„Elskið að læra, elskið að miðla,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2024.
Elskið að læra, elskið að miðla
Fyrir Liam N. Frá Danmörku er fagnaðarerindið hluti af skemmtilegu og innihaldsríku lífi.
Skóli eða áhugamál? Vinna eða skemmtun? Kannski er til betri spurning: Hvers vegna að velja bara annaðhvort? Liam N. 14 ára frá Danmörku reynir að finna jafnvægi þegar hann getur.
„Ég elska að spila tónlist,“ segir hann. Ég spila á gítar, trommur, bassa, píanó og úkúlele. Ég held að það að spila tónlist sé góð leið til þess að tjá tilfinningar mínar. Mér finnst líka gaman að spila fyrir aðra til að gleðja þau.“
Þegar hann er ekki að skemmta sér með tónlist þá gæti hann verið að spila fótbolta eða körfubolta eða tefla með vinum sínum. „Ég hef líka gaman af vísindum og stjörnufræði,“ segir hann. „Það er gaman að sjá hvernig allt tengist. Guð hefur skapað það allt og það er dásamlegt.“
Fyrir utan áhugamálin leggur Liam hart að sér, hvort sem það er að bera út blöð í hverfinu hans eða við lærdóminn.
Liam er að læra að finna jafnvægi milli þeirra hluta sem hann þarf að gera og þess sem hann vill gera. Hann er kannski upptekinn en það er eitt sem hann gefur sér alltaf tíma fyrir á hverjum degi – fagnaðarerindi Jesú Krists.
Fimm mínútna markmið
„Ég ákvað nýlega að ég skyldi lesa að minnsta kosti einn kafla í Mormónsbók – bara einn kafla – á hverjum degi,“ segir Liam. „Það tekur mig kannski 5 mínútur.“ En það gefur mér aukna uppörvun, svo ég er til í að taka áskoruninni.“
Að lesa ritningarnar á hverjum degi hefur hjálpað Liam meira en hann hélt að það myndi gera. „Stundum þegar ég á erfiðan dag getur það komið mér aftur á réttan kjöl að lesa eitthvað hughreystandi. En ef ég hef átt góðan dag, þá getur það minnt mig á að vera þakklátur fyrir að hlutirnir gangi vel. Ég er glaður að hafa haldið mig við markmið mitt.“
„Hver vill ekki gleði?“
Liam er þakklátur fyrir stuðning sem hann fær þegar hann reynir að gefa sér tíma fyrir fagnaðarerindið. „Við systkinin erum einu meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í skólanum okkar, svo margir minna bestu vina eru ekki meðlimir. En mér finnst samfélagið í kirkjunni vera virkilega gott í Danmörku. Allir þekkja hver annan, að minnsta kosti eitthvað, og það er gaman þegar við komum öll saman.“
Að eiga vini með öðruvísi staðla getur stundum verið erfitt. „Danmörk er land þar sem margt ungt fólk drekkur áfengi frá unga aldri,“ útskýrir Liam. „Það getur verið erfitt að vera unglingur og segja nei við slíkum hlutum.“ En Liam reynir að vera opinn gagnvart því sem hann trúir, svo aðrir geti betur skilið val hans.
„Stundum þegar við erum í kristnifræðitímum í skólanum spyrja kennararnir eða vinirnir mig um trú mína. Ég hef reynt að útskýra það eins vel og ég get,“ segir Liam. „Ég bauð líka besta vini mínum í skírnina mína. Ég gaf honum og mömmu hans Mormónsbók og talaði við þau um sumt af því sem ég trúi. Það er þeirra að ákveða hvað þau gera með það. Mér fannst það vera rétt af mér að bjóða öðrum að finna sömu gleði og ég geri, því hver vill ekki gleði?“
Byrjið með vinskap
Liam veit að það er ekki eina leiðin að deila því sem hann trúir eða gefa vini Mormónsbók til að vera lærisveinn Jesú Krists. Stundum er sönn vinátta og elska byrjunin á því að bjóða öðrum að upplifa gleði fagnaðarerindisins.
„Mér líkar sagan um Ammon í Mormónsbók,“ segir Liam. „Mér finnst það heillandi að hann fór ekki beint upp að Lamoní konungi til að segja: ,Þú átt að hlusta á það sem ég trúi,´ heldur gerðist vinur hans þar til konungur spurði hann í raun: ,Hvernig geturðu verið svona svalur?’”
„Við getum líka byggt upp sambönd við aðra,“ segir Liam. „Kannski koma þau til okkar og spyrja hvað það sé sem gefi okkur aukinn styrk.“
Blessun fyrir allt lífið
Liam finnst það virkilega gefa honum aukinn styrk að lifa eftir fagnaðarerindinu. Það hefur blessað líf hans jafnvel meira en tafl, tónlist, íþróttir eða hvað annað gott sem hann ver tíma sínum í.
„Ég er þakklátur fyrir að hafa fagnaðarerindið í mínu lífi, því ég held ég væri ekki sama manneskjan án þess,“ segir hann. „Ég finn að Drottinn þekkir mig betur en ég sjálfur. Ég veit að Guð og Kristur lifa. Þeir sýna okkur leiðina sem við ættum að fara og hvernig við eigum að verða betri.“