Treystu Drottni
Við getum haft frelsarann að miðpunkti lífs okkar með því að komast til þekkingar á honum og hann mun gera stigu okkar slétta.
Þegar ég var að ferðast í Asíu, þá kom kær systir til mín. Hún vafði handleggjum sínum utan um mig og spurði: „Trúir þú því raunverulega að þetta fagnaðarerindi sé sannleikur?“ Kæra systir, ég veit að það er satt. Ég treysti Drottni.
Í Orðskviðunum 3:5–6, lesum við þessa leiðsögn:
„Treystu Drottni af öllu hjarta, en [hallast ei að eigin hyggjuviti].
Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“
Þessi ritningargrein er tvíþætt áminning, aðvörun og stórkostlegt loforð. Hin tvíþætta áminning er: „Treystu Drottni af öllu hjarta“ og „mundu til hans á öllum þínum vegum.“ Aðvörunin er: „[Hallast ei að eigin hyggjuviti].“ Hið stórkostlega loforð er svo: „Þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“
Ræðum fyrst um aðvörunina. Hin sjónræna mynd vekur okkur til umhugsunar um margt. Aðvörunin er sett fram með orðunum „[hallast ei að]“ – „[hallast ei að eigin hyggjuviti].“ Merking íslenska orðtaksins að hallast að getur falið í sér líkamlega hreyfingu í eina átt. Þegar við í líkamlegri merkingu höllumst, þá gætum við misst jafnvægið og hrasað. Þegar við í andlegri merkingu höllumst að eigin hyggjuviti, þá höllumst við frá frelsara okkar. Ef við höllumst, erum við ekki í miðpunktinum; ójafnvægi myndast; og við einblínum ekki á Krist.
Systur, munið að í fortilverunni stóðum við með frelsaranum. Við settum traust okkar á hann. Við játuðum stuðning okkar af ákafa og gleði yfir sæluáætlun himnesks föður. Við vorum ekki höll undir annað. Við háðum baráttu með vitnisburðum okkar og „gengum í lið með herskörum Guðs og þeir herskarar voru sigursælir.“ Þessi barátta góðs og ills hefur færst til jarðarinnar. Enn og aftur höfum við þá helgu ábyrgð að standa sem vitni og að setja traust okkar á Drottin.
Við verðum hvert fyrir sig að spyrja: Hvernig held ég jafnvægi og hallast ei að eigin hyggjuviti? Hvernig ber ég kennsl á og fylgi rödd frelsarans þegar raddir heimsins eru svo aðlaðandi? Hvernig efli ég traust á frelsarann?
Ég ætla að leggja til þrennt sem við getum gert til að þekkja betur frelsarann og treysta honum. Þið munið sjá að þessar reglur eru ekki nýjar en þær eru undirstöðuatriði. Þær eru sungnar hvarvetna í Barnafélaginu, endurteknar í lexíum Stúlknafélagsins og eru svör við svo mörgum spurningum Líknarfélagsins. Þær reglur mynda þungamiðju og eru hallalausar.
Til að byrja með þá getum við lært að þekkja Drottin og treysta honum er við „[endurnærumst] af orðum Krists. Því að sjá, orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“
Fyrir nokkrum mánuðum vorum við fjölskyldan að læra saman í ritingunum. Tveggja ára gamall, sonarsonur minn sat í fanginu á mér við lesturinn. Ég var á fullu í ömmuhlutverkinu, að njóta þessarar heimsóknar sonar míns og fjölskyldu hans.
Þegar ritninganáminu lauk, lokaði ég bókinni minni. Drengurinn vissi að það yrði brátt komið að háttatíma. Hann leit upp með áköfum bláum augunum og tjáði eilífan sannleika: „Meiri ritningar, amma.“
Sonur minn, verandi gott og heilsteypt foreldri, varaði mig við: „Mamma, ekki vera veiki hlekkurinn. Hann er bara að reyna að komast hjá því að fara að sofa.“
Þegar barnabarnið hinsvegar biður um meiri ritningar, þá lesum við meiri ritningar! Meiri ritningar upplýsa huga okkar, næra anda okkar, svara spurningum okkar, auka traust á Drottni og hjálpa okkur að hafa hann að miðju lífs okkar. „[Kannið] þær af kostgæfni og [njótið] góðs af.“
Í öðru lagi getum við lært að þekkja Drottin og treysta honum í gegnum bæn. Hvílík blessun að geta beðið til Guðs okkar! „Biðjið þess vegna til föðurins af öllum hjartans mætti.“
Ég á ljúfa minningu um bæn, sem er mér dýrmæt. Ég þáði starf í Texas í einu sumarfríinu mínu frá háskóla. Ég þurfti að keyra hundruð kílómetra frá Idaho til Texas í gamla bílnum mínum, bíl sem ég hafði ástúðlega kallað Vern. Vern var hlaðinn upp að þaki og ég var tilbúin í nýja ævintýrið.
Á leið minni út um dyrnar, faðmaði ég móður mína og hún sagði: „Segjum bæn áður en þú ferð.“
Við krupum saman og móðir mín hóf að biðja. Hún bað himneskan föður um að vernda mig. Hún bað fyrir bílnum mínum, sem hafði enga loftkælingu, og bað þess að hann myndi starfa eins og ég þyrfti að hann gerði. Hún bað um að englar yrðu með mér yfir sumarið. Hún bað og bað og bað.
Friðurinn sem kom frá þessari bæn gaf mér það hugrekki að treysta á Drottin og hallast ekki að eigin hyggjuviti. Drottinn leiddi mig í mörgum ákvörðunum sem ég tók þetta sumar.
