Ritningar
Alma 45


Frásögn um Nefíþjóðina, styrjaldir hennar og óeirðir á dögum Helamans samkvæmt heimildum hans sjálfs, sem hann færði á ævidögum sínum.

Nær yfir 45. til og með 62. kapítula.

45. Kapítuli

Helaman trúir orðum Alma — Alma spáir tortímingu Nefíta — Hann blessar og fordæmir landið — Alma kann að hafa verið hrifinn upp í andanum, rétt eins og Móse — Sundurþykkja vex innan kirkjunnar. Um 73 f.Kr.

1 Sjá, nú bar svo við, að Nefíþjóðin fagnaði ákaft, vegna þess að Drottinn hafði á ný bjargað henni úr höndum óvina þeirra. Þeir færðu þess vegna Drottni Guði sínum þakkir. Já, og þeir föstuðu mikið og báðust mikið fyrir, og þeir tilbáðu Guð í djúpri gleði.

2 Og svo bar við, að á nítjánda stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni fór Alma til Helamans, sonar síns, og sagði við hann: Trúir þú orðum mínum um heimildirnar, sem skráðar hafa verið?

3 Og Helaman sagði við hann: Já, ég trúi þeim.

4 Og Alma spurði enn: Trúir þú á Jesú Krist, sem koma mun?

5 Og hann svaraði: Já, ég trúi hverju orði, sem þú hefur sagt.

6 Og enn spurði Alma hann: Munt þú fara að boðum mínum?

7 Og hann svaraði: Já, ég mun halda boð þín af öllu hjarta.

8 Þá sagði Alma við hann: Blessaður ert þú. Drottinn mun veita þér gengi í landi þessu.

9 En sjá, spádóm nokkurn kynni ég þér, en það, sem ég spái fyrir þér, skalt þú ekki gjöra kunnugt. Já, það sem ég spái fyrir þér, skal ekki gjört kunnugt fyrr en spádómurinn rætist. Færðu því í letur þau orð, sem ég mæli.

10 En þetta eru orðin: Sjá, ég skynja með opinberunarandanum, sem í mér er, að þessari þjóð, sjálfri Nefíþjóðinni, mun hnigna í vantrú, fjögur hundruð árum eftir að Jesús Kristur opinberar sig þeim.

11 Já, og þá munu þeir sjá stríð og drepsóttir, já, hungursneyð og blóðsúthellingar, allt þar til Nefíþjóðinni er gjöreytt —

12 Já, og svo verður, vegna þess að þeim hnignar í vantrú og þeir falla í myrkraverk, saurlifnað og alls kyns misgjörðir. Já, ég segi þér, vegna þess að þeir syndga gegn svo skæru ljósi og svo mikilli þekkingu, já, ég segi þér, að frá þeim degi, mun jafnvel ekki öll fjórða kynslóðin líða undir lok, áður en þessar miklu misgjörðir verða.

13 Og sjá, þegar sá mikli dagur kemur — sjá, sá tími kemur mjög brátt, að þeir sem nú eru, eða niðjar þeirra, sem nú teljast til Nefíþjóðarinnar, munu ekki lengur teljast til Nefíþjóðarinnar.

14 En hver, sem eftir verður, og ekki er tortímt á þeim mikla og skelfilega degi, mun teljast til Lamaníta og mun verða eins og þeir, allir nema fáeinir, sem kallaðir verða lærisveinar Drottins. Og þá munu Lamanítar elta uppi, þar til þeim verður gjöreytt. Og vegna misgjörða mun þessi spádómur rætast.

15 Og nú bar svo við, að þegar Alma hafði sagt þetta við Helaman, veitti hann honum blessun og einnig öðrum sonum sínum. Og hann blessaði einnig jörðina, fyrir sakir hinna réttlátu.

16 Og hann sagði: Svo segir Drottinn Guð — Bölvun sé yfir landinu, já, þessu landi, til tortímingar hverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð, sem ranglátlega breytir, þegar mælir þeirra er fullur. Og það, sem ég hef sagt, mun og verða, því að þetta er bölvun og blessun Guðs yfir landinu, því að Drottinn getur ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi.

17 En þegar Alma hafði mælt þessi orð, blessaði hann kirkjuna, já, alla þá, sem staðfastir yrðu í trúnni þaðan í frá.

18 Og þegar Alma hafði lokið þessu, hvarf hann á brott frá Sarahemlalandi, eins og hann ætlaði að halda til Melekslands. Og svo bar við, að aldrei heyrðist neitt af honum meir. Um dauða hans og greftrun vitum við ekkert.

19 Sjá, við vitum, að hann var réttlátur maður. En sá orðrómur gekk innan kirkjunnar, að hann hefði orðið uppnuminn í andanum eða grafinn með höndum Drottins, eins og Móse. En sjá. Ritningarnar segja, að Drottinn hafi tekið Móse til sín, og við ætlum, að hann hafi einnig tekið Alma til sín í andanum. Sökum þessa og af þeirri ástæðu vitum við ekkert um dauða hans eða greftrun.

20 Og nú bar svo við, að í upphafi nítjánda stjórnarárs dómaranna yfir Nefíþjóðinni fór Helaman út á meðal fólksins til að boða því orðið.

21 Því að sjá. Vegna styrjaldanna við Lamaníta og margs konar smáágreinings og óróa, sem verið hafði með þjóðinni, var æskilegt, að orð Guðs væri boðað meðal þeirra, já, og að komið yrði föstu skipulagi á alla kirkjuna.

22 Þess vegna fóru Helaman og bræður hans til að skipuleggja söfnuðina á ný um allt landið, já, í hverri borg um gjörvallt landið, sem Nefíþjóðin átti. Og svo bar við, að þeir skipuðu presta og kennara um gjörvallt landið yfir alla söfnuðina.

23 Og nú bar svo við, að þegar Helaman og bræður hans höfðu skipað presta og kennara yfir söfnuðina, kom upp ágreiningur meðal þeirra, og þeir vildu ekki gefa gaum að orðum Helamans og bræðra hans —

24 Heldur gjörðust þeir drambsamir og hreyktu sér upp vegna mikilla auðæfa sinna. Þeir urðu því auðugir í eigin augum og vildu ekki gefa gaum að orðum þeirra að ganga grandvarir frammi fyrir Guði.