Til styrktar ungmennum
Þolið alla hluti
Júlí 2024


„Þolið alla hluti,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2024.

Þolið alla hluti

Mótlæti er hluti af áætlun himnesks föður. Hvað gerið þið þegar það ræðst á ykkur fyrirvaralaust?

Ljósmynd
maður hleypur í gegnum skóg

Myndskreyting: Paulina Wyrt

Oftar en einu sinni var ég viss um að ég myndi deyja þennan örlagaríka morgun. Sambland af því að sjá allt þetta blóð –blóðið úr sjálfum mér – vætla ofan í gönguslóðann og skynja grimmd grábjarnarins sem á mig réðst úr öllum áttum með tönnum og klóm, var yfirþyrmandi og örvæntingarfullt.

Fullkominn morgun

Þvílík andstæða við aðstæðurnar fyrir rétt um tveimur tímum síðan. Ég hafði lagt af stað glaður eftir afskekktum slóða á einum fallegasta degi sem ég hafði séð það sumar á hálendinu í vesturhluta Wyoming í Bandaríkjunum. Himininn var fagurblár, villiblóm þöktu hlíðarnar og morgunloftið var kalt og frískandi en þó notalegt. Þetta var fallegur dagur fyrir 24 kílómetra hlaup í fjöllunum.

Þetta var hefðbundin hlaupaæfing. Ég var að reyna að byggja upp styrk minn og úthald fyrir maraþonhlaup eftir aðeins tvo mánuði. Hlauparar auka styrk sinn með því að hlaupa endurtekið stuttar vegalengdir. Það byggir upp þol sem eykur þrautseigju.

Ég hafði ekki hugmynd um að ég myndi brátt þurfa á að halda hverjum einasta dropa af þrautseigju og krafti sem ég bjó yfir í kapphlaup lífs míns.

Skyndileg árás

Þegar ég lít til baka þá hefði ég átt að sjá merkin. Því Drottinn segir okkur að hann muni „kunngjöra [okkur] það sem koma á“ með krafti heilags anda (Jóhannes 16:13). Eins og Gary E. Stevenson í Tólfpostulasveitinni, hefur kennt: „Heilagur andi getur hjálpað ykkur með því að vara ykkur fyrirfram við líkamlegri og andlegri hættu.“ Og það gerði hann.

Eftir aðeins nokkra mínútna hlaup, leit ég niður fyrir mig og kom auga á nokkuð. Hjarta mitt tók kipp þegar ég sá ótvírætt útlínur bjarnarfótspors á moldinni fyrir framan mig. Þetta var skýr aðvörun. Af kjánaskap ályktaði ég að bjarndýr hefði vissulega farið þar um en núna yrði mér óhætt. Engin ástæða til að óttast, er það ekki? Ég hélt því áfram að hlaupa.

Innan klukkutíma fór ég yfir smá hæð og svo ofan í skógi vaxið rjóður. Þegar ég kom út úr beygju fyrir neðan hæðina heyrði ég hátt brothljóð sem var svo ákaft og alvöruþrungið að það fékk hárin aftan á hálsinum til að rísa. Ég stöðvaði skyndilega og leit til vinstri. Svo fraus ég skelfingu lostinn. Hljóðið, sem ég skildi þegar að væri frá brotnandi greinum, nálgaðist mig hratt. Svo sá ég sýn sem ég gleymi aldrei – fullvaxinn grábjörn sem réðst beint að mér!

Ljósmynd
bjarndýr gerir árás

Sú hræðilega árás sem á eftir fylgdi hefði átt að ganga endanlega frá mér. Þetta var augljóslega mjög æstur björn, sem ég hafði komið að óvörum þegar ég kom inn í rjóðrið á harðahlaupum. Samt á því augnabliki, þegar ég hélt að ég ætti dauðan vísan, fór ég með einlægustu bæn lífs míns. Miskunn af himnum ofan greip þá inn í atburðarrásina.

Á óútskýranlegan hátt hætti björninn árás sinni og hljóp inn í skóginn. Það voru góðar fréttir! Slæmu fréttirnar voru þær að ég var með 16 alvarleg sár eftir tennur og klær bjarnarins og var einn í skógi þakinn blóði og 18 km voru að næsta vegi og engin hjálp í augsýn.

Stund ákvörðunar

Skyndilega var ég staddur á þeim stað að ég þurfti að taka stóra ákvörðun í lífi mínu. Ef þið hafið ekki upplifað slík augnablik, þá getið þið verið örugg um að þið munuð upplifa það. Mótlæti er hluti af áætlun himnesks föður. Sem betur fer er bjarndýraárás ekki hluti af slíkri áætlun – allavega ekki fyrir flest okkar! Á einhverjum tímapunkti gæti það mótlæti sem þið verðið fyrir verið yfirþyrmandi. Það er vonleysistilfinning sem Drottinn lýsti sem „[skoltum heljar opna]” gin sitt upp á gátt fyrir [okkur]” (Kenning og sáttmálar 122:7).

Við þessar kreppur og krossgötur í lífi ykkar þurfið þið að taka ákvörðun. Þið getið gefist upp, lagst niður og dáið; eða þið getið einhvern veginn talið í ykkur allan ykkar kjark og styrk og barist af kappi og treyst því að ef þið gerið ykkar, þá muni Drottinn gera sitt. Drottinn útskýrði tilgang og erfiðleika lífsins fyrir Joseph Smith meðan hann var vistaður í Liberty fangelsinu: „Allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs“ (Kenning og sáttmálar 122:7).

Og þetta verður ykkur til góðs. Þetta skerpir og fágar ykkur eftir því sem þið eflist og byggið upp seiglu. Þess vegna sagði Drottinn Joseph – og segir við ykkur – „Hald þess vegna stefnu þinni” í raunum og mótlæti (Kenning og sáttmálar 122:9). Þegar þið haldið ykkur fast í lífinu – jafnvel með fingurgómunum einum – þá finnið þið að Drottinn magnar ykkar smæsta styrk, jafnvel umfram það sem þarf. Eins og lofað er: „[Treystið] í öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa“ (2. Nefí 31:19).

Gefist ekki upp

Það er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér. Í stað þess að gefast upp, ákvað ég að standa upp. Ég var staðráðin í að lifa, sem þýddi að ég þurfti að finna hjálp. Eftir að hafa fetað mig um einn og hálfan kílómetra niður eftir slóðinni lágu leiðir saman við eina fólkið sem var í skóginum þennan dag í margra kílómetra fjarlægð. Þessi kraftaverkafundur leiddi að lokum til björgunar á þyrlu úti á landi, þriggja lífsbjargandi aðgerða og skýrari skilnings á blessun þess að vera staðráðinn í að „[halda stefnu sinni].“

Ljósmynd
Michael A. Dunn á spítalanum

Öldungur Dunn fékk hjálp, var bjargað og fór í þrjár lífsbjargandi skurðaðgerðir.

Þessi reynsla hefur aukið kraft minn, staðfestu og trú. Hún hefur líka styrkt mig og búið mig undir að takast á við aðrar áskoranir í lífinu. Ég er viss um að þegar þið “[þolið] alla hluti, [trúið] öllum hlutum, [vonið] alla hluti, [umberið] alla hluti” (Fyrra Korintubréf 13:7), munið þið byggja upp seiglu og styrk sem þið þurfið til að takast á við áskoranir. Þið munuð sjá hönd Drottins gera ykkur jafnoka hvers þess sem kemur til ykkar – jafnvel þó það séu „opnir skoltar heljar.“

Prenta