðsynleg til að hjálpa Drottni að koma á fót kirkju hans
Alma spurði spurningar á hans tíma sem á líka við í dag: „Hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“ Alma sagði líka: „Gætuð þér sagt, … ef dauðinn berði að dyrum á þessari stundu, að þér hafið verið nægilega auðmjúkir?“
Í hvert sinn sem ég les um að Alma yngri afsalaði sér stöðu sinni sem yfirstjórnandi landsins til að prédika orð Guðs, þá vekur það mér aðdáun. Alma átti augljóslega sterkan vitnisburð um Guð föðurinn og Jesú Krist og var algjörlega og skilyrðislaust skuldbundin þeim. Hann hafði réttar áherslur og bjó yfir nægri auðmýkt til að geta afsalað sér stöðum og embættum, því hann vissi að það var mikilvægara að þjóna Drottni.
Okkur er einkar mikilvægt að búa yfir auðmýkt til að geta hjálpað til við að byggja upp kirkjuna. Hér er lærdómsríkt dæmi úr sögu kirkjunnar. Í júní 1837 var hlaut spámaðurinn Joseph þann innblástur í Kirtland-musterinu að kalla Heber C. Kimball postula til að fara með fagnaðarerindi Jesú Krists til „Englands … og ljúka upp dyrum sáluhjálpar fyrir þá þjóð.“ Orson Hyde postula og nokkrum öðrum var falið að vera honum samferða. Viðbrögð öldungs Kimballs voru undraverð. „Hugsunin um að hann hefði verið tilnefndur til svo mikilvægs verkefnis var næstum of yfirþyrmandi fyrir hann. … [Ég] var næstum að því kominn að kikna undan byrðinni sem á mig var lögð.“ Engu að síður tók hann verkefnið að sér af afdráttarlausri trú, skuldbindingu og auðmýkt.
Stundum felst auðmýkt í því að taka á móti köllunum þegar við finnum til vanmáttar. Stundum felst auðmýkt í því að þjóna trúfastlega, þótt okkur finnst við hæfari til merkilegri verkefna. Auðmjúkir leiðtogar hafa staðfest bæði í orði og verki að málið snúist ekki um hvar við þjónum, heldur hvort við þjónum trúfastlega. Stundum felst auðmýkt í því að sigrast á særðum tilfinningum, þegar okkur finnst leiðtogar eða aðrir hafa komið illa fram við okkur.
Þann 23. júlí 1837 átti spámaðurinn Joseph fund með öldungi Thomas B. March, starfandi forseta Tólfpostulasveitarinnar. Öldungur Marsh var augljóslega vonsvikinn yfir því að spámaðurinn hafði kallað tvo meðlimi í sveitinni hans til að fara til Englands, án þess að ráðfæra sig við hann. Þegar Joseph átti samfund með öldungi March voru öll særindi sett til hliðar og spámaðurinn hlaut markverða opinberun. Hana má nú finna í 112. kafla Kenningar og sáttmála. Hún er undraverð leiðsögn frá himni um auðmýkt og trúboðsstarf. Í versi 10 er ritað: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum.“
Þessi opinberun veittist nákvæmlega á sama degi og öldungarnir Kimball, Hyde og John Goodson, voru fullir auðmýktar að boða hið endurreista fagnaðaerindi Jesú Krists í Vauxhall-kapellunni í Preston í Englandi. Það var hið fyrsta sinn á þessari ráðsályktun sem trúboðar boðuðu hið endurreista fagnaðarerindi utan Norður-Ameríku. Trúboðsstarf þeirra leiddi næstum samstundis af sér skírnir og fjölmarga trúfasta meðlima.
Síðari hluti opinberunarinnar er leiðandi fyrir trúboðsstarf okkar tíma. Hún segir að hluta: „Hver sá, sem þú sendir í mínu nafni, … skal hafa kraft til að opna dyr ríkis míns fyrir hverja þá þjóð, … svo sem þeir auðmýkja sig fyrir mér og fara eftir orðum mínum og hlýða á rödd anda míns.“
Sú auðmýkt sem sýnd var í þessu undursamlega trúboðsstarfi, gerði Drottni kleift að koma kirkju sinni á fót á dásamlegan hátt.
Til allrar hamingju þá sjáum við þetta líka gerast í kirkjunni í dag. Meðlimir, einnig hin upprísandi kynslóð, gefa tíma sinn og fresta menntun og atvinnu til að þjóna í trúboði. Margir eldri meðlimir hætta atvinnu og færa aðrar fórnir til þess að þjóna Guði hvar sem þau eru kölluð til að þjóna. Við leyfum ekki að persónuleg málefni trufli eða dragi okkur frá því að framfylgja tilgangi hans. Kirkjuleg þjónusta krefst auðmýktar. Við þjónum af auðmýkt þegar við erum kölluð, af öllum mætti, huga og styrk. Á öllum sviðum kirkjunnar er mikilvægt að skilja hinn kristilega eiginleika auðmýktar.
Nauðsynlegt er að sýna auðmýkt alla daga í því verki að búa aðra undir að mæta Guði.
