2010–2019
Njóta viðurkenningar Drottins
Apríl 2013


Njóta viðurkenningar Drottins

Að leita viðurkenningar Drottins og hljóta hana mun veita okkur þá vitneskju, að við séum valin og blessuð af honum.

Ég man eftir því að faðir minn tók mig stundum með sér þegar ég var drengur til að vinna ýmis verkefni. Við áttum lítinn garð í nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimili okkar og hann krafðist ætíð mikillar undirbúningsvinnu á hverju vori. Við lagfærðum garðskálann, settum upp girðingar eða lagfærðum þær. Í minningunni átti þessi vinna sér alltaf stað í köldu veðri, miklum snjó eða úrhellis rigningu. Mér fannst það frábært. Faðir minn kenndi mér ýmis handtök með þolinmæði og viðurkenningu.

Dag einn bað hann mig að herða skrúfu og sagði aðvarandi: „Mundu að ef þú herðir skrúfuna of mikið, þá brotnar hún.“ Ég vildi stoltur sýna honum hvað ég gæti. Ég notaði alla mína krafta og auðvitað braut ég skrúfuna. Hann sagði eitthvað fyndið og við byrjuðum upp á nýtt. Jafnvel þegar ég „klúðraði“ einhverju, fann ég alltaf kærleika hans og tiltrú, . Hann lést fyrir rúmum 10 árum, en ég get enn heyrt rödd hans, fundið kærleik hans, notið hvatningar hans og fundið viðurkenningu hans.

Þörfin fyrir viðurkenningu þeirra sem okkur þykir vænt um er ein af grunnþörfum mannsins. Það er hvetjandi fyrir okkur að fá viðurkenningu frá góðu fólki. Það eykur sjálfsvirðingu okkar og sjálfsöryggi. Þeir sem njóta ekki viðurkenningar frá æskilegum aðilum leita hennar oft annars staðar. Vera má að þeir leiti til fólks sem ekki hefur áhuga á velferð þeirra. Þeir tengjast ef til vill fölskum vinum og gera vafasama hluti til að reyna að hljóta þá viðurkenningu sem þeir leita eftir. Þeir leita kannski viðurkenningar með því að klæðast ákveðnu vörumerki til að fá þá tilfinningu að tilheyra eða fá ákveðna stöðu. Fyrir suma getur sóknin eftir ákveðnu hlutverki eða hárri stöðu einnig verið leið til að öðlast viðurkenningu. Vera má að þeir skilgreini sjálfsvirðingu sína eftir stöðunni sem þeir hafa eða því hlutverki sem þeir gegna.

Við í kirkjunni erum jafnvel að nokkru föst í slíkum þankagangi. Að leita viðurkenningar á röngum stað eða af röngum forsendum getur leitt okkur á hættulega braut ‒ braut sem líklega mun afvegaleiða okkur og jafnvel tortíma okkur. Okkur mun að lokum finnast við yfirgefin og lítils virði, í stað þess að finna kærleik og sjálfsöryggi.

Alma ráðlagði syni sínum Helaman: „Gættu þess að beina sjónum til Guðs og lifa.“1 Hin endanlega uppspretta eflingar og varanlegrar viðurkenningar er himneskur faðir okkar og sonur hans, Jesús Kristur. Þeir þekkja okkur. Þeir elska okkur. Þeir viðurkenna okkur ekki vegna titils eða mannvirðingar. Þeir líta ekki á stöðu okkar. Þeir horfa inn í hjörtu okkar. Þeir meðtaka okkur fyrir það sem við erum og það sem við vinnum í að verða. Að leita viðurkenningar þeirra og hljóta hana mun ætíð upplyfta okkur og hvetja.

Ég ætla að segja frá einfaldri uppskrift sem getur, sé henni fylgt, hjálpað sérhverju okkar að finna endanlega viðurkenningu. Þá uppskrift gaf Drottinn með spámanninum Joseph Smith: „Sannlega segi ég yður, að öllum þeim, sem vita hjörtu sín einlæg og sundurkramin og anda sinn sáriðrandi og virða fúslega sáttmála sína með fórn ‒ já, sérhverri fórn, sem ég, Drottinn, gef boð um ‒ þeim veiti ég viðtöku“2

Þessi uppskrift samanstendur af þremur einföldum skrefum:

  1. Vita að hjörtu okkar eru einlæg og sundurkramin.

  2. Vita að andi okkar er sáriðrandi.

  3. Vera fús til að virða sáttmála okkar með fórn, eins og Drottinn segir til um.

Í fyrsta lagi verðum við að vita að hjörtu okkar eru einlæg og sundurkramin. Hvernig vitum við það? Við hefjumst handa með því að taka þátt í einlægri sjálfskoðun. Hjartað er miðpunktur tilfinninga okkar. Við metum okkur sjálf er við rannsökum hjarta okkur. Við vitum vissulega það sem enginn annar í kringum okkur veit. Við þekkjum ásetning okkar og þrá. Við réttlætum hvorki né blekkjum þegar við framkvæmum einlæga, heiðarlega sjálfskoðun.

Það er einnig hægt að skera úr um það hvort hjörtu okkar séu sundurkramin. Sundurkramið hjarta er mjúkt, opið og móttækilegt hjarta. Þegar ég heyri frelsarann segja: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á,“3 þá heyri ég hann knýja dyra í hjarta mínu. Ég er móttækilegri fyrir boði andans ef ég opna þessar dyr fyrir honum og þar með verð ég opnari fyrir vilja Guðs.

