37. Kapítuli
Látúnstöflurnar og aðrar ritningar eru varðveittar til að leiða sálir til hjálpræðis — Jaredítum var tortímt vegna ranglætis þeirra — Halda verður leynilegum eiðum þeirra og sáttmálum frá fólkinu — Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur — Á sama hátt og Líahóna leiðbeindi Nefítum, þannig leiðir orð Krists menn til eilífs lífs. Um 74 f.Kr.
1 Og nú, sonur minn Helaman, býð ég þér að taka við heimildaskránum, sem mér hefur verið trúað fyrir —
2 Og ég býð þér einnig að skrá heimildasögu þessarar þjóðar á sama hátt og ég hef gjört á töflur Nefís og varðveita alla þá helgu hluti, sem ég hef geymt, eins og ég hef gjört, því að þeim er haldið til haga í viturlegum tilgangi.
3 En þessar látúnstöflur, sem áletranir þessar hafa verið greyptar á, eru heimildir hinna heilögu ritninga og ættartala forfeðra okkar, allt frá upphafi —
4 Sjá, feður okkar hafa spáð því, að þær yrðu varðveittar og afhentar mann fram af manni og Drottinn mundi geyma þær og varðveita, þar til þær bærust til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða, svo að þeim yrði kunnugt um leyndardómana, sem á þær eru skráðir.
5 Og sjá nú. Ef þær eru varðveittar, verða þær að haldast skírar — já, og þær munu halda gljáa sínum. Og svo mun og verða um allar þær töflur, sem á er ritað það, sem heilagt er.
6 Nú kannt þú að álíta þetta fávisku mína, en sjá, ég segi þér, að fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika. Og oft gjörir hið smáa hina vitru ráðþrota.
7 Og Drottinn Guð hefur sínar aðferðir við að koma til leiðar sínum miklu og eilífu áformum. Með hinu örsmáa gjörir hann hina vitru ráðþrota og kemur til leiðar hjálpræði margra sálna.
8 Og fram að þessu hefur það verið viska Guðs, að þessir hlutir séu varðveittir. Því að sjá, þeir hafa skerpt vitund þessa fólks, já, sannfært marga um villu síns vegar og veitt þeim þekkingu á Guði sínum, þeim til sáluhjálpar.
9 Já, ég segi ykkur, að væri það ekki vegna þeirra hluta, sem heimildirnar geyma og sem á þessum töflum eru, hefðu Ammon og bræður hans ekki getað sannfært svo margar þúsundir Lamaníta, að arfsagnir feðra þeirra væru rangar. Já, þessar heimildir og orð þeirra leiddu þá til iðrunar, það er, leiddu þá til þekkingar á Drottni Guði sínum og til fagnaðar í Jesú Kristi, lausnara sínum.
10 Og hver veit nema þær verði til að leiða margar þúsundir þeirra, já einnig margar þúsundir okkar þrjóskufullu bræðra, Nefíta, sem nú herða hjörtu sín í synd og misgjörðum, til þekkingar á lausnara sínum?
11 En mér hafa ekki að fullu verið kunngjörðir þessir leyndardómar. Ég mun þess vegna sýna umburðarlyndi.
12 Það nægir, að ég segi einungis, að þær eru varðveittar í viturlegum tilgangi, en þann tilgang þekkir Guð, því að hann ræður í visku öllum verkum sínum, og vegir hans eru beinir og braut hans ein eilíf hringrás.
13 Ó, minnstu þess og haf það hugfast, sonur minn, Helaman, hve ströng boðorð Guðs eru. Og hann segir: Ef þú heldur boðorð mín, mun þér vegna vel í landinu — en ef þú heldur ekki boðorð hans, þá útilokast þú úr návist hans.
14 Og minnstu þess, sonur minn, að Guð hefur treyst þér fyrir þessum hlutum, sem eru heilagir, og sem hann hefur haldið heilögum og mun geyma og varðveita í viturlegum tilgangi sínum, til að geta sýnt komandi kynslóðum kraft sinn.
15 Og sjá nú. Með spádómsanda segi ég þér, að ef þú brýtur gegn boðorðum Guðs, sjá, þá verða þessir hlutir, sem heilagir eru, frá þér teknir með krafti Guðs, og þú munt ofurseldur Satan, svo að hann geti sáldað þig frá eins og hismið, sem vindurinn feykir burtu.
16 En ef þú heldur boðorð Guðs og meðhöndlar þessa heilögu hluti í samræmi við fyrirmæli Drottins (því að þú verður að leggja allt fyrir Drottin, sem þú gjörir við þá), sjá, þá getur ekkert vald hvorki á jörðu né í helju tekið þá frá þér, því að Guð hefur vald til að uppfylla öll sín orð.
