2010–2019
Verða lærisveinn Drottins Jesú Krists
Apríl 2017


Verða lærisveinn Drottins Jesú Krists

Allir þeir eiginleikar sem snúast um trú á Krist eru allir nauðsynlegir til að geta verið staðfastur á þessum síðustu dögum.

Hver er merking þess að vera lærisveinn Drottins Jesú Krists? Sá er lærisveinn sem hefur verið skírður og er fús til að taka á sig nafn frelsarans og fylgja honum. Lærisveinn keppir að því að líkjast honum með því að halda boðorð hans í jarðlífinu, líkt og lærlingur reynir að líkjast meistara sínum.

Margir sem heyra orðið lærisveinn telja að það merki aðeins að vera „fylgjandi.“ Að vera sannur lærisveinn, er þó tilveruástand. Í því felst meira en lærdómur og tileinkun ótal eiginleika. Lærisveinar lifa á þann hátt að eiginleikar Krists verða samofnir hverri taug tilveru þeirra, með andlegum vefnaði.

Hlýðið á boð Péturs um hvernig á að vera lærisveinn frelsarans:

„Leggið … alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu,

í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni,

í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.“

Líkt og sjá má, þá krefst það meira en aðeins eins þráðs að vefa hinn andlega vefnað lærisveinsins. Á tíma frelsarans voru margir sem staðhæfðu að þeir væru á einn eða annan hátt réttlátir. Slíkir iðkuðu það sem ég kalla valbundna hlýðni. Þeir héldu til að mynda boðorðið um að vinna ekki á hvíldardegi, en gagnrýndu þó frelsarann fyrir að lækna á þeim helga degi. Þeir gáfu fátækum ölmusu, en aðeins af allsnægtum sínum – af því sem þeir þurftu ekki fyrir sig sjálfa. Þeir föstuðu, en með afmynduð andlit. Þeir báðust fyrir, en aðeins til að sýnast fyrir mönnum. Jesús sagði um þá: „Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.” Slíkir karlar og konur geta lagt á sig að tileinka sér ákveðna eiginleika eða breytni, en verða þó ekki endilega eins og hann í hjarta.

Um slíka sagði Jesús:

„Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?

Þá mun ég lýsa yfir: Aldrei þekkti ég yður. Víkið frá mér, þér misgjörðamenn.“

Eiginleikar frelsarans, eins og við skiljum þá, eru ekki forskrift sem fylgja ber eða gátlisti til að haka við. Þeir persónueiginleikar eru samofnir, bæta upp hver annan og eru samverkandi hið innra. Með öðrum orðum, þá er ekki mögulegt að hljóta einn eiginleika Krists, án þess að það hafi áhrif á aðra og þeir fylgi líka með. Ef einn eiginleiki styrkist, þá styrkjast margir aðrir um leið.

Í 2. Pétursbréfi og í 4. kafla í Kenningu og sáttmálum, lesum við að undirstaðan er trú á Drottin Jesú Krist. Verk okkar eru mælikvarði trúar okkar – eða hlýðni okkar. „Ef þér trúið á mig,“ lofaði Drottinn, „skuluð þér hafa kraft til að gjöra allt, sem mér er æskilegt.“ Trúin er driffjöðrin. Trú okkar verður vanmáttug án verka, án dyggðugs lífs, til að drífa okkur áfram sem lærisveina. Trúin er vissulega ónýt án verkanna.

Pétur sagði því: „[Auðsýnið] í trú yðar dyggð.“ Dyggð er meira en kynferðislegur hreinleiki. Hún er hreinleiki og heilagleiki í huga og líkama. Dyggð er líka máttur. Ef við lifum trúfastlega eftir fagnaðarerindinu, munum við hljóta mátt til að vera dyggðug í sérhverri hugsun, tilfinningu og breytni. Hugur okkar verður þá næmari fyrir hugboðum heilags anda og ljósi Krists. Við tileinkum okkur ekki ímynd Krists bara með orðum og verkum, heldur líka með því sem við erum.

