Helstu trúarreglur
Fallið var þáttur í áætlun Guðs
Fallsins vegna, getum við komið til jarðar og dag einn snúið aftur til dvalar hjá föður okkar á himnum.
Í aldingarðinum Eden bauð Guð Adam og Evu að neyta ekki af ávexti skilningstrés góðs og ills. Hann sagði þeim síðan: „Þó mátt þú sjálfur velja, … en haf hugfast, að ég fyrirbýð það“ (HDP Móse 3:17). Satan freistaði Evu að eta af ávexti trésins. Hann sagði við hana: „Þið verðið sem guðir, vitið skyn góðs og ills“ (HDP Móse 4:11). Hún át ávöxtinn og deildi honum því næst með Adam. Guð vísaði þeim út úr aldingarðinum Eden.
Fallið
Þegar Adam og Eva yfirgáfu aldingarðinn Eden, voru þau ekki lengur í návist Guðs. Þessi aðskilnaður frá Guði er kallaður andlegur dauði. Að yfirgefa garðinn, þýddi einnig að Adam og Eva urðu jarðnesk og gátu því dáið. Þótt Adam og Eva væru ekki lengur með Guði og væru dauðleg, voru þau glöð og vongóð þegar þau sáu að þau gátu aukið við sig (sjá HDP Móse 5:10–11). „Adam féll svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“ (2. Nefí 2:25).
Reynslutími
Þegar við fæðumst lifum við fjarri Guði, líkt og Adam og Eva gerðu í kjölfar fallsins. Satan freistar okkar að taka slæmar ákvarðanir. Þessar freistingar gera það mögulegt að við séum reynd og veljum milli rétts og rangs (sjá Alma 12:24). Í hvert sinn sem við syndgum og iðrumst ekki, fjarlægjumst við himneskan föður. Ef við iðrumst, þá nálgumst við föður okkar á himnum.
Líkamlegur dauði
Jörðin var sköpuð fyrir okkur (sjá 1. Nefí 17:36). Fallið gerði Adam og Evu kleift að fylgja boðorði Guðs um að eignast börn, að gera okkur mögulegt að koma til jarðar í efnislíkama. Líkami okkar mun dag einn deyja en andi okkar lifir áfram. Líkami okkar og andi munu sameinast þegar við rísum upp.
Frelsuð af Jesú Kristi
Við getum, með friðþægingarkrafti Jesú Krists, sigrast á líkamlegum og andlegum dauða. Vegna þess að Kristur var reistur upp, munu allir sem fæðast á þessari jörðu rísa upp og lifa að eilífu. Vegna þjáninga Krists fyrir okkar hönd, getum við iðrast og hlotið fyrirgefningu, svo við megum dvelja aftur hjá föður okkar á himnum.