2022
Finna Jesú Krist í Gamla testamentinu
Janúar/Febrúar 2022


Finna Jesú Krist í Gamla testamentinu

Eftirfarandi fimm sannindi geta hjálpað okkur að kynnast frelsaranum í ritningarnámi okkar á árinu.

Ljósmynd
fine art painting of Jesus Christ

Ljós heimsins, eftir Walter Rane, fjölföldun óheimil

Dag nokkurn hitti Jesús Kristur tvo lærisveina sína á veginum á milli Jerúsalem og Emmaus. Á göngunni kenndi hann þeim um hlutverk sitt, eins og því var lýst í ritningunum sem við köllum nú Gamla testamentið.

„ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum“ (Lúkas 24:27). Að læra um frelsarann og þjónustu hans var einstaklega andleg upplifun fyrir lærisveinana og þeir sárbáðu hann um að staldra lengur við (sjá Lúkas 24:28–32).

Líkt og fylgjendur Krists á fyrri tímum höfum við tækifæri til að kynnast frelsaranum á þýðingarmeiri hátt, er við rannsökum Gamla testamentið á þessu ári. Þessi heimild, ásamt bókum Móse og Abrahams í Hinni dýrmætu perlu, veitir okkur heildstæðari skilning á því hver hann er – eðli hans, þjónustu hans og sambandi hans við föður sinn og okkur öll. Við þurfum á þessum skilningi að halda til að taka við gjöf eilífs lífs (sjá Jóhannes 17:3).

Eftirfarandi eru fimm sannindi sem geta hjálpað okkur að bera kennsl á og skilja betur Jesú Krist í þessari fornu, helgu bók.

Sannleikur 1: Jesús Kristur er Jehóva

Í Nýja testamentinu, lesum við um tíma þegar Jesús Kristur kynnti sig sem Jehóva (sjá Jóhannes 8:58). Fólkið hneykslaðist og reyndi að grýta hann fyrir guðlast (sjá Jóhannes 8:59). Það bar ekki kennsl á dýrmætan sannleika sem misskilst enn á okkar tíma: Jesús Kristur er Jehóva, Guð Gamla testamentisins.1

Ef til vill er einn þáttur í að auðkenni frelsarans í Gamla testamentinu er oft misskilið sá að nafnið „Jesús Kristur“ er ekki notað í bókinni. Þess í stað nota höfundarnir mörg heiti til að vísa til hans, svo sem: „Guð,“ „Ég Er“ eða „Drottinn.“2 Með þessa vitneskju í huga, sjáum við Jesú Krist skýrar um allar ritningarnar. Dæmi:

  • Þegar Móse talaði við „Guð“ í brennandi runnanum, talaði hann við Jesú Krist (sjá 2. Mósebók 3–6).3

  • Á sama hátt kynnti Jesús Kristur sig fyrir Joseph Smith sem „[hinn] mikla Ég Er“ (Kenning og sáttmálar 29:1).

  • Jóhannes skírari var kallaður til að greiða veg „Drottins“ (Matteus 3:3). Þetta er uppfylling Jesaja 40:3, sem spáði fyrir um Jesú Krist.

  • Skoðið töfluna á bls. 17 til að finna fleiri dæmi um Jehóva í ritningunum.

Sannleikur 2: Hlutir og atburðir geta kennt okkur um frelsara okkar

Ljósmynd
an angel appearing to Adam and Eve as they prepare a burnt offering

Adam og Evu var boðið að færa dýrafórnir sem hluta af tilbeiðslu þeirra. Slíkar fórnir minna okkur á að Jesús Kristur, Lamb Guðs, lét líf sitt vegna friðþægingar sinnar.

Adam og Eva færa fórnir, eftir Keith Larson

Gamla testamentið er fullt af táknum og frásögnum sem geta minnt okkur á þá hjálp sem frelsarinn veitir. Dæmi:

  • Mörg ritningarvers lýsa tímum þar sem trúföstu fólki var boðið að fórna dýrum sem hluta af tilbeiðslu þess. Ísraelslýð var t.d. sagt að fórna lambi og rjóða blóðinu á dyrastafina. Þeir sem fylgdu því voru verndaðir gegn banvænni plágu í Egyptalandi. Slíkar fórnir minna okkur á að Jesús Kristur, Lamb Guðs, lét líf sitt vegna friðþægingar sinnar. Fórn hans bjargar okkur frá líkamlegum og andlegum dauða. (Sjá 2. Mósebók 12:13.)