Pétur sagði líka: „[Auðsýnið] í dyggðinni þekkingu.“ Þegar við lifum dyggðugu lífi, munum við komast til þekkingar á himneskum föður og syni hans á sérstakan hátt. „Sá sem vill gjöra vilja [föðurins], mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði.“ Sú þekking er persónulegur vitnisburður, sem hlýst fyrir persónulega reynslu. Það er þekking sem umbreytir okkur, svo að ljós okkar „laðast að [ljósi hans]“ og okkar dyggð „[elskar] dyggð [hans].“ Með dyggðugu lífi förum við frá því stigi „að trúa“ yfir í hið dýrðlega sig „að vita.“

Pétur hvatti okkur til að auðsýna „í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði.“ Við, sem hófsamir lærisveinar, lifum stöðugt og yfirvegað eftir fagnaðarerindinu. Við „[hlaupum] ekki hraðar en styrkur [okkar] leyfir.“ Dag fyrir dag sækjum við fram, hvergi bangin af hreinsandi áskorunum jarðlífsins.

Við þróum þolgæði og traust á Drottin með slíkri sjálfsögun. Við getum þá reitt okkur á vilja hans fyrir okkar líf, jafnvel þótt við fáum ekki séð með okkar náttúrlegu augum. Við getum þá „[haldið] ró [okkar] og [vitað] að [hann] er Guð.“ Þegar við því erum mitt í stormum þrengingar, getum við spurt: „Hvað vilt þú að ég læri af þessri upplifun?“ Við verðum að sækja fram, með áætlun og tilgang hans í hjörtum okkar, ekki aðeins til að standast alla hluti, heldur til að standast þá af þolgæði og sæmd.

Pétur kenndi að slík þolgæði leiddi til guðrækni. Líkt og faðirinn sýnir okkur, börnum sínum, þolinmæði, þá sýnum við hvert öðru og sjálfum okkur þolinmæði. Við gleðjumst yfir sjálfræði annarra og því tækifæri sem það veitir þeim að vaxa „setning á setning ofan,“ „skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“

Eðli okkar mun umbreytast frá sjálfsögun til þolgæðis og þolgæðis til guðrækni. Við hljótum þá bróðurelsku, sem er aðalsmerki allra sannra lærisveina. Líkt og miskunnsami Samverkinn, þá leggjum við á okkur að þjóna þeim sem búa við neyð, jafnvel þótt þeir séu ekki innan vinahópsins. Við blessum þá sem fordæma okkur. Við gerum þeim gott sem af illgirni notfæra sér okkur. Er nokkur eiginleiki guðlegri eða kristilegri en það?

Ég ber vitni um að okkur mun sannlega bætast meira í viðleitni okkar og verkum til að verða lærisveinar frelsara okkar, þar til höfum „eignast“ elsku hans. Slík elska er einkennandi fyrir lærisvein Krists:

„Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

„Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“

Það er trú, von og kærleikur sem gerir okkur hæf til verks Guðs. „En nú varir … þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“

Bræður og systur, nú er brýnna en nokkurn tíma áður að við séum ekki „hálfvolgir lærisveinar!“ Við getum ekki verið lærisveinar sem aðeins einblína á eitthvað eitt kenningaratriði. Allir þeir eiginleikar sem snúast um trú á Krist – og einnig þeir sem við höfum rætt um í dag – eru allir nauðsynlegir til að geta verið staðfastur á þessum síðustu dögum.

Þegar við reynum af einlægni að vera sannir lærisveinar Jesú Krists, munu þessir eiginleikar bætast okkur, verða samofnir okkur og samverkandi styrkleiki. Það verður enginn greinarmunur gerður á þeirri góðvild sem við sýnum, hvort heldur óvinum eða vinum okkar. Við verðum engu síður heiðarleg þegar engin sér til okkar, eins og þegar allir sjá til okkar. Við verðum jafn trúföst Guði á almannafæri, eins og í einrúmi.

Ég ber vitni um að allir geta verið lærisveinar frelsarans. Starf lærisveinsins takmarkast hvorki af aldri, kyni eða þjóðerni. Við, sem síðari daga heilög, búum yfir sameiginlegum styrk lærisveina til að blessa bræður okkar og systur um allan heim. Við ættum einmitt nú að einsetja okkur að nýju af einlægni að vera sannir lærisveinar hans.

Bræður og systur, við erum öll kölluð til að vera lærisveinar frelsara okkar. Við skulum láta þessa ráðstefnu vera tækifæri til að byrja „eins og til forna, [og koma] til Drottins af öllu [okkar] hjarta.“ Þetta er hans kirkja. Ég ber mitt sérstaka vitni um að hann lifir. Megi hann blessa okkur í þeirri eilífu viðleitni að verða trúfastari og dyggari lærisveinar. Í nafni Jesú Krists, amen