Til styrktar ungmennum
Frá hrösun til sigurs
Júlí 2024


„Frá hrösun til sigurs,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2024.

Frá hrösun til sigurs

Við ættum aldrei að gefast upp, þrátt fyrir hrösun. Trúið mér.

hlaupari fer yfir marklínu

Mynd frá 2023 úr Toyota USATF Outdoor Championship keppninni, þann 8.júlí 2023, frá USATF

Árið 2022 hljóp ég 3.000 metra hindrunarhlaup á landsmóti Bandaríkjanna. Hlaupið er um sjö og hálfur hringur umhverfis brautina og fimm viðarhindranir eru í hverjum hring sem þú þarft að hoppa yfir, þar af ein rétt áður en komið er að vatnsgryfju.

Ég var búinn að hlaupa tvo hringi þegar maðurinn fyrir framan mig hrasaði og ég lenti næstum á honum. Hann komst yfir hindrunina en ekki ég – ég féll.

Ég stóð rólega upp, því mér fannst allur vindur úr mér. Ég hugsaði með mér: „Á ég að hætta og stíga út úr brautinni?“ En ég var undirbúinn. Ég hafði ákveðið fyrirfram að ég myndi halda áfram ef ég myndi hrasa svo ég byrjaði aftur að hlaupa. Mig langaði til að gefa allt mitt í keppnina, jafnvel þó ég myndi ekki vinna hana.

Það tók mig tvo hringi áður en ég náði aftasta manninum í fremsta hópnum. Brátt voru bara þrír hringir eftir og svo tveir hringir eftir. Ég fór að hugsa að ég gæti náð efstu þremur sætunum. En ég var afar þreyttur og framhjá mér fóru nokkrir sem áttu bara hálfan hring eftir. Ég var í fjórða sæti en svo átti ég mjög gott síðasta stökk yfir vatnsgryfjuna. Og ég hugsaði: „Ó maður, ég gæti kannski sigrað þetta.“

Þegar ég var að klára síðustu 50 metrana áttaði ég mig á því að ég var að fara að sigra. Það var mjög óraunverulegt. Ég hugsaði: „Vá, er ég virkilega að sigra þetta einmitt núna?“ Og það gerði ég. Ég sigraði keppnina eftir að hafa hrasað.

Síðar áttaði ég mig á því að það eru nokkrar lexíur sem við getum lært af því sem gerðist.

1. Verið þolinmóð við ykkur sjálf

Þegar ég hrasaði langaði mig til þess að ná hinum eins fljótt og mögulegt var. En ég varð að hafa stjórn á mér svo ég myndi ekki springa á hlaupunum. Það er til ritningavers þar sem segir: „Þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan“ (Hebreabréfið 12:1). Stundum í lífinu þarf ekki að ná árangri strax. Stundum tekur það nokkurn tíma.

2. Haldið áfram

Það er eðlilegt að ykkur líði eins og þið viljið stundum gefast upp. Þegar ég hrasaði datt mér ekki í hug að ég gæti sigrað, en ég ákvað að halda áfram. Það er alltaf von þegar þið hrasið – þið þurfið bara að standa upp og reyna aftur. Frelsarinn mun hjálpa ykkur með áskoranirnar sem þið gangið í gegnum. Haldið fast í það sem þið vitið að er satt, leitið til annarra og biðjið um hjálp. Hlutirnir verða á endanum betri.

3. Setjið traust ykkar á Jesú Krist

Ég hafði enga vissu um að sigra keppnina eftir að ég hrasaði. En þegar okkur verður á í fagnaðarerindinu, þegar við gerum mistök eða syndgum, getum við alltaf komið til Krists, iðrast í einlægni og fengið fyrirgefningu. Hann mun hjálpa ykkur að rísa upp aftur. Við höfum gríðarlega möguleika – möguleika á að vera betri og gera betur. Jafnvel þó við séum að hrasa aftur og aftur, en höldum áfram að iðrast og reynum að fylgja frelsaranum, þá lofar hann okkur að við getum sigrað í keppni lífsins.