  • Þegar spámaðurinn Elía þurfti að flýja til að bjarga lífi sínu og fela sig í eyðimörkinni, var hann hryggur og óskaði þess eins að deyja. Þegar hann svaf, birtist brauð og vatn á undursamlegan hátt til að næra hann og hressa við og veitti honum styrk til að halda áfram. Þetta getur minnt okkur á að Jesús Kristur er hið lifandi vatn og brauð lífsins. Hann er æðsta uppspretta vonar okkar. (Sjá 1. Konungabók 19:1–8.)4

  • „Þitt orð er lampi fóta minna,“ ritaði eitt sálmaskáldanna (Sálmarnir 119:105; leturbreyting hér). Míka bar vitni: „Þótt ég sitji í myrkri er Drottinn ljós mitt“ (Míka 7:8; leturbreyting hér). Orð þeirra minna okkur á að Jesús Kristur er ljós heimsins, sem leiðir okkur til baka til himnesks bústaðar okkar.

Þegar þið lesið, gætuð þið uppgötvað fleira sem minnir ykkur á Jesú Krist og getu hans til að frelsa okkur – eins og þegar fjölskyldu Nóa var bjargað frá flóðinu í örkinni eða þegar Jónasi var gefinn tími til að iðrast þegar hann var í hvalnum. Þessir atburðir geta minnt okkur á að frelsarinn getur stutt okkur gegnum storma lífsins og að hann muni ávallt veita okkur tækifæri til að snúa aftur á réttan veg. (Sjá 1. Mósebók 7:1; Jónas 2:1.)

Sannleikur 3: Jehóva er persónulegur Guð

Stundum gæti svo virst sem Guð Gamla testamentisins sé reiður og hefnigjarn. Við ættum að hafa í huga að upphaflegu höfundar bókarinnar tilheyrðu fornum menningarheimi, en þeirra siðir og lýsingar gætu verið torskildar fyrir okkur nú á tímum. Kennslubókin Kom, fylg mér, hópumræður og innblástur heilags anda geta hjálpað okkur að samræma það sem við lesum í Gamla testamentinu og það sem við vitum um Jesú Krist úr öðrum ritum ritninganna.

Hér er eftirtektarvert einkenni Jehóva, sem er kunnulegt þeim sem lært hafa um frelsarann: Hann er persónulegur Guð. Inngrip hans, bæði mikilfengleg og minni, sýna að hann er ávallt fús til að frelsa þá sem setja traust sitt á hann. Hér eru nokkur dæmi um þjónustu hans í Gamla testamentinu:

  • Eftir að Adam og Eva syndguðu, íklæddi eða huldi Drottinn þau með skinnkyrtlum (sjá 1. Mósebók 3:21). Hebreska orðið fyrir friðþæginguna þýðir „að hylja“ eða „að fyrirgefa.“

  • Hann bauð Enoki að ganga með sér (sjá HDP Móse 6:34) og lyfti upp lýð Síonar (sjá HDP Móse 7:69).

  • Hann bjó Jósef undir að bjarga fjölskyldu sinni og fjölda annarra frá hungursneyð (sjá 1. Mósebók 37–46).

  • Hann vísaði Ísraelslýð veginn í gegnum eyðimörkina (sjá 2. Mósebók 13:21–22).

  • Hann vitjaði Arons og Mirjam til að styrkja trú þeirra á hinn lifandi spámann (sjá 4. Mósebók 12:5).

  • Hann leiðbeindi Rut og varðveitti ætterni sitt með afkomendum hennar (sjá Rutarbók 3:10–11; 4:14–17).

  • Hann kallaði til sveinsins Samúels með nafni (sjá 1. Samúelsbók 3:3–10).

  • Hann gerði Ester kleift að bjarga lýð hennar af hugrekki (sjá Esterarbók 2:17; 8:4–11).

Sannleikur 4: Jesús Kristur hjálpar okkur að há orrustur okkar

Stundum finnst okkur daglegt líf vera eins og orrusta. Við erum sannarlega í miðri andlegri orrustu milli góðs og ills, ekki ósvipað stríðum Gamla testamentisins. Við hrópum með hermönnunum til forna: „Leið oss, mikli himna Herra.“5 Í þessum ritningum heyrum við huggandi svar hans:

  • „Ég mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig“ (Jósúabók 1:5).

  • „Óttist ekki. Skelfist ekki þennan mikla her því að það er ekki ykkar að berjast heldur Guðs“ (2. Kroníkubók 20:15).

  • „Ég styrki þig, … ég styð þig“ (Jesaja 41:10).

  • „Ég er með þér til að bjarga þér“ (Jeremía 1:8).