Það markmið að heiðra Drottin og fara að vilja hans, er ekki metið eins mikils í dag og áður fyrr. Sumir leiðtogar kristinna í öðrum kirkjum, hafa þá skoðun að við lifum í fyrrverandi-kristnum heimi.
Um kynslóðir, hefur hin trúarlega dyggð auðmýktar og hin borgaralega dyggð hófsemi og varkárni verið ríkjandi staðall.
Í hinum nútíma heimi er drambsemi og sjálfsupphefð almennari og svokallaður „upprunaleiki,“ sem stundum dregur úr sannri auðmýkt. Sumir telja að siðferðisgildi hamingju okkar tíma, séu m.a. „að vera ekta, vera sterkur, vera afkastamikill – og það sem er mikilvægast, að reiða sig ekki á aðra … því örlög ykkar eru … í ykkar höndum.“
Ritningarnar hafa aðra nálgun á þessu. Þær segja að við þurfum að vera sannir lærisveinar Jesú Krists. Það felur í sér að þróa sterka ábyrgðarkennd frammi fyrir Guði og takast á við lífið af auðmýkt. Benjamín konungur kenndi að hinn náttúrlegi maður væri óvinur Guðs og sagði okkur þurfa að láta undan „umtölum hins heilaga anda.“ Hann útskýrði m.a. að það krefðist þess að maður væri „undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður [og] elskuríkur.“
Sumir misnota hið ósvikna og fagna yfir hinum náttúrlega manni og eiginleikum sem eru andstæðir auðmýkt, góðvild, miskunn, fyrirgefningu og háttvísi. Við getum fagnað sérstöðu okkar sem börn Guðs, án þess að nota upprunaleika sem réttlætingu fyrir ókristilegri hegðun.
Alnetið skapar áskoranir við að forðast dramb, í þeirri viðleitni að tileinka sér auðmýkt. Tvö dæmi um það eru hið sjálfmiðaða viðhorf „sjáðu mig“ eða að gera aðför að öðrum á samfélagsmiðlum með gífuryrðum. Enn eitt dæmi er „auðmýktargortið.“ Það er skilgreint sem „sýndarhæverska eða sjálfsvanmetandi fullyrðing [eða mynd], sem í raun er ætlað að draga athygli að því sem maður er stoltur af.“ Spámennirnir hafa ætíð varað við drambi og undirstrikað hégóma heimsins.
Hin almenna hnignun borgalegra umræðna er líka áhyggjuefni. Hin eilífa regla sjálfræðis krefst þess að við virðum ótal valkosti sem ekki falla að okkar skoðunum. Árekstar og erjur fara nú oft út fyrir „almenn velsæmismörk.“ Við þurfum meiri hófsemi og auðmýkt.
Alma varaði við því að „[fylla] hjörtu [okkar] hroka” og [telja] að einn [okkar] sé öðrum betri“ og ofsækja hina auðmjúku sem „fylgja hinni heilögu reglu Guðs.“
Ég hef fundið sanna gæsku meðal fólks af öllum trúarbrögðum, sem er auðmjúkt og ábyrgðarfullt frammi fyrir Guði. Margt af því aðhyllist það sem Míka, spámaður Gamla testamentisins, sagði: „Hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“
Þegar við erum sannlega auðmjúk, þá biðjum við um fyrirgefningu og fyrirgefum öðrum. Í Mósía kennir Alma að Drottinn mun fyrirgefa syndir okkar, jafnoft við iðrumst. Á hinn bóginn, eins og fram kemur í bæn Drottins, þá setjum við okkur undir fordæmingu, ef við fyrirgefum ekki öðrum. Sökum friðþægingar Jesú Krists, þá eru syndir okkar fyrirgefnar fyrir iðrun. Ef við fyrirgefum ekki þeim sem brjóta gegn okkur, þá erum við í raun að hafna friðþægingu frelsarans. Að ala á óvild og neita að fyrirgefa og sýna auðmýkt í samböndum okkar, á kristilegan hátt, setur okkur vissulega undir fordæmingu. Að ala á óvild, er sem eitur fyrir sál okkar.
Ég vara líka við hverskyns hroka. Fyrir tilstilli spámannsins Morónís, þá dregur Drottinn skýrar línur á milli þess að vera hrokafullur og auðmjúkur: „Heimskingjar draga dár að öðrum, en þeir munu sjá eftir því. Og náð mín nægir hinum bljúgu “ Drottinn sagði ennfremur: „Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra.“
Auðmýkt felur líka í sér að sýna þakklæti fyrir okkar ótal blessanir og guðlega liðsinni. Auðmýkt er ekki einhvað eitt merkjanlegt afrek eða jafnvel að sigrast á einhverri meiriháttar áskorun. Hún staðfestir andlegan styrk. Hún er að búa yfir þeirri öruggu fullvissu að hægt er að reiða sig á Drottin, dag eftir dag, klukkustund eftir klukkustund, og ná fram tilgangi hans. Bæn mín er sú, að við munum stöðugt á degi hverjum keppa að sannri auðmýkt í þessum þrætugjarna heimi. Kært ljóð orðar það svo:
Ég ber öruggt vitni um frelsarann og friðþægingu hans og hið gríðarlega mikilvægi þess að þjóna honum auðmjúklega sérhvern dag. Í nafni Jesú Krists, amen.