17 Því að hann mun uppfylla öll þau heit sín, sem hann gefur þér, því að hann hefur uppfyllt heit sín, sem hann gaf feðrum okkar.
18 Því að hann hét þeim því, að varðveita þessa hluti í viturlegum tilgangi sínum, svo að hann gæti sýnt komandi kynslóðum kraft sinn.
19 Og sjá nú. Einu áformi hefur hann hrundið í framkvæmd, að leiða margar þúsundir Lamaníta aftur til þekkingar á sannleikanum. Og hann hefur sýnt kraft sinn í þeim, og hann mun einnig sýna komandi kynslóðum kraft sinn í þeim. Þess vegna munu þeir varðveitast.
20 Þess vegna býð ég þér, Helaman, sonur minn, að uppfylla öll orð mín af kostgæfni og kappkosta að halda boðorð Drottins eins og þau eru skráð.
21 En nú vil ég ræða við þig um þessar tuttugu og fjórar töflur, svo að þú geymir þær, til þess að leyndardómar, myrkraverk og laumuverk þeirra, eða laumuverk þessa fólks, sem tortímt hefur verið, verði augljós þessu fólki. Já, að öll morð þeirra og rán, rupl þeirra, ranglæti og viðurstyggð verði augljós þessu fólki. Já, og þú varðveitir þessa útleggjara.
22 Því að sjá. Drottinn sá, að fólk hans tók að starfa í myrkri, já, fremja launmorð og viðurstyggð. Þess vegna sagði Drottinn, að ef þeir iðruðust ekki, yrði þeim tortímt af yfirborði jarðar.
23 Og Drottinn sagði: Ég mun gjöra stein fyrir þjón minn, Gaselem, sem lýsa mun í myrkri eins og ljós, svo að ég megi sýna fólki mínu, sem mér þjónar, að ég megi sýna því verk bræðra þeirra, já, verkin, sem þeir vinna í leynum, myrkraverk þeirra, ranglæti og viðurstyggð.
24 Og nú, sonur minn, þessir útleggjarar voru gjörðir, til þess að orð Guðs mætti uppfyllast, þegar hann mælti og sagði:
25 Ég mun leiða öll laumuverk þeirra og alla viðurstyggð þeirra úr myrkrinu fram í ljósið, og iðrist þeir ekki, mun ég tortíma þeim af yfirborði jarðar. Ég mun leiða öll leyndarmál þeirra og viðurstyggð fram í ljósið, til sérhverrar þjóðar, sem hér eftir mun eignast þetta land.
26 Og við sjáum nú, sonur minn, að þeir iðruðust ekki. Þess vegna hefur þeim verið tortímt, og fram að þessu hefur orð Guðs uppfyllst. Já, hin leynda viðurstyggð þeirra hefur verið leidd úr myrkrinu og kunngjörð okkur.
27 Og nú, sonur minn, býð ég þér að halda leyndum öllum eiðum þeirra og sáttmálum og samráðum þeirra í viðbjóðslegu leynimakki sínu. Já, og öllum táknum þeirra og undrum skalt þú halda leyndum fyrir þessari þjóð, svo að hún viti ekki um þau og verði ekki á sama hátt myrkrinu að bráð og tortímist.
28 Því að sjá. Sú bölvun er yfir öllu þessu landi, að tortíming kemur yfir alla þessa þjóna myrkraverkanna, samkvæmt krafti Guðs, þegar mælir þeirra er fullur. Þess vegna óska ég, að þessari þjóð verði ekki tortímt.
29 Þess vegna skalt þú halda þessum leyniáformum, eiðum þeirra og sáttmálum frá þessari þjóð, en kunngjöra henni einungis ranglæti þeirra, morð og viðurstyggð. Og þú skalt innræta henni viðbjóð á slíku ranglæti, viðurstyggð og morðum, og þú skalt einnig kenna henni, að þessum mönnum var tortímt vegna ranglætis þeirra, viðurstyggðar og morða.
30 Því að sjá. Þeir myrtu alla spámenn Drottins, sem fram komu meðal þeirra til að segja þeim frá misgjörðum þeirra. Og blóð þeirra, sem þeir myrtu, hrópaði til Drottins Guðs þeirra um hefnd yfir morðingjum þeirra, og þannig féllu dómar Guðs yfir þessa þjóna myrkurs og leynisamtaka.