Sannleikur 5: Fyrirheit Drottins eru áframhaldandi

Við erum tengdari trúfasta fólkinu í Gamla testamentinu en okkur grunar. Fornir sjáendur væntu og skrifuðu um hið jarðneska líf Jesú Krists. Jesaja lýsti t.d. Drottni með svo mögnuðum hætti að þau orð urðu hluti af tónlistinni sem við deilum oft á páskum og jólum (sjá Jesaja 7; 9; 40; og 53).6

Við, líkt og þessir spámenn, væntum komu Krists – í þetta sinn væntum við endurkomu hans til að ríkja persónulega á jörðu.7 Þegar við búum heiminn undir síðari komu hans, öðlumst við styrk frá þeim sannindum og fyrirheitum sem upphaflega voru rituð í Gamla testamentið, svo sem:

  • Patríarkablessunum, en þær greina okkur frá því hvaða ættkvísl Ísraels við tilheyrum. Sáttmálanum sem Drottinn gerði við Abraham fyrir þúsundum ára á við um okkur sem sáttmálsmeðlimir kirkjunnar nú á tímum, sama hvaða ættkvísl við tilheyrum. (Sjá 1. Mósebók 13:14–17; Abraham 2:9–11.)

  • Boðorðinu um að halda hvíldardaginn heilagan, sem Drottinn sagði að yrði „tákn milli mín og ykkar frá kyni til kyns svo að þið játið að ég er Drottinn sá sem helgar ykkur“ (2. Mósebók 31:13).

  • Helgri laugun, smurningu og íklæðnaði, sem eru þáttur í musteristilbeiðslu okkar tíma, sem voru fyrst veitt Aroni og niðjum hans (sjá 3. Mósebók 8).

Hugsið um fórnir hinna fjölmörgu réttlátu karla og kvenna til að komast á þennan stað í sögu mannkyns. Við byggjum á helgu framtaki þeirra og deilum sýn þeirra um heim sem frelsarinn leiðir. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Eftir um 4.000 ára bið og undirbúning, þá er þetta sá tilnefndi dagur þegar fagnaðarerindinu verður útbreitt meðal íbúa jarðar. Þetta er tími hinnar fyrirheitnu samansöfnunar Ísraels. Við fáum að taka þátt!“8

Stórbrotið ár náms

Ljósmynd
Christ in red robe

Kristur í rauðum kyrtli, eftir Minervu Teichert, með leyfi Church History Museum

Í höndum okkar höfum við söguna af upphafi mannkyns – sögu okkar sem kristins sáttmálslýðs. Vegna friðþægingar Jesú Krists, þá vitum við hvernig þessi stórbrotna ferð mun enda. Satan verður tortímt og hinir réttlátu munu sigra. En hvernig verður okkar persónulega saga?

Munum við velja að ganga með Jesú Kristi á þessu ári? Munum við biðja hann að vera með okkur og hlusta gaumgæfilega á kenningar hans?

Hann er ástríkur, persónulegur frelsari sem við heyrum mæla í Kenningu og sáttmálum, líf hans er skráð í Nýja testamentinu og kenningar hans eru kenndar á skýran hátt í Mormónsbók. Með örlítilli æfingu, getum við líka komist að því að síður Gamla testamentisins eru fylltar þjónustu hans. Hann er þungamiðja fortíðar, nútíðar og framtíðar mannkyns. Hann hefur verið – og mun ávallt vera – við hlið okkar hvert fótspor ferðarinnar.

Heimildir

  1. Sjá aðra málsgrein í: „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna,“ KirkjaJesuKrists.org.

  2. Í enskum þýðingum eru tilvísanir í Jesú Krist oft skrifaðar með hástöfum: LORD. 1. Samúelsbók 1:15 gefur okkur tvö dæmi um notkun orðsins: „lord [herra],“ vísar til einstaklings og „LORD [DROTTINN],“ vísar til Jesú Krists. Sjá einnig James E. Talmage, Jesus the Christ (1916), 36.

  3. Í þeim útgáfum Biblíunnar sem kirkjan hefur gefið út, geta neðanmálsgreinar greint frá því hvenær ritningarnar eiga við frelsarann.

  4. Til að lesa meira um táknmál þessarar sögu, sjá þá Marissa Widdison, „The Bread and Water of Hope,“ Ensign, september 2019, 56.

  5. „Leið oss, mikli himna Herra,“ Sálmar, nr. 28.

  6. Nokkur vers Jesaja voru notuð sem texti í óratoríunni Messías eftir Händel.

  7. Sjá Trúaratriðin 1:10.

  8. Russell M. Nelson, „Sáttmálar,“ aðalráðstefna, október 2011.

Prenta