2022
Tileinka sér tilfinningalegt þolgæði
Janúar/Febrúar 2022


Ungt fullorðið fólk

Tileinka sér tilfinningalegt þolgæði

Höfundur býr í Sevilla, Spáni.

Ég hafði aldrei upplifað svona mikinn kvíða fyrr en ég sneri aftur heim eftir trúboð og vissi ekki fyrir víst hvernig takast ætti á við lífið.

Ljósmynd
smiling young woman

Ljósmyndin er uppstilling

Allt var á áætlun í lífinu.

Ég var alveg við það að ljúka trúboðinu mínu. Á síðastliðnum 18 mánuðum hafði vitnisburður minn eflst og skilningur minn á sáluhjálparáætluninni aukist. Ég hafði aldrei verið nálægari frelsara mínum og himneskum föður. Lífið var yndislegt.

Jú, fjölskylda mín og ég upplifðum okkar skammt af raunum, en í heild var ég spennt og hafði margar áætlanir um hvað skyldi gerast næst. Síðan kom ég heim. Viðbrigðin voru nokkuð harkaleg. Ég átti erfitt með að aðlaga mig hversdagslegu lífi á ný. Ég hafði stöðugar áhyggjur af því að taka góðar ákvarðanir og að sýna fullkomna hlýðni. Ég setti svo mikla pressu á sjálfa mig að viðhalda því háa andlega stigi sem ég hafði verið á í trúboðinu, því ég hélt að draga myndi úr andríki mínu ef ég gerði það ekki.

Þegar pressan sem ég setti á sjálfa mig jókst, byrjaði ég að upplifa kvíða og felmtursköst. Þau urðu æ tíðari og að lokum leið mér eins og ég væri að drukkna.

Því miður faldi ég tilfinningar mínar frá vinum og fjölskyldu. Ég vissi að kvíði og þunglyndi væru ekkert til að skammst sín fyrir, en mér fannst ég svo stjórnlaus og týnd að ég vissi ekki einu sinni hvernig ég ætti að tjá upplifun mína og leita hjálpar.

Til allrar hamingju er Drottinn ávallt reiðubúinn að leiða okkur þegar við snúum okkur til hans. Eftir íhugun og bæn fann ég hvatningu til að opna mig fyrir bróður mínum og konu hans. Þau hjálpuðu mér að skilja að ég væri ekki eins „sturluð“ og ég hélt og að tilfinningaátök geti gerst hjá hverjum sem er.

Systir Reyna I. Aburto, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, vitnaði um þennan sannleika: „Kæru vinir, þetta getur hent okkur öll – sérstaklega þegar við, sem trúum á hamingjuáætlunina, leggjum óþarfa byrðar á okkur sjálf með því að hugsa að við þurfum að vera fullkomin núna. Slíkar hugsanir geta verið yfirþyrmandi. Að ná fullkomnun, er ferli sem á sér stað allt jarðneskt líf okkar og lengur – og næst einungis með náð Jesú Krists.“1

Innblásið námskeið

Þegar ég baðst fyrir um leiðsögn himnesks föður, skildi ég að ég þurfti að gefa þeim úrræðum sem hann veitir okkur tækifæri og að ég þurfti að læra og breytast til hins betra. Þakksamlega hafði ég þá tækifæri til að mæta í námskeið kirkjunnar um tilfinningalegt þolgæði. Tækifærið virtist birtast einmitt á réttum tíma og ég held ekki að það hafi verið tilviljun.

Í handbók námskeiðsins er tilfinningalegt þolgæði skilgreint á þennan hátt:

  • „Eiginleiki til að geta brugðist við tilfinningalegum áskorunum af hugrekki og trú sem byggist á Jesú Kristi.

  • Að hjálpa ykkur sjálfum og öðrum eftir bestu getu.

  • Að leita sér frekari hjálpar þegar þess er þörf.“2

Með öðrum orðum, þá er tilfinningalegt þolgæði eitthvað sem við þurfum öll á að halda.

Sjálfri finnst mér þetta innblásna námskeið greinilegt merki um að himneskur faðir gerir sér grein fyrir þeim raunum sem við, meðlimir kirkju Jesú Krists, glímum við nú á tímum. Hann vill hjálpa okkur að sækja fram á veginum aftur til hans. Að sjá hina mörgu fallegu þætti þessa námskeiðs, hjálpaði mér að skilja hversu vel himneskur faðir þekkir hvert okkar og einstaklingsbundnar þarfir okkar og ég fann strax frið þegar ég sökkti mér í námið. Námskeiðið kennir skýran og kraftmikinn eilífan sannleika sem getur átt við líf okkar, er við glímum við geðræn vandamál, sama hvort það séum við sjálf eða einhver okkur nákominn.