Um leið og við gerum það að vana að nálgast himneskan föður í bæn, munum við kynnast frelsaranum. Við munum læra að treysta honum. Þrár okkar taka að líkjast hans þrám. Við munum þá geta tryggt okkur sjálfum og öðrum þær blessanir sem hann er fús til að veita okkur, ef við biðjum í trú.
Í þriðja lagi getum við lært að þekkja Drottin og treysta honum er við þjónum öðrum. Ég deili eftirfarandi sögu með leyfi Amy Wright, sem lærði að skilja lögmál þjónustu, í baráttu sinni við hræðilegan og lífshættulegan sjúkdóm Hún ritaði:
„Þann 29. október 2015, greindist ég með krabbamein. Krabbameinið var með 17% lífslíkur. Þetta voru ekki góðar horfur. Ég vissi að þetta yrði barátta lífs míns. Ég var ákveðin að gefa þessu alla þá orku sem ég hafði, ekki bara fyrir mig sjálfa, heldur það sem mikilvægara var, fyrir fjölskyldu mína. Í desember byrjaði ég lyfjameðferð. Ég kannaðist við margar af hliðarverkunum krabbameinslyfja, en ég vissi ekki að það væri mögulegt að vera svona veikur og þó á lífi.
„Á einum tímapunkti lýsti ég því yfir að lyfjameðferð væri brot á mannréttindum. Ég sagði manni mínum að ég væri búin að fá nóg. Ég hætti! Ég ætlaði ekki aftur á spítalann. Í visku sinni hlustaði ástin mín þolinmóður á mig og svaraði því næst: ‚Jæja, þá verðum við að finna einhvern til að þjóna.‘“
„Ha?“ Missti hann af því af eiginkona hans væri með krabbamein og gæti ekki tekist á við eina umferð í viðbót af ógleði eða skelfilegum sársauka?
Amy hélt áfram að útskýra: „Einkenni mín versnuðu smátt og smátt þar til ég átti aðeins einn eða tvo sæmilega daga í mánuði, þar sem ég gat virkað sem lifandi, andandi persóna. Það var á þeim dögum þegar fjölskylda okkar fann sér leiðir til að þjóna.“
Einn þessara daga dreifði fjölskylda Amy lyfjagjafar-huggunarútbúnaði til annarra sjúklinga. Útbúnað sem fylltur var með hlutum til að gleðja og hjálpa til með að létta einkennin. Þegar Amy gat ekki sofið, hugsaði hún upp leiðir til að lífga upp á daginn hjá einhverjum öðrum. Sumt var stórt í sniðum en margt var bara lítið, eins og smá miðar eða skilaboð sem tjáðu hvatningu og kærleika. Þau kvöld þegar sársaukinn var of mikill til að sofa, lá hún í rúminu með iPad-inn og leitaði að helgiathöfnum sem vantaði að framkvæma fyrir látna ættingja. Eins og fyrir kraftaverk þá rénaði sársaukinn og hún náði að þrauka.
Þjónusta bjargaði lífi mínu, vitnar Amy. Ég fann loks styrkinn til að halda áfram í hamingjunni sem ég uppgötvaði er ég reyndi að minnka sársaukann hjá þeim sem í kringum mig voru. Ég hlakkaði til þjónustuverka okkar með mikilli gleði og eftirvæntingu. Enn þann dag í dag virðist þetta vera svo mikil mótsögn. Þið mynduð halda að einhver sem væri sköllótt, eitruð og að berjast fyrir lífi sínu, væri réttlætt í að hugsa „núna snýst þetta bara um mig.“ Hins vegar þegar ég hugsaði um sjálfa mig, aðstæður mínar, þjáningar og verki þá varð heimurinn mjög myrkur og drungarlegur. Þegar ég einbeitti mér að öðrum þá var ljós, von, styrkur, hugrekki og gleði. Ég veit að þetta er mögulegt vegna stykjandi, heilandi og virkjandi krafts friðþægingar Jesú Krists.
Amy lærði að treysta á Drottin er hún kynntist honum. Ef hún hefði hallað sér að eigin hyggjuviti, þó ekki nema örlítið, þá gæti hún hafa hafnað hugmyndinni að þjóna. Þjónustan gerði henni kleift að þola sársaukann og sjúkdóminn og að lifa eftir þessari ritningu: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“
Kristur hefur sigrast á heiminum. Vegna hans, vegna óendanlegrar friðþægingar hans, þá höfum við öll góða ástæðu fyrir því að treysta, vitandi það að allt mun endanlega fara vel.
Systur, sérhver okkar getur treyst Drottni og ei látið hallast að eigin hyggjuviti. Við getum haft frelsarann að miðpunkti lífs okkar með því að komast til þekkingar á honum og hann mun gera stigu okkar slétta.
Við erum á jörðu til að sýna hið sama traust á honum og leyfði okkur að standa með Jesú Kristi þegar hann lýsti yfir: „Hér er ég, send mig.“
Kæru systur, Thomas S. Monson forseti vitnaði: „Ég ber ykkur vitni um að þær blessanir sem lofað er eru ómælanlegar. Þótt stormi og skýjabólstrar hrannist upp, þótt regnið dynji á okkur, mun vitneskjan um fagnaðarerindið og ást okkar á himneskum föður og frelsara okkar, hughreysta okkur og styðja … þegar við göngum grandvör. … Það verður ekkert í þessum heimi sem getur sigrað okkur.”
Ég bæti mínum vitnisburði við vitnisburð ástkærs spámanns okkar. Ef við treystum á himneskan föður okkar og frelsarann okkar og höllumst ekki að eigin hygguviti, þá munu þeir leiða okkur áfram og teygja arm miskunnar til okkar. Í nafni Jesú Krists, amen
Ath: Systir Gordon var leyst af sem fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Barnafélagsins 1. apríl 2017.