31 Já, og bölvað sé þetta land alltaf og að eilífu þessum þjónum myrkurs og leynisamtaka, já, þeim til tortímingar, ef þeir iðrast ekki, áður en mælir þeirra er fullur.
32 Og nú, sonur minn, hafðu það hugfast, sem ég hef sagt við þig. Trúðu þessari þjóð ekki fyrir þessum leyniáformum, heldur kenndu henni ævarandi hatur á synd og misgjörðum.
33 Boðaðu henni iðrun og trú á Drottin Jesú Krist. Kenndu henni að vera auðmjúk og hógvær og af hjarta lítillát. Kenndu henni að standast allar freistingar djöfulsins, með trú sinni á Drottin Jesú Krist.
34 Kenndu henni að þreytast aldrei á góðum verkum, heldur vera hógvær og af hjarta lítillát, því að slíkir finna sálu sinni hvíld.
35 Ó, haf þú þetta hugfast, sonur minn, og lærðu visku á unga aldri. Já, lærðu á unga aldri að halda boðorð Guðs.
36 Já, og ákallaðu Guð, þér til stuðnings í öllu. Já, helgaðu Drottni allar gjörðir þínar og lát Drottin stjórna ferðum þínum. Já, lát allar hugsanir þínar beinast til Drottins. Já, lát elsku hjarta þíns beinast til Drottins að eilífu.
37 Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs. Já, þegar þú leggst til hvílu að kvöldi, hvílstu þá í Drottni, svo að hann megi vaka yfir þér, meðan þú sefur. Og þegar þú ríst á fætur að morgni, lát þá hjarta þitt vera fullt af þakklæti til Guðs. Og ef þú gjörir svo, mun þér lyft upp á efsta degi.
38 Og sonur minn. Nú hef ég nokkuð að segja um það, sem feður okkar nefna kúluna, eða leiðarvísinn — eða feður okkar nefndu Líahóna, sem útleggst áttaviti, en hann var af Drottni gjörður.
39 Og sjá. Slík furðusmíð er ekki á færi nokkurs manns. Og sjá, hann var gjörður til að sýna feðrum okkar í hvaða átt þeir skyldu halda í óbyggðunum.
40 En hann starfaði samkvæmt trú þeirra á Guð. Ef trú þeirra nægði þess vegna til að trúa því, að Guð léti vísana sýna leiðina, sem þeir ættu að fylgja, sjá, þá varð svo. Þess vegna urðu þeir þessa kraftaverks aðnjótandi og einnig margra annarra kraftaverka, sem kraftur Guðs var valdur að, dag eftir dag.
41 Enda þótt þessi kraftaverk væru smá, sýndu þau þeim samt undur. Þeir voru hysknir og gleymdu að sýna trú sína og eljusemi og þá linnti þessum undrum, og þeim miðaði ekkert áfram á ferðum sínum —
42 Þess vegna töfðust þeir í óbyggðunum eða héldu ekki réttri stefnu og voru aðþrengdir af hungri og þorsta, vegna brota sinna.
43 Og nú, sonur minn, vil ég að þú skiljir, að þetta er ekki án líkingar, því að þegar feður okkar voru of hysknir til að gefa þessum áttavita gaum (þetta er veraldlegs eðlis), vegnaði þeim ekki vel. En það sama má segja um það, sem er andlegs eðlis.
44 Því að sjá. Jafnauðvelt er að gefa gaum að orði Krists, sem mun vísa þér beina braut til eilífrar alsælu, og það var fyrir feður okkar að gefa þessum áttavita gaum, sem vísaði þeim á beina leið til fyrirheitna landsins.
45 Og nú spyr ég, hvort þetta sé ekki táknrænt. Því að jafnörugglega og þessi leiðarvísir leiddi feður okkar til fyrirheitna landsins, þá er þeir fylgdu þeirri leið, sem hann vísaði, eins munu orð Krists, ef við fylgjum stefnu þeirra, leiða okkur úr þessum sorgardal inn í hið framúrskarandi land fyrirheitisins.
46 Ó, sonur minn. Verum ekki hysknir, vegna þess hve sá vegur er auðveldur, því að þannig var feðrum okkar farið. Því að þannig var því hagað fyrir þá, að ef þeir litu upp, þá héldu þeir lífi. Og þannig er okkur einnig farið. Vegurinn er ruddur, og ef við lítum upp, þá munum við lifa að eilífu.
47 Og nú, sonur minn, gættu þess að varðveita þessa heilögu hluti. Já, gættu þess að beina sjónum þínum til Guðs og lifa. Far þú til þessarar þjóðar og boðaðu orðið, og ver árvakur. Far heill sonur minn.