Er við íhugum einlæglega og í bænarhug hversu heiðarleg og sundurkramin hjörtu okkar eru, þá munum við hljóta kennslu heilags anda . Við munum hljóta ljúfa staðfestingu eða blíða leiðréttingu, sem býður okkur að framkvæma.

Í öðru lagi þurfum við að vita að andi okkar sé sáriðrandi. Orðið sáriðrandi í orðabók Oxford er skilgreint sem: „Tilfinning eða tjáning eftirsjár sem kemur þegar maður viðurkennir að hafa gert eitthvað rangt.“4 Ef við höfum sáriðrandi anda þá viðurkennum við syndir okkar og ófullkomleika Við erum námfús á „allt varðandi réttlætið.“5 Við erum hrygg Guði að skapi og reiðubúin að iðrast. Sáriðrandi andi er fús til að „[láta] undan umtölum hins heilaga anda.“6

Vilji okkar til að ákveða og framkvæma ber vitni um sáriðrandi anda. Við erum reiðubúin að auðmýkja okkur frammi fyrir Guði, reiðubúin að iðrast, reiðubúin að læra og reiðubúin að breytast. Við erum reiðubúin að biðja: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“7

Þriðja skrefið til að hljóta viðurkenningu Guðs er meðvituð ákvörðun um að virða sáttmála okkar með fórn, „já, sérhverri fórn, sem ég, Drottinn, gef boð um.“8 Okkur finnst of oft að orðið fórn tengist einhverju stóru eða einhverju sem er erfitt fyrir okkur að gera. Í vissum aðstæðum gæti það átt við, en oftast er um að ræða daglegt líferni hins sanna lærisveins Krists.

Ein leið til að virða sáttmála okkar með fórn er að meðtaka sakramentið verðug í hverri viku. Við undirbúum okkur samviskusamlega fyrir hina heilögu helgiathöfn sakramentisins. Við endurnýjum og staðfestum okkar helgu loforð fyrir Drottni. Á þennan máta finnum við viðurkenningu hans og meðtökum staðfestingu hans um að framlag okkar sé móttekið og syndir okkar fyrirgefnar með friðþægingu Jesú Krists. Drottinn lofar okkur, í þessari helgiathöfn, að ef við erum fús til að taka á okkur nafn sonar hans, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, þá munum við ætíð hafa anda hans með okkur. Að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut, er endanleg vísbending um að Guð viðurkennir okkur.

Aðrar leiðir til að virða sáttmála okkar með fórn eru jafn einfaldar og að taka á móti köllun í kirkjunni og staðfastlega þjóna í þeirri köllun eða fylgja boði spámanns okkar, Thomas S. Monson, um að ná til þeirra sem standa á hliðarlínunni og þurfa á andlegri björgun að halda. Við virðum sáttmála okkar með fórn með því að veita hljóðláta þjónustu í nágrenni okkar eða samfélagi eða með því að finna nöfn forfeðra okkar og framkvæma musterisverk fyrir þau. Við virðum sáttmála okkar í trú með því einfaldlega að keppa að réttlæti, vera opin og hlusta á leiðbeiningar andans í daglegu lífi. Stundum þýðir það að virða sáttmála okkar einfaldlega, að standa stöðug og trúföst þegar stormar lífsins blása allt í kringum okkur.

Eftir að Drottinn hafði útskýrt uppskriftina að því hvernig við hljótum viðurkenningu hans, notar hann dásamlega myndlíkingu til að sýna hver ávinningur okkar sem einstaklinga og fjölskyldna er og verður. Hann sagði: „Því að ég, Drottinn, mun láta þá bera ávöxt líkt og afar frjósamt tré, sem gróðursett er á gjöfulu landi, við tært vatn, og ber ríkulega dýrmætan ávöxt.“9

Við munum hljóta blessanir ofar skilningi okkar og bera ávöxt réttlætisins, þegar við erum sjálf stillt inn á anda Drottins og finnum viðurkenningu hans. Við verðum meðal þeirra sem hann sagði við: „Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“10

Að leita viðurkenningar Drottins og hljóta hana, mun veita okkur þá vitneskju, að við séum valin og blessuð af honum. Við hljótum aukið traust á að hann muni leiða okkur og leiðbeina til góðs. Hans milda miskunn mun verða skýr í hjörtum okkar, lífi okkar og fjölskyldu.

Ég bið þess af öllu hjarta að við megum öll leita viðurkenningar Drottins og njóta hans fyrirheitnu blessana. Er við fylgjum hinni einföldu uppskrift Drottins, munum við komast að því, að Drottinn viðurkennir okkur, óháð stöðu okkar, mannvirðingum eða líkamlegum takmörkunum. Kærleiksrík viðurkenning hans mun hvetja okkur, auka trú okkar og hjálpa okkur að takast á við allar áskoranir lífsins. Þrátt fyrir ýmsan vanda, munum við njóta farsældar, velgengni11 og friðsemdar.12 Við munum verða meðal þeirra sem Drottinn sagði við:

„Óttist ei, litlu börn, því að þér eruð mín. Og ég hef sigrað heiminn, og þér eruð af þeim, sem faðirinn hefur gefið mér–

Og enginn þeirra, sem faðir minn hefur gefið mér, skal glatast.“13

Í nafni Jesú Krists, amen.