Reglur hirðisþjónustu
Gera hirðisþjónustu innihaldsríka
Ef þið veltið fyrir ykkur hvort hirðisþjónusta ykkar sé innihaldsrík, hugleiðið þá þessar hugmyndir.
Það þarf lítið til að við spyrjum okkur hvort hirðisþjónusta okkar skipti máli, sérstaklega þegar við glímum við eigin raunir.
Áður en ég var bundin við hjólastól, var ég spennt að sjá skrifbretti ganga á milli í Líknarfélaginu. Ég skráði mig oft til að sinna þjónustuverkefnum. Þetta var leið fyrir mig til að sýna fúsleika minn til að „bera hver annars byrðar“ (Mósía 18:8).
Það var ekki skrifbrettinu að kenna að ég gat ekki skráð mig lengur. Ég gat í raun alls ekki skrifað nafnið mitt. Ég gat ekki einu sinni haldið á skrifbrettinu, vegna fötlunar minnar. Það bjóst enginn við því að ég skráði mig. En ó, hvað mig langaði til þess! Þjónusta umlykur okkur elsku Guðs og myndar tengsl við annað fólk. Ég þurfti nauðsynlega á þessum tilfinningatengslum að halda.
Þjónusta mín virtist ekki erfiðisins virði vegna þeirrar fyrirhafnar sem aðrir þurftu að leggja á sig til að aðstoða mig við hana. Skrifbrettið varð áminning um það sem ég gat ekki lengur gert – í það minnsta þar til þjónandi systir mín skynjaði löngun mína.
Hún spurði mig á hvaða hátt ég vildi þjóna, ekki bara hvers ég þarfnaðist að væri gert fyrir mig. Hún skráði nafn mitt síðan á skrifbrettið. Hún kom á heimili mitt og hjálpaði mér að útbúa máltíðir sem ég hafði boðist til að gera fyrir aðra. Hún sagði aldrei að ég þyrfti sjálf svo mikla hjálp að ég ætti ekki að reyna að liðsinna öðrum. Hún hafði ánægju af því að verja tíma með mér.
Ég áttaði mig að lokum á því að framtak mitt var þess virði. Með hjálp þjónandi systur minnar, gat ég komið nokkru til leiðar. Hvort sem það hafði merkingu fyrir aðra eða ekki, þá skipti það mig máli. Þótt það hafi ekki beinlínis verið fjölskyldu minni til gagns eða læknað líkama minn, þá hjálpaði það við að græða hjarta mitt.
EmRee Pugmire
Utah, Bandaríkjunum
Með hans hjálp eruð þið meira en nóg
Borg Síonar uppnumin, eftir Del Parson; Mynd af stækkunargleri frá Getty Images
Það er algengt að finna til vanmáttar við að vinna verk Drottins. Spámanninum Enoki leið líka þannig. Þegar Drottinn bauð honum að kalla fólkið til iðrunar, hafði hann áhyggjur vegna þess að „ég [er] þó aðeins drengur, og allir fyrirlíta mig, því að mér er tregt um mál“ (HDP Móse 6:31).
Drottinn lofaði að hann yrði með Enok og að andi hans yrði yfir honum og sagði: „Ég [mun] réttlæta öll þín orð.“ Hann bauð honum: „Gakk þess vegna með mér“ (HDP Móse 6:34).
Enok var hlýðinn boði Drottins og hafði mikil áhrif á fólkið, ekki fyrir eigin kraft heldur vegna þess að „svo mikill var kraftur þess máls, sem Guð hafði gefið honum“ (HDP Móse 7:13).
Reglur til að hafa í huga
Ef þið veltið fyrir ykkur hvort hirðisþjónusta ykkar sé innihaldsrík, hugleiðið þá þessar reglur:
-
Skilningur á hirðisþjónustu og tilgangi hennar hjálpar okkur að meta framlag okkar nákvæmar.
-
Hirðisþjónusta snýst um meira en að efla tengsl; hún snýst um að hjálpa öðrum að styrkja samband sitt við frelsarann.1
-
Hirðisþjónusta er ekki bara verkefni; hún er leið til að lifa sáttmála okkar, að þjóna honum með því að annast hvert annað.
-
Hirðisþjónusta fylgir ekki fyrirfram ákveðnu ferli. Hún eykur við okkur þegar við bregðumst við aðstæðum og leitum innblásturs til að þjóna eins og frelsarinn.
-
-
Að skilja hvernig Guð lítur á hirðisþjónustu okkar getur breytt sýn okkar.
-
Guð metur ekki hirðisþjónustu eftir stórbrotnum niðurstöðum eða hvort framlag okkar sé yfirhöfuð metið (sjá dæmi Olivers Granger í Kenningu og sáttmálum 117:12–13).2
-
Þegar þrá okkar er ósvikin og við leggjum okkur fram, þá er þjónusta okkar honum þýðingarmikil (sjá Kenning og sáttmálar 4:2, 5).
-
Guð er jafnvel tilbúinn að efla „smáa og óáberandi þjónustu“ okkar3 (sjá Kenning og sáttmálar 123:17).
-
Hvað getum við gert?
Í stað þess að hafa áhyggjur af því sem þið haldið að þið getið ekki gert, íhugið þá í bænarhug hvað þið getið gert. Bregðist síðan við því. Þegar þið vinnið í nafni Drottins, getur hann eflt framlag ykkar og nýtt það til að blessa ykkur og aðra (sjá 2. Nefí 32:9).