„Reynslan sem opnaði hjarta mitt,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2024.
Reynslan sem opnaði hjarta mitt
Ég er frekar harður af mér í íþróttum, sérstaklega í körfubolta. Mér finnst bara gaman að keppa. Að hluta er það ástæða þess að ég varð að fara í átta klukkustunda opna hjartaaðgerð þegar ég var 14 ára.
Ég fæddist með galla í einni hjartalokunni. Fyrst sögðu læknarnir að ég þyrfti að fara í aðgerð þegar ég yrði gamall – kannski á eftirlaunaaldri. En með tímanum varð vandamálið verra, að mestu vegna þess að ég stundaði íþróttir af miklum ákafa.
Í einni heimsókn til læknisins sagði hann mig þurfa aðgerð innan eins eða tveggja ára. Í millitíðinni hljóp ég víðavangshlaup í skólanum. Í stað þess að bæta hlaupatímann minn varð hann verri. Þá vissi ég að það væri eitthvað virkilega mikið að.
Við heimsóttum lækninn aftur í mars. Í heimsókninni fannst mér að ég ætti að fá að fara í skurðaðgerðina fyrr en við höfðum áætlað. Ég fann hlýja tilfinningu andans innra með mér. Þessi persónulega opinberun veitti mér huggun. Skyndilega heyrði ég sjálfan mig segja að ég vildi fara í skurðaðgerðina eins fljótt og hægt væri. Foreldrar mínir voru í fyrstu dálítið hræddir en ég sagði þeim: „Ég er fullur friðsældar. Hversu fljótlega getum við gert þetta?“ Við skipulögðum aðgerðina í apríl.
Á erfiðum tímum veit ég að Jesús Kristur er alltaf til staðar fyrir mig. Ég get alltaf beðið til himnesks föður og það hjálpar.
Ég hafði þá trú að allt myndi fara vel en aðgerðardagurinn sjálfur vakti hjá mér ótta. Það þyrmdi yfir mig þegar ég gekk inn á skurðstofuna. Ég man að ég skalf. Svæfingalæknirinn hjálpaði mér virkilega á þeirri stundu. Ég er þakklátur fyrir allt fólkið sem hjálpaði mér í gegnum þá reynslu. Ég fékk einnig himneska hjálp. Öll deildin mín fastaði til að mynda fyrir mér og ég fann virkilega fyrir krafti föstu og bænar.
Þessa dagana stendur hjartað sig vel. Ef ég hefði ekki farið í skurðaðgerðina, hefði ég getað dáið innan tveggja ára. Nú eru lífslíkur mínar eðlilegar.
Þessi reynsla hefur breytt minni lífssýn. Ég sé alla sem fara í gegnum raunir öðruvísi. Ég finn til meiri samkenndar með þeim. Stundum sé ég einhvern og skynja að viðkomandi er að takast á við eitthvað erfitt og þá fer ég til hans eða hennar til að hjálpa.
Fyrir mér merkir það að vera lærisveinn Jesú Krists að vera öðrum gott fordæmi og koma fram við aðra eins og hann myndi gera. Við erum öll saman í þessu. Guð er faðir okkar á himnum og við erum synir hans og dætur. Allir hafa tilgang og lífsgildi. Það er nóg til af neikvæðni, svo ég reyni að hjálpa fólki að brosa og vera jákvætt.
Ég gef minn vitnisburð að ég get fengið persónulega leiðsögn frá Drottni á hverjum degi. Hann getur gert mig að sterkari manneskju og gefið mér þrautseigju. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir (sjá Filippíbréfið 4:13).