Ein þeirra kenninga sem mér þóttu eftirtektarverðar, er að finna í kafla 9: „Veita öðrum styrk.“ Þessi kafli hjálpaði mér að leita mér loksins hjálpar. Hann kennir grunnatriði þess að þjóna hvert öðru. Ég lærði hversu mikilvægt það er að þjóna hvert öðru með því að virða tilfinningar þeirra, skynjun og skoðanir og ná til þeirra með samkennd og skilningi. Ég áttaði mig líka á því að ég þurfti að treysta öðrum til að hjálpa sjálfri mér í baráttu minni.

Þegar ég gat komið þessum hugmyndum í verk og opnað mig fyrir fjölskyldu minni og vinum varðandi geðræn vandamál mín, var ég hissa yfir því hversu samúðarfull og fordómalaus þau voru. Ég fékk svo mikinn stuðning frá þeim.

Mér finnst eins og að kvíðinn hefði orðið dýpri og myrkari ef ég hefði ekki sagt mínum nánustu frá áskorunum mínum. Þessi upplifun hjálpaði mér líka að liðsinna öðrum og sýna samúð varðandi áhyggjur og vandamál þeirra.

Við getum vongóð tekist á við framtíðina

Mér finnst það skondið að ég hafi verið svo áhyggjufull þegar ég sneri aftur eftir trúboðið mitt, yfir því að missa niður þann „andlega árangur“ sem ég hafði náð, því ég skil nú að heimkoman var bara upphaf nýs kafla, þar sem ég gæti fundið nýjar leiðir til að dýpka trú mína.

Persónuleg tengsl mín við himneskan föður og Jesú Krist hafa vaxið og dýpkað einkar mikið eftir heimkomuna, sérstaklega vegna þeirra reglna sem ég lærði á þessu námskeiði um tilfinningalegt þolgæði og með því að reiða mig á hjálp himnesks föður og frelsarans. Mér finnst þeir mun raunverulegri og meira til staðar í daglegu lífi.

Ég hef lært og sætt mig við að sem börn Guðs tökum við stöðugum breytingum, lærum og þróumst. Þrátt fyrir breytingar lífsins er himneskur faðir óumbreytanlegur. Hann bjóst ekki við því að ég yrði fullkomin í trúboðinu og hann býst ekki við því af mér núna. Hann einfaldlega elskar mig og vill að ég keppi áfram að því að nálgast hann og gera mitt besta á ferðalaginu aftur til hans.

Þótt ég hafi farið á þetta námskeið um tilfinningalegt þolgæði, þá þýðir það ekki að ég glími ekki lengur við kvíða, felmtursköst eða upplifi stundum yfirþyrmandi ótta varðandi framtíðina. Ég upplifi það ennþá endrum og eins. Mér hefur nú lærst að þekkja þessi einkenni og þau verkfæri sem bjóðast til að takast á við þau á heilbrigðari hátt, sem bætir lífsgæði mín í daglegu lífi.

Að lokum, þá hefur þetta námskeið kennt mér aðferðir til að takast á við þau tímabil þegar ég upplifi kvíða eða áskoranir. Það kenndi mér að sýna sjálfri mér og ófullkomleika mínum þolinmæði og miskunn. Ég tók að skilja hvernig Guð sér mig og að láta ekki ofsahræðslu ná tökum á mér yfir óþekktri framtíð.

Með hjálp bæði fagfólks og himins, hefur mér orðið ljóst að við höfum hin nauðsynlegu verkfæri til að vita hvernig á að „hafa … áhrif, en verða ekki aðeins fyrir áhrifum“ (2. Nefí 2:26) tilfinninga okkar og skynjana, er við sækjum fram til Krists. ■

Heimildir

  1. Reyna I. Aburto, „Og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér!“ aðalráðstefna, október 2019.

  2. Finding Strength in the Lord: Emotional Resilience [Finna styrk í Drottni: Tilfinningalegt þolgæði] (2021), 8, ChurchofJesusChrist.org.

Prenta